Jostedalsjökull (Jostedalsbreen á norsku) stærsti jökull meginlands Noregs og stærsti jökullinn á meginlandi Evrópu. Hann er í Sogn og Fjarðafylki og í sveitarfélögunum Luster, Sogndal, Jølster og Stryn. Jökullinn er 487 km2 eða um helmingi minni en Langjökull. Hann breiðir úr sér á hásléttu yfir 1600 metra hæð og hefur 28 skriðjökla sem hafa verið nefndir. Hæsti punkturinn er jökulskerið Lodalskåpa, sem stendur upp úr jöklinum og er 2083 metra há. Á jöklinum sjálfum er hæsti punkturinn Breakulen eða 1952 metrar. Jökullinn er helmingi minni í dag en hann var fyrir hundrað árum.

Skriðjökull Jostedalsjökuls.
Lodalskåpa er jökulsker á jöklinum og hæsti punkturinn.
Langur skriðjökull Jostedalsjökuls.
Fólk á ferð á Nigardsbreen.

Jostedalsökullinn var samgönguæð jöklabyggðanna og frá örófi alda hefur fólk ferðast yfir hann. Hann virkaði sem brú milli byggðanna í austri og vestri. Snemma á 19. öld fóru fyrstu ferðamennirnir að koma, aðallega Þjóðverjar og Bretar. Margir hverjir voru vísindamenn að safna upplýsingum eða landkönnuðir en einnig komu þangað almennir ferðalangar til að sjá og upplifa víðáttur ísbreiðunnar miklu. Deilur hafa verið um virkjanir á svæði Jostedalsjökuls eftir seinni heimstyrjöld. Árið 1973 var lögum um verndun vatnsfalla fyrst beitt á svæðinu með friðun hluta vatnasvæðisins vestan jökulsins. Meðan vatnsföllin þar nutu verndar var farið út í virkjunarframkvæmdir austan megin hans. Virkjun var því reist í Jostedalnum árið 1978 og hafa alls 4 virkjanir verið reistar þar. Ákveðið var að friða jökulinn í heild sinni og nánasta umhverfi hans sem þjóðgarð árið 1991. Jostedalsjöklaþjóðgarðurinn er 1230 km2 að flatarmáli og næststærstur norskra þjóðgarða.

Vinsælustu ferðamannastaðirnir eru vestan megin jökulsins; Kjenndalsjökull og Brekdalsjökull. Norska jöklasafnið er í Fjærland, sunnan við Jostedalsjökulinn. Austan hans er Breiheimsmiðstöðin í Jostedalen en miðstöðin einbeitir sér að því að kynna náttúrufar Jostedalsins og Nigardskriðjökulinn. Jöklaferðamennska á bílum og snjósleðum hefur heldur ekki verið fyrir hendi á Jostedalsjöklinum sökum þess að ómögulegt er að koma slíkum farartækjum upp skriðjöklana. [1]

Tilvísanir

breyta
  1. Barátta um norska náttúruperlu Mbl.is. Skoðað 16. febrúar, 2016.