Saxland-Anhalt

eitt 16 sambandslanda Þýskalands

Saxland-Anhalt (þýska: Sachsen-Anhalt) er áttunda stærsta sambandsland Þýskalands með 20.445 km². Það var áður fyrr hluti af víðáttumiklu landsvæði sem kallaðist Saxland. Eftir heimstyrjöldina síðari var það í Austur-Þýskalandi og varð að sambandslandi við sameiningu Þýskalands 1990. Íbúar eru tæplega 2,2 milljónir talsins (2021). Höfuðborgin er Magdeburg. Stórfljótið Saxelfur rennur í gegnum Saxland-Anhalt frá norðri til suðausturs. Vestast eru Harzfjöllin og mynda þau náttúruleg landamæri að Neðra-Saxlandi.

Fáni Saxlands Skjaldarmerki Saxlands
Fáni Saxlands
Fáni Saxlands
Skjaldarmerki Saxlands
Upplýsingar
Flatarmál: 20.446,31 km²
Mannfjöldi: 2,2 milljónir (2021)
Þéttleiki byggðar: 110/km²
Vefsíða: sachsen-anhalt.de Geymt 19 júlí 2011 í Wayback Machine
Stjórnarfar
Forsætisráðherra: Reiner Haseloff (CDU)
Lega

Lega breyta

Saxland-Anhalt er austarlega í Þýskalandi og nær hvergi að sjó. Fyrir austan er Brandenborg, fyrir suðaustan er Saxland, fyrir sunnan er Þýringaland (Thüringen) og fyrir vestan er Neðra-Saxland.

Fáni og skjaldarmerki breyta

Fáni Saxlands-Anhalt eru gerður úr tveimur láréttum röndum, gult að ofan og svart að neðan. Litirnir voru teknir úr skjaldarmerkinu. Fáninn var tekinn upp í fyrsta sinn 1947, en var lagður niður þegar landið var leyst upp í endurskipulagningu Austur-Þýskalands 1952. 1992, eftir sameiningu Þýskalands, var fáninn tekinn óbreyttur upp. Skjaldarmerkið samanstendur aðallega af gulum og svörtum röndum. Þvert yfir það er græn krónurönd. Í horninu eftst til hægri er svartur örn, en hann táknar Prússland. Neðst er svartur björn á borgarvirki, en hann merkir fyrrverandi fríríkið Anhalt. Skjaldarmerki þetta var tekið upp 1991, tæpu ári eftir að Saxland-Anhalt varð til sem sambandsland sameinaðs Þýskalands. Gamla skjaldarmerkið var svipað, nema hvað þar var enginn björn. Þess í stað voru þar hamar og meitill og kornax, tákn sósíalimans.

Orðsifjar breyta

Orðið Sachsen (Saxland) er upprunnið af germanska ættbálknum saxa. Orðið saxi er dregið af gamla germanska orðinu sahs, sem merkir sverð eða langur hnífur (sbr. að saxa á íslensku). Anhalt var fyrst til sem kastalavirki og merkir einfaldlega stað þar sem maður stoppar (sbr. anhalten = að stoppa). [1]

Söguágrip breyta

  • Allt til 17. aldar var landsvæðið hluti af erkibiskupsdæminu Magdeburg, en þá varð það hluti af hertogadæminu Saxland, sem seinna varð að konungsríki.
  • 1945 hertóku bandarískar og sovéskar hersveitir hertogadæmið og var það innan sovéska hernámssvæðisins.
  • 1947 var Saxland-Anhalt stofnað sem sambandsland úr hertogadæminu Saxland og fríríkinu Anhalt.
  • 1952 leysti austurþýska stjórnin sambandslandið upp í héruðin Halle og Magdeburg.
  • 1990 var Þýskaland sameinað og héruðin Halle og Magdeburg sameinuð á ný í sambandslandið Saxland-Anhalt.

Borgir breyta

Stærstu borgir Saxlands-Anhalt:

Röð Borg Íbúar Ath.
1 Halle 233
2 Magdeburg 230 Höfuðborg sambandslandsins
3 Dessau-Rosslau 88
4 Wittenberg 47

Tilvísanir breyta

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 231 og 39.

Heimildir breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Sachsen-Anhalt“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2010.