18. öldin er öld sem hófst 1. janúar 1701 og lauk 31. desember 1800. Á þessari öld stóð Upplýsingin sem hæst og undir áhrifum frá henni voru gerðar byltingar í Ameríku, Frakklandi og á Haítí. Á sama tíma náði þrælahald og mansal hátindi sínum á heimsvísu. Öldin hefur verið kölluð „öld ljóssins“ og „öld skynseminnar“ með vísun í heimspeki upplýsingarinnar sem boðaði breytta tíma byggða á skynsemishyggju. Í fyrstu tóku margir einvaldar Evrópu hugmyndafræði Upplýsingarinnar fagnandi og gerðust upplýstir einvaldar en eftir Frönsku byltinguna tóku þeir höndum saman og mynduðu gagnbyltingarbandalög.

Árþúsund: 2. árþúsundið
Aldir: 17. öldin · 18. öldin · 19. öldin
Áratugir:

1701–1710 · 1711–1720 · 1721–1730 · 1731–1740 · 1741–1750
1751–1760 · 1761–1770 · 1771–1780 · 1781–1790 · 1791–1800

Flokkar: Fædd · Dáin · Stofnað · Lagt niður

Stórveldistími Svíþjóðar leið undir lok eftir ósigur þeirra gegn Rússum í Norðurlandaófriðnum mikla. Rússland, Prússland og Austurríska keisaradæmið skiptu Pólsk-litháíska samveldinu á milli sín og breyttu þannig landslagi Mið-Evrópu til frambúðar. Tyrkjaveldi þandist út og gekk í gegnum velmegunarskeið þar sem það tók ekki þátt í neinum styrjöldum í Evrópu frá 1740 til 1768. Vegna þessa dróst Tyrkjaveldi hernaðarlega aftur úr Evrópuveldunum í þeirri endurnýjun sem þau réðust í í kringum Sjö ára stríðið 1756-1763. Á seinni hluta aldarinnar beið það röð ósigra gegn Rússlandi.

Bretland gerðist heimsveldi þegar Breska Austur-Indíafélagið lagði undir sig stóra hluta Indlandsskaga eftir sigur í orrustunni við Plassey 1757 og keppti við Holland um nýlendur í Suðaustur-Asíu. Á sama tíma missti Bretland nýlendur í Norður-Ameríku eftir frelsisstríð Bandaríkjanna og í Indíánastríðunum. Í Mið-Asíu varð lát Nader Shah Persakonungs til þess að Durraniveldið var stofnað í Afganistan og þar sem nú er Pakistan. Á Indlandsskaga markar lát Aurangzeb endalok stórveldisskeiðs Mógúlanna. Frakkar kepptu við Breta um áhrif á Indlandsskaga.

Undir stjórn Qianlong náði Tjingveldið mestu landfræðilegu útbreiðslu sinni í Asíu. Það lagði Dsungaríu undir sig og tryggði áhrif sín í Tíbet og Víetnam. Útþensla Kína varð til þess að ríkið varð fjölþjóðlegra en áður sem skapaði aukna hættu á uppreisnum og íþyngdi fjárhagnum. Stöðnun og spilling tók að einkenna stjórn ríkisins og lagði grunninn að áföllunum sem Kína varð fyrir á 19. öld.

Landnám Evrópubúa í Ameríku og öðrum heimshlutum fór vaxandi og þróun seglskipa þegar Skútuöld náði hámarki gerði mögulega fólksflutninga milli heimsálfa í áður óþekktum mæli. Iðnbyltingin hófst undir lok aldarinnar með framförum í smíði gufuvéla. Fyrstu járnbrautirnar litu dagsins ljós rétt fyrir aldamótin 1800. Í menningu Evrópu markar 18. öldin skilin milli síðbarokksins (rókokóstíll, Johann Sebastian Bach og Georg Friedrich Händel) og klassíska tímabilsins (Jacques-Louis David, Joseph Haydn og Wolfgang Amadeus Mozart). Rómantíkin hófst undir lok aldarinnar með verkum Johann Wolfgang von Goethe og James Macpherson.

Ár og áratugir breyta

18. öldin: Ár og áratugir

Tenglar breyta