París
París er höfuðborg Frakklands og höfuðstaður héraðsins Île-de-France. París er jafnframt fjölmennasta borg Frakklands. Íbúafjöldinn í borginni var um 2,175 milljónir 2018, á 105 ferkílómetra svæði. Borgin byggðist út frá eyju í ánni Signu þar sem er hinn sögulegi miðbær og dómkirkjan Notre Dame. Borgin hefur verið ein af helstu miðstöðvum fjármála, stjórnmála, viðskipta, tísku, matreiðslu, vísinda og lista í Evrópu frá 17. öld. Í héraðinu Île-de-France búa 12,2 milljónir íbúa, eða 18% íbúa landsins.[3] Verg landsframleiðsla í héraðinu var 709 milljarðar evra árið 2017.[4] Samkvæmt könnun Economist Intelligence Unit á framfærslukostnaði um víða veröld var París önnur dýrasta borg heims, á eftir Singapúr; dýrari en Hong Kong, Zürich, Ósló og Genf.[5]
París | |
---|---|
Hnit: 48°51′24″N 2°21′8″A / 48.85667°N 2.35222°A | |
Land | Frakkland |
Hérað | Île-de-France |
Hverfi | 20 arrondissements |
Stjórnarfar | |
• Borgarstjóri | Anne Hidalgo[1] (PS) |
Flatarmál | |
• Borg | 105,4 km2 |
• Þéttbýli | 2.853,5 km2 |
• Stórborgarsvæði | 18.940,7 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 78 m |
Mannfjöldi (2023)[2] | |
• Borg | 2.102.650 |
• Þéttleiki | 20.000/km2 |
• Þéttbýli | 10.858.852 |
• Stórborgarsvæði | 13.024.518 |
Tímabelti | UTC+01:00 (CET) |
• Sumartími | UTC+02:00 (CEST) |
Vefsíða | www |
París er stór samgöngumiðstöð fyrir bæði lestarsamgöngur, flugsamgöngur og þjóðvegakerfið í Evrópu. Í borginni eru tveir alþjóðaflugvellir, Charles de Gaulle-flugvöllur og Orly-flugvöllur..[6][7] Neðanjarðarlestarkerfi borgarinnar, Paris Métro, var opnað árið 1900 og flytur 5,23 milljónir farþega á dag.[8] Það er annað mest notaða neðanjarðarlestarkerfi í Evrópu á eftir neðanjarðarlestarkerfi Moskvu. Gare du Nord er í 24. sæti yfir mest notuðu lestarstöðvar heims, en er líka sú mest notaða utan Japans, með 262 milljón farþega árið 2015.[9] París er þekkt fyrir söfn og frægar byggingar. Louvre státar af mestum gestafjölda allra safna heims, með næstum 2,7 milljónir gesta árið 2020 þrátt fyrir lokanir vegna Covid-19-faraldursins það ár.[10] Musée d'Orsay, Musée Marmottan Monet og Musée de l'Orangerie eru öll þekkt fyrir söfn myndlistar eftir impressjónistana; og Centre Pompidou og Musée National d'Art Moderne geyma stærstu söfn nútíma- og samtímamyndlistar í Evrópu. Musée Rodin og Musée Picasso geyma verk eftir tvo fræga Parísarbúa. Sögulegi miðbærinn meðfram ánni Signu hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá 1991. Þar eru meðal annars Notre Dame-dómkirkjan og konungskapellan Sainte-Chapelle á eyjunni Île de la Cité. Eiffelturninn var reistur í París fyrir Heimssýninguna 1889 og ráðstefnuhallirnar Grand Palais og Petit Palais voru reistar fyrir Heimssýninguna 1900. Sigurboginn í París stendur við breiðgötuna Champs-Elysées og Sacré-Cœur-kirkjan stendur í listamannahverfinu Montmartre á hæð norðan við sögulegu miðborgina.[11]
Árið 2020 heimsóttu 12,6 milljónir ferðamanna París, byggt á gistináttafjölda, sem var 73% fækkun miðað við árið á undan. Fjöldi erlendra gesta minnkaði um 80,7%.[12] Söfnin voru opnuð á ný árið 2021 en með fjöldatakmörkunum og grímuskyldu.
Knattspyrnufélagið Paris Saint-Germain F.C. og ruðningsfélagið Stade Français eru staðsett í París. 80.000 manna leikvangur, Stade de France, var reistur í Saint-Denis utan við borgina fyrir Heimsmeistaramót landsliða í knattspyrnu karla 1998. Opna franska meistaramótið í tennis er haldið árlega á tennisvöllum í Stade Roland Garros. Borgin hýsti Ólympíuleikana 1900 og 1924, og mun hýsa Sumarólympíuleikana 2024. Heimsmeistaramót landsliða í knattspyrnu karla 1938 og 1998, Heimsbikarmótið í ruðningi 2007, Þjóðabikarinn 1960, Evrópukeppnin í knattspyrnu 1984 og 2016, og úrslitaleikir í Meistaradeild Evrópu, hafa líka verið haldin í borginni. Síðasti leggur árlegu hjólreiðakeppninnar Tour de France fer fram á Champs-Elysées í París.
Saga borgarinnar
breytaÞegar Rómverjar lögðu undir sig Gallíu árið 52 f.Kr. bjó gaulverskur ættflokkur á svæðinu sem Rómverjar kölluðu Parisii. Rómverjar nefndu sína borg Lutetia. Um Krists burð hafði borgin breiðst yfir á vesturbakka Signu þar sem núna er Latínuhverfið, og fengið nafnið París.
París var höfuðborg Mervíkinga frá árinu 508. Á 9. öld varð borgin fyrir ítrekuðum árásum víkinga en umfangsmesta umsátrið um borgina fór fram undir stjórn Reginherusar nokkurs, sem sumir vilja meina að sé Ragnar loðbrók, sem rændi borgina þann 28. mars árið 845 og fékk mikið lausnargjald fyrir að hafa sig á brott.
Á 11. öld breiddist borgin yfir á austurbakkann og óx hratt næstu aldirnar. Árið 1257 var Sorbonne-háskóli stofnaður með sameiningu nokkurra skóla sem fyrir voru. Loðvík XIV færði aðsetur konungsins frá borginni til Versala árið 1682.
1789 hófst franska byltingin með því að Parísarbúar réðust á fangelsið Bastilluna 14. júlí. Fransk-prússneska stríðið 1870 endaði með sigri Prússa og umsátri um borgina. Í umsátrinu var Parísarkommúnan stofnuð, en gafst upp eftir tvo mánuði. Eftir þetta stríð voru breiðgötur Parísar búnar til með því að rífa hluta gömlu borgarhverfanna, meðal annars til þess að auðveldara væri að koma her inn í borgina.
Borgin átti visst blómaskeið undir lok 19. aldar þegar menningarlíf blómstraði þar.
París var hernumin af Þjóðverjum 1940 og frelsuð af bandamönnum í ágúst árið 1944. 1968 átti stúdentauppreisnin sér stað í París.
Menntun
breytaTilvísanir
breyta- ↑ „Répertoire national des élus: les maires“ (franska). data.gouv.fr, Plateforme ouverte des données publiques françaises. 16. desember 2022. Afrit af uppruna á 27. febrúar 2023.
- ↑ Estimated populations on 1 January 2023 Geymt 21 apríl 2017 í Wayback Machine, INSEE. Sótt 27. mars 2023.
- ↑ „Comparateur de territoire: Région d'Île-de-France (11)“. INSEE. Sótt 10. febrúar 2021.
- ↑ „Regional GDP per capita in EU“. Eurostat. 28. febrúar 2018. Afrit af uppruna á 2. september 2019. Sótt 6. mars 2018.
- ↑ Economist Intelligence Unit Worldwide Cost of Living Survey, 2018, cited in the Daily Telegraph, 16 March 2018 Geymt 30 mars 2019 í Wayback Machine
- ↑ „List: The world's 20 busiest airports (2017)“. USA Today (enska). Afrit af uppruna á 25. júní 2018. Sótt 2. maí 2018.
- ↑ „ACI reveals the world's busiest passenger and cargo airports“. Airport World. 9. apríl 2018. Afrit af uppruna á 28. júní 2018. Sótt 2. maí 2018.
- ↑ „Métro2030“. RATP (Paris metro operator). Afrit af upprunalegu geymt þann 21. desember 2016. Sótt 25. september 2016.
- ↑ „The 51 busiest train stations in the world – all but 6 located in Japan“. Japan Today. 6. febrúar 2013. Afrit af uppruna á 22. apríl 2017. Sótt 22. apríl 2017.
- ↑ "Le Parisien", 8 January 2021, "Covid-19 - la frequentation du Musée du Louvre s'est effondrée de 72 percent en 2020"
- ↑ „Paris, Banks of the Seine“. UNESCO World Heritage Centre. United Nations Educational, Scientific, and Cultural Organization. Sótt 17. október 2021.
- ↑ "Le tourisme à Paris - Chiffres clés 2020 (édition 2021)", Official Website of the Paris Convention and Visitor Bureau, retrieved September 10, 2021