Brandur Brynjólfsson

Brandur Brynjólfsson (f. 21. desember 1916 - d. 27. júlí 1999) var fyrsti fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu sem keppti gegn Dönum á Melavelli árið 1946.
Foreldrar hans voru Brynjólfur Kjartansson skipstjóri í Reykjavík og Ingveldur Brandsdóttir húsfreyja.

Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1937 og cand. juris. frá Háskóla Íslands árið 1943 og rak eigin lögmannsstofu í Reykjavík frá 1946.
Brandur tók alla tíð virkan þátt í íþrótta- og félagsstarfi Knattspyrnufélagsins Víkings og var formaður félagsins um hríð.

Brandur lék knattspyrnu með Víkingi frá 1933–1947 og var lengi fyrirliði liðsins og landsliðs Íslands.
Brandur var valinn knattspyrnumaður Reykjavíkur 1938 í skoðanakönnun sem Alþýðublaðið stóð fyrir.

Hann þótti ekki síðri handknattleiksmaður og sundmaður. Þá átti hann bestan árangur í spretthlaupum á tímabili og hljóp 100 metra á 10,9 sekúndum.
Einnig fékkst Brandur við þjálfun og árið 1940 þjálfaði hann alla flokka Víkings. [1]

  1. http://soguvefur.vikingur.is/?page_id=536