Orrustan við Austerlitz
Orrustan við Austerlitz, einnig þekkt sem orrusta keisaranna þriggja var ein mikilvægasta orrusta Napóleonsstyrjaldanna og er oft talin mesti sigur Napóleons Bónaparte. Þann 2. desember 1805 sigraði franski keisaraherinn fjölmennari herafla Rússa og Austurríkismanna undir stjórn Alexanders 1. Rússakeisara og Frans 2. keisara Heilaga rómverska ríkisins. Orrustan átti sér stað nærri bænum Austerlitz í austurríska keisaradæminu (sem í dag er Slavkov u Brna í Tékklandi). Sigur Frakka við Austerlitz batt snaran enda á þriðja bandalagsstríðið og Austurríkismenn neyddust til að undirrita friðarsáttmála í Pressburg seinna sama mánuð. Orrustan þykir gott dæmi um hernaðarsnilld Napóleons og er nefnd í sömu andrá og fræknir hernaðarsigrar á borð við orrustuna við Cannae og við Gaugamela.[3][4]
Orrustan við Austerlitz | |||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Hluti af the þriðja bandalagsstríði Napóleonsstyrjaldanna | |||||||||
La bataille d'Austerlitz. 2 decembre 1805 eftir François Gérard. | |||||||||
| |||||||||
Stríðsaðilar | |||||||||
Franska keisaradæmið | |||||||||
Leiðtogar | |||||||||
Napóleon 1. | |||||||||
Fjöldi hermanna | |||||||||
65.000–68.000 (að undanskilinni þriðju herdeildinni)[1] | 84.000–95.000 | ||||||||
Mannfall og tjón | |||||||||
|
|
Frakkar höfðu sigrað einn her Austurríkismanna í herför við Ulm og síðan hertekið Vínarborg í nóvember 1805. Austurríkismenn forðuðust her Frakka þar til liðsauki barst frá Rússum. Napóleon sendi her sinn norður á eftir bandamönnunum en skipaði honum síðan að hörfa til þess að virðast veikari en hann var í raun. Napóleon vildi ólmur lokka bandamenninna til orrustu við her sinn og lét því líta út fyrir að franski herinn væri illa staddur, og hörfaði jafnvel frá Pratzenhlíðum við Austerlitz. Hann staðsetti franska herinn fyrir neðan Pratzenhæðir og gerði hægri væng hersins vísvitandi berskjaldaðan til þess að fá bandamennina til að gera árás þar. Liðsauki frá Vínarborg undir stjórn þriðju herdeildar franska hersins kom hervængnum síðan til varnar á síðustu stundu. Á meðan bandamenn fleygðu mestum sínum herafla án árangurs á hægri væng franska hersins var miðvængur bandamannahersins berskjaldaður og varð fyrir árás frá fjórðu deild franska hersins undir stjórn Soults marskálks. Eftir að hafa gereytt miðvæng bandamannahersins ruddust Frakkar í gegnum báða hliðarvængi óvinanna og ráku bandamennina á flótta. Frakkar tóku þúsundir herfanga.
Þetta afhroð bandamannanna tók allan vind úr Frans keisara og neyddi hann til að gefast upp á hernað sínum gegn Frökkum. Frakkland og Austurríki sömdu strax um vopnahlé og friðarsáttmálinn við Pressburg fylgdi í kjölfarið þann 26. desember. Friðarsáttmálinn lögfesti landvinninga Napóleons í Ítalíu og Bæjaralandi á kostnað Austurríkismanna. Habsborgaraveldið neyddist jafnframt til að greiða 40 milljónir franka í stríðsskaðabætur. Sigurinn við Austerlitz leiddi einnig til stofnunar Rínarbandalagsins sem átti að vera eins konar höggpúði á milli Frakklands og Mið-Evrópu. Hið Heilaga rómverska ríki var því úrelt og var lagt niður árið 1806 eftir að Frans sagði af sér sem keisari þess og varð eingöngu keisari Austurríkis. Sigurinn leiddi þó ekki til langvarandi friðar í Evrópu. Áhyggjur Prússa af síauknum áhrifum Frakka leiddi til fjórða bandalagsstríðsins árið 1806.
Tenglar
breyta- Dagur Þorleifsson (12. nóvember 1964). „Orrustan við Austerlitz 1805“. Vikan. Sótt 6. febrúar 2019.
Tilvísanir
breyta- ↑ David G. Chandler, The Campaigns of Napoleon. bls. 416
- ↑ Andrew Roberts, Napoleon, A Life. bls. 390
- ↑ Farwell, Byron The Encyclopedia of Nineteenth-century Land Warfare: An Illustrated World View New York: W. W. Norton and Company, 2001, bls. 64.
- ↑ Dupuy, Trevor N. Understanding Defeat: How to Recover from Loss in Battle to Gain Victory in War Paragon House, 1990, bls. 102