Gamli sáttmáli

Samningur Íslendinga og Noregskonungs árið 1262

Gamli sáttmáli (eða Gissurarsáttmáli vegna aðkomu Gissurar Þorvaldssonar að honum) var samkomulag Íslendinga við Hákon gamla, Noregskonung. Sáttmálinn var gerður 1262 og fól hann það í sér, að konungur Noregs væri jafnframt konungur Íslands og að Íslendingar væru skattþegnar Noregskonungs. Á móti skuldbatt Noregskonungur sig til þess að halda uppi siglingum til Íslands og skyldu ekki færri en sex skip koma til Íslands frá Noregi árlega með nauðsynjavarning. Þótti þetta vera misjafnlega efnt af hálfu Noregskonungs. Ekki var lokið við að undirrita samninginn fyrr en árið 1264 þegar Magnús lagabætir var orðinn konungur í Noregi, og er því venjan að tala um að Íslendingar hafi gengið Noregskonungi á hönd árið 1262/64.

Konungur taldi Gamla sáttmála fallinn úr gildi eftir Kópavogsfundinn 1662 og þegar frelsisbarátta Íslendinga stóð sem hæst á 19. öld undir forystu Jóns Sigurðssonar forseta, vísaði hann oftar en ekki til ákvæða Gamla sáttmála og hélt því alltaf fram að hann væri í fullu gildi, þó að það væri mjög umdeilt. Þetta var samt hans sterkasta vopn og ásamt öðrum reyndist það bíta.

Texti Gamla sáttmála er svohljóðandi:

Í nafni föður ok sonar ok heilags anda.
Var þetta játað ok samþykt af öllum almúga á Íslandi á Alþingi með lófataki:
At vér bjóðum (virðuligum herra) Hákoni konungi hinum kórónaða vára þjónustu undir þá grein laganna, er samþykt er milli konungdómsins ok þegnanna, þeirra er landit byggja.
Er sú hin fyrsta grein, at vér viljum gjalda konungi skatt, ok þingfararkaup slíkt sem lögbók váttar, ok alla þegnskyldu, svá framt sem haldin er við oss þau heit, sem í móti skattinum var játað. Utanstefningar viljum vér aungvar hafa, utan þeir menn, sem dæmdir verða af várum mönnum á Alþingi í burt af landinu. Item at íslenzkir sé lögmenn og sýslumenn á landi váru af þeirra ættum, sem at fornu hafa goðorðin upp gefit. Item at sex hafskip gangi á hverju ári til landsins forfallalaust. Erfðir skulu ok upp gefast fyrir íslenzkum mönnum í Noregi, hversu lengi sem staðið hafa, þegar réttir arfar koma til eðr þeirra umboðsmenn. Landaurar skulu upp gefast. Slíkan rétt skulu hafa íslenzkir menn í Noregi sem þeir hafa beztan haft. Item at konungr láti oss ná íslenzkum lögum ok friði eptir því sem lögbók váttar ok hann hefir boðið í sínum bréfum, (sem guð gefr honum framast afl til). Jarl viljum vér hafa yfir oss meðan hann heldr trúnað við yðr, en frið við oss. Halda skulum vér ok vorir arfar allan trúnað við yðr meðan þér ok yðrir arfar halda við oss þessa sættargerð, en lausir, ef rofin verðr af yðvarri hálfu at beztu manna yfirsýn.
Anno M. ijc lxiij.
Hér eptir er eiðr Íslendinga.
Til þess legg ek hönd á helga bók ok því skýt ek til guðs at ek sver herra Hákoni konungi ok Magnúsi konungi land ok þegna ok æfinlegan skatt með slíkri skipan ok máldaga sem nú erum vér á sáttir orðnir ok sáttmálsbréf várt váttar.
Guð sé mér hollr, ef ek satt segi, gramr ef ek lýg.

Fræðimaðurinn Patricia Pires Boulhosa hefur sett fram þá kenningu að Gamli sáttmáli sé ekki frá 13. öld heldur frá 15. öld.

Tengt efni breyta

Heimildir breyta

Tenglar breyta

  • „Hver skrifaði Gamla sáttmála og hvað fólst í honum?“. Vísindavefurinn.