Svartidauði

Heimsfaraldur í Evrópu á 14. öld
(Endurbeint frá Svarti dauði)

Svartidauði var einn skæðasti heimsfaraldur sögunnar og náði hámarki í Evrópu um miðja 14. öld. Almennt er talið að sýkillinn hafi verið bakterían Yersinia pestis sem veldur Kýlapest. Margir telja að sjúkdómurinn hafi borist frá Asíu og breiðst út með rottum. Áætlað hefur verið að um 75 milljónir manna alls hafi látist úr farsóttinni, þar af í Evrópu 25–30 milljónir, eða þriðjungur til helmingur íbúa álfunnar á þeim tíma.

Greftrun fórnarlamba svarta dauða í Tournai. Smámynd úr "The Chronicles of Gilles Li Muisis" (1272-1352)

Pestin gekk um alla Evrópu á árunum 13481350 en barst þó ekki til Íslands þá, einfaldlega vegna þess að engin skip komu til Íslands þau tvö ár sem pestin geisaði á Norðurlöndum og í Englandi. Ýmist tókst ekki að manna skipin vegna fólksfæðar eða þá að skipverjar dóu á leiðinni og skipin komust aldrei alla leið. Töluverður vöruskortur var í landinu vegna siglingaleysis og er meðal annars sagt að leggja hafi þurft niður altarisgöngur um tíma af því að prestar höfðu ekki messuvín.

Pestin kom aftur upp rétt eftir aldamótin 1400 á Ítalíu og breiddist út til ýmissa landa en varð þó líklega hvergi viðlíka faraldur og á Íslandi, þar sem hún gekk 1402–1404. Sóttin gaus aftur upp í Evrópu hvað eftir annað fram á 18. öld en varð þó aldrei eins skæð og þegar hún gekk fyrst yfir.

Á síðari tímum hafa komið fram efasemdir um að plágubakterían hafi valdið svartadauða á Íslandi. Ástæðurnar eru meðal annars þær að svartidauði fór um Ísland eins og eldur í sinu þó að landið væri laust við rottur, að útbreiðsla sjúkdómsins var einum mánuði of snemma[1][2].

Uppruni og smitleiðir

breyta
 
Sýkillinn Yersinia pestis.

Elsta dæmið um faraldur sem talinn er hafa verið af völdum Yersinia pestis er drepsótt sem gekk um Býsans á 6. öld og barst þaðan til ýmissa hafnarborga við Miðjarðarhaf en fátt er vitað um frekari útbreiðslu hennar. Hún tók sig nokkrum sinnum upp aftur á næstu öldum en eftir miðja 8. öld virðist engin meiri háttar drepsótt hafa gengið um Evrópu fyrr en Svarti dauði gekk um miðja 14. öld. Farsóttin var kölluð „plága“ en það voru einnig margir aðrir sjúkdómar kallaðir á þessum tíma.

Rannsóknir á DNA í tönnum beinagrinda hafa sýnt að sýkillinn var í tönnum beinagrinda í Kyrgyzstan í Mið-Asíu frá um 1338 og 1339 en vísindamenn rannsökuðu erfðaefni þaðan vegna þess að mikil aukning var í greftrunum þar þessi ár og áletranir á legsteinum frá þessum tíma greina frá að fólk hafi látist af óþekktri drepsótt.[3]

Pestin er oftast talin upprunnin í Mið-Asíu og hefur borist þaðan yfir gresjurnar með kaupmönnum. Aðrar tilgátur hafa þó komið fram um upprunann og hefur Norður-Indland verið nefnt til og Afríka einnig. Hvað sem því líður var pestin á miðöldum landlæg í nagdýrum í Mið-Asíu og barst þaðan bæði til austurs og vesturs með kaupmönnum eftir Silkiveginum.

Rottuflóin, Xenopsylla cheopis var skæður smitberi. Ef hýsill flónna dó og þær höfðu engan annan hýsil til að leita í af sömu tegund þurftu þær að fara á menn til að fleyta sér áfram. Mennirnir smituðust í kjölfarið og gátu þá mannaflær farið að smita manna á milli.

Dánartíðni

breyta

Svartidauði var að öllum líkindum þrískipt sótt sem gat komið fram ýmist sem lungnapest, kýlapest og nokkurs konar blóðeitrun. Létust 60-75% af þeim sem fengu kýlapestina, 90-95% þeirra sem greindust með lungnapestina en nær allir sem fengu blóðsýkinguna, en hún var sjaldgæfust. Oft er talið að um það bil þriðjungur af íbúum Evrópu hafi látist af völdum svartadauða en allar tölur eru þó mjög óvissar og fræðimenn hafa komist að ólíkum niðurstöðum um dánarhlutfall.

Giskað hefur verið á að íbúar Evrópu hafi fyrir plágu verið um 80 milljónir og hafði fjöldi þeirra tvöfaldast á 300 árum. Sé sú tilgáta rétt að þriðjungur þeirra hafi látist í plágunni er heildarfjöldi látinna 27 milljónir.

Útbreiðsla sjúkdómsins

breyta
 
Útbreiðsla Svarta dauða um Evrópu.

Lungnapestin braust út í verslunarbænum Kaffa á Krímskaga árið 1347. Þar sem Kaffa var miðstöð viðskipta og verslunar var leiðin greið fyrir rottur að ferðast þaðan með skipum og bera sjúkdóminn með sér. Einnig lágu verslunarleiðir til Asíu frá tímum heimsveldis Djengis Khan og Mongóla. Þær lágu yfir slétturnar víðáttumiklu milli Rússlands og Kyrrahafsins, þar sem pestin var landlæg í nagdýrum. Því má segja að það hafi ekki verið nein tilviljun að sjúkdómurinn hafi blossað upp í Kaffa.

Líklegast er að svartidauði hafi svo borist með skipum frá Kaffa vestur til Evrópu, fyrst til Konstantínópel og þaðan lengra inn á meginlandið. Vitað er að pestin kom upp á Sikiley 1347 og hafði borist þangað með kaupmönnum frá Genúa. Munkurinn Mikael Pletensis sagði um pestina: „... 12 skip frá Genóva, sem flýðu undan refsingu þeirri sem Drottinn hafði lagt á menn vegna synda þeirra, komu til hafnar í Messína. Með þeim barst sjúkdómur sem var svo smitnæmur að ef menn svo mikið sem töluðu við þá sýktust þeir af banvænum sjúkdómi ...“.

Þegar íbúar Messína sáu hvað sóttin var skæð gripu þeir til sinna ráða. Fólkið streymdi út úr borginni og settist að í skógum, en aðrir leituðu hælis í borginni Cataníu. Voru heimili sjúklingana skilin eftir ósnert þrátt fyrir að þau væru full að auðævum og skildu foreldrar við sig sjúk börn sín. Engin áhætta var tekin.

Þeir sem náðu til Cataníu dóu stuttu síðar á sjúkrahúsum af völdum veikinnar og skildu íbúa borgarinnar eftir skelfingu lostna. Í hræðslu sinni neituðu þeir að sjúklingarnir yrðu grafnir í borginni. Fyrirskipaði þá biskupinn að líkin skyldu sett í djúpar gryfjur fyrir utan borgarmúrana. Á eyjunum við Ítalíu og Ítalíu sjálfri er talið að um það bil 75% íbúa hafi látið lífið í þessum skelfilegu hamförum.

Frá Ítalíu breiddist plágan um alla Evrópu, bæði í suður- og vesturátt. Talið er að ástandið í Frakklandi hafi verið mjög svipað og á Ítalíu en þar geisaði pestin í eitt og hálft ár.

Viðbrögð almennings

breyta
 
Sjálfspískarar.

Enginn vissi hver orsök plágunnar var eða hvernig hún smitaðist. Þar sem almenningur hélt að svartidauði væri plága send frá Guði til að refsa fyrir syndir manna fyrirskipaði páfinn í kjölfarið að gengnar skyldu helgigöngur og sungnir helgisöngvar á tilteknum dögum. Þúsundir manna mættu í þessar göngur og margir gengu berfættir með svipur og slógu á bak sitt með svipu þar til blæddi. Voru þeir kallaðir flagellantarnir eða sjálfspískarar. Klemens VI páfi var meira að segja sjálfur viðstaddur sumar þessara ganga.

Sumstaðar var reynt að finna einhverja sem gætu átt sök á faraldrinum. Einhverjir menn fundust með torkennilegt duft í fórum sér. Voru þeir sakaðir um að hafa eitrað drykkjarvatnið og brenndir á báli. Einnig voru menn á því að gyðingar hefðu eitrað brunnana og voru margir þeirra ofsóttir og brenndir. Aðrir voru á þeirri skoðun að vanskapaðir og bæklaðir ættu sökina og ráku þá burt.

 
Gyðingar brenndir á báli í Svarta dauða.

Í Þýskalandi er talið að fólksfækkun hafi verið 33-50% á seinni hluta 14. aldar. Þar var mikið um Gyðingamorð og sjálfspískun á tímum Svarta dauða. Sjálfspískararnir voru oft miklir Gyðingahatarar en Gyðingamorð voru algeng viðbrögð fólks við pestinni. Voru margir Gyðingar brenndir í Solothurn, Zofingen og Stuttgart svo eitthvað sé nefnt.

Samtímaheimildir herma að 16.000 Gyðingar hafi verið brenndir á þessum tíma í Strassburg einni en nútíma sagnfræðingar segja að þessi tala sé þó helmingi of há. Gyðingar reyndu þó á tíma að vera fyrri til og drápu 2000 kristna menn í Mainz. Svöruðu kristnir með því að drepa allt að 12.000 Gyðinga. Var ástandið orðið svo slæmt að Gyðingar voru farnir að brenna sig sjálfir inni til að lenda ekki í klóm þeirra kristnu.

Á Englandi er sömu sögu að segja af svartadauða en þó voru Gyðingar ekki drepnir þar, enda hafði Játvarður 1. rekið alla Gyðinga úr landi árið 1290. Svartidauði lét fyrst á sér kræla í Englandi í júnímánuði 1348 og gekk um landið þar til um haustið 1349. Þótt heimildir um fólksfjölda séu betri um England en um nokkurt annað land í álfunni er óvíst hver dánartalan var en nútímasagnfræðingar hafa sett fram kenningar um að allt frá 25-60% þjóðarinnar hafi fallið í valinn. Í Noregi er talið að um 60% landsmanna hafi dáið.

Eftir Svarta dauða

breyta

Plágan gekk yfir Evrópu að mestu á þremur árum en það tók mun lengri tíma fyrir hana að berast til ýmissa útkjálka. Hún gekk svo aftur hvað eftir annað næstu aldirnar þótt aldrei yrðu faraldrarnir eins skæðir og Svarti dauði. Almennt er talið að Plágan mikla sem gekk í London 1665–1666 hafi verið síðasti meiri háttar faraldurinn. Plágan er þó alls ekki útdauð og enn koma upp minni háttar faraldrar í ýmsum þróunarlöndum. kalli

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. J. Kelly, The Great Mortality, An Intimate History of the Black Death, the Most Devastating Plague of All Time, (New York, NY: Harper Collins, 2005), bls. 295.
  2. B. Gummer, The Scourging Angel: The Black Death in the British Islest, (London: Bodley Head, 2009).
  3. Spyrou, Maria A.; Musralina, Lyazzat; Gnecchi Ruscone, Guido A.; Kocher, Arthur; Borbone, Pier-Giorgio; Khartanovich, Valeri I.; Buzhilova, Alexandra; Djansugurova, Leyla; Bos, Kirsten I. (15. júní 2022). „The source of the Black Death in fourteenth-century central Eurasia“. Nature (enska): 1–7. doi:10.1038/s41586-022-04800-3. ISSN 1476-4687.

Tenglar

breyta