Agnar Klemens Jónsson
Agnar Klemens Jónsson (13. október 1909 - 14. febrúar 1984) var íslenskur lögfræðingur, sendiherra og ráðuneytisstjóri. Agnar gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum og var m.a. fyrsti formaður Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ).
Fjölskylda
breytaAgnar Klemens var sonur hjónanna Klemens Jónssonar landritara og Önnu Maríu Schiöth. Eiginkona Agnars var Ólöf Bjarnadóttir dóttir sr. Bjarna Jónssonar vígslubiskups og konu hans Áslaugar Ágústsdóttur.[1] Agnar og Ólöf eignuðustu fjögur börn, Bjarna Agnarsson (1945-1946), Önnu Agnarsdóttur (f. 1947), Áslaugu Agnarsdóttur (f. 1949) og Bjarna Agnar Agnarsson (f. 1952).[2]
Æviágrip
breytaAgnar lauk laganámi frá Háskóla Íslands árið 1933[3] og fór í kjölfarið til starfa í dönsku utanríkisþjónustunni og starfaði innan hennar til ársins 1940 er hann gekk til liðs við hina nýstofnuðu íslensku utanríkisþjónustuna. Hann var ræðismaður Íslands í New York, deildarstjóri og skrifstofustjóri í utanríkisráðuneyti Íslands og var skipaður sendiherra Íslands í Bretlandi og Hollandi árið 1951. Hann var sendiherra Íslands í Frakklandi frá 1958-1961. Árið 1961 var hann skipaður ráðuneytistjóri í utanríkisráðuneytinu og gegndi því embætti til ársins 1969 er hann var skipaður sendiherra í Noregi.[1] Síðustu ár starfsævinnar var hann sendiherra Íslands í Danmörku.
Árið 1947 var Agnar kjörinn fyrsti formaður Knattspyrnusambands Íslands en hann lék knattspyrnu með Knattspyrnufélaginu Víking um langt skeið í stöðu markvarðar. Hann var ritari utanríkismálanefndar frá 1943-1951 og átti sæti í sendinefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum um skeið. Hann var sæmdur heiðursmerkjum margra þjóða og hlaut m.a. riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1946, stórriddarakross árið 1947 og stórriddarakross með stjörnu árið 1957.
Mörg rit liggja eftir Agnar, m.a. Lögfræðingatal og Stjórnarráð Íslands 1904-1964.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „Agnar Klemens Jónsson látinn“, Morgunblaðið, 15. febrúar 1984 (skoðað 4. október 2019)
- ↑ „Ólöf Bjarnadóttir - minning“, Morgunblaðið, 9. apríl 1999 (skoðað 4. október 2019)
- ↑ „Agnar Kl. Jónsson sendiherra - sjötugur“, Morgunblaðið, 13. október 1979 (skoðað 4. október 2019)