Karl Knútsson Bonde

Karl Knútsson af Bonde-ætt (október 1408 eða 140915. maí 1470) var ríkisstjóri Svíþjóðar 1438-1440, konungur Svíþjóðar 1448-1457, 1464-1465 og 1467-1470 (þá nefndur þar Karl 2., nú Karl 8.; konungur Noregs (og Íslands) 1449-1450 og nefndur þar Karl 1.

Karl Knútsson Bonde, konungur Svíþjóðar og Noregs.

Hann var sonur sænska riddarans Knut Tordsson Bonde. Á æskuárum sínum ferðaðist hann víða, lærði ýmis erlend tungumál og kynnti sér hernaðarlist. Hann hóf afskipti af stjórnmálum 1434, þegar Svíar gerðu uppreisn undir forystu Engelbrekts Engelbrektssonar, og varð sama ár meðlimur sænska ríkisráðsins. Hann þótti standa sig mjög vel í trúnaðarstörfum sem honum voru falin næstu árin og var kosinn ríkisstjóri í Stokkhólmi haustið 1438. Árið 1440 féllst hann þó á að samþykkja konungskjör Kristófers af Bæjaralandi, sem tekið hafði við konungdómi í Danmörku eftir að Eiríkur af Pommern var settur af, gegn því að fá mestallt Finnland að léni. Þar var hann svo frá 1441 og naut lítillar hylli Kristófers konungs.

Um leið og fregnir bárust af láti Kristófers 1448 hélt Karl Knútsson til Svíþjóðar og var þar kjörinn til konungs 20. júní og krýndur skömmu síðar. Fyrsta verk hans var að freista þess að ná Gotlandi aftur úr höndum Dana en það mistókst. Hann bauð sig einnig fram sem konung Norðmanna. Með tilstyrk Ásláks Bolts erkibiskups var hann kjörinn konungur og krýndur í Þrándheimi 20. nóvember 1449. Höfðingjar í Suður-Noregi hylltu aftur á móti Kristján 1. Danakonung sem konung sinn. Eftir nokkrar vikur féllust báðir hóparnir á að skera úr um málið á þingi í Halmstad, þar sem einnig skyldi gert út um Gotlandsmálið. Þing þetta var haldið í maí 1450 en þvert á fyrirmæli Karls sömdu fulltrúar Svía þar, sem ekki voru allir hliðhollir Karli, um að reyna að fá hann til að falla frá kröfu um konungstign í Noregi.

Karl var ekki ánægður en varð að láta undan og varð Kristján 1. konungur alls Noregs. Framhaldsfundur fór út um þúfur og í september 1451 kom til stríðsátaka milli Dana og Svía. Vopnahlé var þó samið 1453 og stóð til 1455. Herjum Karls gekk vel í fyrstu en seinna hallaði á Svía og óánægja með konunginn óx. Helsti fjandmaður Karls, Jöns Bengtsson Oxenstierna erkibiskup, efndi til uppreisnar gegn honum í ársbyrjun 1457 og fór svo að hann flúði til Danzig og var þar til 1464. Þá hafði Kristján konungur sett erkibiskupinn í fangelsi og Karl sneri aftur til Svíþjóðar og tók við konungdæmi en varð að segja af sér í janúar næsta ár, en þá hafði erkibiskupinn snúið aftur. Vinsældir hans jukust þó að nýju og hann sneri aftur enn á ný og hélt innreið sína í Stokkhólm 12. nóvember 1467. Hann lést vorið 1470.

Fyrsta kona Karls Knútssonar var Birgitta Turesdotter Bielke, sem dó 1436. Önnur kona hans var Katarina Karlsdotter Gumsehuvud, sem dó 1450, og þegar Karl lá banaleguna gekk hann að eiga frillu sína, Kristina Abrahamsdotter, til að gera son þeirra skilgetinn, en óvíst er að sú hjónavígsla hafi verið gild og sonurinn, sem var eini eftirlifandi sonur Karls Knútssonar, varð hvorki konungur né ríkisstjóri. Sten Sture eldri tók aftur á móti við embætti ríkisstjóra.

Heimild

breyta