Prag

höfuðborg Tékklands

Prag (tékkneska Praha) er höfuðborg Tékklands og jafnframt stærsta borg landsins. Íbúar eru um 1,3 milljónir, en um 2,6 milljónir búa á stórborgarsvæðinu (2019). Elstu hverfin, þar á meðal kastalinn í Prag, eru á heimsminjaskrá UNESCO. Prag er af mörgum talin ein fegursta borg Evrópu, en þangað streyma milljónir ferðamanna hvert ár.

Prag
Praha (tékkneska)
Svipmyndir
Svipmyndir
Fáni Prag
Skjaldarmerki Prag
Prag er staðsett í Tékklandi
Prag
Prag
Staðsetning í Tékklandi
Hnit: 50°05′15″N 14°25′17″A / 50.08750°N 14.42139°A / 50.08750; 14.42139
Land Tékkland
Stofnun8. öld
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriBohuslav Svoboda
Flatarmál
 • Borg496,21 km2
 • Þéttbýli
298 km2
 • Stórborgarsvæði
11.425 km2
Hæsti punktur
399 m
Lægsti punktur
172 m
Mannfjöldi
 (31. desember 2023)
 • Borg1.384.732
 • Þéttleiki2.800/km2
 • Stórborgarsvæði
2.267.817
 • Þéttleiki
stórborgarsvæðis
237/km2
TímabeltiUTC+1 (CET)
 • SumartímiUTC+2 (CEST)
Póstnúmer
100 00 – 199 00
ISO 3166 kóðiCZ-10
Vefsíðapraha.eu
Kastalahæðin Hradčany við vesturbakka Moldár

Lega og lýsing

breyta

Prag liggur fyrir miðjum Bæheimi í vesturhluta landsins. Landamærin að Þýskalandi í norðvestri og Póllandi í norðri eru innan við 100 km frá borginni. Áin Moldá rennur frá suðri til norðurs í gegnum miðborgina og skiptir henni í tvennt. Meðan gamla miðborgin er í austurhlutanum, er konungs- og keisarakastalinn (Hradčany) á hæð í vesturhlutanum.

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki Prag er ákaflega íburðarmikið. Skjöldurinn sjálfur sýnir borgarvegg með þremur turnum. Fyrir miðju stendur borgarhlið opið, en þar er hönd með brugðnu sverði. Borgarveggurinn merkir Prag og var upphaflega silfurlitaður. Friðrik III keisari lét breyta honum í gulllit 1475. Auk þess bætti hann við kórónu sem tvö ljón frá Bæheimi héldu á. Ferdinand III keisari bætti borgarhliðinu við 1649 með höndinni og sverðinu. Það gerði hann í þakklætisskyni fyrir mikla baráttu gegn Svíum í 30 ára stríðinu. Auk þess bætti hann tveimur öðrum kórónum við, sem og ríkiserninum. 1918 féll örninn burt, en þýska ríkið leystist í sundur á þessu ári. Fánar voru settir upp úr tveimur kórónum sem merkja bæina sem sameinuðust borginni 1920. Neðst er borði með áletruninni: PRAGA CAPUT REI PUBLICAE (Prag er konungsborg fólksins). Á kommúnistatímanum var rauð stjarna í skjaldarmerkinu. Síðustu breytingar voru gerðar 1. janúar 1993.

Orðsifjar

breyta

Menn eru ekki á eitt sáttir um uppruna heitisins Prag (Praha). Til eru þrjár tilgátur um orðið:

  • Til er þjóðsaga um uppruna heitisins práh. Spákonan og prinsessan Líbússa, þjóðsagnakennd eiginkona stofnanda borgarinnar, spáði fyrir um stofnun Prag. Hún sagði að borgin yrði reist á stað þar sem maður smíðar þröskuld framan við húsið sitt. Þröskuldurinn (á tékknesku práh) gætu því verið flúðirnar í Moldá, en þær mynda þröskuld fyrir neðan kastalann.
  • Orðið praga er slavneskt og merkir vað. Talið er að borgin hafi myndast þar sem heppilegt vað hafi verið yfir Moldá.
  • Önnur útskýring fyrir Praha er samsetningin na prazě, sem merkir klettahæðina þar sem kastalinn var reistur á.

Prag gengur einnig undir nokkrum gælunöfnum. Algengast er Gullna borgin, en það er aðallega notað í þýskumælandi löndum. Annað heiti er Borg hinna hundrað turna. Það heiti kom fyrst fram á 19. öld er tékkneski stærðfræðingurinn og heimspekingurinn Bernard Bolzano taldi kirkjuturna borgarinnar. Í dag eru þeir um 500. Enn eitt heitið er Praha matka měst, sem merkir Prag er móðir allra borga.

Saga Prag

breyta

Upphaf

breyta

Slavar settust að á svæðinu á 6. öld e.Kr. á tímum þjóðflutninganna miklu. Smáþorp risu á nokkrum stöðum á núverandi borgarstæði, en það var ekki fyrr en snemma á 9. öld sem kastalinn í Prag reis á hæð fyrir vestan Moldá. Það var Premyslíð-ættin, tékknesk valdaætt, sem reisti sér kastalann, en elstu minjar hans eru frá 850. Þar risu einnig fyrstu kirkjurnar, sem og almenn byggð bænda og borgara. Á austurbakka Moldár risu einnig bæir á svipuðum tíma. Þegar Premyslíð-ættin náði yfirtökum gagnvart öðrum ættum, varð Prag æ mikilvægari. Brátt varð hún að leiðandi stjórnarsetri í landinu. Þegar biskupsdæmi var stofnað í Bæheimi 973 varð Prag biskupssetur og var í fyrstu háð erkibiskupinum í Mainz (til 1344). Á síðari hluta 10. aldar lét Vratislav II fursti reisa sér annan kastala á austurbakka Moldár. Í kjölfarið af því myndaðist þétt byggð milli kastalanna, báðu megin við Moldá. Viðarbrýr tengdu bæjarhlutana. Fyrsta steinbrúin, Júditbrúin, var reist síðla á 12. öld, en hún eyðilagðist í flóði á 13. öld. Þar er Karlsbrúin í dag. 1085 leyfði Hinrik IV keisari stofnun konungsríkis í Bæheimi. Markgreifinn Vratislav II varð því krýndur konungur, enda var Vratislav eindreginn stuðningsmaður Hinriks gegn söxum. Krýningin fór fram í Prag, sem þar með varð að eiginlegri höfuðborg. Það var þó ekki fyrr en í kringum 1230-34 að Wenzel I konungur lét víggirða Prag og veita henni almenn borgarréttindi. Sonur Wenzels, Ottókar II konungur, stofnaði aðra borg 1257 er hann veitti Þjóðverjum land og jarðir við suðurjaðar gömlu borgarinnar. Þriðja borgin var stofnuð 1320 fyrir neðan gamla kastalann á vestri bakka Moldár og heitir Malá Strana. Borgir þessar voru ekki formlega sameinaðar fyrr en á 18. öld.

Blómaskeiðið

breyta
 
Karlsbrúin er nefnd eftir Karli IV keisara

Blómaskeið Prag hófst með krýningu Karls IV sem konung Bæheims 1347. Hann var jafnframt konungur þýska ríkisins (og keisari 1355). Karl hafði það að markmiði að gera Prag að verðugri konungs- og keisaraborg, ekki bara fyrir Bæheim, heldur einnig fyrir þýska ríkið. Hann hóf að reisa og endurreisa margar stórar byggingar. Í raun breyttist borgin meira en nokkurn tíma áður í sögu hennar. Einnig stofnaði hann háskóla í Prag 1348, en það er elsti háskóli Evrópu norðan Alpa. Háskólinn var svo vinsæll að á upphafsárum 15. aldar voru stúdentar orðnir 10 þús (75% þeirra þýskumælandi). Á tíma Karls var Karlsbrúin reist yfir Moldá. Nýir borgarhlutar risu, báðu megin fljótsins. Við dauða Karls 1378 var Prag orðin fjórða stærsta borg Evrópu norðan Alpa (á eftir París, Gent og Brugge) og hafði íbúatalan tífaldast á einni öld. Sonur Karls, Wenzel, hélt áfram verki föður síns, en hann var einnig konungur þýska ríkisins. Blómaskeið borgarinnar endaði árið 1400 er kjörfurstarnir settu Wenzel af sem konung ríkisins. Næstelsti sonur Karls IV varð konungur þýska ríkisins 1410 og sat hann til 1437. Honum tókst þó ekki að endurlífga blómaskeið föður síns, enda rann upp nýtt skeið í sögu Bæheims með hússítastríðinu.

Hússítar

breyta
 
Jan Hus

Jan Hus var professor við háskólann í Prag og á tíma rektor hans. Hus var í andstöðu við konung landsins, sem studdi páfann í Róm, frekar en páfann í Avignon. 1415 var Hus brenndur á báli fyrir villutrú. Auk þess leitaðist Wenzel konungur við að reka hússíta úr opinberum og kirkjulegum embættum. 1419 gerðu hússítar uppreisn gegn konungi. Upphaf þess var að þeir hentu fulltrúum konungs úr glugga ráðhússins. Sagan segir að þegar Wenzel konungur frétti af þessu hafi hann fengið hjartaáfall og látist þremur vikum síðar. Eftir lát konungs réðust hússítar með offorsi í allar kirkjur og klaustur í Prag og eyðilögðu kaþólska helgigripi. Eftir það var barist í borginni, sem lá hérumbil í rústum eftirá. Borgarar sem studdu keisarann eða kaþólsku kirkjuna voru reknir burt. Í kjölfarið upphófst blóðugt stríð. Farnar voru 5 krossferðir til höfuðs hússítum í Bæheimi, en ekki tókst að sigra þá fyrr en 1434. Allan þann tíma var Prag á valdi hússíta.

Vísinda- og listaborg

breyta

Prag náði sér ekki eftir hússítastríðin. 1526 braust út eldur í kastalanum og breiddist hann út til hverfanna í kring. Nær allur vesturbakki Moldár, þar á meðal hverfið Malá Strana, brann til kaldra kola. 1546 gerðu íbúar Prag uppreisn gegn nýja Habsborgarkonungnum, Ferdinand I, sem jafnframt var keisari í Vín. Ferdinand hafði ekki áhuga á að flytja til Prag, en sendi herlið til að stilla til friðar. Ári síðar hélt hann innreið sína í borginni og lét hylla sig. En enginn Habsborgarkonungur sat í Prag fyrr en Rúdolf II ákvað að flytja aðsetur sitt þangað 1583. Þar með varð Prag aftur keisaraborg til skamms tíma. Rúdólf bauð Þjóðverjum að setjast að í borginni, sem gerðu það í stórum stíl, ásamt fólki frá ýmsum öðrum þjóðernum. Einnig fengu gyðingar griðastað í borginni. Þannig varð Prag að fjölþjóðaborg, en á hússítatímanum höfðu eingöngu Tékkar búið þar. Rúdolf var mikill aðdáandi vísinda og lista, og bauð þekktum lista- og vísindamönnum í kastalann til sín. Þannig voru stjörnufræðingarnir Tycho Brahe og Jóhannes Kepler hjá Rúdolf í Prag við aldamótin 1600. Sá fyrrnefndi lést reyndar í Prag 1601.

30 ára stríðið

breyta
 
Fulltrúum keisara hent út um glugga í upphafi 30 ára stríðsins

1611 tók keisarinn Matthías við sem konungur Bæheims. Hann hóf þegar í stað að endurreisa kaþólsku kirkjuna í Prag með valdi og gera siðaskiptamönnum erfitt fyrir. Þetta mældist illa fyrir hjá gildunum og almenningi. 1618 var gerð uppreisn í borginni gegn yfirráðum Habsborgar. 23. maí 1618 ruddist múgur manna inn í kastalann og fleygði fulltrúum keisarans út um glugga. Atburður þessi gildir sem upphaf 30 ára stríðsins. Ári síðar lést Mattías keisari og kusu gildin í Prag Friðrik frá Pfalz sem nýjan konung Bæheims. Samtímis varð Ferdinand II af Habsborg keisari þýska ríkisins. Um vorið 1620 var fyrsta orrusta stríðsins háð í Bæheimi er keisaraher Ferdinands, undir stjórn Tillys, gjörsigraði Friðrik konung við Hvítafjall við vesturjaðar Prag. Friðrik flúði úr landi og var kallaður Vetrarkonungurinn þar sem hann sat aðeins einn vetur í Prag. Hann var síðasti konungur Bæheims og síðasti konungur (eða keisari) sem sat í Prag. Í kjölfarið voru mótmælendur í Prag eltir. Sumir voru fangelsaðir, aðrir líflátnir. Enn aðrir flúðu land. Í kjölfarið kom Ferdinand keisari kaþólsku kirkjunni á með valdi. Að öðru leyti kom Prag ekki meira við sögu í stríðinu. En 1635 hittust fulltrúar keisarans og mótmælenda í Prag til að semja um frið í stríðinu. Samningar þess efnis voru undirritaðir 30. maí. Þrátt fyrir það endaði 30 ára stríðið ekki við samninginn, því enn voru Svíar og Frakkar aðilar að stríðinu.

Fleiri stríð

breyta

1740 braust út austurríska erfðastríðið. Meðan María Teresía var upptekinn í stríði við Bæjaraland, réðist Friðrik II konungur Prússlands inn í Bæheim 1744 og sat um Prag í þeirri viðleitni að tryggja sér yfirráð yfir Slésíu. Eftir tveggja vikna umsátur féll borgin 16. september. Prússar héldu borginni þó aðeins í fáa mánuði, þar sem Friðrik konungur vildi frekar bíða austurríska hersins í Slésíu. Friðrik hélt Slésíu, en Habsborgarar endurheimtu Prag. Í 7 ára stríðinu reyndi María Teresía að endurheimta Slésíu. Friðrik prússakonungur réðist því inn í Bæheim 1757 með 64 þús manna lið. Við austurjaðar Prag hófst mikil orrusta 6. maí sem prússar sigruðu, við mikið mannfall þó. Þegar Austurríkismenn hörfuðu inn í Prag hóf Friðrik umsátur um borgina. Félli Prag, hefði það trúlega þýtt endalok Maríu. En umsátrið stóð aðeins yfir í hálfan annan mánuð. Þegar austurrískur her sigraði prússa í Saxlandi 18. júní ákvað Friðrik að yfirgefa Bæheim. Prag bjargaðist í það sinnið.

19. öldin

breyta
 
Smetana-safnið í Prag

Prag óx mjög í iðnvæðingu 19. aldar. Mikill iðnaður var byggður upp í borginni, sem og í Bæheimi. 1834 var konunglegur tækniskóli stofnaður í Prag, en það er elsti tækniskóli Evrópu. Borgarbúar voru þýskumælandi, enda tékkneska bönnuð sem opinbert mál. Nær allt stjórn- og efnahagskerfið var stjórnað frá Vín. Mikil óánægja var meðal slava. Eftir að engin niðurstaða fékkst í slavaráðstefnunni í Prag í júní 1848 braust út uppreisn í borginni sem stóð yfir í fimm daga (12.-17. júní). Mótmælendur heimtuðu sjálfstæði og gengu berserksgang út um allt. Götubardagar stóðu yfir í nokkra daga. Austurrískir varðliðar urðu að setja upp fallbyssur og umkringja borgina til að ráða niðurlögum mótmælanna. Hin mikla fjölgun í borginni var gífurleg. Árið 1804 voru íbúar 76 þús, en 1869 159 þús. Þúsundir Tékka flykktust til Prag frá nærsveitum. 1855 voru þeir orðnir jafnmargir og íbúar af þýsku bergi brotni. Gyðingar flykktust einnig til Prag. Alla 19. öldina voru þeir milli 8-10% af borgarbúum. Fyrir og eftir aldamótin 1900 var Prag mikil menningarmiðstöð fyrir tónlistarmenn og rithöfunda. Á þessum tíma sömdu Bedřich Smetana og Antonín Dvořák óperur sínar og önnur tónverk. Meðal rithöfunda má nefna Max Brod, Franz Kafka, Felix Weltsch, Oskar Baum og Rainer Maria Rilke. 1882 var háskólanum í borginni skipt upp í tvær máladeildir, þýskumælandi og tékkneskumælandi. Þar með var í fyrsta skipti kennt á tékknesku. Bann stjórnarinnar í Vín um að nota tékkneskt tungumál í Bæheimi var hins vegar ekki afnumið fyrr 1897.

Ríkishöfuðborgin

breyta

Prag kom ekki við sögu í heimstyrjöldinni fyrri. Óánægju gætti hjá austurríska setuliðinu í Prag, sérstaklega þegar leið á styrjöldina. 1918 voru opinber mótmæli hjá þeim daglegt brauð í borginni. Þegar stríðið var tapað komu tékkneskir stjórnmálamenn saman og stofnuðu sjálfstætt ríki 28. október 1918. Slóvakar sameinuðust ríkinu, sem hlaut nafnið Tékkóslóvakía. Prag varð þá að ríkishöfuðborg. Aðeins tveimur árum síðar voru ýmsir nágrannabæir innlimaðir borginni. Íbúatalan stökk þá upp í tæp 700 þús.

Heimstyrjöldin síðari

breyta
 
Bíllinn sem Reinhard Heydrich sat í þegar honum var gerð fyrirsát

Í mars 1939 innlimuðu Þjóðverjar Bæheim. 15. mars komu þýskir hermenn til Prag og tóku stjórnina í sínar hendur. Borgin var höfuðborg héraðanna Bæheims og Mæri innan þýska ríkisins. Mikil andúð var meðal borgarbúa gagnvart nasistum. Í júní 1942 tókst andspyrnumönnum að myrða Reinhard Heydrich, þýska landstjórann í Bæheimi og einn æðsta embættismann nasista, í fyrirsát. Meðan styrjöldin geysaði varð Prag fjórum sinnum fyrir loftárásum. 5. október 1941 flaug bresk vél yfir borgina og varpaði tveimur sprengjum. 15. nóvember 1944 var 12 sprengjum varpað yfir borgina. Þriðju árásina gerðu Bandaríkjamenn 14. febrúar 1945. 60 flugvélar vörpuðu 152 tonnum af sprengjum á borgina, sem átti sér einskis ills von. Árásin voru mistök af hálfu Bandaríkjamanna, en ætlunin var að gera árás á Dresden, sem liggur í 100 km fjarlægð til norðvesturs. Um 700 manns biðu bana í árásinni. Bandaríkjamenn báðust afsökunar á mistökum sínum. Síðasta árásin var gerð 25. mars 1945, aftur af Bandaríkjamönnum. Að þessu sinni komu flugvélarnar frá Ítalíu og voru 650 talsins. Árásin varaði í 74 mínútur og átti að eyðileggja iðnaðinn í borginni. 235 manns létust og 1360 byggingar skemmdust. 5. maí, tæpri viku eftir að Hitler framdi sjálfsmorð, gerðu íbúar Prag uppreisn gegn þýska setuliðinu. Barist var á götum og ráðist á herstöðvar Þjóðverja. 8. maí gerði þýska setuliðið samning við vopnaða Tékka um brotthvarf sitt, sem var framkvæmt sama kvöld. Rúmlega 40 þús almennir þýskir borgarar urðu eftir. Daginn eftir, 9. maí, hélt rauði herinn innreið sína í Prag. Á næstu dögum fóru fram algjörar nornaveiðar á alla Þjóðverja. Talið er að 27 þús Þjóðverjanna í borginni hafi verið drepnir. Restinn var settur í fangabúðir.

Vorið í Prag

breyta

1948 náðu kommúnistar völdum í þinginu í Prag. Við það breyttist landið allt í kommúnistaríki með tilheyrandi skerðingu á lýðræði, prentfrelsi og skoðanafrelsi. 1968 reyndi Alexander Dubček að innleiða nýja tilslökunar- og frjálsræðistefnu í landinu. Endurbætur þessar kölluðust Vorið í Prag. Þetta féll illa í kramið hjá ráðamönnum í Mosvku. 21. ágúst réðust hersveitir Varsjárbandalagsins inn í Prag. Þetta var stærsta hernaðarframkvæmd í Evrópu eftir lok heimstyrjaldarinnar 1945. Heimurinn stóð á öndinni. Sovétmenn drógu allar tilslakanir til baka. Í mótmælaskyni kveikti stúdentinn Jan Palach í sér á Wenzeltorginu í Prag 16. janúar 1969 og lést hann af völdum sára sinna. Aðeins mánuð síðar kveikti Jan Zajíc í sér á sama stað og lést einnig.

Flauelsbyltingin

breyta
 
Václac Havel, fyrsti forseti Tékklands

Eftir að Ungverjar höfðu opnað járntjaldið til Austurríkis í maí 1989, söfnuðust 3.500 austurþýskir borgarar saman á lóð vesturþýska sendiráðsins. Í kjölfarið máttu 17 þús manns fara yfir til Vestur-Þýskalands. 16. nóvember fóru fram fjölmenn stúdentamótmæli í Prag og lenti stúdentum saman við löggæsluna. 600 manns meiddust. Daginn eftir kölluðu stúdentar eftir ótakmörkuðu verkfalli. Leikarar leikhúsanna í borginni sameinuðust þeim. Eftir það voru mótmæli algeng. 24. nóvember fór fram gríðarlega fjölmennur mótmælafundur á Wenzeltorginu þar sem baráttumaðurinn Václav Havel talaði til fólksins og krafðist afsagnar kommúnistastjórnarinnar. Innan tveggja vikna var farið að rífa niður járntjaldið í landinu. 10. desember fóru stjórnarskiptin fram í þinghúsinu í Prag. Áður en árið var liðið var Alexander Dubček orðin þingforseti og Václav Havel ríkisforseti. 1993 aðskildust Tékkland og Slóvakía í tvö sjálfstæði ríki. Prag varð þá að höfuðborg Tékklands.

Veður

breyta
Mánuður Jan Feb Mar Apr Maí Jún Júl Ágú Sep Okt Nóv Des Ár
Max meðalhiti 1,4°C 3,1°C 7,7°C 13,4°C 18,7°C 21,2°C 23,6°C 23,5°C 18,6°C 12,8°C 5,5°C 2,1°C 12,7°C
Min meðalhiti -3,6°C -3,3°C -0,1°C 3,5°C 8,4°C 11,3°C 13,4°C 13,0°C 9,1°C 4,9°C 0,3°C -2,2°C 4,5°C
Úrkoma 23,6mm 23,1mm 28,1mm 38,2mm 77,2mm 72,7mm 66,2mm 69,6mm 40,4mm 30,5mm 31,9mm 25,3mm 526,6mm

Íþróttir

breyta

Íshokkí og knattspyrna eru höfuðíþróttir borgarinnar Prag. Í báðum greinum eru félögin Sparta Prag og Slavia Prag í algjörum sérflokki. Knattspyrnudeild Spörtu hefur oftar orðið tékkneskur meistari en nokkurt annað félag eða 32 sinnum. Þar af 19 sinnum í gömlu Tékkóslóvakíu og 8 sinnum í Tékklandi (síðast 2010). Auk þess hefur félagið 27 sinnum orðið bikarmeistari (síðast 2008). Besti árangur félagsins á alþjóðlegum vettvangi er þriðja sætið í Evrópukeppni meistaraliða 1992. Knattspyrnudeild Slavia Prag hefur 9 sinnum orðið tékkóslóvakskur meistari og þrisvar tékkneskur meistari (1996, 2008, 2009). Auk þess 7 sinnum bikarmeistari (síðast 2002).

Í Prag er árlega haldið Maraþonhlaup, en auk þess hálfmaraþon og Maraþonhlaup eldri borgara.

Af öðrum íþróttum má nefna ruðning, en félagið Prag Panthers er þar í sérflokki. Árið 2009 vann félagið Evrópukeppnina, fyrsta lið gömlu austantjaldslandanna sem það hefur afrekað.

Vinabæir

breyta

Prag viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

breyta

Byggingar og kennileiti

breyta

Gömlu hverfin í Prag eru á heimsminjaskrá UNESCO, þar á meðal Kastalahæðin Hradčany, gamla borgin (Stáre Město), brúarhverfið Malá Strana og nýja borgin (Nové Město). Margar af gömlu byggingunum geyma merkilega sögu. Margir telja miðborg Prag eina fegurstu í heimi.

 
Púðurturninn
  • Kastalinn í Prag (Pražský hrad) er stærsta kastalasamstæða heims. Hann var áður aðsetur konunga Bæheims og nokkurra keisara þýska ríkisins. Í dag er hann opinbert aðsetur forseta landsins. Í kastalanum eru tékknesku krúnudjásnin geymd.
  • Vítusarkirkjan er hluti af kastalasamstæðunni í Prag. Hún er dómkirkja og stærsta kirkja landsins. Í henni voru konungar Bæheims krýndir. Í grafhvelfingu eru grafir ýmissa konunga og keisara.
  • Karlsbrúin er einkennisbygging borgarinnar Prag. Hún er elsta nústandandi brú yfir fljótið Moldá og ein elsta steinbrú Evrópu. Brúin tengir miðborgina við kastalahæðina og eru turnar með hliðum við sitthvorn endann.
  • Vyšehrad-kastalinn er eldri af tveimur kastölum í Prag, en elsti hluti hans er frá 10. öld. Á lóðinni er kirkja Péturs og Páls. Í kirkjugarðinum liggja nokkur þjóðskáld.
  • Stjörnuúrið við gamla ráðhúsið, einnig kallað postulaklukkan, er eitt þekktasta stjörnuúr heims. Það var smíðað 1410 og er einstök meistarasmíð.
  • Teynkirkjan (einnig kölluð Frúarkirkjan) stendur við torg í gömlu borginni. Hún er frá 14. öld og skartar tveimur misháum turnum, kallaðir Adam og Eva. Þeir eru 80 m háir. Í kirkjunni er elsta pípuorgel Tékklands. Þar hvílir einnig danski stjörnufræðingurinn Tycho Brahe.
  • Púðurturninn er 65 m hár gotneskur turn sem stendur í gömlu miðborginni. Byrjað var að reisa turninn 1475 og var hann þá hluti af borgarmúrnum. Framkvæmdum lauk hins vegar ekki fyrr en á 19. öld. Í turninum var púðurgemsla, en þaðan er heitið dregið. Í dag er Púðurturninn tengdur byggingum á báða vegu, en hann er eitt þekktasta kennileiti gömlu borgarinnar.
  • Sjónvarpsturninn í Prag er einn einkennilegasti turn í Evrópu. Hann samanstendur af þremur stoðsúlum, en efst eru tæknihúsin á milli þeirra. Á stoðsúlunum eru risastyttur af börnum að klífa turninn. Turninn er 216 m hár og stendur í hverfinu Žižkov. Hann er opinn almenningi.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta