Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna

Sérstofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir menntun, vísindi og menningu
(Endurbeint frá UNESCO)

Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (eða UNESCO af enska heitinu United Nations Educations, Scientific and Cultural Organization) er ein af undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna og heyrir undir Efnahags- og félagsmálaráð. Tilgangur UNESCO er að vinna að því að koma á friði í heiminum og tryggja öryggi íbúa heimsins með því að stuðla að alþjóðlegri samvinnu milli aðildarríkja á sviði mennta-, vísinda- og menningarmála. UNESCO stofnunin var sett á laggirnar árið 1945 í kjölfar lok seinni heimsstyrjaldarinnar á þeim hugmyndum að friði yrði að vera komið á grundvelli siðferðis mannkyns og samstöðu meðal íbúa jarðar. Ísland gerðist síðan aðili að stofnuninni árið 1964.

Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna
Fáni UNESCO.
SkammstöfunUNESCO
Stofnun1946; fyrir 78 árum (1946)
HöfuðstöðvarFáni Frakklands París, Frakklandi
FramkvæmdastjóriAudrey Azoulay
MóðurfélagEfnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna
Vefsíðaunesco.is

Í dag eru 195 ríki aðilar að UNESCO auk níu ríkja sem ekki hafa sjálfstæði. Höfuðstöðvar stofnunarinnar eru í Place de Fontenoy í París, Frakklandi og núverandi aðalframkvæmdarstjóri UNESCO er Frakkinn Audrey Azoulay.

UNESCO vinnur að markmiðum sínum í gegnum mismunandi verkefni sem snúa að menntun, náttúruvísindum, félagsvísindum, menningu og tjáningarfrelsi. Verkefni sem UNESCO vinnur að eru m.a. að útrýma ólæsi og koma á stofn skólum á þeim svæðum þar sem þörf er á. Auk þess vinnur UNESCO að því að styrkja alþjóðlegt vísindastarf og hefur sett á laggirnar fjölmörg verkefni sem snúa að varúðunarráðstöfunum gagnvart náttúruhamförum. UNESCO gerir tilraun til að brúa bil milli ólíkra menningarheima og vinnur að því að varðveita bæði náttúrulega og menningalega staði sem eru hluti af menningararfleið heimsins. Þar spilar Heimsminjaskrá UNESCO sem sett var á laggirnar árið 1972, stórt hlutverk en á þeim lista er að finna finna staði sem teljast sérstaklega merkilegir út frá menningarlegu og/eða náttúrulegu sjónarmiði og eru taldir hluti af menningararfleið mannkyns. Í júlí 2015 voru alls 1031 staðir í heiminum á Heimsminjaskrá UNESCO, þar af tveir á Íslandi: Surtsey og Þingvellir. UNESCO stuðlar auk þess að verndunar tjáningarfrelsins, hvar sem er í heiminum, enda er það hluti af stefnu SÞ að tjáningarfrelsi sé nauðsynlegt skilyrði fyrir lýðræði og sjálfbærri þróun í nútímasamfélagi.

Markmið UNESCO er að vinna að því að koma á friði í heiminum, útrýma sárri fátækt og koma á sjálfbærni í heiminum í gegnum menntun, vísindi, menningu og alþjóðlega samvinnu. UNESCO stofnunin skipar mikilvægan sess í heiminum í dag þegar heimurinn er sífellt að leita nýrra tækifæra og leiða til þess að koma á friði og stuðla að sjálfbærri þróun. Fólk verður að treysta á kraft upplýsingaöflunar til að stuðla að nýsköpun, víkka sjóndeildarhringinn og sjá til þess að við séum ekki skerða tækifæri komandi kynslóða. Stofnun eins og UNESCO er mikilvægur hluti af SÞ vegna þess að það er trú fólks að friður meðal ríkja heimsins og stuðlun að sjálfbærri þróun eru lykilatriði sem verða að vera til staðar til þess að maðurinn geti búið á jörðinni næstu þúsundir ára.

Árið 1998 var Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, skipuð velgjörðarsendiherra hjá UNESCO en Vigdís starfaði í þágu tungumáladeildar stofnunarinnar sem þá hafði nýverið verið sett á laggirnar.

Tengt efni

breyta
   Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.