Atvinnuleysi nefnist það þegar einstaklingur fær ekki atvinnu þegar hann leitar að henni, þótt hann sé fær um að vinna. Hlutfall atvinnulausra af vinnuafli er mikilvæg hagtala.

Atvinnuleysi í heiminum árið 2017 samkvæmt tölum frá Worldbank.

Margar ástæður geta legið að baki atvinnuleysi í löndum. Peningamagnsinnar telja að aðalatriðið sé að halda verðbólgu í skefjum og þá muni hagvöxtur sjá til þess að atvinna skapist. Þeir sem aðhyllast hugmyndir John Maynard Keynes (Keynessinnar) líta hins vegar á það sem eitt af hlutverkum hins opinbera að örva hagkerfið með opinberum framkvæmdum, og þannig koma í veg fyrir atvinnuleysi.

Atvinnuleysi á Íslandi breyta

 
Atvinnuleysi á Íslandi á árunum 1991-2007.

Skilgreiningu á atvinnuleysi er að finna í lögum um atvinnuleysistryggingar.[1] Felur hún m.a. í sér að viðkomandi þarf að leita sér að atvinnu með virkum hætti og vera tilbúinn til þess að hefja vinnu, bjóðist hún, vilji hann þiggja atvinnuleysisbætur. Á Íslandi er velferðarkerfi sem tryggir m.a. grunnatvinnuleysisbætur. Félagsmálaráðherra fer með málefni atvinnuleysisbóta og setur reglugerð.[2] Vinnumálastofnun sér um afgreiðslu atvinnuleysistrygginga.

Þróun á Íslandi í nútíma breyta

Á árunum 1991-2007 var atvinnuleysi á Íslandi að meðaltali 3,3%. Frá fjórða ársfjórðungi 2007 til fjórða ársfjórðungs 2008 fjölgaði atvinnulausum um 3.900 manns.[3] Sökum efnahagskreppunnar sem hófst haustið 2008 jókst atvinnuleysi næstu 2 árin. Í janúar 2009 mældist atvinnuleysi 5,1% hjá körlum og 2,9% hjá konum, alls 4%. Atvinnuleysið var mest meðal fólks á aldrinum 16-24 ára, eða 10,8%. Samkvæmt Hagstofu Íslands var atvinnuleysi 7,7% í ágúst 2009. [4] Atvinnuleysið í febrúar 2010 reyndist hið mesta sem hefur mælst á Íslandi; um 9,3% atvinnuleysi eða að meðaltali 15.026 manns.[5] Það féll svo niður í 7,7% í nóvember 2010.[6] Í febrúar árið 2016 var atvinnuleysi komið niður í 3,1%. [7]

Í mars árið 2017 var atvinnuleysi 1,7% [8] en síðsumars var það komið niður í 1% og hafði ekki verið minna síðan 2003. [9]

Vegna kórónuveirufaraldursins 2019-2021 jókst atvinnuleysi á Íslandi og var 11,6 prósent í janúar 2021.[10] Einu og hálfu ári síðar var það komið niður í 3,9% [11]

Tilvísanir breyta

Tenglar breyta

   Þessi hagfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.