Bárubúð, Báruhúsið eða Báran var samkomuhús Sjómannafélagsins Bárunnar í Reykjavík, reist um eða rétt eftir aldamótin 1900 og var það við Vonarstræti, þar sem Ráðhús Reykjavíkur er nú. Það var helsta tónlistarhúsið í Reykjavík á árunum 1904 og þangað til 1921 þegar Nýja Bíó var reist. Þar fór hljómleikahald fram og þar voru einnig haldnir margs konar fundir, fyrirlestrar, dansleikir og samkomur.

Báran missti frá sér húsið og það fór í einka eign en um 1930 komst það í eigu KR og var þá notað sem íþróttahús. Setuliðið hafði bækistöð í Bárubúð á stríðsárunum og kom þar upp eldur og brann húsið til kaldra kola. Margir fundir voru haldnir í Bárubúð. Þar var fundur um símamálið þegar bændaförin var árið 1905 og árið 1906 var þar stofnfundur Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Margir pólitískir fundir voru haldnir í húsinu og hlutaveltur.

Árið 1907 stóð Bríet Bjarnhéðinsdóttir fyrir almennum borgarafundi þar um jafnan rétt kynjanna til bæjarstjórnarkosninga. Á fundinum mæltu meðal annars Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri, og Guðmundur Björnsson, landlæknir.

Bárubúð brann á árum seinni heimsstyrjaldarinnar og var húsið rifið árið 1945.

Tenglar

breyta
   Þessi Reykjavíkurgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.