Verdun-samningurinn

843 sáttmáli sem skipti Frankaveldi á milli barnabarna Karlamagnúss

Verdun-samningurinn var samningur um skiptingu hins mikla Evrópuveldis Karlunga milli þriggja sona Lúðvíks guðhrædda Frankakeisara, árið 843. Samningurinn, sem gerður var í Verdun í Frakklandi, batt enda á átök bræðranna um yfirráð yfir ríkinu eftir lát föður þeirra þar sem Lóþar hafði staðið einn gegn bandalagi yngri bræðra sinna.

Hlutar fyrrverandi Karlungaveldis eftir skiptinguna, Lóþar fékk það svæði sem nú samsvarar Ítalíu, Karl sköllótti fékk Frakkland og Lúðvík þýski Þýskaland.

Lát Lúðvíks keisara og borgarastyrjöld

breyta

Áður en hann dó hafði Lúðvík guðhræddi gert syni sína að konungum hvern í sínu ríki: Karl sköllótta yfir Akvitaníu, Lúðvík þýska yfir Bæjaralandi og Lóþar yfir Ítalíu. Þessi skipting var meðal annars niðurstaðan af átökum keisarans við syni sína eftir tilraunir hans til að gera Karli sköllótta, syni af seinna hjónabandi, jafn hátt undir höfði og hinum tveimur.

Þegar Lúðvík keisari síðan dó árið 840 gerði elsti sonur hans, Lóþar, kröfu um að erfa keisaratignina og þar með yfirráð yfir löndum bræðra sinna. Þetta leiddi til borgarastyrjaldar og bandalags milli yngri bræðranna tveggja gegn eldri bróður sínum. Þegar yngri bræðurnir tveir, Lúðvík og Karl, sóru eið árið 842, gegn Lóþari, sá hann sér ekki annan kost en semja.

Skipting Evrópu

breyta

Við samninginn í Verdun var ríkinu skipt þannig að Karl fékk svæði sem gróflega svarar til Frakklands, Lúðvík fékk svæði sem samsvarar Hinu heilaga rómverska keisaradæmi og Lóþar fékk miðhlutann, sem svarar til Norður-Ítalíu, Provence, Búrgúndí, Elsass, Lothringen (Lóþar-ingen), og Niðurlanda.

Samningurinn hafði afgerandi áhrif á þá ríkjaskiptingu sem gilt hefur í Evrópu til okkar daga.