Þráttarefnishyggja

Þráttarefnishyggja eða díalektísk efnishyggja er marxískt afbrigði af kenningum heimspekingsins Hegels um díalektík, það er samspil gagnvirkra krafta, ásamt efnishyggjukenningu Feuerbachs. Marx tók — að eigin sögn — díalektíkina frá Hegel en hafnaði hughyggju hans, og setti í staðinn efnishyggju Feuerbachs en hafnaði metafýsíkinni sem Feuerbach aðhylltist. Þannig leit Marx svo á að (a) hið efnislega væri undirstaða hins andlega eða hið hlutlæga undirstaða hins huglæga og (b) að alla hluti bæri að skoða í samhengi við hvern annan en ekki að skoða þá sem félagslega, sögulega eða á annan hátt einangraða frá öðru.

Að mati margra er þráttarefnishyggja kjarninn í kenningum Karls Marx. Samkvæmt henni, og söguspekilegri hlið hannar, sögulegri efnishyggju, vex hvert efnahagskerfi upp í hámarks skilvirkni en þegar henni er náð skapast innri þversagnir og veikleikar sem draga það til falls, og nýtt og þróaðra hagkerfi þjóðfélagsstig tekur við af því. Þráttarefnishyggja felur í sér að eðli átaka andstæðra stétta í ólíkum samfélögum er alltaf það sama, barátta hinna kúguðu og fulltrúa þróaðra efnahagslífs gegn forréttindastéttum, þar sem afstaða stéttanna hverrar gagnvart annarri fer eftir eðli hagkerfisins sem þær búa við.

Á Íslandi breyta

Á Íslandi er skráð lífsskoðunarfélag um díalektíska efnishyggju, DíaMat.

Tengt efni breyta