Ögvaldsnes (norska: Avaldsnes) er lítið byggðarlag á eynni Körmt (Karmøy) í Rogalandsfylki í Suðvestur-Noregi. Á Ögvaldsnesi var áður konungsgarður og hafði Haraldur hárfagri þar bú á 9. öld og er sagður hafa dvalið þar löngum þegar hann tók að eldast.

Ólafskirkjan á Ögvaldsnesi.

Ögvaldsnes kemur oft við sögur Noregskonunga. Ólafur Tryggvason lét reisa þar timburkirkju, en núverandi steinkirkju lét Hákon gamli byggja þar um 1250 og er hún ein stærsta norska steinkirkjan frá miðöldum.

Á Ögvaldsnesi var gerð sætt í staðamálum síðari milli íslenskra höfðingja og Árna Þorlákssonar Skálholtsbiskups árið 1297 og lauk þar með langvinnum deilum.