Axel Andrésson
Axel Andrésson (f. 22. nóvember 1895 - d. 13. júní 1961)[1] var helsti hvatamaðurinn að stofnun Knattspyrnufélagsins Víkings og einn af brautryðjendum knattspyrnuíþróttarinnar á Íslandi. Hann var sonur Andrésar Andréssonar verslunarmanns og Kristínar Pálsdóttur húsmóður.
Æviágrip
breytaAxel heillaðist ungur að knattspyrnu og einlægur íþróttaáhuginn fylgdi honum alla tíð. Hann var aðaldriffjöðurin í starfi Víkings um árabil, var kjörinn fyrsti formaður félagsins árið 1908 og gegndi formennsku samfleytt til 1924 ásamt því að þjálfa marga flokka Víkings. Hann varð síðan aftur formaður Víkings á árunum 1930–1932.
Axel var fyrsti knattspyrnudómarinn í Reykjavík og sinnti hann því starfi í um 15 ár. Hann fór með dómgæslu fyrir hönd Víkinga um árabil. Hann var sá fyrsti til að þreyta dómarapróf í knattspyrnu hjá ÍSÍ - Íþróttasambandi Íslands og stofnaði hann Knattspyrnudómarafélag Reykjavíkur. Íþróttir urðu ævistarfið og var hann alla tíð talsmaður drengilegra átaka á vellinum og lagði mikið upp úr því að kenna mönnum réttar leikreglur. Taldi hann að agi, réttsýni og drengskapur á vellinum fylgdi leikmönnum út í lífið: "Taki einhver liðsmaður upp á því að sýna af sér fantaskap, og ég tala ekki um, ef allt liðið grípur til þess, þá hverfur fegurðin og ljótleikinn tekur við".
Axel hóf sendikennarastarf hjá ÍSÍ árið 1941, aðallega sem knattspyrnukennari og þjálfari og hélt íþróttanámskeið um land allt þar sem aðaláherslan var lögð á knattspyrnu og handknattleik, en einnig fléttað inn boðhlaupi og fleiri greinum. Fljótlega mótaði hann sínar eigin kennsluaðferðir sem þóttu nýstárlegar og taka mjög fram fyrri aðferðum í þessum efnum. Urðu kerfi þessi landskunn, kennd við Axel og kölluð Axelskerfin.
Sjálfur sagði Axel: "Ég setti aðalkerfið saman strax 1941 og handknattleikskerfið árið eftir. Vöggukerfið svokallaða handa yngstu nemendunum setti ég saman 1947. Því kerfi mætti líkja við það þegar börnin eru að læra að stafa, allt undirstöðuatriði. Börnin læra að hlýða og koma vel fram, feimnin hverfur og sjálfstraustið eykst. Keppni kemur fram á öllum stigum kerfisins, en hún er þó ekki markmiðið, heldur drengilegur leikur. Keppendur eru fyrst og fremst allir vinir og félagar".[2]
Þann 4. febrúar 1954 var Axel haldið samsæti í Reykholtsskóla og voru margar ræður haldnar þar.
Einn nemandinn, Þorsteinn frá Hamri - 15 ára gamall, las þar frumort kvæði í virðingarskyni til Axels sem síðar birtist í Morgunblaðinu. Síðustu erindin eru eftirfarandi:
- "Sá æskunnar vin, sem við kveðjum í kvöld,
- og kærasta vinsemd við bárum.
- Hann minnir á fornkappans framfara öld
- og frægð, sem er liðin að árum.
- Sá jöfur er veitti þér þol móti þraut
- og þig lét ei mótlætið baga.
- Hann lýsi þér Axel, á lukkunnar braut,
- og landið mun auðga þín saga."
Tilvísanir
breyta- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. apríl 2015. Sótt 7. apríl 2015.
- ↑ http://www.mbl.is/greinasafn/grein/702754/