Fossvogur
64°07′09″N 21°55′24″V / 64.11917°N 21.92333°VFossvogur er um tveggja kílómetra langur vogur sem gengur til austurs inn úr Skerjafirði. Norðan megin við voginn eru Nauthólsvík, Fossvogskirkjugarður og Öskjuhlíð í Reykjavík, en sunnan megin norðurströnd Kársness í Kópavogi. Bæjarmörk Reykjavíkur og Kópavogs liggja um voginn frá mynni Fossvogslækjar í norðvestur og síðan út miðjan voginn til vesturs.
Fossvogsdalur gengur inn frá voginum og um hann rennur lækur sem fellur í litlum flúðafossi niður í sjó og af honum er talið að dalurinn og vogurinn dragi nafn sitt. Fossvogshverfi er í Fossvogsdal (Reykjavíkurmegin) inn af Fossvogi.
Náttúra og dýralíf
breytaFossvogurinn er í skjóli fyrir hafátt og því gætir þar sjaldan sjáfarágangs. Í honum eru bæði þangvaxin hnullungafjara, aðallega sunnan megin, Kársnesmegin og um sjö hektara fínkornóttar leirur fyrir botni hanns sem myndast hafa við framburð lækjarins ásamt lífrænum leyfum í sjónum. Eins grefur sjórinn stöðugt úr Fossvogsbakkanum sem er í botni hanns og norðan megin og mylur hann niður í fjörunni.
Smádýralíf
breytaVogurinn er grunnur og kemur þangfjarann og leiran alveg úr kafi á stórstraumsfjöru. Bæði leiran og þangið er ríkt af smádýrum svo vogurinn er kjörlendi margra tegundir fugla. Eins er ylur í læknum sem gerir það að verkum að ósinn leggur sjaldnast á vetrum.[1]
Af smádýrum er mest um burstaorma eins sandmaðk á leirunum, eins leiruþrefil, fjölþrefil, lónaþrefil, mottumaðk og roðamaðk. Aðrir algengir hryggleysingjar á leirunni eru marflær, sandskel, smyrslingur og hrukkudúlda.[2]
Í hnullunga og þangfjörunni eru mest áberandi klapparþang, klóþang og bóluþang. Þangið myndar kjörlendi fyrir ýmis smádýr sem fuglar eru sólgnir í eins og snigla, samlokur og krabbadýr. Þar ber mest á sniglum eins og klettadoppu, þangdoppu, fjörudoppu og nákuðungi. Eins samlokur eins og krækling, smádýr eins og þangfló, þanglús og flekkulús og krabbadýrum eins og hrúðurkörlum. Af stærri dýrum eru það bogkrabbi, hrognkelsaseiði og sprettfiskur.[3]
Allt eru þetta smádýr sem vaðfuglar eins og tjaldur, tildra, sandlóa, sendlingur og heiðlóa eru sólgnir í og er töluvert af þeim í fjörunni. Eins sundfuglar eins og stokkendur, æður og álftir, sem og mávategundir eins og hettumávur og kríur.[4][5]
Fuglalíf í Fossvogi
breytaFossvogsleira innst í Fossvogi er um 5,5 hektarar. Mikið fuglalíf er við Fossvoginn og þar eru mest áberandi landfuglar eins og skógarþröstur og stari sem sækja í Fossvogskirkjugarð og Öskjuhlíð og sjó- og fjörufuglar sem nýta voginn sjálfan og Fossvogsleiruna.
Samkvæmt fuglatalningum 2008-2011 voru 40 tegundir fugla í Fossvogi. Tólf algengustu tegundirnar nema 90% þeirra og eru taldar upp eftir fjölda; æðarfugl, heiðlóa, tjaldur, hávella, rauðhöfði, tildra, stari, rauðbrystingur, stelkur, hettumávur, toppönd og hvítmávur.
Einnig reyndist nokkuð af eftirfarandi tegundum; sendlingur, sílamáfur, skógarþröstur, kría, silfurmáfur, margæs, dílaskarfur, sandlóa, hrafn, urtönd, sanderla, duggönd, grágæs, álft og lóuþræll. Sjaldgæfari tegundir voru þúfutittlingur, svartbakur, spói, fýll, teista, maríuerla, lómur, hrafnsönd, jaðrakan, flórgoði, steindepill og himbrimi.[6]
Friðlýst búsvæðavernd
breytaÁrið 2012 var hluti Fossvogs og Kópavogs (það er vogurinn) friðlýst sem búsvæðavernd. Friðlýsta svæði skiptist í tvo hluta, annars vegar eru 39 hektarar í Kópavogi og hinsvegar 24 hektarar í Fossvogi, alls um 63 hektarar. Markmiðið með friðlýsingunni er að vernda lífríki við ströndina, í fjöru og á grunnsævi, þar sem megi finna afar fjölbreytt fuglalíf allan ársins hring. Þá er einnig markmið að vernda útivistar-og fræðslugildi svæðisins.[7]
Fossvogsbakkar
breytaSvæðið við ströndina norðanmegin í Fossvoginum, frá Nauthólsvík inn í botn vogsins að læknum, nefnast Fossvogsbakkar og eru þar merkileg jarðlög, svokölluð Fossvogslög, með steinrunnum skeljum og fleiri dýraleifum frá ísaldarlokum. Ennþá lifa margar þessara tegunda við Ísland í dag og þar á meðal í Fossvoginum, sem dæmi til dæmis smyrslingur, hallloka, beitukóngur, hrúðurkarlar, svo ætla má að á þeim tíma sem þau mynduðust hafi verið svipað hitastig og nú er. Fossvogsbakkar voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1999.[8]
Tilvísanir
breyta- ↑ „Fossvogur - upplýsingaskilti“ (PDF). kopavogur.is. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 11. september 2016. Sótt 10. febrúar 2013.
- ↑ „Fossvogur - upplýsingaskilti“ (PDF). kopavogur.is. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 11. september 2016. Sótt 10. febrúar 2013.
- ↑ „Fossvogur - upplýsingaskilti“ (PDF). kopavogur.is. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 11. september 2016. Sótt 10. febrúar 2013.
- ↑ „Fossvogur - upplýsingaskilti“ (PDF). kopavogur.is. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 11. september 2016. Sótt 10. febrúar 2013.
- ↑ „Kópavogsleirur - upplýsingaskilti“ (PDF). kopavogur.is. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 11. september 2016. Sótt 10. febrúar 2013.
- ↑ „Fjöldi og dreifing fugla í Fossvogi“. Náttúrufræðingurinn. Sótt 5. maí 2020.
- ↑ „Aðalskipulag-Kópavogur“ (PDF). Kópavogsbær. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 29. desember 2021. Sótt 18. febrúar 2013.
- ↑ „Kort af friðlýsta svæðinu“ (PDF). Umhverfisstofnun. Sótt 2. ágúst 2012.