Þýskaland

land í Mið-Evrópu
(Endurbeint frá Sambandsríki Þýskalands)

Þýskaland (þýska: Deutschland; framburður), opinberlega Sambandslýðveldið Þýskaland (þýska: Bundesrepublik Deutschland), er land í Mið-Evrópu. Þýskaland er að flatarmáli sjöunda stærsta ríki Evrópu og spannar rúmlega 357 þúsund km². Landið liggur milli Norðursjávar og EystrasaltsAlpafjöllum í suðri. Það er líka næstfjölmennasta land Evrópu með 83 milljónir íbúa. Aðeins Rússland er fjölmennara. Þýskaland á landamæri að Danmörku í norðri, Póllandi og Tékklandi í austri, Austurríki og Sviss í suðri, og Frakklandi, Lúxemborg, Belgíu og Hollandi í vestri. Höfuðborgin og stærsta borgin er Berlín, en fjármálamiðstöð landsins er í Frankfurt. Stærsta þéttbýlissvæði Þýskalands er í Ruhr.

Sambandslýðveldið Þýskaland
Bundesrepublik Deutschland
Fáni Þýskalands Skjaldarmerki Þýskalands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Einigkeit und Recht und Freiheit (þýska)
Eining, réttlæti og frelsi
Þjóðsöngur:
Das Lied der Deutschen
Staðsetning Þýskalands
Höfuðborg Berlín
Opinbert tungumál Þýska
Stjórnarfar Sambandslýðveldi

Forseti Frank-Walter Steinmeier
Kanslari Olaf Scholz
Stofnun
 • Verdun-samningurinn 843 
 • Heilaga rómverska ríkið 2. febrúar 962 
 • Þýska sambandið 8. júní 1815 
 • Þýska keisaradæmið 18. janúar 1871 
 • Sambandslýðveldið 23. maí 1949 
 • Sameining 3. október 1990 
Evrópusambandsaðild 25. mars 1957
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
63. sæti
357.022 km²
1,27
Mannfjöldi
 • Samtals (2022)
 • Þéttleiki byggðar
18. sæti
84,270,625
232/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 4.319 millj. dala (5. sæti)
 • Á mann 56.956 dalir (15. sæti)
VÞL (2019) 0.947 (6. sæti)
Gjaldmiðill Evra
Tímabelti UTC+1 (+2 á sumrin)
Ekið er hægra megin
Þjóðarlén .de
Landsnúmer +49

Heimildir eru um að ýmsir germanskir ættbálkar hafa búið í norðurhluta þess sem í dag er Þýskaland frá klassískri fornöld. Fyrir árið 100 var þetta svæði kallað Germanía. Á 10. öld mynduðu þessi héruð meginhluta Heilaga rómverska ríkisins sem myndaðist við skiptingu hins mikla Frankaríkis Karlamagnúsar árið 843. Á 16. öld hófst siðbreytingin í norðurhéruðum Þýskalands. Eftir Napóleonsstyrjaldirnar og upplausn Heilaga rómverska ríkisins 1806 var Þýska bandalagið stofnað 1815. Árið 1871 varð Þýskaland þjóðríki þegar flest þýsku ríkin sameinuðust og mynduðu Þýska keisaradæmið þar sem Prússland var leiðandi. Eftir ósigur í fyrri heimsstyrjöld og þýsku byltinguna 1918-1919 var Weimar-lýðveldið stofnað.

Valdataka nasista árið 1933 leiddi til stofnunar alræðisríkis, Þriðja ríkisins, sem hóf kerfisbundin morð á fötluðum, Gyðingum og öðrum hópum í Helförinni og rak útþenslustefnu sem leiddi til síðari heimsstyrjaldarinnar 1939. Eftir ósigur Þýskalands fóru hernámslið bandamanna með stjórn landsins sem leiddi til stofnunar Vestur-Þýskalands á hernámssvæðum Vesturveldanna og Austur-Þýskalands á hernámssvæði Sovétríkjanna. Vestur-Þýskaland var stofnaðili að Evrópubandalaginu meðan Austur-Þýskaland var hluti af Austurblokkinni og Varsjárbandalaginu. Fall kommúnistastjórna í löndum Austurblokkarinnar 1989-1991 leiddi til sameiningar í eitt ríki árið 1990.

Í dag er Þýskaland eitt mesta iðnveldi heims. Efnahagskerfi landsins er það stærsta í Evrópu og eitt það stærsta í heimi. Þýskaland er leiðandi í vísinda- og tæknigeirunum. Það er þriðji stærsti útflytjandi og innflytjandi á vörum í heimi. Landið er þróað land sem situr hátt á vísitölu um þróun lífsgæða. Þar er boðið upp á almannatryggingar og opinbera heilbrigðisþjónustu, umhverfisvernd og ókeypis háskólamenntun. Þýskaland er í 16. sæti á lista yfir friðsælustu lönd heims. Þýskaland á aðild að Sameinuðu þjóðunum, Evrópusambandinu, NATO, Evrópuráðinu, G7, G20 og OECD. Landið á þriðja mesta fjölda færslna á heimsminjaskrá UNESCO.

Hugtakið „þýskt“ kemur fyrst fyrir í lok 11. aldar í Annokvæði sem Diutischemi lande, Diutsche lant, Diutischimo lante („þýsk lönd“) fyrir Austur-Frankaríki þar sem germönskumælandi þjóðflokkar bjuggu, til aðgreiningar frá Vestur-Frankaríki, þar sem fornfranskar mállýskur voru talaðar. Orðið Deutsch er dregið af fornháþýsku diutisc af diot samanber gotnesku þiuda „þjóð“, þ.e. „tengd þjóðinni, alþýðilegur“[1] og á við um tungumálin. Orðið varð síðar tysk á dönsku, þýska á íslensku, og tedesco á ítölsku.

Þýskaland var lengi vel eingöngu mállandafræðilegt hugtak sem náði yfir stærra landsvæði en núverandi Þýskaland (Belgíu, Holland [samanber enska heitið dutch], Sviss, Liechtenstein, Lúxemborg, Austurríki, Suður-Týról/Alto Adige á Ítalíu og Elsass í Frakklandi), en ríkið var kallað Heilaga rómverska ríkið frá 12. öld. Talað var um „þýska þjóð“ fram til ársins 1806. Fyrst eftir byltinguna 1919 nefndist ríkið opinberlega „Þýskaland“.

Enska heitið Germany og það rússneska og ítalska Germania eru dregin af latneska orðinu Germania en það nefndu Rómverjar landið handan eigin ríkis, norðan við Dóná og austan við Rínarfljót. Franska heitið Allemagne (svipað á spænsku, portúgölsku, arabísku og tyrknesku) er dregið af orðinu Alemanni sem er heiti á germönskum þjóðflokki sem bjó við frönsku landamærin við Rínarfljót. Slavneskar þjóðir, Ungverjar og Rúmenar nota nafn af rótinni nemez sem þýðir „mállaus“, í merkingunni „sá sem talar ekki (okkar) tungumál“, en slava er líklega dregið af orðinu yfir „orð“.

Athyglisvert er að nafn fyrir landið (Þýskaland) og þjóðarheitið (Þjóðverjar) eru í sumum málum dregin af mismunandi rótum. Þýskaland var stundum kallað „Þjóðverjaland“ í íslenskum ritum frá 19. öld en orðmyndin Þýskaland/Þýðskaland/Þýzkaland er mun eldri. Á ítölsku heitir landið Germania en þjóðin Tedeschi og tungumálið tedesco.

Þýsk tunga og samkennd meðal Þjóðverja er yfir þúsund ára gömul en sameinað þýskt þjóðríki varð þó ekki til fyrr en með stofnun Þýska keisaradæmisins árið 1871.

Þýskaland rekur uppruna sinn til Verdun-samningsins frá 843 en með honum var Frankaveldi skipt upp í vesturhluta sem varð að Frakklandi nútímans, miðhluta sem tók yfir Norður-Ítalíu, Niðurlönd og fleiri svæði og austurhluta sem myndaði Hið heilaga rómverska keisaradæmi. Það var til í ýmsum myndum allt til 1806 en var þó aldrei meira en mjög laustengt bandalag smá konungsríkja og hafði auk þess fleiri þjóðir en þá þýsku innan sinna vébanda.

Á þessum þúsund árum juku Þjóðverjar mjög við áhrif sín í gegnum kaþólsku kirkjuna, Norður-krossferðirnar og Hansasambandið.

Fornöld (100 f.Kr. – 300 e.Kr.)

breyta
 
Rómaveldi og landsvæði Germana snemma á 2. öld.

Talið er að rekja megi uppruna germanskra þjóðflokka til bronsaldar Norður-Evrópu (um 1800600 f.Kr.) eða í síðasta lagi til járnaldar Norður-Evrópu (5. öld1. öld f.Kr.) Þjóðflokkarnir breiddust út til suðurs, austurs og vesturs frá suðurhluta Skandinavíu og norðurhluta Þýskalands á 1. öld f.Kr. og komust þá í kynni við keltneska þjóðflokka í Gallíu og íranska og slavneska þjóðflokka í Austur-Evrópu. Lítið er vitað um sögu germanskra þjóðflokka á þessum tíma, nema hvað varðar samskipti þeirra við Rómverja auk þekktra fornleifa.[2]

Í valdatíð Ágústusar hófu Rómverjar, undir forystu rómverska herforingjans Publiusar Quinctiliusar Varusar, að ráðast inn á landsvæði Germana. Á þessum tíma kynntust Germanar herstjórnarlist Rómverja. Árið 9 e.Kr. gereyddu Germanar, undir forystu Arminiusar (Hermans), þremur rómverskum herdeildum Varusar í orrustunni um Teutoburgs-skóg. Þar með héldust landsvæði Germana allt að Rín og Dóná utan Rómaveldis. Um 100 e.Kr., þegar rit Tacitusar Germanía var samið, höfðu Germanar komið sér fyrir meðfram Rín og Dóná og réðu nú að mestu leyti yfir því svæði sem Þýskaland nær yfir nú á dögum.

Á 3. öld óx ýmsum vestur-germönskum þjóðflokkum eins og Alamönnum, Frönkum, Söxum og fleirum ásmegin.

Hið heilaga rómverska keisaradæmi (843 – 1806)

breyta

Þýskaland miðalda átti rætur að rekja til veldis Karlamagnúsar, en hann var krýndur keisari 25. desember árið 800. Árið 843 var ríkinu skipt upp í þrjá hluta með Verdun-sáttmálanum. Einn hluti ríkis Karlamagnúsar, Hið heilaga rómverska keisaradæmi, var til í einni mynd eða annarri til ársins 1806. Landsvæði þess náði frá Egðu í norðri til Miðjarðarhafs í suðri.

Á árunum 9191024 voru furstadæmin Lothringen, Saxland, Frankaland, Schwaben, Türingen og Bæjaraland innlimuð. Árin 10241125 lagði Hið heilaga rómverska keisaradæmi undir sig Norður-Ítalíu og Búrgund en á sama tíma misstu keisarar Hins heilaga rómverska keisaradæmis völd til kirkjunnar. Á árunum 11381254 jukust áhrif þýskra fursta í suðri og austri á landsvæðum Slava. Bæir í Norður-Þýskalandi uxu og döfnuðu innan Hansasambandsins.

Árið 1530, eftir að umbótatilraunir mótmælenda innan kaþólsku kirkjunnar mistókust, var ný kirkja mótmælenda stofnuð í mörgum af þýsku ríkjunum. Þetta leiddi til innbyrðis deilna Þjóðverja, 30 ára stríðsins sem háð var frá 1618 til 1648 og lauk með Vestfalska friðinum. Eftir þessi átök reyndust Þjóðverjar illa undirbúnir til að takast á við Napóleon sem réðst inn í lönd Þjóðverja og leysti upp Hið heilaga rómverska keisaradæmi. Upp frá því varð Frakkland að erkióvini Þjóðverja fram yfir síðari heimsstyrjöld.

Þýska sambandið og bylting (1814 – 1871)

breyta
 
Þingið í Frankfurt árið 1848/1849.

Mestu varanlegu áhrifin af upplausn Hins heilaga rómverska keisaradæmis voru þau að Austurríki, sem hafði þá lengi verið öflugasta þýska ríkið, fjarlægðist þau norð- og vestlægari. Vínarfundurinn, ráðstefna sem sigurvegarar Napóleonsstyrjaldanna héldu, var settur í nóvember 1814 og stóð til júní 1815. Á ráðstefnunni var ákveðið að stofna Þýska sambandið, laustengt bandalag 39 fullvelda.

Byltingarnar í Frakklandi 1848 höfðu mikil áhrif á sjálfstæðisanda innan Þýska Sambandssins og greina mátti vísi að þjóðernisstefnu. Byltingarandinn leiddi til þess að vald konunganna í ríkjunum 39 dvínaði. Otto von Bismarck var gerður að forsætisráðherra í Prússlandi en hann lagði mikið upp úr hernaðarstyrk ríkisins. Árið 1864 hafði þýska sambandið undir sameiginlegri stjórn Austurríkis og Prússlands betur í stríði gegn Danmörku en upp úr samkeppni þessa tveggja jafningja varð þýska stríðið árið 1866 þar sem Prússland hafði betur. Undir þessum kringumstæðum gat Bismarck stofnað Norður-þýska sambandið og undanskilið Austurríki, fyrrum sterkasta þýska ríkinu, frá aðild.

Þýska keisaradæmið (1871 – 1918)

breyta

Árið 1871 var lýst yfir stofnun Þýska keisaradæmisins í Versölum eftir ósigur Frakka í Fransk-prússneska stríðinu. Otto von Bismarck átti stóran þátt stofnuninni. Öll þau ríki sem áður höfðu myndað Þýska sambandið, fyrir utan Austurríki, Liechtenstein og Lúxemborg, voru með í keisaradæminu. Keisaradæmið leið undir lok eftir ósigur Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöld og keisaranum var gert að segja af sér.

Weimar-lýðveldið (1919 – 1933)

breyta

Hið lýðræðislega Weimar-lýðveldi var stofnað 1919 en Þjóðverjar voru ekki sérlega hrifnir af því. Heimskreppan og harðir friðarskilmálar frá fyrri heimsstyrjöld lögðust þungt á Þýskaland og stjórnmálamenn gátu lítið gert, fylgi andlýðræðislegra stjórnmálaafla á bæði vinstri og hægri væng stjórnmálanna jókst mjög. Í tvennum þingkosningum árið 1932 fékk Nasistaflokkurinn 37,2% og 33,0% atkvæða og þann 30. janúar 1933 var Adolf Hitler skipaður Kanslari Þýskalands. Eitt af fyrstu verkum Hitlers í embætti var að leggja frumvarp fyrir þingið sem færði honum alræðisvöld og nam stjórnarskrá Weimar-lýðveldisins í raun úr gildi.

Þriðja ríkið (1933 – 1945)

breyta

Nasistar kölluðu veldi sitt Þriðja ríkið og það var við lýði í tólf ár, 19331945. Sú stefna nasista að komast yfir landsvæði í nágrannalöndum og skapa Þjóðverjum þannig „lífsrými“ (Lebensraum) var ein af mörgum ástæðum fyrir upphafi síðari heimsstyrjaldar þann 1. september 1939. Þýskaland og bandamenn þess unnu stóra sigra í fyrri hluta stríðsins og lögðu undir sig stóran hluta Evrópu. Eftir innrásina í Sovétríkin 22. júní 1941 og stríðsyfirlýsingu gegn Bandaríkjunum 11. desember sama ár fór að halla undan fæti fyrir Þjóðverja, þeir gáfust upp 8. maí 1945 eftir að Hitler framdi sjálfsmorð í neðanjarðarbyrgi sínu í Berlín en þá var her Sovétmanna að ná borginni á sitt vald. Ofsóknir á hendur gyðingum og síðar helförin, skipulögð tilraun til að útrýma gyðingum í Evrópu, var alræmt stefnumál nasista á millistríðsárunum og í heimsstyrjöldinni síðari.

Klofnun (1945 – 1990)

breyta

Eftir Heimsstyrjöldina síðari misstu Þjóðverjar mikil landsvæði í austri þar sem nú er Pólland og þurftu milljónir Þjóðverja að flytja sig frá þessum svæðum. Því svæði sem eftir var var skipt í hernámssvæði Bandaríkjamanna, Breta, Frakka og Sovétmanna. Þegar kalda stríðið hófst var Þýskalandi skipt í tvennt þar sem hernámssvæði Sovétmanna myndaði Þýska alþýðulýðveldið (Deutsche Demokratische Republik) eða Austur-Þýskaland og hernámssvæði hinna þjóðanna myndaði Sambandslýðveldið Þýskaland (Bundesrepublik Deutschland) eða Vestur-Þýskaland. Berlín hafði einnig verið skipt í fjögur hernámssvæði þrátt fyrir að borgin væri öll innan Austur-Þýskalands. Austur-Berlín var gerð að höfuðborg Austur-Þýskalands en Vestur-Berlín varð að útlendu sem vesturveldin héldu gangandi. Austur-Þjóðverjar höfðu áhyggjur af því að fólkið í austurhlutanum myndi flýja vestur og byrjuðu því að reisa Berlínarmúrinn og var hann fullreistur 1963 og stóð fram á árið 1989.

Sameinað á ný (frá og með 1990)

breyta

Í lok kalda stríðsins voru þýsku ríkin sameinuð á ný 3. október 1990 og höfuðborg Þýskalands flutt aftur til Berlínar. Sameinað Þýskaland er fjölmennasta ríki Vestur-Evrópu og iðnaðarveldi á heimsmælikvarða, það er lykilmeðlimur í Evrópusambandinu og sækist nú eftir föstu sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Á árinu 2015 komu um milljón flóttamenn og hælisleitendur til Þýskalands.

Landfræði

breyta

Þýskaland liggur í Mið-Evrópu og nær frá Ölpunum í suðri til stranda Norðursjávar og Eystrasalts í norðri. Nágrannalönd Þýskalands eru níu talsins: Danmörk í norðri (68 km), Pólland (456 km) og Tékkland (646 km) í austri, Austurríki (784 km) og Sviss (334 km) í suðri ásamt Frakklandi (451 km), Lúxemborg (138 km), Belgíu (167 km) og Hollandi (577 km) í vestri. Strandlengja landsins er samtals 2.389 km löng.

Nyrsti punktur Þýskalands er kallaður Ellenbogen og er við norðurodda eyjarinnar Sylt. Rétt sunnan hans er bærinn List sem er nyrsti bær landsins. Syðsti punktur landsins er við Haldenwanger Eck í bæversku Ölpunum. Þar er bærinn Oberstdorf en hann er syðsti bær landsins. Austasti punktur landsins er við ána Neisse við pólsku landamærin. Austasti byggðarkjarninn er borgin Görlitz. Vestasti punktur landsins er héraðið Selfkant við hollensku landamærin, norðan borgarinnar Aachen.

Þýskalandi má skipta í þrjá landfræðilega afmarkaða hluta. Nyrst er norðurþýska láglendið (Norddeutsche Tiefebene). Sunnar hækkar landið og skiptist þá í meðalhá fjalllendi (Mittelgebirge) og stóra dali. Af helstu fjallgörðum má nefna Harsfjöll, (Harz) og Svartaskóg (Schwarzwald). Syðst eru svo Alpafjöll, en þau eru hæsti og stærsti fjallgarður Þýskalands. Þar er hæsta fjall landsins, Zugspitze, sem er 2.962 metra hátt og markar landamærin á milli Þýskalands og Austurríkis.

Fljót og vötn

breyta

Í Þýskalandi eru mýmargar ár. Þar eiga stórfljót eins og Dóná upptök sín (í Svartaskógi). Flestar ár renna til norðurs og munda í Norðursjó eða Eystrasalti (eða eru þverár þessara áa). Eina undantekningin er Dóná, sem rennur til austurs og mundar í Svartahafi.

Stærstu ár landsins (listinn miðast við lengd ánna innanlands):

Röð Á Km innanlands Lengd alls í km Rennur í Upptök
1 Rín (Rhein) 865 1.320 Norðursjó Sviss
2 Weser 744 Norðursjó Thüringer-skógur
3 Saxelfur (Elbe) 727 1.091 Norðursjó Tékkland
4 Dóná (Donau) 687 2.888 Svartahaf Svartiskógur
5 Main 524 Rín Bæjaraland
6 Saale 413 Saxelfi Bæjaraland
7 Spree 382 Havel Saxland
8 Ems 371 Norðursjó Teutoburger-skógur
9 Neckar 367 Rín Baden-Württemberg
10 Havel 325 Saxelfi Mecklenborg-Vorpommern
11 Isar 265 283 Dóná Austurríki
12 Aller 263 Weser Saxland-Anhalt

Í Þýskalandi er urmull stöðuvatna. Flest þeirra eru í Mecklenborg-Vorpommern og í Bæjaralandi. Stóru vötnin í Bæjaralandi mynduðust öll við bráðnun ísaldarjökulsins.

Stærstu vötn Þýskalands:

Röð Stöðuvatn Stærð í km² Sambandsland Mesta dýpi í m
1 Bodensee 536 Baden-Württemberg, Bæjaraland 254
2 Müritzsee 117 Mecklenborg-Vorpommern 31
3 Chiemsee 80 Bæjaraland 72
4 Schweriner See 61 Mecklenborg-Vorpommern 52
5 Starnberger See 56 Bæjaraland 127
6 Ammersee 46 Bæjaraland 81

Eyjaklasar og eyjar

breyta

Mýmargar eyjar eru við þýsku ströndina. Austurfrísnesku eyjarnar eru í Wattenmeer vestur af Brimum í Norðursjó. Meginþorri Norðurfrísnesku eyjanna tilheyra einnig Þýskalandi, en þær nyrstu tilheyra Danmörku. Nyrst þeirra í þýska hlutanum er Sylt, en norðuroddi hennar er jafnframt nyrsti punktur Þýskalands. Stærstu eyjar landsins eru hins vegar í Eystrasalti.

Stærstu eyjar Þýskalands:

Röð Eyja Stærð í km² Íbúafjöldi Eyjaklasi / haf
1 (Rügen) 926 22 þúsund Eystrasalt
2 Usedom 373 31 þúsund Eystrasalt
3 Fehmarn 185 14 þúsund Eystrasalt
4 Sylt 99 27 þúsund Norðurfrísnesk, Norðursjór
5 Föhr 82 9 þúsund Norðurfrísnesk, Norðursjór
6 Nordstrand 48 2.300 Norðurfrísnesk, Norðursjór
7 Pellworm 37 1.100 Norðurfrísnesk, Norðursjór
8 Poel 36 2.900 Eystrasalt
9 Borkum 31 5.500 Austurfrísnesk, Norðursjór
10 Norderney 26 6.200 Austurfrísnesk, Norðursjór

Stjórnmál

breyta
 
Olaf Scholz hefur verið kanslari Þýskalands frá 2021.

Þýskaland er samband 16 sambandslanda sem kallast á þýsku Länder (eintala: Land) eða óformlega Bundesländer (eintala: Bundesland). Sambandslöndin hafa mikið sjálfstæði og búa öll við þingræði með þingkjörinni ríkisstjórn (Landesregierung, Staatsregierung eða Senat) undir forsæti forsætisráðherra (Ministerpräsident, Regierender Bürgermeister eða Präsident des Senats). Þing sambandslandanna (Landtag, Abgeordnetenhaus eða Bürgerschaft) eru kosin til fimm ára í öllum ríkjum nema Brimum. Kjörtímabilin voru lengd úr fjórum árum í fimm í kringum aldamótin 2000. Stjórn hvers sambandslands sendir 3-6 fulltrúa eftir íbúafjölda á Sambandsráð Þýskalands (Bundesrat), en það er fulltrúaráð sem er sambærilegt öldungadeildum sumra þjóðþinga.

Sambandsþing Þýskalands (Bundestag) er kosið til fjögurra ára í senn. Það og Sambandsráð Þýskalands fara saman með þau mál sem stjórnarskrá Sambandslýðveldisins Þýskalands hefur ekki falið þingum og ríkisstjórnum sambandslandanna. Við þingkosningar hafa allir ríkisborgarar eldri en 18 ára kosningarétt og tvö atkvæði. Svokallað fyrsta atkvæði (Erststimme) gildir í einmenningskjördæmum sem skipa 299 sæti á þinginu. Þar gildir einfaldur meirihluti. Samkvæmt öðru atkvæðinu (Zweitstimme) reiknast heildar sætaskipting í hverju sambandslandi fyrir sig og gefur að minnsta kosti önnur 299 sæti á sambandsþinginu. Flokkur eða listi nær manni á þing ef hann fær 5% allra gildra atkvæða á landslista, nema hann hafi náð að minnsta kosti 4 einmenningskjördæmum, þá umreiknast hans atkvæðafjöldi í sæti þótt hann hafi annars ekki náð 5%. Heildarfjöldi sæta sveiflast til af því að reglulega kemur fyrir að flokkur (aðallega CDU og CSU, en líka SPD) nái fleiri sætum í einmenningskjördæmum á stökum landslista en annað atkvæðið gefur til kynna. Fær þá flokkurinn að halda öllum þessum einmenningssætum (svokölluðum umframsætum), en síðan 2013 fá hinir flokkar jöfnunarsæti af landslista. Þannig voru þingsæti eftir kosningar í september 2013 ekki 598 heldur 631, þ.e. 33 umfram- og jöfnunarsæti voru á þingi aukalega. Ef þingmaður af lista með umfram- eða jöfnunarsæti hverfur af þingi á kjörtímabilinu kemur enginn nýr af listanum. Þannig getur fjöldi þingmanna dregist saman á kjörtímabili.

Sambandsstjórn Þýskalands (Bundesregierung) starfar ekki í umboði forsetans eins og á Íslandi, heldur uns þingið kýs nýjan kanslara, venjulega í kjölfar sambandsþingkosninga, en það getur líka gerst á miðju kjörtímabili. Kanslari Þýskalands (kk.: Bundeskanzler, kvk.:Bundeskanzlerin) er æðsti stjórnandi sambandsstjórnarinnar. Það er á hans valdsviði að setja fram pólitíska stefnu ríkisstjórnarinnar og hann tilnefnir ráðherra og aðstoðarmenn ráðherra sem forsetinn skipar svo í embætti. Samt sem áður tekur ríkistjórnin allar ákvarðanir með atkvæðagreiðslu á ríkisstjórnarfundum. Ákæra gegn kanslara eða ráðherrum er ekki leyfileg, hins vegar getur þing einfaldlega kosið nýjan kanslara eftir þriggja daga umhugsunarfrest, eftir að tillaga um slíkt hefur verið lögð fram.

Forseti Þýskalands (Bundespräsident) er þjóðhöfðingi landsins. Hann er kosinn til fimm ára á sameiginlegum kjörfundi þar sem allir þingmenn sambandsþingsins og jafnmargir sem kjörnir voru af þingum sambandsríkjanna hafa kosningarétt. Einungis eitt endurkjör er leyfilegt í senn. Staða hans samkvæmt stjórnarskrá er ekki mjög sterk, en það var gert viljandi eftir slæma reynslu af einræði Hitlers. Forsetinn skipar þó formlega alla embættismenn sambandslýðveldisins og veitir þeim lausn. Hann tilnefnir kanslaraefni við þingið og leysir þingið upp við þær kringumstæður sem stjórnaskráin skilgreinir. Hann staðfestir öll lög til birtingar með undirskrift sinni.[3] Forseti Þýskalands gerir samninga við erlend ríki en þeir þurfa alltaf á staðfestingu viðkomandi þings (sambands- eða sambandsríkisþing) að halda. Svigrúm hans til sjálfstæðrar ákvarðanatöku er því takmarkað undir venjulegum kringumstæðum. Í neyðartilfellum getur mikilvægi hans aukist gríðarlega. Frá stofnun embættisins 1949 hefur forsetinn synjað lögum staðfestingar níu sinnum. Engin regla er um þannig stöðu, en þingið reyndi að bregðast við athugasemdum forsetans. Réttur forsetans til að synja lögum undirskriftar er umdeildur.[4]

Ekki er gert ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum (Volksabstimmung) í stjórnarskrá Sambandslýðveldisins Þýskalands nema við mjög afmörkuð tilefni: breytingar á skipulagi landsins (tilfærsla landamæra eða sameining/skipting sambandsríkja) og upptöku algjörlega nýrrar stjórnarskrár. Þetta var sett í stjórnarskrána eftir slæma reynslu á tímum Weimar-lýðveldisins á millistríðsárunum. Kröfur um að setja þjóðaratkvæðagreiðslur inn í stjórnarskrána hafa þó verið gerðar reglulega. Í dag gera hins vegar allar stjórnarskrár sambandsríkjanna ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum og jafnvel lagafrumvörpum utan þings, ef nægilega margir sýna stuðning við þau í formlegri undirskriftasöfnun (Volksbegehren, „krafa þjóðarinnar“). Sama gildir um atkvæðagreiðslur á sveitastjórnarstigi.

Stjórnsýslueiningar

breyta
Sambandsland Stærð í km² Íbúar Höfuðborg
Baden-Württemberg 35.751 10,7 milljónir Stuttgart
Bæjaraland (Bayern) 70.550 12,4 milljónir München
Berlín (Berlin) 891 3,9 milljónir borgríki
Brandenborg (Brandenburg) 29.477 2,5 milljónir Potsdam
Brimar (Bremen) 404 663 þús borgríki
Hamborg (Hamburg) 755 1,7 milljónir borgríki
Hessen 21.114 6,1 milljón Wiesbaden
Mecklenborg-Vorpommern (Mecklenburg-Vorpommern) 23.274 1,7 milljónir Schwerin
Neðra-Saxland (Niedersachsen) 47.618 8 milljónir Hannover
Norðurrín-Vestfalía (Nordrhein-Westfalen) 34.042 18 milljónir Düsseldorf
Rínarland-Pfalz (Rheinland-Pfalz) 19.847 4,1 milljón Mainz
Saarland 2.568 1 milljón Saarbrücken
Saxland (Sachsen) 18.414 4,3 milljónir Dresden
Saxland-Anhalt (Sachsen-Anhalt) 20.445 2,5 milljónir Magdeburg
Slésvík-Holtsetaland (Schleswig-Holstein) 15.763 2,8 milljónir Kiel
Þýringaland (Thüringen) 16.172 2,3 milljónir Erfurt
Samtals (16) 357.093 82,2 milljónir

Efnahagslíf

breyta
 
Frankfurt am Main er miðpunktur þýskra fjármála en þar hefur einnig Seðlabanki Evrópusambandsins aðsetur.

Þýskaland er stærsta hagkerfi í Evrópu og fjórða stærsta hagkerfi heims á eftir Bandaríkjunum, Alþýðulýðveldinu Kína og Japan. [5] Það er sjötta öflugasta hagkerfi heims miðað við kaupmátt.[6] Útflutningsvörur eru ein meginstoð þýska hagkerfisins. Þýskaland er annað mesta útflutningsland heims en útflutningtekjur þess námu 1.337 milljörðum dollara árið 2010.[7] Einungis Alþýðulýðveldið Kína flytur meira út heldur en Þýskaland. Stærstur hluti útflutningsvara eru bifreiðar, vélar og efni. Þýskaland er stærsti framleiðandi vindhverfla í heimi.

Stærstu fyrirtæki landsins eru Volkswagen AG, Daimler AG, Siemens AG, E.ON AG, Metro AG, Deutsche Post AG, Deutsche Telekom AG, BASF SE, BMW AG og ThyssenKrupp AG.

Íbúar

breyta

Íbúar Þýskalands eru rúmlega 80 milljónir samkvæmt manntali frá 2011[8] og náðu 83,1 milljón árið 2019.[9] Þýskaland er því fjölmennasta land Evrópusambandsins og annað fjölmennasta land Evrópu á eftir Rússlandi. Það er 19. fjölmennasta land heims. Þéttleiki byggðar er 227 íbúar á ferkílómetra. Frjósemishlutfallið er 1,57 börn á konu (miðað við 2022), sem er undir jafnvægishlutfallinu 2,1 og eitt af lægstu hlutföllum heims.[10] Frá því á 8. áratugnum hefur dánartíðni í Þýskalandi verið hærri en fæðingartíðni, en bæði fæðingartíðni og aðflutningur fólks hefur aukist á 2. áratug 21. aldar. Þjóðverjar eru 3. elsta þjóð heims, með 47,4 ára miðaldur.[10]

Upprunalegir minnihlutahópar telja fjóra nokkuð stóra hópa fólks sem hafa búið í landinu um aldir.[11] Í Slésvík-Holtsetalandi er danskur minnihluti,[11] Sorbar eru slavnesk þjóð sem býr í sögulega héraðinu Lúsatíu í Saxlandi og Brandenborg, Rómafólk og Sinti búa um allt land, og Frísar eru búsettir á vesturströnd Slésvíkur-Holtsetalands og norðvesturhluta Neðra-Saxlands.[11]

Þýskaland er í öðru sæti yfir áfangastaði innflytjenda í heiminum, á eftir Bandaríkjunum.[12] Flestir innflytjendur búa í Vestur-Þýskalandi, sérstaklega í þéttbýli. 18,6 milljón íbúar (22,5%) voru innflytjendur eða börn innflytjenda árið 2016 (þar á meðal afkomendur þýskra innflytjenda).[13] Árið 2019 var Þýskaland í 7. sæti Evrópusambandslanda yfir hlutfall flóttafólks af íbúafjölda landsins, sem var 13,1%.[14]

Borgir

breyta

Í Þýskalandi eru fjórar milljónaborgir. Tíu aðrar eru með meira en hálfa milljón íbúa. Stærsta þéttbýlissvæði Þýskalands er Ruhr-hérað í Norðurrín-Vestfalíu en þar búa allt að ellefu milljón manns á tiltölulega litlu svæði.

Stærstu borgir Þýskalands:

Röð Borg Íbúar Sambandsland
1 Berlín 3,4 milljónir Borgríki, höfuðborg Þýskalands
2 Hamborg 1,7 milljónir Borgríki
3 München 1,3 milljónir Bæjaraland
4 Köln 1,0 milljón Norðurrín-Vestfalía
5 Frankfurt am Main 667 þúsund Hessen
6 Stuttgart 591 þúsund Baden-Württemberg
7 Dortmund 588 þúsund Norðurrín-Vestfalía
8 Essen 584 þúsund Norðurrín-Vestfalía
9 Düsseldorf 577 þúsund Norðurrín-Vestfalía
10 Brimar (Bremen) 547 þúsund Borgríki
11 Hannover 520 þúsund Neðra-Saxland
12 Dresden 517 þúsund Saxland
13 Leipzig 515 þúsund Saxland
14 Nürnberg 503 þúsund Bæjaraland
15 Duisburg 494 þúsund Norðurrín-Vestfalía

Tungumál

breyta

Opinbert tungumál er þýska en hún er germanskt tungumál. Hins vegar eru til hinar og þessar mállýskur af þýsku, sumar jaðra við að vera eigið mál. Það á við um lágþýsku (þ. plattdeutsch) sem töluð er nyrst við Eystrasalt, frísnesku, sem töluð á frísnesku eyjunum, og bæversku, sem töluð er í Bæjaralandi. Venjulega er þó talað um háþýsku og lágþýsku. Auk þýsku eru töluð nokkur önnur mál í Þýskalandi, aðallega af minnihlutahópum. Þeirra helst eru tyrkneska, kúrdíska og pólska enda Tyrkir, Kúrdar og Pólverjar fjölmennir í landinu. Austast er töluð sorbneska en það er gamalt slavneskt mál sem haldist hefur allt frá tímum þýsks landnáms austast í Saxlandi og Brandenborg.

Segja má að í landinu séu tvær stórar kirkjur, nær jafnstórar, sem skipta þjóðinni í tvennt. 27,2% íbúanna tilheyra kaþólsku kirkjunni, en hún er mest í vestur- og suðurhluta landsins. 24,9% íbúanna tilheyra mótmælendum, mest lútersku kirkjunni en mótmælendur eru aðallega í norðurhluta landsins. 38,8% íbúanna tilheyra engri kirkju, aðallega í austurhluta landsins, enda var sá hluti undir stjórn kommúnista í hartnær 40 ár. Múslímar eru 5,2% þjóðarinnar og vegur þar mest sá mikli fjöldi Tyrkja sem í landinu búa. Gyðingar eru um það bil 106 þúsund talsins en það gerir aðeins tæplega 0,13%.[15]

Menning

breyta

Bókmenntir

breyta

Rekja má þýskar bókmenntir aftur til miðalda og til verka rithöfunda á borð við Walther von der Vogelweide og Wolfram von Eschenbach. Fjölmargir þýskir rithöfundar og skáld hafa notið mikilla vinsælda, þar á meðal Johann Wolfgang von Goethe og Friedrich Schiller. Ævintýrin og þjóðsögurnar sem kenndar eru við Grimmsbræður hafa gert þýskar þjóðsögur þekktar víða. Meðal áhrifamikilla rithöfunda á 20. öld má nefna Thomas Mann, Bertolt Brecht, Hermann Hesse, Heinrich Böll og Günter Grass.

Johann Wolfgang v. Goethe
(1749 – 1832)
Friedrich Schiller
(1759 – 1805)
Grimmsbræður
(1785 – 1863)
Thomas Mann
(1875 – 1955)
Hermann Hesse
(1877 – 1962)
         

Heimspeki

breyta
 
Immanuel Kant (17241804)

Þýskir (og aðrir þýskumælandi) heimspekingar hafa haft gríðarleg áhrif á þróun heimspekinnar frá lokum miðalda. Tilkoma nútíma náttúruvísinda og hnignun trúarbragða hafa getið af sér ýmsar spurningar, sem eru fyrirferðamiklar í þýskri heimspeki, meðal annars um sambandið milli trúar og þekkingar, skynsemi og geðshræringa og heimsmynda vísindanna, siðfræðinnar og listarinnar.

Gottfried Leibniz var einn af mikilvægustu rökhyggjumönnunum. Immanuel Kant reyndi að sætta rökhyggju og raunhyggju en með heimspeki hans verður einnig til þýsk hughyggja. Hún lifði áfram í kenningum Johanns Gottliebs Fichte, Georgs Wilhelms Friedrichs Hegel og Friedrichs Wilhelms Josephs Schelling og einnig hjá Arthur Schopenhauer. Karl Marx og Friedrich Engels voru frumkvöðlar þráttarefnishyggju, undir áhrifum frá Hegel, og kommúnisma. Nítjándu aldar heimspekingurinn Friedrich Nietzsche nálgaðist heimspekilegar spurningar frá öðru sjónarhorni, afneitaði frumspeki forvera sinna og var forveri meginlandsheimspekinnar, sem varð til á 20. öld. Stærðfræðingurinn Gottlob Frege fann upp nútíma rökfræði á áttunda áratug 19. aldar en hlaut litla eftirtekt fyrr en breski heimspekingurinn Bertrand Russell uppgötvaði mótsögn í kerfinu árið 1901. Saman marka þeir upphafið að rökgreiningarheimspekihefðinni sem naut mikilla vinsælda á 20. öld og hafði ómæld áhrif. Innan meginlandsheimspekinnar á 20. öld voru hins vegar áhrifamiklir þeir Martin Heidegger og Frankfurt-skólinn með þá Max Horkheimer, Theodor Adorno, Herbert Marcuse og Jürgen Habermas í broddi fylkingar.

Tónlist

breyta

Þjóðverjar státa af ríkri tónlistarsögu og hafa meðal annars alið nokkur af þekktustu tónskáldum klassískrar tónlistar, svo sem Ludwig van Beethoven, Johann Sebastian Bach, Johannes Brahms og Richard Wagner. En ýmsir áhrifamiklir popptónlistarmenn hafa einnig komið frá Þýskalandi, þar á meðal Kraftwerk, Boney M., Nico, Nina Hagen, Scorpions, Toten Hosen, Tokio Hotel, Rammstein og Paul van Dyk.[16] Árið 2006 var Þýskaland fimmta stærsta markaðssvæði tónlistar í heimi.

J.S. Bach
Toccata und Fuge
L.v. Beethoven
Symphonie 5 c-moll
R. Wagner
Die Walküre

Tilvísanir

breyta
  1. „Af hverju heitir Þýskaland svo ólíkum nöfnum á frekar líkum tungumálum?“. Vísindavefurinn.
  2. Jill N. Claster: Medieval Experience: 300-1400 (New York: NYU Press, 1982): 35.
  3. Grundgesetz für die Bundesrepublik Deutschland (þýska). Article 82.
  4. „Das Amt des Bundespräsidenten und sein Prüfungsrecht | bpb“.
  5. „Field Listing :: GDP (official exchange rate)“. Sótt 26. júní 2011.
  6. Rank Order - GDP (purchasing power parity) Geymt 4 júní 2011 í Wayback Machine CIA Factbook 2005. Skoðað 19. febrúar 2006.
  7. „Country Comparison :: Exports“. Sótt 26. júní 2011.
  8. „Zensus 2011: Bevölkerung am 9. Mai 2011“ (PDF). Destatis. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 10. október 2017. Sótt 1. júní 2013.
  9. „Bevölkerung nach Geschlecht und Staatsangehörigkeit“. Destatis. Afrit af uppruna á 23. ágúst 2019. Sótt 15. júlí 2018.
  10. 10,0 10,1 „Germany“. World Factbook. CIA. Afrit af uppruna á 9. janúar 2021. Sótt 29. mars 2020.
  11. 11,0 11,1 11,2 „National Minorities in Germany“ (PDF). Federal Ministry of the Interior (Germany). maí 2010. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 21. apríl 2013. Sótt 23. júní 2014.
  12. „International Migration Report 2015 – Highlights“ (PDF). United Nations Department of Economic and Social Affairs. 2015. Afrit (PDF) af uppruna á 13. maí 2016. Sótt 9. júní 2016.
  13. „Bevölkerung mit Migrationshintergrund um 8,5 % gestiegen“ (þýska). Federal Statistical Office of Germany. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. ágúst 2017. Sótt 1. ágúst 2017.
  14. „Foreign population“. OECD. Afrit af uppruna á 13. mars 2020. Sótt 28. október 2021.
  15. Religionszugehörigkeiten 2019
  16. „Music market worth US$ 32 billion“ á P2pnet.net 7. apríl 2004. (Skoðað 7. desember 2006).

Tenglar

breyta