Jonas Gahr Støre

Forsætisráðherra Noregs

Jonas Gahr Støre (fæddur 25. ágúst 1960) er norskur stjórnmálamaður og núverandi forsætisráðherra Noregs. Støre hefur verið leiðtogi norska Verkamannaflokksins frá árinu 2014 og var utanríkisráðherra Noregs í annarri ríkisstjórn Jens Stoltenbergs frá 2005 til 2012. Støre tók við embætti forsætisráðherra í október árið 2021 eftir þingkosningar mánuðinn áður.

Jonas Gahr Støre
Forsætisráðherra Noregs
Núverandi
Tók við embætti
14. október 2021
ÞjóðhöfðingiHaraldur 5.
ForveriErna Solberg
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. ágúst 1960 (1960-08-25) (63 ára)
Ósló, Noregi
ÞjóðerniNorskur
StjórnmálaflokkurVerkamannaflokkurinn
MakiMarit Slagsvold
Börn2
HáskóliSciences Po

Æviágrip breyta

Hann gekk í Berg-menntaskólann í Ósló og hlaut eftir það þjálfun hjá norska sjóhernum. Seinna nam hann stjórnmálafræði í París og hóf doktorsnám við London School of Economics en hætti fljótt við.

Þá lá leið hans fyrst til lagadeildar Harvard-háskóla þar sem hann kenndi í eitt skólaár. Frá 1986 til 1989 stundaði hann fræðastörf við Norwegian School of Management. Á árunum 1989 til 1995 starfaði hann sem ráðgjafi hjá forsætisráðuneyti Noregs. Því næst var hann sendiherra Noregs hjá frá 1995 til 1998. Á eftir fylgdi staða hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni undir Gro Harlem Brundtland. Því næst var hann ráðinn starfsmannastjóri Jens Stoltenbergs 2000-1.

Jonas vann 2002 til 2003 hjá norsku hugveitunni Econ Analyse og 2003 til 2005 sem framkvæmdastjóri norska Rauða krossins.

Norska vinstriblokkin vann sigur í þingkosningum í september árið 2021.[1] Støre tók við af Ernu Solberg sem forsætisráðherra Noregs þann 14. október og fer fyrir minnihlutastjórn Verkamannaflokksins og Miðflokksins.[2]

Verkamannaflokkurinn hefur tapað miklu fylgi frá því að Støre varð forsætisráðherra. Í sveitastjórnarkosningum árið 2023 lenti Verkamannaflokkurinn í öðru sæti og var þetta í fyrsta skipti í tæpa öld sem flokkurinn hlaut ekki flest atkvæði.[3]

Tenglar breyta

  1. Ingvar Þór Björnsson (13. september 2021). „Vinstriblokkin hafði betur í Noregi“. RÚV. Sótt 13. september 2021.
  2. Arnhildur Hálfdánardóttir (14. október 2021). „Minnihlutastjórn sem getur ekki valið leikfélaga“. RÚV. Sótt 14. október 2021.
  3. „Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi“. Varðberg. 12. september 2023. Sótt 20. október 2023.


Fyrirrennari:
Erna Solberg
Forsætisráðherra Noregs
(14. október 2021 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti