Alnæmi

samsafn einkenna og sýkinga sem stafar af skertu ónæmiskerfi vegna HIV sýkingar
(Endurbeint frá Eyðni)

Alnæmi (líka kallað eyðni; á ensku: AIDS, skammstöfun á acquired immune deficiency syndrome („áunnin ónæmis-skerðing“)) er samsafn einkenna og sýkinga sem stafar af skertu ónæmiskerfi líkamans vegna smitunar af HIV-veirunni. HIV getur smitast með blóði, sæði, leggangavökva og brjóstamjólk. Mögulegt er fyrir barn að sýkjast af HIV-veirunni við fæðingu.

Merki alnæmissjúklinga og þeirra sem styðja alnæmissýkta er rauður borði

HIV-veiran sýkir frumur sem gegna hlutverki í ónæmiskerfi mannsins, þá aðallega T-hjálparfrumur af undirgerð CD4+. T-hjálparfrumur eru nauðsynlegar fyrir lært ónæmi, þ.e. að líkaminn geti varist þeim sýklum sem hann hefur séð áður. Veiran drepur þessar frumur. Nokkrum árum eftir sýkingu er fjöldi CD4+ T-hjálparfrumna orðinn svo lágur að líkaminn getur ekki lengur varist nýjum sýkingum. Þá hefur veiran veikt ónæmiskerfið verulega og fólk fær ýmsar tækifærissýkingar. Þá kallast sjúkdómurinn alnæmi. Á þessu stigi hrakar fólki hratt og þyngdartap er algengt.

Alnæmissjúkdómurinn var fyrst greindur 18. júní 1981 í Los Angeles í fimm samkynhneigðum körlum. Lækning við HIV er ekki til, en hægt er að halda sýkingunni algerlega í skefjum með nýjum lyfjum. Með réttri lyfjameðferð er einstaklingur ekki smitandi. Án meðferðar má reikna með að lifa í 9 til 11 ár.[1]

Talið er að vírusinn hafi upphaflega komið úr öpum í Afríku í byrjun 20. aldar, því að veiran er afar skyld apa-eyðniveirunni.

Áætlað er að 37 milljónir séu smitaðir af sjúkdóminum og að hann hafi dregið 35 milljón manns til dauða. Tveir af hverjum þrem HIV-smituðum búa í Afríku sunnan Sahara. Hæst er algengi alnæmi í Botsvana (24%) og Svasílandi (27%).

Alnæmi á Íslandi

breyta

Í lok árs 2016 höfðu samtals 361 greinst með HIV á Íslandi frá upphafi, 257 karlar og 104 konur. Af þeim höfðu 73 greinst með alnæmi og 39 látist af völdum HIV.[2] Árlega greinast undir 30 einstaklingar með HIV á Íslandi.[3]

Tenglar

breyta

Tilvitnanir

breyta
  1. UNAIDS, WHO (desember 2007). „2007 AIDS epidemic update“ (PDF). bls. 10. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 27. maí 2008. Sótt 12. mars 2008.
  2. Tölulegar upplýsingar um HIV og alnæmi á Íslandi til 2016. Geymt 8 apríl 2022 í Wayback Machine Embætti landlæknis, 2016.
  3. Tilkynningarskyldir sjúkdómar 2010-2017. Geymt 29 október 2018 í Wayback Machine Embætti landlæknis.
   Þessi heilsugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.