Sænska

Norður-þýska málið talað í Svíþjóð

Sænska (svenska) er norrænt tungumál, sem aðallega er talað í Svíþjóð og nokkrum hlutum Finnlands, aðallega með ströndum Eystrasalts og á Álandseyjum, samanlagt nærri 9,5 milljónir talendur. Sænska, danska og norska eru gagnkvæmt skiljanleg. Stöðluð sænska (ríkissænska) er sameiginleg þjóðtunga sem varð til úr mállýskum Mið-Svíþjóðar á 19. öld og var endanlega formuð í byrjun 20. aldar. Þrátt fyrir að ríkismálið sé allsráðandi í fjölmiðlum og skólum eru enn til sterkar svæðisbundnar mállýskur. Sumar þessar mállýskur eru talsvert frábrugðnar ríkismálinu bæði varðandi málfræði og orðaforða og margar nánast óskiljanlegar fyrir aðra. Nefna má gotlensku, skánsku, elfdælsku, jamsku, bondsku og finnlandssænsku. Allar þessar mállýskur eiga þó í vök að verjast gegn ríkismálinu (og finnsku í Finnlandi).

Sænska
Svenska
Málsvæði Svíþjóð og Finnlandi
Heimshluti Norður-Evrópa
Fjöldi málhafa 10 milljónir
Sæti 89
Ætt Indóevrópskt

 Germönsk
  Norðurgermönsk
   Austurnorræn
     Sænska

Skrifletur Finnsk-sænska stafrófið
Opinber staða
Opinbert
tungumál
Fáni Svíþjóðar Svíþjóð

Fáni Finnlands Finnland
Fáni Álandseyja Áland
Merki Norðurlandaráðsins Norðurlandaráð
Fáni ESB Evrópusambandið

Stýrt af Sænskri málstöð
Tungumálakóðar
ISO 639-1 sv
ISO 639-2 swe
ISO 639-3 swe
SIL SWD
ATH: Þessi grein gæti innihaldið hljóðfræðitákn úr alþjóðlega hljóðstafrófinu í Unicode.

Þjóðtungur eða mállýskumunur

breyta
 
Útbreiðsla sænsku

Ef farið væri eftir venjulegum reglum um skilgreiningu á sjálfstæðum málum mundu skandinavísku málin, danska, norska og sænska vera álitin mállýskuafbrigði af sameiginlegu tungumáli. Af sögulegum (meðal annars mörgum og löngum stríðum milli danaveldis og svía á 16. og 17. öld) og pólitískum ástæðum hafa þó skapast sérstakar reglur fyrir hvert mál um málfræði og orðaforða. Á landamærasvæðum Noregs og Svíþjóðar er ekki hægt af talmáli fólks að átta sig á því hvort það talar norsku eða sænsku.

Söguágrip

breyta

Fornausturnorræna er í Svíþjóð nefnd rúnasænska og í Danmörku rúnadanska, þó að fram á 12. öld hafi sama mál verið talað á báðum landsvæðunum. Málin eru nefnd rúnamál vegna þess að allt ritmál sem til er frá þessum tíma er rúnaletur. Megnið af fornnorrænu rúnasteinunum eru áletraðir með yngra Fuþark stafrófinu sem einungis hafði 16 bókstafi. Vegna þess að svo fáa stafi var um að velja var hver stafur notaður fyrir mörg hljóð. Til dæmis var sérhljóðið u einnig notað fyrir o, ø og y, og rúnin i var notuð fyri e.

Ein af þeim breytingum sem aðgreindi fornausturnorrænu (rúna- sænsku og dönsku) var hljóðbreyting tvíhljóðsins æi (fornvesturnorræna ei) í einhljóðið e, eins og í stæin yfir í sten. Þetta sést á rúnasteinunum þar sem á þeim eldri stendur stain og yngri stin. Einnig breytist au eins og í dauðr yfir í ø eins og í døðr. Á sama hátt breyttist tvíhljóðið øy (fornvesturnorræna ey) yfir í ø.

Á miðöldum breytist smám saman við ritun latínutexta á Norðurlöndum "ae" í æ – og einnig stundum í a' –. Samsetningin "aa" varð á sama hátt að aa, og "oe" varð oe. Þessir þrír bókstafir urðu á sænsku ä, å og ö.

Framburður

breyta

Sænska er frábrugðin flestum öðrum málum í hljómfalli, sem er mjög misjafnt í mállýskum. Hér er bæði um mismunandi áherslur og tónhæð að ræða. Í málinu eru óvenju mörg sérhljóð, níu sérhljóð sem eru aðskild eftir lengd og tónhæð, samanlagt 17 sérhljóða fónem. Sænska hefur einnig sérstöðu hvað varðar þau fónem sem á sænsku oft eru kölluð sje-hljóðin. Þó að þessi hljóð minni að nokkru á hliðstæð varahljóð í öðrum tungum eru þau í raun einstæð fyrir sænsku.

Ritmál

breyta

Sænska stafrófið hefur 28 bókstafi: 26 bókstafi latneska stafrófsins með undantekningu fyrir 'W', ásamt þremur eigin stöfum Å / å (borið fram eins og íslenskt o, Ä / ä (borið fram líkt og íslenskt e), og Ö / ö (sem er borið fram opnara en á íslensku). W er einungis notað í nöfnum og erlendum orðum og er borið fram eins og V.

A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V W X Y Z Å Ä Ö
a b c d e f g h i j k l m n o p q r s t u v w x y z å ä ö

Tenglar

breyta