Torstensonófriðurinn

Torstensonófriðurinn var styrjöld milli Danmerkur og Svíþjóðar sem varði frá því þegar sænski herinn gerði innrás í Danmörku, 12. desember 1643, til 13. ágúst 1645 þegar friðarsamningar voru undirritaðir í Brömsebro á Skáni. Stríðið er kennt við yfirhershöfðingja sænska hersins í Þýskalandi, Lennart Torstenson, þótt það hafi í raun verið runnið undan rifjum sænska ríkiskanslarans Axels Oxenstierna.

Lennart Torstenson, mynd úr Svenska Familj-Journalen gerð eftir málverki David Beck (1621-1656)

Framvindan

breyta

Afskipti Kristjáns IV af málefnum Þýskalands, þar sem hann reyndi að skapa þriðja bandalagið, Eyrarsundstollurinn, sem hefti útflutning Svía á hergögnum, auk þeirrar slæmu hernaðarlegu stöðu sem Svíar voru í eftir ósigur í Kalmarófriðnum (1611–1613), leiddi til þess að sænska stjórnin ákvað innrás í Danmörku í maí árið 1643. Lennart Torstenson var þá staddur í Olmütz með sænska herinn (sem þá var að mestu skipaður málaliðum) og var skipað af sænsku stjórninni að gera innrás í Jótland. Torstenson réðist svo snögglega inn í Danmörku að engum vörnum varð við komið og herinn lagði undir sig allt Jótland í janúar 1644.

Í febrúar réðist Gustav Horn inn í Skán. Sænski flotinn átti svo að flytja hermenn til eyjanna og taka þannig Danmörku alla. Hollendingar, sem voru mjög óánægðir vegna hækkana á Eyrarsundstollinum, gerðu bandalag við Svía og sendu flota til aðstoðar. Þessi fyrirætlan mistókst vegna dirfskulegrar mótstöðu Danakonungs sem hafði nauman sigur í sjóorrustum við Lister Dyb (16. og 21. maí) og Kolberger Heide (1. júlí).

Ferdinand 3. keisari sendi Dönum liðsauka undir stjórn hershöfðingjans Matthias Gallas, en sænski herinn hrakti þá frá Jótlandi.

Sameinuðum flota Svía og Hollendinga tókst að lokum að sigra Dani í sjóorrustu við Láland þar sem hirðstjórinn á Íslandi, Pros Mund, stýrði flotanum samkvæmt skipunum stjórnarinnar, en gegn betri vitund. Hann féll þar á skipi sínu Patientia sem var fyrsta skipið sem Svíar náðu.

Stríðinu lauk með friðarsamningum í Brömsebro sem voru Dönum mjög óhagstæðir. Þeir þurftu meðal annars að láta Svíum eftir eyjarnar Gotland og Saaremaa í Eystrasalti, héruðin Jämtland og Härjedalen sem þá voru hlutar Noregs, og auk þess hið hernaðarlega mikilvæga Halland á Skáni í þrjátíu ár. Eyrarsundstollurinn, helsta tekjulind konungs, var lagður niður. Skilyrði samningsins eru skiljanleg miðað við að Oxenstierna leit ávallt á Dani sem hættulegasta óvin Svíþjóðar, en vegna þess hve skilyrði hans voru Dönum óhagstæð má segja að hann hafi leitt til Svíastríðsins 1657.

„Kong Christian stod ved højen mast“

breyta
 
Hluti úr málverki Vilhelms Marstrand (1810–1873) Christian IV ved Kolberger Heide

Í orrustunni við Kolberger Heide hæfði sænsk fallbyssukúla danska fallbyssu og sendi málmflísar í allar áttir. Kristján IV særðist illa og missti annað augað en stóð þó upp og stýrði liðinu til loka orrustunnar. Konungur lét taka málmflísarnar úr auganu og gera úr þeim eyrnalokka handa sambýliskonu sinni, Vibeke Kruse. Blóði drifin klæði hans voru einnig varðveitt og er hægt að skoða hvort tveggja í Rósenborgarhöll. Þetta atvik var meðal annars gert ódauðlegt í kvæðinu „Kong Christian stod ved højen mast“ úr Romance af Fiskerne. Et Syngespil i tre Handlinger eftir Johannes Ewald (1779) og einnig í málverki Vilhelm Marstrand frá 19. öld. Atvikið varð þannig snar þáttur í danskri þjóðernisrómantík.

Fyrsta erindi kvæðisins er svona:

Kong Christian stod ved højen mast
i røg og damp.
Hans værge hamrede så fast,
at gotens hjelm og hjerne brast.
da sank hvert fjendtligt spejl og mast
i røg og damp.
Fly, skreg de, fly, hvad flygte kan!
hvo står for Danmarks Christian
i kamp?

Tengt efni

breyta