Austurríska erfðastríðið
Austurríska erfðastríðið var styrjöld eða röð stríða sem háð voru á árunum 1740-1748. Flest lönd Evrópu drógust inn í stríðið en það barst einnig til Norður-Ameríku.
Orsakir
breytaStríðið var sagt háð vegna þess að María Teresa af Austurríki tók við völdum þegar Karl 6. faðir hennar lést, en því var mótmælt af ýmsum á þeirri forsendu að konur ættu ekki erfðarétt í ríkjum Habsborgara. Raunveruleg ástæða stríðsins var þó barátta um yfirráð í Evrópu, þar sem Prússar og Frakkar tóku saman höndum til að hnekkja veldi Habsborgara. Á meðal bandamanna Austurríkismanna voru Bretar og Hollendingar en kjörfurstinn af Bæjaralandi studdi Prússa og Frakka. Stríðinu lauk 1748 með friðarsamningum í Aix-la-Chapelle.
Karl 6. dó 1740 og María Teresa varð þá drottning Ungverjalands, Króatíu og Bæheims, erkihertogaynja af Austurríki og hertogaynja af Parma. Í þessum löndum höfðu lengi gilt svonefnd salísk lög, sem kváðu á um að kona gæti ekki erft lendur eða ríki, en Karl 6. hafði gefið út tilskipun árið 1713, þegar hann sá fram á að óvíst væri að honum yrði sonar auðið, þess efnis að kvenkyns afkomendur hans gætu erft ríki hans, og hafði fengið flest þýsku ríkin til að samþykkja þetta. Hins vegar kom aldrei til greina að María Teresa tæki við keisaradæminu af honum. Hugmynd Karls var að eiginmaður hennar, Frans Stefán, yrði kjörinn keisari.
Stríðið
breytaFriðrik mikli Prússakonungur rauf samkomulagið með innrás í Slésíu 16. desember 1740 og lagði héraðið undir sig. Hann gerði bandalag við Frakka og kjörfurstann af Bæjaralandi, sem kosinn var keisari sem Karl 7. árið 1742, og herir allra ríkjanna réðust til atlögu við Austurríkismenn. Bretar, Hollendingar og fleiri veittu Maríu Teresu stuðning og næstu árin var barist víða í Mið-Evrópu og veitti ýmsum betur. Karl 7. lést snemma árs 1745 og Maríu Teresu tókst að koma því í kring að eiginmaður hennar var kjörinn keisari sem Frans 1. sama ár en stríðið hélt áfram í Evrópu og barst einnig víða um heim þangað sem hin stríðandi ríki áttu nýlendur, svo sem til Karíbahafs, Norður-Ameríku og Indlands.
Endalok
breytaStríðinu lauk með friðarsamningum 18. október 1748 og tókst Maríu Teresu að mestu að halda því sem hún hafði haft þegar stríðið hófst en varð þó að sætta sig við hernám Prússa á Slésíu og má segja að það hafi að nokkru orðið kveikjan að Sjö ára stríðinu síðar.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „War of the Austrian Succession“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 17. febrúar 2011.