Vín (Austurríki)

Höfuðborg og stærsta borg Austurríkis
(Endurbeint frá Vínarborg)

Vín eða Vínarborg (þýska: Wien) er höfuðborg Austurríkis og stærsta borg landsins. Þar búa rúmlega 1,8 milljónir manna en 2,7 milljónir (1. janúar 2015) búa á stórborgarsvæðinu. Vín var áður fyrr aðsetur Habsborgaranna og hefur í margar aldir verið höfuðborg þýska ríkisins, sem og Austurríkis þegar það gekk úr ríkinu á 19. öld. Vín er mikil ráðstefnuborg. Þar eru einnig aðsetur fjölda alþjóðastofnanna. Miðborgin, sem og nokkrar aðrar byggingar, eru á heimsminjaskrá UNESCO. Borgin Vín er að sama skapi eigið sambandsland í Austurríki, það fjölmennasta, en jafnframt það minnsta.

Vín
Wien (þýska)
Vínarborg
Vínarborg
Fáni Vínar
Opinbert innsigli Vínar
Skjaldarmerki Vínar
Vín er staðsett í Austurríki
Vín
Vín
Hnit: 48°12′30″N 16°22′21″A / 48.20833°N 16.37250°A / 48.20833; 16.37250
Land Austurríki
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriMichael Ludwig (SPÖ)
Flatarmál
 • Samtals414,78 km2
Mannfjöldi
 (2023)
 • Samtals2.002.821
TímabeltiUTC+1 (CET)
 • SumartímiUTC+2 (CEST)
Vefsíðawww.wien.gv.at (á þýsku)
Keisarahöllin Schönbrunn í Vín.

Lega og lýsing

breyta

Vín liggur við Dóná nær austast í Austurríki. Meginhluti borgarinnar er vestan fljótsins. Norðausturjaðar Alpafjalla nema við vestri borgarmörkin. Landamærin að Slóvakíu eru aðeins 30 km til austurs, til Ungverjalands 50 km til suðurs og til Tékklands 70 km til norðurs. Næstu stærri borgir eru Wiener Neustadt til suðurs (55 km), Bratislava í Slóvakíu til austurs (60 km) og St. Pölten til vesturs (65 km).

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki Vínar er hvítur kross á rauðum grunni, ekki ólíkt danska fánanum, en formið er öðruvísi. Krossinn kemur fyrst fram á 13. öld. Ekki er ljóst hvaðan hann er til kominn en líklegt er að hann tengist krossferðum. Krossmerkið er stundum sett sem brjóstskjöldur á svartan örn. Litirnir eru frá 1395 og eru litir Habsborgarættarinnar, sem og Austurríkis. Fáni Vínarborgar eru tvær láréttar rendur, rauð og hvít (öfugt við pólska fánann).

Orðsifjar

breyta

Borgin hét Vindobona á tímum Rómverja. En núverandi heiti er ekki dregið af því, heldur af ánni Wien sem rennur í Dóná á borgarsvæðinu. Orðið er komið úr keltnesku og merkir skógarlækur. Heitið Wien kemur fyrst fram á skjali frá 881 og hefur lítið breyst í gegnum aldirnar. Önnur tungumál nota heitið í eilítið annarri mynd. Þannig heitir borgin á ensku og rómönsku málunum Vienna. Á slavneskum málum heitir borgin yfirleitt Bécs. Á slóvensku heitir borgin hins vegar Dunaj, sem vísar til Dónár.

Saga Vínarborgar

breyta
 
Rómverskar minjar undir markaðstorginu Hoher Markt

Rómverjar

breyta

Í upphafi bjuggu keltar á núverandi borgarstæði. En í lok 1. aldar e.Kr. tóku Rómverjar svæðið og reistu þar bæði herstöð og almennan bæ. Hundrað árum síðar, árið 180 e.Kr., lést rómverski keisarinn Markús Árelíus í bænum úr ótilgreindri veiki en hann hafði farið í herför gegn markómönnum. Ekki er nákvæmlega vitað hversu lengi Rómverjar bjuggu í bænum en eftir 430 finnast engar vísbendingar um meiriháttar byggð á borgarstæðinu. Trúlega eyddist bærinn í þjóðflutningunum miklu á 5. öld. Einhver byggð var þó þar en talið er að langbarðar hafi búið í gamla rómverska bænum. Seinna fylgdu slavar og avarar.

Höfuðborg

breyta

Strax á 6. öld var héraðinu stjórnað frá Bæjaralandi. 788 hernam Karlamagnús allt svæðið og innlimaði frankaríkinu sínu. Svæðið í kringum Vín var hin svoköllaða avaramörk (Awarenmark), en almennt landnám franka og bæjara var stopult. Í upphafi 10. aldar réðust Ungverjar í héraðið og hertóku Vín. Þeir voru ekki hraktir austur aftur fyrr en 955 er Otto I keisari sigraði þá í stórorrustunni við Lechfeld. 976 var markgreifadæmið Ostarichi stofnað af Babenberg-ættinni og stjórnuðu þeir Vín næstu aldir. Ekki er vitað hvenær hún hlaut borgarréttindi, en á skjali frá aldamótum 1100 kemur fram að Vín sé borg. 1155 flutti Hinrik II (kallaður Jasormigott) til Vínar og gerði hana að aðsetri sínu. Þetta var upphafið að höfuðborgarstatus Vínar. Strax árið eftir varð héraðið að greifadæmi og varð Vín því aðsetur greifa. Í lok þriðju krossferðarinnar 1192 var Ríkharður ljónshjarta Englandskonungur handtekinn í Erdberg við Vín og fluttur sem fangi til Vínar. Leópold V greifi hlaut 50 þúsund silfurmörk í lausnargjald frá Englendingum. Fyrir þann pening var myntslátta sett upp í borginni og borgarmúrar reistir. Vín varð að mikilli verslunarborg við Dóná. Árið 1276 brann borgin þrisvar: 28. mars, 16. apríl og 30. apríl. Fjöldamörg hús eyðilögðust og eirði eldurinn heldur ekki kirkjum, klaustrum og greifakastalanum. Tveir þriðju hlutar borgarinnar eyðilögðust eða stórskemmdust.

Habsborgarar

breyta

Fram að ofanverðri 13. öld réði Babenberg-ættin Vín og hérðinu í kring. En 1278 átti Ottokar II frá Bæheimi í erjum við Habsborgarættina, sem þá var með aðallönd sín á Württemberg-svæðinu. Til orrustu kom og í henni sigraði Rúdolf I af Habsborg, sem eftir það hrifsaði til sín Vín. Síðan þá hefur Vín verið í höndum Habsborgarættarinnar allt til 1918. Í fyrstu voru Habsborgarar ekki vel liðnir í borginni, enda var sú ætt aðeins enn ein hertogaættin. En þeir hófu byggingarframkvæmdir í borginni, sem stækkaði ört. 1365 var háskólinn í Vín stofnaður, sem einnig var mikil lyftistöng fyrir borgina. Þegar Habsborgarhertoginn Albrecht V var kjörinn þýskur konungur 1438 (sem Albrecht II) varð Vín allt í einu höfuðborg þýska ríkisins. Albrecht varð aldrei keisari. Það varð hins vegar eftirmaður hans, Friðrik III árið 1440. Síðan þá hefur Vín verið höfuðborg ríkisins til 1806 þegar Napoleon lagði ríkið niður, og keisaraborg allt til 1918. Þrátt fyrir það voru konungarnir ekki allir ráðagóðir og vinsælir. 1485 settist einn fjandmaður Habsborgaranna, Matthías Corvinus, um Vín og hertók hana eftir margra mánaða umsátur. Hún varð hans umráðasvæði allt til dauðadags 1490. Sjálfur var keisarinn ekki einráður í Vín fyrr en 1522 þegar hann lét taka helstu stjórnarleiðtoga borgarinnar af lífi.

Fyrra umsátur Tyrkja

breyta
 
Tyrkir sitja um Vín 1529

Árið 1529 stóðu íbúar Vínar fyrir mikilli ógn. Tyrkir höfðu náð fótfestu á Balkanskaga og sóttu nú að Austurríki. Þann 27. september hófu þeir umsátur um borgina undir forystu soldánsins Súleimans I. Íbúar Vínar voru skelfingu lostnir. Margir þeirra flúðu en á hinn bóginn tókst nokkur þúsund hermönnum frá þýska ríkinu og spænsku Habsborgarlöndum að komast til borgarinnar áður en umsáturshringurinn lokaðist. Tyrkir voru hins vegar með nær 250 þúsund manna lið. Eftir nokkra bardaga ákvað Súleiman að hætta umsátrinu sökum versnandi veðurs, en vetur var í nánd og birgðaflutningar erfiðir. Þeir höfðu misst 40 þúsund manns í bardögum við múrana. Þann 14. október hurfu Tyrkir úr landi og borgin slapp að þessu sinni. Tyrkir birtust aftur 1532 en þá hafði Karli V keisara tekist að safna miklu liði. Súleiman réðist því ekki á Vín að þessu sinni, heldur lét sér nægja að ræna og rupla annars staðar í Austurríki.

30 ára stríðið

breyta

Íbúar Vínar tóku siðaskiptum opnum örmum snemma á 16. öld. Keisarinn og hirð hans héldu fast við kaþólsku kirkjuna. Ekki kom til uppþota, né heldur ruddist múgur manna inn í kirkjur borgarinnar eins og annars staðar gerðist í ríkinu. En ástandið var samt þrungið og erfitt. Keisarinn bauð Jesúítum til Vínar til að stemma stigu við siðaskiptunum. Árið 1600 hófust gagnsiðaskipti kaþólsku kirkjunnar. Þau voru sérlega grimmileg í Austurríki og Vín. Fólk var neytt til kaþólskrar trúar á ný, rekið burt, handtekið og eigur gerðar upptækar. Í upphafi 30 ára stríðsins má heita að Vín væri algjörlega kaþólsk á ný. Stríðið hófst er fulltrúum keisarans í Prag var hent út um glugga á furstahöllinni. Bæheimur sagði sig úr ríkinu. Strax í upphafi söfnuðu íbúar Bæheims herliði og réðust á keisaraborgina Vín 5. júní 1619. En borgarherinn náði að hrinda árásinni eftir nokkra daga. Vín kom lítið við sögu stríðsins á ný fyrr en 1643 en á því ári birtist sænskur her undir stjórn Lennart Thorstenssons. En hann ákvað að leggja ekki í hernað á Vínarborg að þessu sinni, heldur eyða nærsveitum. Thorstensson var aftur á ferðinni fyrir utan Vín 1645. Þá kom til mikilla bardaga sem stóðu yfir í fjóra daga. Að lokum drógu Svíar sig til baka.

Síðara umsátur Tyrkja

breyta
 
Tyrkir sitja um Vín 1683

1683 birtust Tyrkir aftur við borgardyr Vínar. Að þessu sinni undir forystu stórvesírsins Kara Mústafa. 14. júlí var umsáturshringur lagður um borgina. Þrátt fyrir ákafar árásir á Vín náðu Tyrkir ekki að komast inn fyrir borgarmúrana. Í ágúst hafði Leopold I keisari safnað nægu liði til að þramma til Vínar. Með í för voru hermenn frá Bæjaralandi, Frankalandi, Saxlandi, Sváfalandi og Feneyjum. Einnig mætti pólskur her til Vínar. 12. september var stórorrustan við Kahlenberg háð, en staðurinn er við Vín. Meðan sú orrusta stóð yfir gerði herinn í Vínarborg útrás og réðust á Tyrki. Eftir tólf tíma bardaga létu Tyrkir undan síga og flúðu af vettvangi. Þannig bjargaðist Vín en fræðimenn telja reyndar að ósigur Tyrkja hafi bjargað Austurríki öllu og jafnvel fleiri ríki í Mið- og Vestur-Evrópu.

Napoleonsstríðin

breyta

Eftir brotthvarf Tyrkja óx borginn enn, bæði innan múra og utan. Keisarinn lét reisa margar nýjar barokkbyggingar, enda var Vín ein mesta borg Evrópu á þessum tíma. Borgin kom ekki beint við sögu í næstu evrópsku styrjöldum 18. aldar, svo sem spænska erfðastríðinu, austurríska erfðastríðinu og 7 ára stríðinu. En í Napoleonsstríðunum í upphafi 19. aldar var Vín tvisvar hertekin af Frökkum. Í fyrra sinnið, 13. nóvember 1805, fór yfirtaka borgarinnar friðsamlega fram. Napoleon sjálfur gisti í Schönbrunn-höllinni. Frakkar stóðu hins vegar stutt við, því eftir nokkra daga fór franski herinn til Bæheims, þar sem Napoleon sigraði í stórorrustunni við Austerlitz (þríkeisaraorrustunni). Árið síðar var þýska ríkið lagt niður. Hin mýmörgu furstadæmi voru endurskipulögð. Úr sumum varð konungsríki, til dæmis Bæjaraland, og voru flest leppríki Frakklands. Austurríki hélst hins vegar við sem keisaradæmi. Frans II, sem var síðasti keisari ríkisins, tilkynnti þá af svölum hallar sinnar í Vín að þýska ríkið hefði verið leyst upp og að Austurríki væri þaðan í frá eigið keisararíki. Hann sjálfur varð þá að Frans I keisara Austurríkis. Hans aðsetur var áfram Vín, sem minnkaði í að vera aðeins höfuðborg Austurríkis. Árið 1809 réðist Napoleon af alvöru á Vín. Eftir látlausa skothríð með fallbyssum gafst borgin upp. Aftur gisti Napoleon í Schönbrunn-höll, Frans I til mikils ama. Skömmu síðar mætti austurrískur her til borgarinnar og barðist við Frakka í Aspern í maí 1809 (sem í dag er borgarhluti Vínar). Þar beið Napoleon sinn fyrsta ósigur í stórorrustu. Napoleon sigraði hins vegar í orrustunni við Wagram í Neðra Austurríki og hertók Vín á ný. Í ágúst hélt hann upp á fertugsafmæli sitt í Vín. Hann sat í borginni í fimm mánuði og stjórnaði ríki sínu þaðan. Napoleon yfirgaf Vín ekki fyrr en með útmánuðum 1809.

Vínarfundurinn

breyta
 
Vínarfundurinn

Eftir fall Napoleons 1814 var haldin gríðarmikil ráðstefna í Vín um framtíðarskipan ríkja í Evrópu. Ráðstefnan kallaðist Vínarfundurinn (Wiener Kongress). Fundarstjóri var utanríkisráðherra landsins, Metternich fursti. Allir helstu leiðtogar í Evrópu sóttu ráðstefnuna, sér í lagi frá Rússlandi, Bretlandi, Austurríki, Prússlandi, Frakklandi, kirkjuríkisins og margra annarra smærri ríkja. Vín var næsta árið pólitísk þungamiðja Evrópu. Ráðstefnan hófst 18. september 1814. Á vormánuðum 1815 strauk Napoleon úr útlegð frá eyjunni Elbu og safnaði nýju liði. Komst þá skriður á samninga og lauk ráðstefnunni 9. júní, aðeins níu dögum áður en orrustan við Waterloo átti sér stað.

19. öldin

breyta

Eftir brotthvarf Frakka hófst iðnvæðingin hægt og sígandi. Fyrsta járnbrautin keyrði til Vínar 1837 en siglingar í Dóná voru enn ákaflega mikilvægar. Árið 1848 fór byltingarandi yfir götur Vínarborgar, sem annars staðar. Eftir mikil mótmæli neyddist Metternich fursti til að segja af sér, en hann var ákaflega íhaldssinnaður og dró taum keisarans. En í október varð bylting. Uppreisnarmenn náðu Vín á sitt vald eftir mikil uppþot og bardaga við lífverði keisarans. 26. október mætti keisaraherinn til borgarinnar og náði að hertaka hana á ný. 2000 manns biðu bana í götubardögum. Að lokum sagði Ferdinand I keisari af sér, þar sem sýnt þótti að hann væri ekki vandanum vaxinn. Nýr keisari varð Frans Jósef I. Eftir byltinguna óx borginn enn. 1858 ákvað keisari að rífa niður alla borgarmúra til að skapa meira byggingapláss og í kjölfarið þandist borgin út. Vín varð að heimsborg. Árið 1873 var heimssýningin haldin þar í borg, sú fimmta sinnar tegundar og sú fyrsta í þýskumælandi landi. 1890 voru ýmsir nágrannabæir innlimaðir í Vín, sem við það stækkaði að mun og hlaut enn frekara rými fyrir ný borgar- og iðnaðarhverfi. Margir slavar fluttu til Vínar. Þannig bjuggu árið 1900 rúmlega 250 þús Tékkar og Slóvakar í borginni, auk annarra slava. Ástæðan fyrir hinum fjölmörgu útlendingum var að keisaradæmið náði á þessum tíma yfir stóran hluta Balkansskaga. Íbúafjöldinn alls nam á aldamótaárinu 1,8 milljón og óx hratt fram að upphaf fyrra stríðs. Gyðingar voru 12% af íbúum. Árið 1910 var íbúafjöldinn orðinn rúmar tvær milljónir en þar með varð Vín fjórða borg heims sem fór yfir tvær milljónir (áður voru það New York, London og París).

Stríðsárin

breyta
 
Loftvarnarturn í Vín

Vín kom ekki beint við sögu í heimstyrjöldinni fyrri. En á stríðsárunum var mikill skortur á nauðsynjavörum þar. Endalok stríðsins markaði einnig endalok keisararíkisins þar. Frans II sagði af sér. 12. nóvember 1918 var lýðveldið Austurríki stofnað í þinghúsinu í Vín. Það með var Vín ekki lengur keisaraborg. Borgin var þó gríðarlega stór miðað við smæð landsins. 1920 var sambandslandið Vín stofnað, sem við það splittaði sig frá sambandslandinu Neðra Austurríki. 1932 komst fasistinn Engelbert Dollfuss til valda sem kanslari. Í stjórnmálaóróa tímans var hann drepinn 1934 í hálfgerðri byltingu á götum Vínar. Mikill stjórnmálaórói einkenndi Vín næstu árin. Dagana 12. – 13. mars 1938 hertóku nasistar Vín er Adolf Hitler innlimaði Austurríki í Þriðja ríkið. 15. mars sótti Hitler borgina heim og lét hilla sig. Á sama tíma varð Austurríki aðeins hérað Þýskalands. Vín var því ekki lengur höfuðborg í skamman tíma. Hún var hins vegar næststærsta borg þriðja ríkisins á eftir Berlín. Með innlimum nokkurra bæja og nærsveita varð Vín hins vegar stærsta borg ríkisins að flatarmáli. Áður en árinu lauk var búið að brenna öll 92 bænahús gyðinga í Vín. Í borginni voru um 180 þúsund gyðingar. Um 120 þúsund náðu að flýja úr landi. Þar á meðal sálfræðingurinn Sigmund Freud, sem var af gyðingaættum. Á næstu árum voru allir hinir, 60 þúsund gyðingar, fluttir burt úr borginni. Flestir létu lífið í útrýmingarbúðum. Í stríðslok voru gyðingar í Vín aðeins rúmlega fimm þúsund. Heimstyrjöldin síðari fór að mestu fram fjarri borginni. En 17. mars 1944 varð borgin fyrir fyrstu loftárásum bandamanna. Þyngstu árásirnar áttu sér stað 12. mars 1945. Takmarkið var að eyðileggja olíustöðvarnar við borgarmörkin. En sökum veðurs var sprengjum varpað af handhófi og hittu þær borgina sjálfa. Alls létust tæplega níu þúsund manns í árásunum. Samt slapp Vín langbest allra austurrískra borga frá loftárásum, enda eyðilagðist aðeins um 28% hennar.

Hernám

breyta
 
Hernámssvæði Vínar

6. apríl stóðu sovéskar hersveitir við borgarmörk Vínar. Nasistar veittu gríðarlegt viðnám og urðu Sovétmenn að berjast nánast um hvert hús. Það tók hér um bil viku að hertaka borgina alla. Tala fallinna er á reiki en reikna má með minnst 20-37 þúsund látnum í bardögunum. Tæp 50 þúsund þýskir hermenn voru teknir til fanga. Strax 29. apríl fengu austurrískir stjórnmálamenn aðgang að þinghúsinu á ný og var lýðveldið samdægurs endurstofnað. Sovétmenn voru í fyrstu einráðir í Vín, en um haustið var borginni skipt upp í fjögur hernámssvæði milli Sovétmanna, Breta, Bandaríkjamanna og Frakka (eins og Berlín). Á hernámsárunum var borgin endurreist. Fimmtungur borgarinnar hafði eyðilagst, það er að segja 87 þúsund íbúðir. Í miðborginni einni voru rúmlega þrjú þúsund sprengjugígar. Brýr höfðu verið sprengdar og vatnsleiðslur voru ónýtar. Mikil efnahagsuppsveifla einkenndi næstu ár. Hins vegar stóð íbúafjöldinn í stað, enda var Vín rétt vestan við járntjaldið og hafði misst mikið bakland. 15. maí 1955 hittust sigurveldin ásamt austurrísku stjórninni í Belvedere-höllinni í Vín og undirrituðu austurríska þjóðarsamninginn. Í honum kvað á um að Austurríki yrði sjálfstætt ríki á ný og að hernámsveldin flyttu brott allt herlið sitt. Þar með endurheimti Austurríki sjálfstæði sitt á ný, sex árum á eftir Vestur- og Austur-Þýskaland. Síðustu erlendu hermennirnir yfirgáfu Vín í október á sama ári.

Eftirstríðsárin

breyta
 
Kennedy og Khrústsjov hittast í Vín 1961

Við sjálfstæði Austurríkis hófst nýr kafli í byggingasögu borgarinnar. Samfara nýjum byggingum risu einnig mikil samgöngumannvirki. Vöxturinn og efnahagur Vínar var svo ör að borgin sótti um Ólympíuleikana fyrir árið 1964. Fyrir rest hlaut Tókíó þó heiðurinn. Erlendar stofnanir fluttu hins vegar til Vínar. Fyrsta stofnunin var Alþjóða kjarnorkumálastofnunin árið 1965. Af öðrum stofnunum má nefna OPEC, ÖSE og ýmsar hliðarstofnanir Sameinuðu þjóðanna. Vín er líka vinsæl ráðstefnuborgí dag. 1961 hittust John F. Kennedy og Níkíta Khrústsjov í Vín til að ræða um tilslakanir í kalda stríðinu. Eftir fall járntjaldsins opnuðust markaðir og möguleikar í nágrannalöndunum í austri. 2003 stofnaði Vín viðskipta- og efnahagssvæðið Centrope, sem nær frá austurhluta Austurríkis og inn í landamærahéruð Tékklands, Slóvakíu og Ungverjalands. Vín og Bratislava eru þungamiðjur í þessu svæði.

Menntun

breyta
 
Tækniháskóli Vínar
 
Listaakademían

Vín er helsta miðstöð mennta og menningar í Austurríki og þar eru fjölmargar menningarstofnanir, söfn og skólar. Meðal annarra eru Háskólinn í Vín, Tækniháskólinn í Vín, Læknaskólinn í Vín, Hagfræði- og viðskiptaháskóli Vínar og Tónlistar- og sviðslistaháskóli Vínar. Einnig eru þar alþjóðlegar menntastofnanir á borð við Alþjóðlega Amaedus-tónlistarskólann í Vín, Alþjóðlega bandaríska skólann í Vín, Alþjóðlega Dónárskólann, Alþjóðaháskólann í Vín og Lauder-viðskiptaskólann.

Viðburðir

breyta
 
Manngert skautasvell fyrir framan ráðhúsið í Wiener Eistraum.

Wiener Eistraum er heiti á skautasvelli sem sett er upp fyrir framan ráðhúsið í janúar. Borgarbúar bregða þá fyrir sig betri fætinum og fara á skauta svo hundruðum þúsundum skiptir. Svellið er opið í fimm vikur og meðaltal gesta um 450 þúsund. Samfara því er ráðhúsið lýst upp og ýmsir tónlistarviðburðir fara fram.

Viennafair er heiti á einni stærstu sýningu Austurríkis á nútímalistum. Sýningin samanstendur af um 115 smærri sýningum frá ýmsum löndum.

Wiener Festwochen er nokkurs konar menningarhátíð borgarinnar. Hún stendur yfir í fimm vikur, yfirleitt í maímánuði.

Life Ball er stærsta góðgjörðarhátíð Evrópu til stuðnings eyðnissjúklinga. Hér er um stórt galaball að ræða með þátttöku frægs fólks úr ýmsum geirum. Einnig er tískusýning í boði. Opnunarræðuna flytur þekktur einstaklingur: 20012005 var það Elton John; 20062008 Sharon Stone; 2009 Eva Longoria; 2010 meðal annarra Whoopi Goldberg og Bill Clinton; 2011 meðal annarra Bill Clinton og Janet Jackson. Árið 2011 söfnuðust tæpar tvær milljónir evra.

Donauinselfest er heiti á tónlistarhátíð á eyju í Dóná. Henni var hleypt af stokkunum 1984 og stendur yfir í þrjá daga. Allt að þrjár milljónir manna sækja tónleikana heim.

Kvikmyndahátíð við ráðhúsið fer fram í júlí og ágúst. Á hverju kvöldi er sýnd upptaka af óperu eða tónleikum á útisviði og er öllum aðgengileg. Allt að 700 þúsund manns sækja sýningarnar heim.

Viennale er kvikmyndahátíð í Vín. Til hennar var stofnað 1960 og fer fram í október ár hvert, fjórtán daga að lengd. Sýndar eru myndir úr öllum geirum og eru að lokum verðlaunin Wiener Filmpreis veitt fyrir bestu myndina.

Íþróttir

breyta

Vinsælasta íþrótt borgarbúa er sund, en þá íþrótt iðka fleiri en í nokkurri annarri íþrótt. Böðin í borginni eru bæði innanhús og utanhús.

Aðalknattspyrnulið borgarinnar eru tvö: SK Rapid Wien og FK Austria Wien. Rapid hefur 32 sinnum orðið austurrískur meistari (síðast 2008), einu sinni þýskur meistari (1941 er Austurríki var innlimað Þýskalandi), fjórtán sinnum bikarmeistari og tvisvar komist í úrslit í Evrópukeppni bikarhafa (1985 og 1996). Austria hefur 23 sinnum orðið austurrískur meistari (síðast 2006), 27 sinnum bikarmeistari og einu sinni komist í úrslit í Evrópukeppni bikarhafa 1978 (tapaði þá fyrir Anderlecht). Heimaleikvangur liðsins, Ernst Happel Stadion, er einnig notaður fyrir heimaleiki landsliðsins. Þar hafa þrír úrslitaleikir í Meistaradeild Evrópu farið fram.

Aðrar íþróttir sem mikið eru stundaðar í Vín eru íshokkí, ruðningur, blak og handbolti. Ruðningsliðið Raiffeisen Vikings Vienna hefur fjórum sinnum unnið Evrópukeppnina í þeirri íþrótt.

Vinabæir

breyta

Vín viðheldur vinabæjartengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

breyta

Auk þess eru 13 keisarar þýska ríkisins fæddir í Vín.

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Parísarhjólið er nánast helgigripur í augum Vínarbúa
  • Schönbrunn-höllin er keisarakastali Vínarborgar. Hann var reistur 1638-43 en myndaðist í núverandi formi á miðri 18. öld þegar María Teresía var keisaraynja. Kastalinn og garðarnir í kring eru á heimsminjaskrá UNESCO.
  • Stefánskirkjan í Vín (Stephansdom) er dómkirkjan í miðborginni og nánast helgidómur fyrir íbúa Vínar. Kirkjan er einkennisbygging borgarinnar.
  • Karlskirkjan er kaþólsk kirkja í borginni. Hún var reist 17151737 af Karli VI keisara eftir pestarárið mikla 1713. Kirkjan er með hvolfþak og tvo hringlótta kirkjuturna sitthvoru megin við það. Þeir eiga að vísa til súlna Heraklesar. Mikið af freskum er innan í kirkjunni. Altaristaflan er undir hvolfþakinu og er tæplega 20 metra há.
  • Listasafnið í Vín (Kunsthistorisches Museum) er meðal stærstu og helstu safna heims. Það var stofnað 1891 og er safn listaverka og annarra dýrgripa víða að í Evrópu. Þar eru meðal annars krúnudjásn austurrísku keisaraættarinnar til sýnis. Af málverkum má nefna verk eftir Jan van Eyck, Albrecht Dürer, Tiziano, Peter Paul Rubens og Jan Vermeer. Mörg þessara verka höfðu gömlu keisarar Habsborgarættarinnar safnað.
  • Belvedere er kastali í Vín sem Eugen prins lét reisa sér snemma á 18. öld. Kastalarnir eru tveir, Neðra Belvedere og Efra Belvedere. Í báðum byggingum eru mýmörg listaverk. Eugen prins bjó síðustu ár sín í kastalanum og dó þar 1736. Belvedere er listasafn í dag. 1955 var austurríski þjóðarsamningurinn undirritaður í kastalanum þegar Austurríki endurheimti sjálfstæði sitt eftir hernámið.
  • Nýja ráðhúsið var reist á árunum 18721883 í nýgotneskum stíl. Turninn er 98 metra hár. Bygging er öll hin glæsilegasta.
  • Wiener Riesenrad er 64m hátt Parísarhjól og er eitt af einkennistáknum borgarinnar. Það var reist 1897 í tilefni af 50 ára krýningarhátíð Frans Jósefs I til keisara. Hjólið var stærsta sinnar tegundar þá og er gífurlega vinsælt hjá Vínarbúum.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta