Knattspyrnufélagið Víkingur

fjölíþróttafélag í Fossvogi í Reykjavík
(Endurbeint frá Víkingur Reykjavík)

Knattspyrnufélagið Víkingur er reykvískt hverfaíþróttafélag sem hefur aðstöðu í Víkinni við Traðarland í Fossvogsdal. Félagið er eitt af mörgum hverfafélögum í borginni og afmarkast megin þjónustusvæði þess af Fossvogsdal, Kringlumýrarbraut, Suðurlandsbraut og Reykjanesbraut. Víkingur er eitt af elstu og sigursælustu knattspyrnufélögum landsins.[2] Félagsaðstaðan fékk nafnið Víkin eftir þeim stað sem víkingar til forna lögðu skipum sínum, söfnuðu kröftum, öfluðu vista og æfðu vopnfimi áður en þeir héldu á ný í víking.[3] Víkingur er skilgreint sem fjölgreinafélag, en það er íþróttafélag með fleiri en eina íþróttagrein. Deildir Víkings eru sjö talsins: Almennings-, borðtennis-, handknattleiks-, karate-, knattspyrnu-, skíða- og tennisdeild.[4]

Fótbolti og tifandi klukka Núverandi tímabil
Knattspyrnufélagið Víkingur
Fullt nafn Knattspyrnufélagið Víkingur
Gælunafn/nöfn Víkingar, Vikes
Stytt nafn Víkingur
Stofnað 21. apríl 1908
Leikvöllur Víkin - Víkingsvöllur
Stærð 1449 + [1]
Stjórnarformaður Friðrik Magnússon
Knattspyrnustjóri Arnar Gunnlaugsson
Deild Úrvalsdeild 2023 (1.sæti)
Heimabúningur
Útibúningur

Saga Víkings

breyta

Texti er byggður á umfjöllun á vefsíðu félagsins: http://soguvefur.vikingur.is/.

Stofnun félagsins og fyrstu skrefin

breyta

Frumherjar Víkings (1908)

breyta

Knattspyrnufélagið Víkingur var stofnað 21. apríl árið 1908 í kjallaranum að Túngötu 12 í Reykjavík, þar sem Emil Thoroddsen átti heima (Túngatan liggur frá Suðurgötu í austri til Bræðraborgarstígs í vestri. Landakotskirkja og Landakotsspítali standa nærri, auk þess sem sendiráð Rússlands, Þýskalands og Frakklands eiga hvert sitt hús þar). Á stofnfund félagsins mættu 32 drengir, fullir af áhuga og ástríðu fyrir því að skipuleggja félagsskap Víkinga til að æfa knattspyrnu. Aðalhvatamenn og í fyrstu stjórn voru fyrirliði hópsins og fyrsti Víkingurinn, Axel Andrésson 12 ára gamall, formaður, Emil Thoroddsen 9 ára, ritari og Davíð Jóhannesson, 11 ára, gjaldkeri. Aðrir stofnendur voru Páll Andrésson 8 ára bróðir Axels, og Þórður Albertsson, 9 ára.[5]

Tilgangurinn með stofnun Víkings var ánægjan að spila fótbolta; „Einn góðviðrisdag vorum við fimm drengir saman komnir á Gulllóðinni. Við fengum þá flugu í höfuðið aö stofna knattspyrnufélag eins og þeir fullorðnu höfðu gert. Þetta fannst okkur snjöll hugmynd og létum þetta berast.“, er haft eftir Axel. En þá þurfti að afla fjármagns til boltakaupa. Fyrsti gjaldkerinn, Davíð Jóhannesson, fékk það hlutskipti að særa aura upp úr vösum félaga þar til hafðist að mestu fyrir fyrsta boltanum. Egill Jacobsen stórkaupmaður, sem flutti til landsins frá Danmörku upp frá aldamótunum er talinn hafa hjálpað til með það sem upp á vantaði.[6] Egill var síðar sæmdur titli heiðursfélaga í Víkingi.

Taplausir í tíu ár (1908-1918)

breyta

Fyrstu árin í sögu Víkings voru sannkölluð sigurár og stóð knattspyrnuliðið taplaust eftir fyrstu 10 árin í sinni sögu. Á því tímabili skoraði Víkingsliðið 58 mörk og fékk á sig 16. Flestir leikir félagsins á þessum árum voru leiknir gegn öðrum hverfafélögum úr bænum, svo sem Fótboltafélagi Miðbæinga og báru Víkingar ávallt betri hlut gegn þeim. Félagar í því munu um árið 1912 hafa gefist upp og gengið í raðir Víkinga.

Árið 1914 hafði Víkingur sigur úr býtum gegn KR, 2-1, í fyrsta opinbera kappleiknum undir skipulagi Ungmennafélags Íslands. Verðlaunaskjalið er varðveitt í Víkinni.

Á aðalfundi í Bárubúð þann 24 apríl 1917, samkomuhúsi Sjómannafélagsins í Reykjavík við Vonarstræti, var Knattspyrnufélagið Knöttur tekið inn í félagið og fékk heitið Junior-Víkingur. Liðið hreppti þó ekki neinn titil á þessum tíma sökum þess að leikmenn Víkinga höfðu ekki náð aldri til að leika í meistaraflokki á Íslandsmóti fyrr en um árið 1918, samkvæmt þágildandi reglum Íþróttasambandsins.[7]

Fyrstu Íslandsmeistaratitlarnir (1918-1938)

breyta

Fyrstu leikir Víkinga á Íslandsmóti fóru ekki fram fyrr en árið 1918 - þegar liðið tryggði sér auðveldan 5-0 sigur á keppinautum Vals og 3-2 sigur á KR.
Til að geta haft þátttökurétt til að keppa í mótinu sóttu Víkingar undanþágur fyrir fimm leikmenn, þar sem þeir voru undir 18 ára aldri.
Grátlegt tap gegn Fram í miklum markaleik kom í veg fyrir að Víkingur hreppti Íslandsmeistaratitilinn á aldursundanþágum og það í fyrstu tilraun.

Ungur aldur leikmanna félagsins fyrstu árin kom hvergi að sök - Víkingar þurftu ekki að bíða lengur en tvö ár eftir því að fagna sínum fyrstu titlum. Árið 1920 kom sá fyrsti eftir sigra á KR og Fram og bættist síðar annar titill við árið 1924 eftir sigra á KR, Val og að lokum Fram í framlengdum og fjörugum úrslitaleik. Er sá leikur sagður hafa verið einn sá allra besti sem spilaður hafði verið á Gamla Íþróttavellinum á Melunum - fyrsta fullgerða knattspyrnuvellinum á Íslandi.

Í bæði skiptin stóð félagið uppi sem sigurvegari á Íslandsmóti karla. Árin 1921, 1922 og 1925 höfnuðu Víkingar í öðru sæti.
Meðalaldur leikmanna Víkings sem sóttu titilinn árið 1920 var aðeins 18,4 ár og er það lægsti meðalaldur nokkurs meistaraliðs á Íslandsmótinu í fótbolta.

Í kjölfar þess að Gamli Melavöllurinn var dæmdur ónothæfur þurftu félögin að leita annarra ráða. Hafist var handa við að byggja Nýja Melavöllinn árið 1925 og var hann vígður þann 17. júní árið 1926. Víkingurinn Helgi Eiríksson á heiðurinn að fyrsta markinu sem skorað var á vellinum, en það kom í 4-1 sigri á Valsmönnum.

Fyrsta erlenda knattspyrnuliðið sem heimsótti Ísland var Akademisk Boldklub frá Danmörku í ágústmánuði 1919. Tveir Víkingar voru í úrvalsliðinu sem lagði Danina 4:1 í sögufrægum leik, Óskar Norðmann stórsöngvari og Páll Andrésson. Segja má að þarna hafi landslið Íslands í knattspyrnu verið valið í fyrsta skipti, því í úrvalsliðið voru tilnefndir bestu leikmenn landsins til að etja kappi við erlenda mótherja. Lið frá háskólanum í Glasgow í Skotlandi kom til Íslands 1928 og gerði Víkingur 2:2 jafntefli við gestina. Mun það hafa verið fyrsta stigið sem íslenskt félagslið fékk í keppni við erlent lið.

Íslenskt úrvalslið fór til Færeyja árið 1930 til að keppa við Færeyinga á Ólafsvöku - mun það hafa verið fyrsta utanför íslensks knattspyrnuliðs. Axel Andrésson þáverandi formaður Víkings var þjálfari en einnig dómari í ferðinni. Víkingarnir Tómas Pétursson og Þórir Kjartansson voru meðal leikmanna. Íslenska liðið vann alla þrjá leiki sína í ferðinni, samtals 8-0. Tómas Pétursson skoraði fyrsta mark Íslendings í opinberum kappleik á erlendri grund en markið setti hann gegn Havnar Bóltfelag.

Árangursríkt félagsstarf (1938-1946)

breyta

Veturinn 1937-1938 fengu Víkingar afnot af gamla Tjarnarbíói, sem áður var íshús, og æfðu fótbolta á moldargólfi. Um sumarið enduðu Víkingar í 2. sæti á Íslandsmóti.

Árið 1938 hófust æfingar í handknattleik í Víkingi. Víkingur sá um framkvæmd fyrsta Íslandsmótsins árið 1940. Mótið var haldið í íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar, en það var stærsta íþróttahús Reykjavíkur í þá daga. Víst er að það hamlaði áætlunum Víkinga um sigur í mótinu að nokkrir þeirra, svo sem Brandur Brynjólfsson og Björgvin Bjarnason léku, að beiðni rektors, með liði Háskóla Íslands sem varð í öðru sæti. Vonir stóðu til að árangur sterks lið Háskólans gæti haft þau áhrif að framkvæmdum við íþróttahús Háskólans yrði flýtt. Það var svo árið 1945 sem fyrsta Reykjavíkurmótið fór fram í bragganum á Hálogalandi, en hann var áður í eigu bandaríska hersins og kallaðist þá Andrew's Hall. Víkingur sendi tvö stúlknalið til keppni á þessu móti.[8]

Skíðaskáli Víkings í Sleggjubeinsskarði var vígður 29. október 1944 að viðstöddum fjölmörgum gestum. Í Morgunblaðinu var honum lýst þannig að hann standi „ á mjög fallegum stað við bestu skíðabrekkur og það er ekki meira en 15 mínútna gangur upp í Innstadal, en þar er, sem kunnugt er, besta skíðaland í nágrenni Reykjavíkur. Frágangur skálans er allur hinn vandaðasti. Hafa nokkrir Víkingsfjelagar sýnt fádæma dugnað við að koma skálanum upp og margir velunnarar fjelagsins hafa sýnt fórnfýsi og lagt til bæði vinnu og fjárframlög til skálabyggingarinnar.“

Víkingurinn Brandur Brynjólfsson var fyrsti fyrirliði Íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Fyrsti landsleikurinn fór fram árið 1946 gegn Dönum en ásamt Brandi tóku Víkingarnir Haukur Óskarsson og Anton Sigurðsson þátt í leiknum.

Guðjón Einarsson, sem lengi var formaður félagsins, öðlaðist fyrstur Íslendinga réttindi sem milliríkjadómari árið 1946.[7]
Agnar Klemens Jónsson, einn af gullaldarmarkvörðum Víkings, var kjörinn fyrsti formaður KSÍ árið 1947 en hann var lengi sendiherra og ráðuneytisstjóri.
Víkingurinn Árni Árnason var kosinn fyrsti formaður HSÍ sem var stofnað árið 1957.[9]

Starfsumhverfi og félagsaðstaða

breyta

Suðurgata (1946-1950)

breyta

Fyrstu 40 árin í sögu Víkings hafði félagið ekki yfir eigin félagsaðstöðu að ráða, að undanskildum skíðaskálanum í Sleggjubeinsskarði frá árinu 1944. Víkingstrákarnir áttu fyrstu árin flestir heima á Suðurgötu, Tjarnargötu og neðsta hluta Túngötu, í hjarta bæjarins. Víkingar iðkuðu íþrótt sína gjarnan fyrstu árin á Gulllóðinni sem svo var kölluð. Þar stendur nú hús Oddfellow-reglunnar. Nýjabæjartúnið var sömuleiðis vinsæll vettvangur til knattspyrnuiðkunar.[7]

Fyrsti samastaður Víkinga var fyrrverandi Iglo officers club í Camp Tripoli á Suðurgötu, sem félagið tók á leigu fyrir félagsheimili á árunum 1946-1950 eftir gefin loforð um landspildu sunnan Háskólans. Herbragginn var félagsstarfinu lyftistöng um tíma því fyrstu áratugina í sögu félagsins höfðu fundir verið haldnir á hinum ýmsu stöðum og íþróttaaðstaða engin. Bragginn var hluti af svokölluðum Trípólíkamp, sem var braggahverfi frá stríðsárunum og stóð umhverfis Loftskeytastöðina á Melunum og þar vestur af, annars staðar er staðsetningu braggans lýst þannig að hann hafi staðið á Grímsstaðaholti við Fálkagötu. Grímsstaðaholt er skilgreint sem svæðið sunnan Melanna og vestan Vatnsmýrar og Skerjafjarðar. Það er kennt við býlið Grímsstaði sem stóð þar sem síðar reis Ægisíða 62. Í öðrum bragganna var rekið „Trípolí-bíó“ í umsjón Tónlistarfélags Reykjavíkur.

Víkingi var síðar úthlutað félagssvæði að Njarðargötu í Vatnsmýri ásamt Íþróttafélagi Reykjavíkur en svæðið þótti óhentugt, ekki síst vegna nábýlis við flugvöllinn og var fljótlega farið að líta eftir fýsilegri staðsetningum innan Reykjavíkur. Svæðið þótti þröngt, en þar átti bæði að vera félagsheimili Víkings og einn eða tveir fótboltavellir. Víkingur og ÍR tókust á um mörk á milli svæða félaganna og jafnvel var talað um samstarf félaganna tveggja um nýtingu svæðisins.

Um málefni framtíðarsvæðis Víkinga á aðalfundi félagsins árið 1952 á Gunnlaugur Lárusson, gjaldkeri, að hafa mælt eitthvað á þessa leið: „Svæðið í Vatnsmýrinni er ónothæft – ekki vegna stærðarinnar, heldur vegna staðarins. Ég legg til og mæli eindregið með, að athugað verði strax hvort annað svæði í einu af nýju úthverfum bæjarins sé fáanlegt. Þar mundi Víkingur koma til með að verða þróttmikið hverfisfélag, sem að fáum árum liðnum stæði jafnfætis bestu félögum þessa bæjar“.[10]

Skiptar skoðanir voru í félaginu á þessu frumkvæði Gunnlaugs og vildu sumir halda ótrauðir áfram í Vatnsmýrinni. Fannst sumum erfitt að „aristókratafélag“ í miðbænum flytti austar - á svæði sem í þá daga hefði talist úthverfi bæjarins. Þeim fannst það svo fjarlægt upphafinu og gerðu sér auk þessi ekki grein fyrir nauðsyn þess að fá nýtt blóð inn í félagið, en í miðbænum var þá orðið fátt eftir af ungu fólki til að efla starfið. Eftir miklar umræður var tillaga Gunnlaugs samþykkt.

Hæðargarður (1953-1976)

breyta

Straumhvörf urðu fyrir félagið þann 27. febrúar 1953 þegar Borgarráð Reykjavíkur samþykkti að úthluta Víkingi félagssaðstöðu milli Hæðargarðs og Breiðagerðisskóla í Smáíbúðahverfinu sem þá var í hraðri og mikilli uppbyggingu. Þá um haustið tók Axel Andrésson fyrstu skóflustungu að félagsheimili Víkings við Hæðargarð þar sem varð ný vagga félagsins. Óli Flosa lýsir aðdragandanum með eftirtektaverðum hætti í minningarbrotum sínum: „Okkur spekingunum hafði ætíð yfirsézt aðalvandamálið, ég vil segja eina vandamálið. Við höfðum grafið of djúpt, það lá nefnilega á yfirborðinu, rétt við tærnar á okkur, og 20 árum hafði verið eytt í að berjast við vindmyllur. Við áttum nóg af forystumönnum. Okkur vantaði íþróttafólk í öllum aldursflokkum. Vandamál Víkings var mannfæð.“ Ólafur bendir á að allt starf félagsins hafi á einn eða annan hátt verið tengt miðbænum, sem hafi smátt og smátt verið að tæmast af lifandi fólki. Þá á Gunnlaugur Lárusson að hafa mælt svo: „Fólkið kemur ekki til okkar. Ef félagið á að lifa verðum við að fara til þess.“

Víkingur sendi í fyrsta skipti kvennalið til keppni í handbolta veturinn 1957–1958. Brynhildur Pálsdóttir var einn leikmanna og fyrirliði liðsins og rifjar upp í Víkingsbókinni „Áfram Víkingur“ að þær höfðu aðeins æft í einn mánuð þegar þær hófu keppni. Þær enduðu eigi að síður í úrslitum á mótinu gegn Ármanni, en biðu lægri hlut. „Andinn innan félagsins var mjög skemmtilegur, mikil samheldni og fólk taldi ekki eftir sér að vinna þau verk, sem vinna þurfti. Að vísu var þetta ekki stór hópur, en þeim mun samhentari. Um helgar var það skíðaskálinn með sínum ævintýrum og síðan handboltinn virka daga,“ segir Brynhildur í Víkingsbókinni. Ári síðar, 1959, fór kvennalið Víkings í handbolta í keppnisferð til Færeyja og mun þetta hafa verið fyrsta keppnisför handboltaliðs úr Víkingi til útlanda. Farið var með farþegaskipinu Dronning Alexandrine. Móttökur voru einstaklega góðar en búið var á einkaheimilum. Víkingskonur hrepptu sinn fyrsta titil þegar þær urðu Reykjavíkurmeistarar árið 1970.

Rósmundur Jónsson var fyrstur Víkinga til að vera valinn í landsliðið í handknattleik, en árið 1963 var hann valinn í landsliðið sem útileikmaður. Tólf árum síðar, eða árið 1975, var hann á ný kominn í landsliðið, en þá í stöðu markvarðar. Af kvenfólkinu varð Rannveig Laxdal fyrst Víkinga til að leika í landsliði í meistaraflokki. Í kjöri um íþróttamann ársins 1971 varð Gunnar Gunnarsson, fyrirliði Víkings, í tíunda sæti og varð hann fyrstur Víkinga til að komast í þann hóp.

Árið 1963 fékk Víkingur amerísku söngsveitina Delta Rhythm Boys hingað til lands og stóð til að þeir héldu ferna tónleika. Fljótlega seldist upp á tónleikana og tókst skipuleggjendum að fá þá til að halda tvo tónleika til viðbótar. Tveimur árum síðar, í febrúar 1965, kom sjálfur Louis „Satchmo“ Armstrong, eitt stærsta nafnið í sögu jazz-tónlistar, til Íslands á vegum Víkings. Ólafur P. Erlendsson hafði veg og vanda af þessum heimsóknum ásamt knattspyrnudeild. Armstrong hélt ferna tónleika og var vitaskuld troðfullt á þá alla.

Það bar til tíðinda á Íslandsmóti í knattspyrnu árið 1970 að Jóhann Gíslason varði frá Þórði Þórðarsyni og varð fyrstur til að verja vítaspyrnu í deildaskiptu Íslandsmóti. Jóhann átti síðar eftir að verða þekktur handknattleiksmaður og fékk viðurnefnið „skotharði vélstjórinn“

Árið 1971 varð Víkingur bikarmeistari í knattspyrnu undir stjórn Eggerts Jóhannessonar, en lið úr næst efstu deild hafði ekki áður unnið þennan eftirsótta titil. Jón Ólafsson skoraði í úrslitaleiknum gegn Breiðabliki. Í Morgunblaðinu var markið sagt „stórkostlega fallegt“ og í Vísi sagði Hallur Símonarson að þetta hefði verið „eitthvert fallegasta skallamark“ sem hann hefði séð. Þá sigraði liðið einnig næst efstu deild árið 1971 - sigraði 12 af 14 leikjum sínum og fékk einungis á sig 5 mörk. Hafliði Ragnarsson var markakóngur með 20 mörk.

Þrjár nýjar deildir voru stofnaðar innan félagsins sumarið 1973, badminton-, blak- og borðtennisdeildir. Allar náðu þær sér vel á strik á næstu árum, Víkingur eignaðist Íslandsmeistara í greinunum þremur og í mörg ár kom íþróttamaður Víkings úr röðum borðtennismanna.

Fossvogur (síðan 1976)

breyta

Fyrstu umræður og fundir með fulltrúum Reykjavíkurborgar um útivistar- og íþróttasvæði til handa félaginu í Fossvogi fóru fram árið 1973. Það var þó ekki fyrr en félagið fær úthlutað svæði að Traðarlandi í Fossvogi árið 1976 að farið er að byggja upp íþróttaaðstöðu og félagsheimili, til handa kynslóðum framtíðarinnar. Byrjað var að ræsa fram svæðið og girða árið 1981 og rúmum þremur árum síðar gátu iðkendur loks hafið æfingar á grasi í Fossvoginum.

Víkingur varð Íslandsmeistari í handknattleik karla í fyrsta sinn árið 1975 og í hönd fóru glæsileg ár í handboltasögu félagsins. Árið 1978 sigraði Víkingur bikarkeppnina í handbolta í fyrsta skipti og aftur ári seinna eða árið 1979.

Víkingar unnu það frækilega afrek, undir stjórn Bogdan Kowalczyk, að verða Íslandsmeistarar fjögur ár í röð árin: 1980, 1981, 1982, 1983. Sigruðu þeir einnig árin 1986 og 1987. Þá urðu Víkingar bikarmeistarar fjögur ár í röð frá 1983-1986. Karl Benediktsson stýrði liðinu að bikartitlinum árið 1985 og Árni Indriðason árið 1986. Þriðji Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu skilaði sér heim árið 1981 eftir 57 ár bið, eða allt frá árinu 1924 og sá fjórði kom einungis ári seinna, árið 1982 Þjálfari liðsins var Sovétmaðurinn Youri Sedov.

Undir stjórn Loga Ólafssonar þjálfara urðu Víkingar Íslandsmeistarar í knattspyrnu karla í fimmta skiptið í sinni sögu árið 1991. Ótrúleg spenna var í Íslandsmótinu þetta ár, og þá sérstaklega í lokaumferðinni, en Víkingar tryggðu sér titilinn í lokaleiknum gegn Víði í Garði.

Víkingur varð Íslandsmeistari í handbolta kvenna í fyrsta skipti árið 1992 og einnig bikarmeistari undir stjórn Gústafs Björnssonar. Stúlkurnar urðu einnig Íslandsmeistarar árin 1993 og 1994 og að auki bikarmeistarar seinna árið undir stjórn Theodórs Guðfinnssonar.

Framkvæmdir við íþróttahúsið í Fossvogi voru þegar hafnar í febrúar árið 1991. Húsið og sambyggt félagsheimili voru tekin í notkun í október sama ár. Víkingshúsið fékk nafnið Víkin eftir þeim stað sem víkingar til forna lögðu skipum sínum, söfnuðu kröftum, öfluðu vista og æfðu vopnfimi. Í Víkinni er að finna sali til innanhússíþrótta af ýmsu tagi og á vallarsvæðinu er knattspyrnuvöllurinn með stúku sér við hlið, grasvellir til æfinga og tennisvellir Víkingsstúkan var vígð árið 2004 og tekur um 1200 manns í sæti. Þá var fyrst tekið til æfinga á nýlögðum gervigrasvelli til æfinga á svæði félagsins sumarið 2009.[11]

Vorið 2018 samdi Víkingur við Reykjavíkurborg um lagningu gervigrass á keppnisvöll meistaraflokks karla og kvenna í Víkinni. Borgarráð samþykkti að bjóða framkvæmdina út við lok ársins og lauk þeim í júnímánuði árið 2019. Jafnframt samþykkti Borgarráð sam­hljóða að ganga til samn­inga við Vík­inga um að taka við rekstri íþrótta­mann­virkja í Safa­mýri eftir að Fram flutti sig um set á svæði sitt í Úlfarsárdal sem hefur verið í uppbyggingu síðustu ár. Litið var sérstaklega til sterkr­ar framtíðar­sýn­ar fé­lags­ins fyr­ir Safa­mýr­ina[12] Í nú­ver­andi hverfi Vík­ings eru um 9.000 íbú­ar og sam­kvæmt áætl­un­um munu þeir verða 14.500 miðað við nýja hverfa­skipt­ingu.[13]

Aðsóknarmet á Víkingsvelli var slegið þann 15. ágúst 2019 þegar karlaliðið lék gegn Breiðablik í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Fjöldi áhorfenda var að minnsta kosti 1.848 en fyrra met var sett gegn Val árið 2015 í Úrvalsdeildinni, voru þá 1.747 áhorfendur mættir.[14][15]

Þann 14.september árið 2019 urðu Víkingar bikarmeistarar í knattspyrnu karla eftir frækinn 1-0 sigur gegn FH á Laugardalsvelli. Óttar Magnús Karlsson skoraði mark Víkinga. Þetta er annar bikarmeistaratitillinn í sögu knattspyrnudeildar og sá fyrsti í 48 ár, síðan 1971.

Í lok september árið 2019 var ákveðið að slíta sam­starfi við HK um rekst­ur meist­ara­flokks HK/Víkings, 2. flokks og 3. flokks kvenna í knatt­spyrnu sem hef­ur staðið sam­fleytt frá alda­mót­um.[16] Meistaraflokkur Víkings mun því taka þátt í 1.deild kvenna árið 2020.

Leiktímabilið 2021 unnu Víkingar það frækilega afrek að verða tvöfaldir meistarar í knattspyrnu karla undir stjórn þjálfarans Arnars Gunnlaugssonar. Víkingsliðið sigraði þá í efstu deild karla í sjötta sinn í sögunni og enduðu þar með 30 ára bið Víkinga eftir Íslandsmeistaratitlinum. Daninn knái, Nikolaj Hansen, var kjörinn leikmaður Íslandsmótsins af leikmönnum og þjálfurum en hann var langmarkahæsti leikmaður mótsins með 16 mörk í 21 leik. Kristall Máni Ingason var kjörinn efnilegasti leikmaðurinn og Arnar Gunnlaugsson þjálfari Íslandsmótsins. Þá sigraði Víkingsliðið einnig Bikarkeppnina og varði jafnframt bikarmeistaratitilinn frá árinu 2019, Mjólkurbikarinn. Bikarmeistaratitillinn er sá þriðji í sögu félagsins en 50 ár höfðu liðið frá fyrsta sigri liðsins í keppninni.

Búningur og merki félagsins

breyta
 • Víkingar hafa leikið í rauð- og svart röndóttum búningum allt frá stofnun félagsins. Til vara er leikið í svörtum búningum með með útfærðum rauðum línum.[17]
 • Þess ber að geta að á árunum í kringum 1950 var um tíma leikið í rauðum buxum og hvítum peysum, m.a. til að leikmenn sæjust betur í flóðljósunum á Melavellinum.[18]
 • Í forgrunni á merki Víkings er 19. aldar leðurbolti á hvítum skildi með rauðum og svörtum röndum í miðju.
 • Þorbjörn Þórðarson málarameistari, sem var formaður Víkings árin 1943-1944, hannaði Víkingsmerkið sem þykir stílhreint og fallegt.[7]

Þjónustusvæði félagsins

breyta
 
Kort sem sýnir þjónustusvæði félagsins. Víkingshverfin eru blálituð.


Megin þjónustusvæði félagsins afmarkast af Fossvogsdal, Kringlumýrarbraut, Suðurlandsbraut og Reykjanesbraut.

Til Víkingshverfanna teljast: Háaleiti, Múlar, Kringla, Bústaðir, Fossvogur, Smáíbúðahverfið og Blesugróf.

Viðskeyti íbúagatna í hverfunum eru meðal annars: Endar, Fen, Garðar, Gerði, Grófir, Leiti, Lönd, Múlar, Mýrar og Vegir.

Grunnskólar í hverfunum eru eftirtaldir: Breiðagerðisskóli, Fossvogsskóli, Réttarholtsskóli, Hvassaleitis- og Álftamýrarskóli.

Mannfjöldi innan þjónustusvæðis félagsins er talinn liggja einhversstaðar á bilinu 14-15.000


Samfélög Víkinga

breyta

Vikingur.is

breyta

Víkingar halda úti vinsælli vefsíðu þar sem finna má allar helstu upplýsingar tengdar félaginu: http://www.vikingur.is

Söguvefur Víkinga

breyta

Þann 21. apríl 2018 fögnuðu Víkingar þeim áfanga að 110 ár hafi liðið frá því að Knattspyrnufélagið Víkingur var stofnað í miðbæ Reykjavíkur.

Á þeim merkilegu tímamótum var Söguvef Víkings hleypt af stokkunum á slóðinni: http://soguvefur.vikingur.is/.

Áfram verður unnið að skráningu efnis og eru Víkingar og aðrir áhugamenn hvattir til að leggja söguvefnum til efni, bæði myndir og minningar. Söguvefur Víkings á að vera lifandi og stöðugt á að uppfæra hann og bæta við nýjum upplýsingum um félagið og fólkið sem staðið hefur að baki félaginu frá upphafi og fram á þennan dag.

Stuðningslög

breyta

Í tilefni af 100 ára afmæli félagsins árið 2008 efndi stuðningsmannafélag Víkinga til sönglagakeppni vegna stuðningslags Víkings.
Víkingslagið - Við viljum sigur í dag! er samið af Stefáni Magnússyni og Frey Eyjólfssyni. Þeir félagar flytja lagið saman og það er Freyr sem syngur.

Víkings Podcastið - Hlaðvarp

breyta

Á vormánuðum 2019 hleyptu stuðningsmenn Víkings af stokkunum hlaðvarpsútgáfu um málefni knattspyrnudeildar: https://soundcloud.com/vikings-podcastid/tracks.

Titlasaga knattspyrnudeildar

breyta

Meistaraflokkur karla

breyta

annað sæti (7): 1918, 1921, 1922, 1925, 1938, 1940, 1948

annað sæti (4): 1998, 2003, 2005, 2013

annað sæti: 1967

annað sæti: 1992

Íslandsmeistarar innanhúss (2): 1977, 1981
Vormeistarar (1): 1951

Meistaraflokkur kvenna

breyta

Titlasaga Handknattleiksdeildar

breyta

Meistaraflokkur karla

breyta

Meistaraflokkur kvenna

breyta

Íþróttamaður Víkings

breyta
Ár Íþróttamaður Deild
1991 Atli Helgason Knattspyrnudeild
1992 Inga Lára Þórisdóttir Handknattleiksdeild
1993 Bjarki Sigurðsson Handknattleiksdeild
1994 Guðmundur Stephensen Borðtennisdeild
1995 Halla María Helgadóttir Handknattleiksdeild
1996 Guðmundur Stephensen Borðtennisdeild
1997 Birgir Sigurðsson Handknattleiksdeild
1998 Guðmundur Stephensen Borðtennisdeild
1999 Guðmundur Stephensen Borðtennisdeild
2000 Helga Torfadóttir Handknattleiksdeild
2001 Guðmundur Stephensen Borðtennisdeild
2002 Guðmundur Stephensen Borðtennisdeild
2003 Daníel Hjaltason Knattspyrnudeild
2004 Bjarki Sigurðsson Handknattleiksdeild
2005 Guðmundur Stephensen Borðtennisdeild
2006 Viktor Bjarki Arnarsson Knattspyrnudeild
2007 Guðmundur Stephensen Borðtennisdeild
2008 Guðmundur Stephensen Borðtennisdeild
2009 Diego Björn Valencia Karatedeild
2010 Helgi Sigurðsson Knattspyrnudeild
2011 Brynjar Jökull Guðmundsson Skíðadeild
2012 Kristján Helgi Carrasco Karatedeild
2013 Ingvar Þór Kale Knattspyrnudeild
2014 Igor Taskovic Knattspyrnudeild
2015 Ægir Hrafn Jónsson Handknattleiksdeild
2016 Óttar Magnús Karlsson Knattspyrnudeild
2017 Magnús Kristinn Magnússon Borðtennisdeild
2018 Tinna Óðinsdóttir Knattspyrnudeild
2019 Sölvi Geir Ottesen Knattspyrnudeild
2020 Hilmar Snær Örvarsson Skíðadeild
2021 Kári Árnason Knattspyrnudeild
2022 Nevena Tasic Borðtennisdeild
Júlíus Magnússon Knattspyrnudeild

Leikjahæstir í mfl karla knattspyrna

breyta

Leikjahæsti leikmaður í sögu Víkings er Magnús Þorvaldsson en á sínum glæsta ferli spilaði hann 351 leik fyrir félagið. Jóhannes Bárðarson lék 314 leiki fyrir Víkinga.

Í núverandi leikmannahópi er Halldór Smári reyndastur með 380 leiki, Dofri Snorrason á að baki 185 leiki, Davíð Örn Atlason 140 leiki og Sölvi Geir Ottesen 82 leiki.

Leikjafjöldi Leikmaður
380   Halldór Smári Sigurðsson
351   Magnús Þorvaldsson
314   Jóhannes Bárðarson
273   Diðrik Ólafsson
251   Daníel Hjaltason
219   Sigurjón Þorri Ólafsson
212   Egill Atlason
206   Jón Ólafsson
200   Atli Einarsson
193   Björn Bjartmarz
192   Aðalsteinn Aðalsteinsson
192   Gunnar Örn Kristjánsson
192   Ragnar Gíslason
187   Eiríkur Þorsteinsson
187   Hörður Theódórsson
185   Dofri Snorrason
181   Lárus Huldarsson
171   Bjarni Lárus Hall
167   Heimir Karlsson
166   Atli Helgason
166   Jóhann Þorvarðarson
165   Haukur Armin Úlfarsson
160   Ívar Örn Jónsson
160   Kristján Jóhannes Magnússon
159   Gunnar Örn Kristjánsson
154   Ómar Torfason
153   Hafliði Pétursson
153   Þórður Marelsson
151   Milos Glogovac
145   Trausti Ívarsson
142   Kjartan Dige Baldursson
142   Óskar Tómasson
142   Þorvaldur Sveinn Sveinsson
140   Andri Marteinsson
140   Davíð Örn Atlason
134   Sumarliði Árnason
133   Ögmundur Kristinsson
132   Sigurður Egill Lárusson
128   Tómas Guðmundsson
126   Bjarni Gunnarsson
126   Ingvar Þór Kale
126   Stefán Halldórsson
126   Viktor Bjarki Arnarsson
126   Ögmundur Viðar Rúnarsson
124   Marteinn Guðgeirsson
122   Hólmsteinn Jónasson
120   Hörður Sigurjón Bjarnason
119   Höskuldur Eiríksson
119   Valur Adolf Úlfarsson

Leikjahæstar í mfl kvenna knattspyrna

breyta

Leikmenn meistaraflokks knattspyrna

breyta

Mfl. karla í knattspyrnu 2022

breyta

Ath: Fánar eru tákn fyrir það þjóðerni sem skráð eru hjá FIFA. Leikmenn gætu haft fleiri en eitt ríkisfang.

Nú. Staða Leikmaður
1   GK Ingvar Jónsson
3   DF Logi Tómasson
19   MF Axel Freyr Hardarson
12   DF Halldór Smári Sigurðsson
7   MF Erlingur Agnarsson
8   DF Sölvi Ottesen
9   FW Helgi Gudjónsson
13   MF Viktor Örlygur Andrason
16   GK Thórdur Ingason
17   DF Atli Barkarson
22   MF Karl Fridleifur Gunnarsson
Nú. Staða Leikmaður
11   MF Adam Pálsson
20   MF Júlíus Magnússon
21   DF Kári Árnason
10   MF Pablo Punyed
23   FW Nikolaj Hansen
80   MF Kristall Máni Ingason
27   DF Tómas Guðmundsson
28   DF Halldór Thórdarson
77   MF Kwame Quee
6   GK Uggi Jóhann Auðunsson

Mfl. kvenna í knattspyrnu

breyta

Stjórn og þjálfarateymi

breyta

Knattspyrnudeild karla

breyta
 • Þjálfari: Arnar Gunnlaugsson
 • Aðstoðarþjálfari: Sölvi Geir Ottesen
 • Markmannsþjálfari: Hajrudin Cardaklija
 • Styrktarþjálfari: Guðjón Örn Ingólfsson
 • Sjúkraþjálfari: Rúnar Pálmarsson
 • Liðsstjóri: Þórir Ingvarsson
 • Framkvæmdastjóri: Haraldur V. Haraldsson
 • Fjölmiðlafulltrúi: Jakob Örn Heiðarsson
 • Verkefnastjóri: Benedikt Sveinsson
 • Íþróttastjóri: Ívar Orri Aronsson
 • Vallarstjóri: Örn I. Jóhannsson
  • Stjórnarformaður: Heimir Gunnlaugsson
  • Varaformaður: Sverrir Geirdal
  • Gjaldkeri: Valdimar Sigurðsson
  • Stjórnarmaður: Hrannar Már Gunnarsson
  • Stjórnarmaður: Katla Guðjónsdóttir
  • Stjórnarmaður: Tryggvi Björnsson
  • Stjórnarmaður: Guðjón Guðmundsson
  • Stjórnarmaður: Berglind Bjarnadóttir
  • Stjórnarmaður: Guðmundur Auðunsson
  • Stjórnarmaður: Kári Þór Guðjónsson

[17]

Knattspyrnudeild kvenna

breyta

Tilvísanir

breyta
 1. „Víkingsvöllur - Knattspyrnusamband Íslands“. www.ksi.is.
 2. „Um Víking“. www.vikingur.is.
 3. „Víkin“. www.vikingur.is.
 4. „Íþróttanámskrá Vikings“. www.vikingur.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. maí 2019. Sótt 12. maí 2019.
 5. „1908-1919 – VÍKINGUR SÖGUVEFUR“.
 6. Háskólabókasafn, Landsbókasafn Íslands-. „Timarit.is“. timarit.is.
 7. 7,0 7,1 7,2 7,3 „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. mars 2016. Sótt 15. apríl 2015.
 8. „Meistarar“. www.mbl.is.
 9. http://www.ksi.is/frettir/nr/11679[óvirkur tengill]
 10. „1951-1960 – VÍKINGUR SÖGUVEFUR“.
 11. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. mars 2015. Sótt 7. apríl 2015.
 12. „Víkingur tekur við íþróttamannvirkjum í Safamýri“. www.vikingur.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. október 2019. Sótt 2. október 2019.
 13. „Víkingur tekur við Safamýri“. www.mbl.is. Sótt 2. október 2019.
 14. „Leikskýrsla: Víkingur R. - Valur - Knattspyrnusamband Íslands“. www.ksi.is. Sótt 7. október 2019.
 15. „Leikskýrsla: Víkingur R. - Breiðablik - Knattspyrnusamband Íslands“. www.ksi.is. Sótt 7. október 2019.
 16. „HK og Víkingur slíta samstarfinu“. www.mbl.is. Sótt 7. október 2019.
 17. 17,0 17,1 http://www.ksi.is/um-ksi/adildarfelog/adildarfelag/?Felag=103
 18. „1971-1980 – VÍKINGUR SÖGUVEFUR“ (bandarísk enska). Sótt 25. september 2019.

Tenglar

breyta
 
Íslandsmeistarar karla í knattspyrnu 
 
  KR (26)  •   Valur (23)  •   Fram (18) •   ÍA (18)
  FH (8)  •   Víkingur (7)  •  Keflavík (4)  •   ÍBV (3)  •   KA (1)  •   Breiðablik (1)
  Olís deild karla • Lið í Olís deild karla 2015-2016.  

  Afturelding  •   Akureyri  •   FH  •   Fram  •   Haukar
  Grótta  •   ÍBV  •   ÍR  •   Víkingur  •   Valur