Ottó mikli
Otto I (23. nóvember 912 í Wallhausen – 7. maí 973 í Memleben) var konungur og keisari þýska ríkisins af ætt Liudolfinger. Hann var einnig konungur Ítalíu. Otto I er gjarnan kallaður Otto hinn mikli.
Æviágrip
breytaPrinsinn
breytaOtto fæddist árið 912 og var sonur Hinriks I hertoga í Saxlandi og eiginkonu hans Matthildar. Lítið er vitað um Otto ungan. Þó er kunnugt að hann hlaut herþjálfun ungur. Aðeins 16 ára gamall átti hann son með slavneskri konu, Vilhjálm, sem seinna varð erkibiskup í Mainz. Ári síðar kom faðir hans, Hinrik I konungur ríkisins, því í gegn að sonur sinn yrði kjörinn næsti konungur þýska ríkisins. Otto var því markaður háleitur farvegur. Hann var látinn kvænast Edgitha frá Englandi. Hinrik var fyrsti saxneski konungur ríkisins og hélt hann tryggð við England, þar sem England var hálfu árþúsundi fyrr numið meðal annars af söxum. Edgitha hlaut borgina Magdeburg í morgungjöf.
Koungurinn
breyta2. júlí 936 lést Hinrik I, faðir Ottós. Þar sem búið var að ganga frá ríkiserfðunum, varð Ottó næsti konungur ríkisins. Það tók aðeins fáeinar vikur að koma valinu og krýningu í kring. Ottó var fyrsti konungur ríkisins eftir daga Karlamagnúsar sem krýndur var í keisaraborginni Aachen. Það gerðist 7. ágúst 936 og framkvæmdi Hildebert erkibiskup í Mainz krýninguna. Eftir þetta varð Aachen almennt að krýningarstað konunganna í ríkinu fram á miðja 16. öld. Krýning Ottós var þó ekki öllum að skapi. Hálfbræður hans, Thankmar og Hinrik, vildu sjálfir verða konungar, enda eldri. Furstar hingað og þangað í ríkinu voru heldur ekki ánægðir. Frankahertoginn Eberhard gerði opna uppreisn gegn konungi og gekk til liðs við Thankmar. Eftir að hafa hertekið virkið Belecke og frelsað Hinrik prins, sem var í stofufangelsi, var Thankmar drepinn. Eberhard missti nær allt liðið sitt og gafst upp. Hann var settur í útlegð. Hertoginn Giselbert frá Lóþaringíu, ásamt ýmsum bandamönnum, gerði næstur uppreisn gegn Ottó. En Óttó sigraði þá í orrustunni við Birten hjá Xanten. Að lokum varð Hinrik prins foringi uppreisnar gegn konungi. Hann gerði samsæri um að drepa Ottó konung, hálfbróður sinn. En Ottó komst á snoðir um þessa ráðagerð og tók til sinna ráða. Hann lét varpa Hinrik í dýflissu en aðrir samsærismenn voru teknir af lífi. Hinrik náði að flýja ári síðar en honum snerist hugur og baðst vægar. Eftir þetta var Ottó óskoraður konungur þýska ríkisins. Stjórn Ottós sem konungur gekk í berhögg við aðalinn. Hann virti ekki erfðarétt aðalsins, heldur gaf vinum og venslamönnum landsvæði og embætti, sem aðalsmenn hafa hingað til haft rétt á í ríkinu. Þetta gerði það að verkum að staða Ottós sem konungs styrktist verulega en áhrif aðalsins minnkaði. Árið 951 ákvað Ottó að ráðast inn í Ítalíu. Þar hafði síðasti konungur landsins dáið og skilið eftir sig tæplega tvítuga ekkju, Aðalheiði, sem tengd var eiginkonu Liudolfs, sonar Ottós. Berengar hertogi hafði rænt Aðalheiði og hrifsað til sín völdin. Ottó hertók Langbarðaland bardagalaust. Hann lét frelsa Aðalheiði og færa hana til sín í Pavia. Þar kvæntist hann henni, enda var fyrri eiginkona hans, Edgitha, þá látin. Eftir þetta hlaut Ottó titilinn Konungur franka og Langbarðalands. Þar með var Ottó orðinn valdamesti konungurinn í þýska ríkinu. Hann fór einnig til Rómar í því skyni að láta krýna sig til keisara. En af ókunnum ástæðum neitaði Agapet II páfi honum um það. Árið 953 gerði Liudolf, sonur Ottós, uppreisn, enda taldi hann sig eiga rétt á Ítalíu. Liudolf fékk ýmsa hertoga í lið með sér, sem höfðu yfirráð yfir ýmsum borgum. Áður en árinu lauk var Ottó búinn að gera umsátur um Mainz og Regensburg. En hann náði ekki að útkljá málið áður en næsta ógn steðjaði að ríkinu.
Orrustan við Lechfeld
breytaMeðan Ottó áttist við son sinn Liudolf, gerðu Ungverjar innrás í þýska ríkið. Ungverjar höfðu á liðnum áratugum reglulega ráðist inn í ríkið og rænt og ruplað. Þeir voru enn heiðnir og höfðu 50 árum áður sest að í kringum Balatonvatn á ungversku sléttunni. Þaðan fóru þeir í ránsferðir. Ungverjar réðust nú inn í Bæjaraland og herjuðu þar á leið sinni vestur. Þeir voru við borgardyr Ágsborgar sumarið 955. Við þessar hættulegu aðstæður tók Liudolf sinnaskiptum og sættist við föður sinn. Saman söfnuðu þeir liði og fóru gegn Ungverjum, sem enn höfðu ekki náð að vinna Ágsborg. Orrustan við Lechfeld nálægt Ágsborg 10. ágúst 955 er einn mesti hernaðarsigur Ottós konungs, þar sem hann náði að hrinda árás ungversku riddaranna. En Ottó var einnig búinn að manna ýmis virki og ferjustaði. Eftir sigurinn flúðu Ungverjar úr orrustunni. Þeir voru svo fjölmennir (eftirlifendur um 20 þúsund) að íbúar Ágsborgar héldu að þeir væru enn að gera árás á borgina er þeir riðu framhjá. Við virkin voru þeir splundraðir og strádrepnir. Aðeins lítill hluti þeirra komst heim. Afleiðingin var sú að Ungverjar hættu flakki sínu og ránsferðum. Þeir blönduðust slövum, báðu um kristniboða og gerðust kristnir. Afkomendur þeirra búa enn á ungversku sléttunni í dag. Orrustan við Lechfeld varð ekki aðeins til að binda enda á ránsferðir Ungverja, heldur voru furstar ríkisins svo hrifnir af sigrinum að Ottó átti til að gera náðuga daga það sem hann á eftir ólifað. Aðeins þó í þýska ríkinu, ekki á Ítalíu.
Keisarinn
breytaMeðan Ungverjar herjuðu á þýska ríkið gerðist Berengar II, lénsherrann í Langbarðalandi, svo frakkur að stjórna Ítalíu eigin hendi, án ráða frá Ottó, sem þó var réttur konungur Langbarðalands. Þegar Berengar hins vegar ásældist einnig suðurhluta Ítalíu og hrifsaði til sín lönd af páfaríki, kallaði Jóhannes XII á hjálp. Ottó fór suður til Ítalíu 961. Berengar og bandamenn hans drógu sig til baka í virkin sín og forðust beinar orrustur. Ottó fór því beint suður til Rómar, þar sem Jóhannes páfi krýndi hann til keisara þýska ríkisins 2. febrúar 962. Ottó var því þriðji keisari ríkisins síðan Karlamagnús. (Áður voru Karl III og Arnulf krýndir á 9. öld). Aðalheiður, eiginkona hans, var samtímis krýnd keisaraynja. Eftir þetta fór Ottó norður til Langbarðalands og sat um Berengar. En vinátta hans og páfa varaði ekki lengi. Strax á næsta ári gerði páfi samning við son Berengars gegn Ottó. Ottó létti þá umsátrinu og flýtti sér til Rómar. Þar greip hann í tómt, því páfi hafði flúið. Þá greip Ottó til ráðs að láta kardinálana sverja sér að velja engan páfa án samþykkis keisara fyrst. Hann kallaði saman kirkjuþing, þar sem Jóhannes páfi var leystur af. Í hans stað var Leó VIII kjörinn páfi. Þetta var einsdæmi í sögunni fram að þessu, en aldrei hafði nokkur keisari gerst svo frakkur að leysa sitjandi páfa af. Samtímis þessu var Berengar handtekinn og fluttur í böndum til Bamberg. En Ottó var varla farinn frá Rómar áður en Jóhannes sneri aftur sem páfi og tók borgina. Leó flúði til keisara. Jóhannes lést hins vegar skömmu síðar og var þá Benedikt V kjörinn páfi, í trássi við keisara. Hann gerði sér enn ferð til Rómar, leysti Benedikt af og setti Leó aftur í embætti sem páfa. Benedikt var sendur til Hamborgar í böndum. Árið 965 fór Ottó svo heim aftur í ríki sitt eftir að hafa verið á Ítalíu í fjögur ár. Þar var honum tekið með kostum og kynjum. Ottó var á hátindi ferlis síns og var máttugasti konungur og keisari þýska ríkisins síðan á dögum Karlamagnúsar. 966 sneri Ottó aftur til Ítaliu og dvaldi þar næstu 6 árin. Hann sett enn einn páfann af, í þriðja sinn á ferli sínum, og setti Jóhannes XIII aftur í embætti, sem Rómverjar höfðu hrakið burt. Meðan Ottó dvaldi á Ítalíu lét hann krýna son sinn, sem einnig hét Ottó, sem meðkonung sinn. Jóhannes páfi krýndi hann svo sem meðkeisara í borginni Verona árið 967. Þannig varð hinn ungi Otto II að eftirmanni föður síns, án tilkomu ríkisfurstanna. Otto sneri aftur heim í ríki sitt 972. Hann lést ári síðar eftir stutt veikindi og hitaköst í kastalavirkinu Mamleben (núverandi Saxland-Anhalt). Hann hvílir í dómkirkjunni í Magdeburg. Við ríkinu tók sonur hans Ottó II.
Fjölskylda
breytaOttó mikli var tvíkvæntur.
Fyrri eiginkona hans var Edgitha frá Englandi. Þau áttu tvö börn:
- 1. Liudolf (f. 930) hertogi Sváfalands, handhafi konungsdóms, en glataði honum sökum uppreisnar
- 2. Liutgard (f. 931) giftist hertoganum Konráði hinum rauða og varð ættmóðir Salier-ættarinnar
Síðari eiginkona Ottós var Aðalheiður frá Búrgúnd. Þau áttu fjögur börn:
- 1. Hinrik (f. 952) dó ungur
- 2. Brúnó (f. 953), um hann eru engar heimildir, dó sennilega ungur
- 3. Matthildur (f. 954) abbadís í Quedlinburg
- 4. Ottó II. (f. 955) næsti keisari þýska ríkisins
Heimildir
breyta- Höfer, Manfred. Die Kaiser und Könige der Deutschen, Bechtle 1994.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Otto I. (HRR)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt ágúst 2010.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Schlacht auf dem Lechfeld“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt ágúst 2010.
Fyrirrennari: Hinrik I |
|
Eftirmaður: Ottó II |