Þessi grein fjallar um mánuðinn Þorra. Einnig er til mannsnafnið Þorri.

Þorri er fjórði mánuður vetrar í gamla norræna tímatalinu. Upphaf hans mun áður hafa miðast við fyrsta nýja tungl eftir vetrarsólhvörf. Hann hefst á föstudegi í 13. viku vetrar, sem nú er á bilinu 19. til 25. janúar, en var áður 9. til 15. janúar í gamla stíl fyrir 1700. Ef árið á undan er rímspillisár (til dæmis árið 2023) ber fyrsta dag þorra upp á 26. janúar.

Mánaðarheitið þorri kemur fyrir í elsta íslenska rímhandritinu frá lokum 12. aldar og einnig í Staðarhólsbók Grágásar frá 13. öld og í upptalningu mánaðanna í Snorra-Eddu. Margir gömlu mánaðanna í norræna tímatalinu báru mismunandi nöfn eftir heimildum, en þorri hélt alltaf nafni sínu í þeim öllum.[1] Svipað mánaðarheiti þekkist á öðrum Norðurlöndum (t.d. tordmåned í dönsku), en þá sem nafn á janúar og jafnvel mars.

Fyrsti dagur þorra er þekktur sem „bóndadagur“ og er gömul hefð að konur geri vel við eiginmenn sína í mat og drykk á þeim degi. Þorrablót eru skemmtanir sem Íslendingar halda á þorranum og hafa tíðkast frá síðari hluta 19. aldar.

Merking orðsins er ekki ljós og hafa verið settar fram margar kenningar um hana. Helstu tilgátur eru að orðið sé skylt lýsingarorðinu „þurr“, sögninni að „þverra“, nafnorðinu „þorri“ í merkingunni „meginhluti“ og eins að „Þorri“ gæti verið eitt nafna Þórs eða nafn á samnefndum fornkonungi.[2]

Þorri kemur fyrir í einni heimild frá miðöldum sem persónugervingur eða vættur vetrar og þar er einnig minnst á þorrablót. Þetta er í fremur í forneskjulegum þætti sem er á tveimur stöðum í Flateyjarbók, bæði í upphafi Orkneyinga sögu og í þætti sem nefnist Frá Fornjóti og hans ættmennum:

Fornjótr hét maðr. Hann átti þrjá sonu; var einn Hlér, annarr Logi, þriði Kári. Hann réð fyrir vindum, en Logi fyrir eldi, Hlér fyrir sjó. Kári var faðir Jökuls, föður Snæs konungs, en börn Snæs konungs váru þau Þorri, Fönn, Drífa ok Mjöll. Þorri var konungr ágætr. Hann réð fyrir Gotlandi, Kænlandi ok Finnlandi. Hann blótuðu Kænir til þess, at snjóva gerði ok væri skíðfæri gott. Þat er ár þeira. Þat blót skyldi vera at miðjum vetri, ok var þaðan af kallaðr Þorra mánaðr.
   Þorri konungr átti þrjú börn. Synir hans hétu Nórr ok Górr, en Gói dóttir. Gói hvarf á brott, ok gerði Þorri blót mánuði síðar en hann var vanr at blóta, ok kölluðu þeir síðan þann mánað, er þá hófst, Gói.“

— Frá Fornjóti og hans ættmennum[3].

Af þessari frásögn má ráða að nafn Þorra tengist miðjum vetri og að hann hafi verið blótaður þá. Einnig kemur fram nafn næsta mánaðar, Góu, dóttur Þorra (í mörgum frásögnum Gói).[4] Í tíðavísum og Þorrakvæðum frá nýöld er Þorri stundum ávarpaður sem persóna og Góa sögð systir eða dóttir hans. Í kvæði frá 17. öld eftir Bjarna Gissurarson er sagt frá viðurgerningi við Þorra sem er lýst eins og gömlum manni sem kemur gestur á bæinn:

Upp mega brúðir bregða
bráðlega pyttlukorn,
vel skal háttum hegða,
að hýrni karlinn forn;“

— Um Þorra komu og veru hans[5].

Engar aðrar heimildir eru þó til um „þorrablót“ í heiðnum sið og núverandi skemmtanir með þessu heiti voru fyrst haldnar af Íslendingum á 19. öld, þar sem nafnið átti að vísa til glæstrar fortíðar, í anda þjóðernisrómantíkur.[6]

Bóndadagur

breyta
Aðalgrein, sjá Bóndadagur.

Fyrsti dagur þorra er nefndur „bóndadagur“ en sá síðasti „þorraþræll“. Um fyrsta dag þorra segir í bréfi Jóns Halldórssonar í Hítardal (f. 1665) til Árna Magnússonar frá árinu 1728 að sú hefð sé meðal almennings að húsmóðirin fari út kvöldið áður og bjóði þorrann velkominn og inn í bæ, eins og um tignan gest væri að ræða.[7]

Eins segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar að bóndi skyldi bjóða þorra velkominn með eftirfarandi hætti:

... með því að þeir áttu að fara fyrstir á fætur allra manna á bænum þann morgun sem þorri gekk í garð. Áttu þeir aða fara ofan og á skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra skálmina og láta hina lafa og draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkominn í garð eða til húsa. Síðan áttu þeir að halda öðrum bændum úr byggðarlaginu veislu fyrsta þorradag; þetta er „að fagna þorra“.
     Sumstaðar á Norðurlandi er fyrsti þorradagur enn í dag kallaður „bóndadagur“. Á þá húsfreyjan að halda vel til bónda síns og heita þau hátíðabrigði enn „þorrablót“.“

— „Þorri, góa, einmánuður og harpa“[8].

Sumir hafa efast um að sagan um að fara í aðra skálmina og hoppa á öðrum fæti kringum bæinn segi frá raunverulegri hefð. Hugsanlega sé fremur um gamansögu að ræða.[9]

Enn tíðkast sum staðar að konur geri vel við menn sína í mat og drykk á bóndadaginn. Oft geta konur bónda sínum blóm á þessum degi líkt og menn gefa konu sinni blóm á konudaginn, sem er samsvarandi fyrsti dagur góu.

Þorrablót

breyta

Þorrablót eru skemmtanir sem eru haldnar á Íslandi og meðal Íslendinga erlendis á þorra.[10] Þorrablót eru yfirleitt skipulögð af félagasamtökum og sveitarfélögum. Oft eru þetta stórir viðburðir með skemmtikröftum og sérstökum mat, þorramat, sem er íslenskur sveitamatur verkaður á hefðbundinn hátt.[11] Þorrablótin má rekja til skemmtana íslenskra félagasamtaka í Reykjavík og Kaupmannahöfn á ofanverðri 19. öld. Þorramaturinn rekur hins vegar uppruna sinn til skemmtana átthagafélaga í Reykjavík eftir aldamótin 1900. Þar var hann kallaður einfaldlega „íslenskur matur“. Veitingastaðurinn Naustið varð fyrstur til að tengja þennan mat við þorrann og auglýsa „þorramat“ árið 1958.[12] Um svipað leyti, eða eftir miðja 20. öld, var orðið algengt að halda þorrablót utan borgarinnar og víða um land varð þorrablótið aðalsamkoma fólks í héraði. Á þessum þorrablótum hefur tíðkast að flytja annál sveitarinnar eða gera góðlátlegt grín að sveitungum í bundnu máli.[13] Vinsælt er að syngja lög sem tengjast þorranum og þorrablótum, eins og „Minni kvenna“ eftir Matthías Jochumsson og „Þorraþrælinn“ eftir Kristján Jónsson fjallaskáld.[14]

Þorraþræll

breyta

Til eru nokkrar heimildir þess efnis að síðasti dagur þorra, þorraþræll, hafi verið tileinkaður piparsveinum og þeim mönnum sem getið höfðu börn utan hjónabands.[15] Í dag þekkja þó flestir nafnið þorraþræll sem heiti ljóðsins sem hefst á ljóðlínunni „Nú er frost á fróni“ eftir Kristján Jónsson fjallaskáld frá 1866, en það er með vinsælli íslenskum sönglögum og sungið við göngulag úr austurrísku óperettunni Der böse Geist Lumpazivagabundus frá 1833 með tónlist eftir Adolf Müller eldri. Lagið varð fyrst þekkt í Danmörku þegar það var endurnýtt í leikritinu Andbýlingarnir (Genboerne) eftir Jens Christian Hostrup 1844 (drykkjuvísan „Op, I gæve sønner af den røde gård“).[16] Leikrit Hostrups var sett upp af stúdentum í Reykjavík árið 1879. Þegar ljóð Kristjáns tók að birtast í söngtextasöfnum eftir aldamótin 1900 komst sá misskilningur á kreik að lagið væri íslenskt þjóðlag.[17]

Tilvísanir

breyta
 1. Árni Björnsson (1993), bls. 434.
 2. „Þorri“. Málið.is.
 3. „Hversu Noregr byggðist“. Heimskringla.no.
 4. Britt-Mari Näsström (1999). „Torre och Gói i de isländska källorna“. Institutionen för religionsvetenskap och teologi. Göteborgs universitet.
 5. „Um Þorra komu og veru hans“. Bragi, óðfræðivefur.
 6. Armstrong, H. (2023). „'The Northland of Old': The Use and 'Misuse'of (Medieval) Iceland“. Í Mary Boyle (ritstjóri). International Medievalisms: From Nationalism to Activism. Boydell & Brewer. bls. 95–110.
 7. Árni Björnsson (1993), bls. 437.
 8. Jón Árnason (1954-1961). Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga. bls. 550–551.
 9. „Hvort eiga menn að klæða sig í eina buxnaskálm og hoppa á öðrum fæti í kringum húsið sitt eða hlaupa á brókinni í kringum húsið á bóndadag?“. Vísindavefurinn.
 10. Schram, K. (2011). „Banking on borealism: Eating, smelling, and performing the North“. Iceland and Images of the North. bls. 305–327.
 11. Rögnvaldardóttir, N., & Leaman, M. R. (2012). „Þorrablót–Icelandic Feasting“. Í Mark McWilliams (ritstjóri). Celebration: Proceedings of the oxford symposium on food and cookery 2011. Prospect Books.
 12. Árni Björnsson (1993), bls. 478.
 13. Atli Vigfússon (26.1.2017). „Þorrablót í sveitum létta lund“. Mbl.is.
 14. Hrefna Bjartmars (16.2.2017). „Þorrablótin lifa“. Bændablaðið.
 15. Árni Björnsson (1993), bls. 447.
 16. „Op, I gæve sønner af den røde gård“. Erlingmusik.dk.
 17. „Íslenskt söngvasafn“. Lögrjetta. 10 (60): 216. 1915.

Heimildir

breyta
 • Árni Björnsson (1993). Saga daganna. Reykjavík: Mál og menning.