Bókmál (norska: bokmål) er annað af tveimur opinberum ritunarformum norsku. Nýnorska (norska: nynorsk) kallast hitt formið. Bókmál er notað af um 85-90% Norðmanna [1] og er útbreitt um allan Noreg.

Bókmál byggir aðallega á skrifaðri dönsku. Bókmál og þær mállýskur sem líkjast því hafa orðið fyrir miklum áhrifum af dönsku og þar með af lágþýsku og hafa fjarlægst mjög vesturnorrænan uppruna.

Danska var eina opinbera ritmálið í Noregi fram til 1890 þegar Stortinget (löggjafarþing Norðmanna) ákvað að gera bæði nýnorsku (sem þá var kallað landsmål eða „landsmál“) og bókmál (sem þá var kallað riksmål eða ríkismál) að opinberum málformum.

Fram að 1907 var riksmål nánast nákvæmlega eins skrifað og danska. Frá því hefur bókmálið aðlagast á margan hátt talaðri norsku, sérlega mállýskunum í Ósló og annars staðar í Austur-Noregi. Meðal annars hefur verið skipt á mjúku lokljóðunum b, d, g í dönsku (æble, had, bog) yfir í hörðu lokhljóðin p, t, k í bókmáli (eple, hat, bok). Önnur breyting er að bókstafurinn C hefur horfið úr bókmáli og í stað þess notað S (sem dæmi er á dönsku central á bókmáli sentral). Einnig eru öll orð af latneskum uppruna sem enda á -tion í öðrum málum rituð með -sjon á bókmáli (sem dæmi má nefna station sem er stasjon).

Reyndar er bókmál afar opið fyrir ýmsum margbreytileika í réttritun, eins og sést á því að það er jafn rétt að stafa melk eða mjølk; vann eða vatn; hvit eða kvit; syk eða sjuk.

Tenglar

breyta
   Þessi tungumálagrein sem tengist Noregi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.

Tilvísanir

breyta
  1. Fakta Sprakrad.no, sótt 14/11 2021