Stofnun Þýskalands
Stofnun Þýskalands var sameining nokkurra þýskumælandi ríkja í eitt ríki 18. janúar 1871 að undirlagi prússneska „járnkanslarans“ Otto von Bismarck. Þetta var því upphaf þess lands sem í dag nefnist Þýskaland, þótt landfræðilega hafi Þýska ríkið verið öllu stærra þar sem Prússland náði þá yfir alla suðurströnd Eystrasalts (Pommern, Vestur-Prússland og Austur-Prússland) og Silesíu. Sameiningin varð til upp úr Norðurþýska bandalaginu sem var arftaki Þýska bandalagsins undir forsæti Austurríkiskeisara. Við stofnunina varð Vilhjálmur 1. Prússakonungur Vilhjálmur 1. Þýskalandskeisari, fyrsti keisari Þýska keisaraveldisins af þremur.

