Ríkharður ljónshjarta
Ríkharður 1. (8. september 1157 – 6. apríl 1199) eða Ríkharður ljónshjarta var konungur Englands frá 6.júlí 1189 til dauðadags. Hann var einnig hertogi af Normandí, Akvitaníu og Gaskóníu, lávarður Írlands, yfirkonungur Kýpur, greifi af Anjou, Maine og Nantes og yfirlávarður Bretagne. Auknefnið ljónshjarta (enska: Lionheart; franska: Cœur de Lion) fékk hann vegna þess orðspors sem hann hafði sem hermaður og herforingi.
Bernska
breytaRíkharður var sonur Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu. Hann var fæddur í Oxford en lærði aldrei að tala ensku, fremur en raunar flestir aðrir konungar af Plantagenetætt. Foreldrar hans voru bæði frönsk og dvöldu langdvölum Frakklandsmegin við Ermarsund. Hann er talinn hafa fengið góða menntun. Ríkharður er sagður hafa verið ljósrauðhærður, fölur, hávaxinn og mjög myndarlegur. Hann sýndi snemma herkænsku og hæfileika til stjórnunar og var þekktur fyrir hugrekki og riddaramennsku.
Ríkharður átti eldri bróður, Hinrik unga, sem var krýndur meðkonungur föður þeira árið 1170. Hann gat því ekki búist við að erfa ensku krúnuna en ráð var fyrir því gert að hann fengi Akvitaníu frá móður sinni. Þegar Ríkharður var tveggja ára var samið um að hann skyldi giftast einni af dætrum Ramóns Berenguer 4., greifa af Barselóna, en af því varð þó ekki. Nokkrum árum síðar var hann trúlofaður Alísu, dóttur Loðvíks 7. Frakkakonungs, sem áður hafði verið giftur móður hans. Margrét systir hennar hafði trúlofast Hinriki unga nokkru fyrr. Alísa var send til Englands átta eða níu ára að aldri til að alast upp við hirð tengaföður síns tilvonandi.
Átök við Hinrik 2.
breytaÁrið 1171 fór Ríkharður til Akvitaníu, en móðir hans hafði þá slitið sambúð við föður hans og sest að í Poitiers, og ári síðar tók hann formlega við hertogadæminu, en faðir hans fékk þó mestallar tekjurnar af því eftir sem áður. Eldri bræðurnir þrír, Hinrik ungi, Ríkharður og Geoffrey, gerðu uppreisn gegn föður sínum 1173 - Jóhann var enn barn að aldri og var með Hinriki konungi í Englandi - og nutu þeir stuðnings Elinóru móður sinnar og Loðvíks 7. Frakkakonungs. Hinrik tókst þó að bæla uppreisnina niður og setti Elinóru í stofufangelsi, þar sem hún var næstu sextán árin, meðal annars til að tryggja að Ríkharður héldi sig á mottunni, en hann og móðir hans voru sögð náin. Hinrik gerði svo friðarsamning við Loðvík og bræðurnir sáu þá þann kost vænstan að gefast upp og biðja föður sinn fyrirgefningar. Hinrik gaf sonum sínum upp sakir en skerti tekjustofna þeirra nokkuð.
Hinrik fól svo Ríkharði það hlutverk að refsa aðalsmönnum í Akvitaníu sem risið höfðu gegn honum. Sautján ára að aldri var hann því farinn að stýra her og beita honum gegn mönnum sem áður höfðu stutt hann. Hann þótti standa sig mjög vel og það var á þessum árum sem hann fékk viðurnefni sitt. Harka hans og óvægni leiddi þó til þess að gerð var uppreisn gegn honum 1179 og leituðu uppreisnarmenn til bræðra hans, Hinriks unga og Geoffreys, um aðstoð. Þeir brugðust vel við en Ríkharður hafði betur. Á árunum 1181-1182 kom einnig til átaka víða en þá naut Ríkharður stuðnings föður síns og Hinriks unga bróður síns og barði óvini sína til hlýðni.
Spennan milli Ríkharðs og Hinriks unga fór þó vaxandi á ný og Ríkharður neitaði að fara að boði föður þeirra og sverja Hinriki hollustu. Það varð heldur ekki til að bæta samkomulagði á milli feðganna að almælt var að Alísa, unnusta Ríkharðs, sem alltaf hafði verið um kyrrt í Englandi, væri ein af mörgum ástkonum Hinriks 2. Þetta gerði hjúskap hennar og Ríkharðs í raun óhugsandi í augum kirkjunnar en þó var trúlofun þeirra ekki slitið, bæði vegna þess að henni fylgdi verðmætur heimanmundur sem Hinrik vildi ekki þurfa að skila og svo var hún systir hins unga Filippusar 2. Frakkakonungs, sem hvorugur þeirra feðga vildi móðga.
Árið 1183 réðust Hinrik ungi og Geoffrey inn í Akvitaníu til að reyna að beygja Ríkharð undir sig. Hann tók harkalega á móti þótt sumir þegnar hans snerust á lið með innrásarmönnum. Hlé varð á átökunum sumarið 1183, þegar Hinrik ungi dó, en Hinrik 2. gaf brátt Jóhanni, yngsta syni sínum, heimild til að ráðast inn í Akvitaníu. Átökum milli feðganna linnti ekki þótt Ríkharður væri nú ríkisarfi. Til að styrkja stöðu sína gerði hann bandalag við Filippus 2. Samband þeirra vakti furðu margra og er stundum talið kveikjan að orðrómi um samkynhneigð Ríkharðs, en fleira kom þó til.
Konungur Englands
breytaÁrið 1189 fóru þeir Ríkharður og Filippus í herför gegn Hinrik 2. og unnu sigur á her hans 4. júlí 1189. Hinrik féllst á að útnefna Ríkharð erfingja sinn. Tveimur dögum síðar dó hann og Ríkharður varð konungur Englands. Hann var krýndur í Westminster Abbey 3. september 1189. Samkvæmt einni heimild hafði hann lagt bann við því að konur og Gyðingar væru við krýningarathöfnina en nokkrir Gyðingar komu þó með gjafir handa konunginum. Hann lét fletta þá klæðum, húðstrýkja þá og varpa á dyr. Orðrómur komst á kreik um að hann hefði fyrirskipað að allir Gyðingar skyldu drepnir og upphófst þá fjöldamorð á Gyðingum í London. Önnur heimild segir aftur á móti að borgarbúar hafi átt upptök að morðunum og Ríkharður hafi refsað hinum seku.
Ríkharður hafði, nokkru áður en hann varð konungur, heitið því að fara í krossferð og nú varð úr að hann og Filippus 2. ákváðu að fara saman í Þriðju krossferðina, líklega vegna þess að báðir óttuðust að ef annar færi myndi hinn nota tækifærið til að leggja undir sig lendur. Ríkharður tæmdi fjárhirslur föður síns, hækkaði skatta, seldi eignir og kúgaði fé af þegnum sínum til að kosta krossferðina og hélt svo af stað sumarið 1190 með 100 skip og 8000 manna her.
Ríkharður dvaldi því aðeins sex mánuði af konungstíma sínum í Englandi, kvartaði yfir kulda og rigningu og sagðist til í að selja London ef kaupanda væri að finna. Hann setti biskupinn í Durham og jarlinn af Essex til að stýra ríkinu en Elinóra móðir hans mun þó hafa ráðið miklu. Jóhann bróðir hans var ekki sáttur við þetta fyrirkomulag, fannst að hann hefði sjálfur átt að stýra landinu, og fór að vinna gegn Ríkharði í laumi.
Ríkharður á Sikiley og Kýpur
breytaRíkharður og Filippus komu til Sikileyjar í september 1190. Vilhjálmur 2. Sikileyjarkonungur var þá nýlega látinn og frændi hans, Tancred af Lecce, hafði hrifsað völdin og fangelsað ekkju Vilhjálms, Jóhönnu drottningu, sem var systir Ríkharðs. Ríkharður fékk hana látna lausa en fékk ekki arf sem hún átti rétt á afhentan. Ríkharður brást reiður við, réðist á Messína og lagði borgina undir sig. Tancred gafst þó ekki upp fyrr en í mars 1191 og gerðu þeir þá samning sem fól í sér að Jóhanna fékk peningagreiðslu í stað lands sem hún hafði átt að erfa. Ríkharður útnefndi Arthúr hertoga af Bretagne, son Geoffreys bróður síns, sem erfingja sinn og Tancred hét að gifta honum eina af dætrum sínum.
Þeir Rikharður og Filippus dvöldu áfram á Sikiley um hríð en við það fór spenna á milli þeirra vaxandi. Að lokum ákváðu þeir að setjast niður og ræða ágreining sinn og tókst þá með þeim samkomulag sem fól meðal annars í sér að trúlofun Ríkharðs og Alísu var slitið en þá var 21 ár síðan hún var ákveðin. Raunar var Ríkharður þá þegar heitbundinn Berengaríu af Navarra og hún var kominn til hans á Sikiley.
Ríkharður sigldi svo frá Messína áleiðis til Akkó í Landinu helga en óveður tvístraði flotanum á leiðinni og skipið sem flutti Berengaríu og Jóhönnu Sikileyjardrottningu, systur Ríkharðs, hraktist til Kýpur, þar sem stjórnandi eyjarinnar, Ísak Komnenos, hafði þær í haldi. Ríkharður hertók eyjuna með hjálp ýmissa krossfara sem komið höfðu þangað frá Landinu helga, steypti Ísak Komnenos af stóli og frelsaði konurnar. Síðan var brúðkaup þeirra Berengaríu haldið í Limassol á Kýpur, 12. maí 1191.
Í Landinu helga
breytaSíðan sigldu þau til Akkó og þangað kom Ríkharður 8. júní. Hann gekk í bandalag við Guy af Lusignan, sem hafði komið honum til hjálpar á Kýpur og átti í deilum við Konráð af Montferrat um hvor þeirra skyldi vera konungur Jerúsalem. Ríkharður var veikur þegar þarna var komið sögu en barðist þó með mönnum sínum í umsátrinu um Akra, sem krossförum tókst að vinna. Í framhaldi af því gerðu þeir samkomulag við Saladín soldán um að þeir héldu ströndinni og mættu fara í pílagrímsferðir til Jerúsalem.
Fljótlega eftir þetta lenti Ríkharður í deilum við Leópold 5., hertoga af Austurríki, sem fór á burt í fússi með menn sína. Filippus 2. hvarf einnig á brott eftir deilur við Ríkharð. Ríkharður fór svo frá Akkó en lét áður taka af lífi 2700 múslimska gísla sem krossfarar höfðu tekið til að tryggja að Saladín héldi vopnahlésskilmála. Á fyrri helmingi 1192 var hann í Askalon og styrkti varnir borgarinnar. Hann vann nokkra sigra á her Saladíns en varð ekkert ágengt í sókninni til Jerúsalem.
Þegar Konráði af Montferrat tókst að fá sig kosinn konung Jerúsalem seldi Ríkharður keppinauti hans, Guy af Lusignan, eyna Kýpur. Nokkrum dögum síðar, 28. apríl 1192, var Konráð drepinn af tilræðismönnum og átta dögum síðar var ólétt ekkja hans, Ísabella, látin giftast Hinrik 2. af Champagne, systursyni Ríkharðs. Sterkur grunur lá á um að Ríkharður hefði átt aðild að morðinu.
Ríkharður hafði þegar hér var komið sögu gert sér grein fyrir því að jafnvel þótt hann gæti unnið Jerúsalem tækist honum aldrei að halda borginni. Honum var líka farið að liggja á að komast heim því bæði Filippus og Jóhann bróðir hans notuðu fjarveru hans til að auka áhrif sín og seilast til landa. Hann gerði því samkomulag við Saladín en í því fólst meðal annars þriggja ára vopnahlé. Síðan sigldi hann heim á leið en Berengaría var farin áður. Hann lenti í illviðri og neyddist til að lenda á Korfú, þar sem honum var illa tekið, enda hafði hann hrifsað til sín Kýpur, sem tilheyrt hafði Býsansríkinu. Hann dulbjó sig sem musterisriddara og sigldi fáliðaður á brott en skipið fórst við botn Adríahafsins og þeir þurftu að leggja í hættulegt ferðalag um Mið-Evrópu.
Fangi hertoga og keisara
breytaRétt fyrir jólin 1192 handsamaði Leópold hertogi af Austurríki Ríkharð nálægt Vínarborg og sakaði hann um að standa á bak við morðið á Konráði af Montferrat, sem var frændi Leópolds. Ríkharði var haldið í Dürnstein-kastala. Það var ólöglegt að halda krossfara föngnum og Selestínus III páfi bannfærði Leópold hertoga. Hann afhenti þá Hinrik 6. keisara fangann en keisarinn þóttist eiga ýmissa harma að hefna gegn Ríkharði og hafði hann í haldi í Trifels-kastala. Páfinn bannfærði hann líka en keisarinn sinnti því ekki því hann bráðvantaði peninga til að koma sér upp her og tryggja völd sín á Suður-Ítalíu. Hann krafðist því 65.000 punda silfurs í lausnargjald af Englendingum.
Elinóra móðir Ríkharðs lagði hart að sér að afla peninganna, lagði þunga skatta á landsmenn og gerði sjóði kirkna upptækja. Berengaría kona hans reyndi einnig að afla fjár á meginlandinu. Jóhann bróðir Ríkharðs og Filippus Frakkakonungur buðu keisaranum aftur á móti háa fjárhæð ef hann vildi halda Ríkharði föngnum til hausts 1194 en því hafnaði hann. Hinrik keisari fékk svo uppsett lausnargjald og lét Ríkharð lausan 4. febrúar 1194. Þá sendi Filippus Jóhanni orðsendingu: „Gættu nú að þér, djöfsi er laus.“
Síðustu æviár og dauði
breytaRíkharður fyrirgaf þó bróður sínum þegar þeir hittust og útnefndi hann erfingja sinn í stað Arthúrs af Bretagne. Hann hóf svo tilraunir til að ná aftur Normandí, sem Filippus hafði lagt undir sig á meðan Ríkharður var í burtu. Þeir börðust um hertogadæmið næstu árin. Ríkharður reisti hinn vandlega víggirta kastala Château Gaillard, sem sagður var einn hinn glæstasti í Evrópu, og gerði hann að aðalaðsetri sínu. Hann gerði bandalag gegn Filippusi við Baldvin 9. af Flæmingjalandi, Renaud greifa af Boulogne og Sancho 6. af Navarra, tengdaföður sinn, og vann ýmsa sigra.
Í mars 1199 var Ríkharður í Limousin að berja niður uppreisn. Hann settist um kastalann Chalus-Chabrol. Að kvöldi 25. mars varð hann fyrir ör sem skotið var af kastalaveggnum. Örin kom í handlegginn. Læknir nokkur fjarlægði hana en tókst það illa og sýking kom í sárið. Konungur dó 6. apríl í örmum móður sinnar og hafði áður arfleitt Jóhann bróður sinn að öllum lendum sinum en Ottó systurson sinn að skartgripum sínum.
Hjónaband og arfleifð
breytaRíkharður og Berengaría voru barnlaus. Ríkharður sinnti ekkert um Berengaríu eftir að hann losnaði úr haldi keisarans en þegar Selestínus III páfi skipaði honum að viðlagðri bannfæringu að taka hana til sín og vera henni trúr hlýddi Ríkharður og fylgdi konu sinni til kirkju vikulega þaðan í frá. Annars virðist hann hafa lítið skipt sér af henni.
Margt hefur verið ritað um kynhneigð Ríkharðs. Sagnfræðingurinn Jean Flori hefur gert rannsókn á verkum samtímahöfunda og segir að þeir hafi almennt talið Ríkharð samkynhneigðan og segir að tvær opinberar syndajátningar hans, 1191 og 1195, beri því vitni. Ekki eru þó allir sammála því áliti. Samtímaheimildir segja líka frá sambandi hans við konur og hann gekkst við einum óskilgetnum syni, Filippusi af Cognac. Flori telur hann því hafa verið tvíkynhneigðan.
Ríkharður hefur fengið góð eftirmæli í sögunni og mun betri en flestir sagnfræðingar telja að hann eigi skilið. Steven Runciman segir í History of the Crusades að hann hafi verið „slæmur sonur, slæmur eiginmaður og slæmur konungur, en glæsilegur og frábær hermaður“. Þótt hann dveldist nær ekkert í Englandi og talaði nær enga ensku hafa Englendingar löngum litið á hann sem þjóðhetju og hann er einn þekktasti konungur Englands fyrr á öldum og einn örfárra eftir 1066 sem jafnan er einkenndur með viðurnefni en ekki tölustaf.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Richard 1 of England“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 16. ágúst 2010.
Fyrirrennari: Hinrik 2. |
|
Eftirmaður: Jóhann landlausi | |||
Fyrirrennari: Hinrik 2. |
|
Eftirmaður: Jóhann landlausi |