Dortmund

borg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu

Dortmund næststærsta borgin í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu með 604 þúsund íbúa (2020) og er jafnframt stærsta borgin í Ruhr-héraðinu. Hún er hluti af Rín-Ruhr-stórborgarsvæðinu

Dortmunds
Skjaldarmerki Dortmunds
Staðsetning Dortmunds
SambandslandNorðurrín-Vestfalía
Flatarmál
 • Samtals280,71 km2
Hæð yfir sjávarmáli
86 m
Mannfjöldi
 • Samtals604 þús (2.020)
 • Þéttleiki2.052/km2
Vefsíðawww.dortmund.de

Lega breyta

Dortmund liggur nær alveg miðsvæðis í sambandslandinu og er nokkurn vegin austasta borgin í Ruhr-héraðinu. Næstu borgir eru Bochum til austurs (10 km), Unna til austurs (10 km) og Hagen til suðurs (15 km).

Skjaldarmerki breyta

Skjaldarmerki Dortmund sýnir svartan örn á gulum eða gullnum fleti. Merki þetta var tekið upp á 13. öld er Dortmund varð að fríborg í ríkinu, en örninn merkir þýska ríkið.

Orðsifjar breyta

Skýringar á borgarheitinu eru nokkuð á reiki. Rithátturinn var Dortmunde 1222, Drutmunde 952, Trutmenni 927 og Throtmanni 880[1]. Trut er sennilega afbökun á orðinu dorp, sem merkir þorp. Seinni hlutinn, -manni, er ef til vill árheiti. Hún gæti einnig verið dregið af virkinu Mundi sem Karlamagnús lét reisa á staðnum.[2] Á latínu heitir borgin Tremonia.

Saga Dortmund breyta

Hansaborgin breyta

Það var Karlamagnús sem stofnaði Dortmund sem virki í leiðangri sínum gegn söxum 775. Bærinn sjálfur kemur fyrst við skjöl 880. Næstu 250 ár komu gömlu keisararnir oft við í Dortmund og sátu þar í lengri eða skemmri tíma. Í tíð Hinriks V réðist Friðrik I greifi frá Schwarzenburg á Dortmund 1144 og eyddi bænum. Keisarinn Friðrik Barbarossa sat nokkru sinnum í Dortmund og hélt þar ríkisþing um miðja 12. öld. Hann var síðasti keisarinn sem hélt ríkisþing þar. 1232 eyddi stórbruni nær allri borginni. Eftir endurreisn hennar varð Dortmund að mikilli verslunarborg. Hún gekk í Hansasambandið og verslaði aðallega við London í Englandi og Bruges (Brügge) á Niðurlöndum (Belgíu í dag). Verslunin við London var svo mikil að Dortmund hélt Englandi á tímabili uppi meðan 100 ára stríðið geysaði milli Englands og Frakklands. Dortmund varð að einni ríkustu borg Evrópu á þessu tímabili. Það var ennfremur mikil lyftistöng fyrir borgina þegar keisarinn Lúðvík hinn bæríski veitti Dortmund fríborgarstatusinn 1332. Status þessi hélst allar götur til 1803. 1377 heimsótti Karl IV keisari borgina, en hann var síðasti keisari ríkisins sem til Dortmund kom.

Bardaginn um Dortmund breyta

 
Virkið Hörder Burg kom mikið við sögu í Dortmund-stríðinu

Velgengni Dortmund var lengi flís í augu annarra borga og greifa. 1388 var myndað bandalag gegn Dortmund, en í því voru ekki eingöngu nágrannaborgir, heldur einnig greifar og biskupar lengra að. Í apríl var setið um borgina í því skyni að svelta borgarbúa. Einnig var skotið með frumstæðum fallbyssum yfir múrana. Borgarherinn svaraði fyrir sig og olli miklum skaða meðal fyrirsátursmanna. Einkennandi fyrir stríðið var skæruhernaður borgarbúa, sem opnuðu hliðin þegar minnst varði og réðust á fámenna hópa fyrirsátursmanna. Þessi hernaður reyndist drjúgur og voru slík úthlaup gerð 110 sinnum alls á einu ári. Bandalagið reyndi einnig að semja við borgina en borgarráðið hafnaði allri sátt. 10. júlí 1388 gerðu borgarbúar stórsókn með nýtísku fallbyssum. Við það kom mikill ótti í bandalagsliðið, þannig að umsátrið riðlaðist. Fyrir vikið gátu borgarbúar nýtt sér akrana fyrir utan borgarmúrana til að afla fæðu. Stríð þetta stóð yfir í hálft annað ár. Það endaði með því að Dortmund greiddi sig lausa og bandalagið leystist við það upp. Sigur Dortmunds í stríði þessu þótti einstakur og var talið mikið afrek. Í margar aldir eftir þetta naut borgin sigur síns og baðaði sig í frægðarljóma þess. Stríð þetta gekk í þýsku sögubækurnar sem Dortmunder Fehde (Dortmund-stríðið). Þrátt fyrir þetta var blómatími borgarinnar liðinn. Verslunin gekk til baka og borgin rambaði nokkrum sinnum á barmi gjaldþrots áður en hún dafnaði á ný. 1429 geysaði síðan svarti dauðinn í borginni og lést fjórðungur íbúanna.

Siðaskipti og stríð breyta

 
Dortmund í lok 16. aldar eða í upphafi 17. aldar

1523 barst lúterstrú til Dortmund. Í fyrstu var hún litin hornauga og fordæmd. En smátt og smátt skiptust borgarbúar í tvo hópa, þar til predikun nýju trúarinnar var leyfð 1533. Siðaskiptin gengu þó hægt fyrir sig. Í borginni störfuðu báðar stóru kirkjunnar hlið við hlið í lengri tíma. 1543 var stofnaður framhaldsskóli (Archigymnasium) í borginni, en það var fyrsti skólinn þar sem ekki var starfræktur á vegum kirkjunnar. Skóli þessi varð brátt að þekktu menntasetri í ríkinu. Með tilkomu hans og trúfrelsisyfirlýsingu keisarans frá 1555 (Augsburger Religionsfrieden) náði lúterska kirkjan yfirhöndinni í borginni. Í upphafi 30 ára stríðsins var borgin orðin lútersk með öllu. Hún reyndi að halda hlutleysi í stríðinu og bannaði borgarbúum að berjast sem leiguliðar. 1628 birtist hins vegar Tilly herforingi við borgardyrnar. Af mikilli diplómatískri snilld náði borgarráð að semja við hann um að þyrma borginni. Keisaraherinn sat hins vegar víða í nágrenninu og olli miklum skaða. Ári síðar krafðist Ferdinand II keisari að borgin gengi kaþólsku kirkjunni aftur á hönd. Borgin náði að tefja slíka framkvæmd fram á næsta ár, 1630, en þá gekk Gústaf Adolf II Svíakonungur á land í ríkinu og barðist með lúterstrúarmönnum. Þessi atburður veitti Dortmund hins vegar aðeins gálgafrest. 1632 var hún enn hlutlaus og lútersk er Gottfried Heinrich zu Pappenheim herforingi keisarahersins settist um borgina í júlí og lét skjóta á hana með fallbyssum. Þá féll borgin. Hluti keisarahersins dvaldi í Dortmund í heilt ár. Þá hertók landgreifinn Vilhjálmur frá Hessen borgina. Aftur sat keisaraherinn um borgina 1635-36 og skaut á hana í heila viku. Vilhjálmur yfirgaf þá Dortmund og við það féll borgin aftur í hendur kaþólikka. Efnahagurinn hrundi og borgin varð fátæk. Hún gat ekki greitt keisaranum stríðsskaðabæturnar sem hann lagði á hana. Þegar stríðinu lauk 1648 var borgin enn hersetin, fyrst af kaþólikkum, síðar af Svíum. Síðustu hermennirnir yfirgáfu borgina ekki fyrr en 1650, sem þá var í rústum. Aðeins 2.000 manns bjuggu þar og aðeins 300 hús stóðu uppi. Verslunin var hrunin. Dortmund var aðeins fátæk smáborg í ríkinu og var í meira en öld að jafna sig eftir efnahagsáfallið.

Nýrri tímar breyta

 
Frakkar marsera um götur Dortmund eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri

1803 voru Frakkar í héraðinu og leystu fríborgarstatus Dortmund upp. Hún varð þá hluti af furstadæminu Óraníu-Nassau. Þremur árum síðar innlimuðu Frakkar borgina. Eftir fall Napoleons ákvarðaði Vínarfundurinn að Dortmund skyldi tilheyra héraðinu Vestfalíu. Með tilkomu skipaskurðarins Dortmund – Ems 1899 upplifði borgin sitt annað blómaskeið, enda iðnbyltingin þá vel á veg komin. Borgin stækkaði mjög og fór íbúafjöldinn yfir 100 þús. fyrir aldamótin. Með innlimun nágrannabæja og sveitarfélaga í upphafi 20. aldar varð Dortmund að stórborg. Hún varð fyrir milum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari. Síðustu árásirnar voru gerðar 12. mars 1945. Það var mesta loftárás stríðsins á þýska borg og eyðilagðist um 70% borgarinnar. Bandaríkjamenn hertóku Dortmund 13. apríl og skiluðu henni til Breta, enda var hún á hernámssvæði þeirra. Í upphafi hreinsunarstarfsins kom til tals að byggja miðborgina ekki upp á ný, sökum þess hve skemmd hún var. En það var gert, enda varð Dortmund að mikilvægri iðnaðarborg eftir stríð. Eftirspurnin eftir stáli var mikil og brátt varð Dortmund að mestu iðnaðarborg Ruhr-héraðsins. Eftirsóknin minnkaði þó með tímanum, eftir því sem eftirspurnin eftir áli varð meiri. Iðnaðurinn minnkaði í lok aldarinnar og 2001 lokaði síðasta stálverksmiðjan í borginni.

Viðburðir breyta

 
Hæsta jólatré heims á jólamarkaði í Dortmund

Alþjóðlegir menningardagar í Dortmund er ein mesta listahátíð Þýskalands. Hér er um röð viðburða að ræða, allt frá tónleikum, leiksýningum, götuleikum og fjölda annarra viðburða og sýninga. Hátíðinni var hleypt af stokkunum 1957 og er haldin annað hvert ár.

Safnanótt (Dortmunder Museumsnacht) er annar stór menningarviðburður, en þá fara fram sýningar á um 60 stöðum í borginni. Þá eru á dagskrá sérstakir barnaviðburðir.

Jólamarkaðurinn í Dortmund er einn sá stærsti í Þýskalandi með rúmlega 300 sölubásum. 3,6 milljónir manna sækja markaðinn heim. Einkennandi fyrir þennan jólamarkað er 45 metra hátt jólatré sem sett er saman úr 1.700 smærri barrtrjám. Markaðsstjórar kalla tréð hæsta jólatré heims. Tréð skartar 44 þús perur.

Juicy Beats er eins dags tónlistarhátíð sem orðin er mjög vinsæl, bæði innanlands sem utan. Hér er mest megnis um raftónlist að ræða, en á seinni árum hafa aðrar jaðartónlistarstefnur einnig fengið að njóta sín. Rock in den Ruinen er önnur tónlistarhátíð helguð rokktónlist. Mayday er enn ein tónlistarhátíð helguð teknótónlist. Hún er haldin innandyra.

Íþróttir breyta

Aðalknattspyrnulið borgarinnar er Borussia Dortmund. Það hefur átta sinnum orðið þýskur meistari, síðast 2012. Tvisvar bikarmeistari: 1965 gegn Alemannia Aachen og 1989 gegn Werder Bremen. Liðið varð einnig Evrópumeistari bikarhafa: 1966 (sigraði þá Liverpool FC). Það sigraði einnig í Meistaradeildinni 1997 (sigraði þá Juventus). Atli Eðvaldsson lék með félaginu 1979-81.

Sex daga kappið er vinsæl hjólreiðakeppni sem fram fer á sex dögum. Hér er um liðakeppni að ræða og er keppt á innanhús brautum. Keppninni hefur verið hætt tímabundið í Dortmund.

Vinabæir breyta

Dortmund viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Röð Vinabær Land Síðan
1 Amiens Frakklandi 1960
2 Leeds Englandi 1969
3 Buffalo New York, BNA 1977
4 Rostow Rússlandi 1978
5 Netanja Ísrael 1980
6 Zwickau Þýskalandi 1988
7 Xi´an Kína 1991

Frægustu börn borgarinnar breyta

 
Hafnarhúsið
  • (1935) Hans Tilkowsky fyrrverandi landliðsmarkmaður í knattspyrnu
  • (1976) Lars Ricken knattspyrnukappi

Byggingar og kennileiti breyta

 
Haus Bodenschwingh
  • Maríukirkjan er elsta kirkja Dortmund. Hún var reist á 12. öld. Í henni eru ýmis listaverk sem tókst að bjarga í loftárásum seinna stríðsins.
  • Reinoldikirkjan (St. Reinoldi) er lútersk kirkja í Dortmund. Núverandi kirkja var reist 1233-70 og vígð heilögum Reinoldi. Milli skips og kórs eru stórar styttur af Karlamagnúsi og heilögum Reinoldi. Turninn er 112 metra hár og var þá kallaður ‚Undrið í Westfalen‘. Í honum var vaktmaður, kallaður Türmer (eða turnkall). 1661 hrundi turninn í jarðskálfta, sem eru sárasjalfgæfir á þessum slóðum. Endurgerð lauk 1701. Í heimstyrjöldinni fyrri gaf kirkjan klukkur sínar til hergagnaframleiðslu. Í seinna stríðinu skemmist kirkjan töluvert í loftárásum, þannig að bara útveggir stóðu eftir. Viðgerðir stóðu frá 1950-56. Í turninum er lítill útsýnispallur í 104 metra hæð.
  • Hafnarhúsið var reist 1898 í tengslum við skipaskurðurinn Dortmund – Ems. Byggingin hýsti hafnarskrifstofur sem þá voru nauðsynlegar. Í dag eru skrifstofunar annars staðar, en húsið er notað af vatnalögreglunni. Húsið er fríðlýst í dag.
  • Hörder Burg er gamalt vatnavirki reist á 12. öld. Það var stærra þá, enda stendur aðeins turninn eftir í dag. Virkið kom mikið við sögu í Dortmund stríðinu á 14. öld, en þá sátu óvinir borgarinnar í því, enda var virkið utan borgarmúranna. Borgarbúar sigruðu í því stríði en náðu aldrei að sigra virkið. Í dag er turninn safn og enn verið að rannsaka fornleifar þar í kring.
  • Haus Bodelschwingh er vatnakastali sem reistur var á 13. öld af Bodelschwingh-ættinni og er enn í eigu sömu ættar. Kastalinn er reistur á eikartrjábolum til að sökkva ekki í gegndreypum jarðveginum. Kastalinn kom lítið við sögu í gegnum aldirnar en hann þykir forkunnar fagur og hefur mikið gildi fyrir ferðamenn.

Tilvísanir breyta

  1. Rudolf Kötzschke (Hrsg.): Die Urbare der Abtei Werden a. d. Ruhr (= Publikationen der Gesellschaft für rheinische Geschichtskunde XX: Rheinische Urbare). Bd. 2: A. Die Urbare vom 9.-13. Jahrhundert. Hrsg. von Rudolf Kötzschke, Bonn 1908, Nachdruck Düsseldorf 1978, Bd. 3: B. Lagerbücher, Hebe- und Zinsregister vom 14. bis ins 17. Jahrhundert, Bonn 1908, Nachdruck Düsseldorf 1978, Bd. 4,I: Einleitung und Register. I. Namenregister. Hrsg. von Fritz Körholz, Düsseldorf 1978, Bd. 4,II: Einleitung, Kapitel IV: Die Wirtschaftsverfassung und Verwaltung der Großgrundherrschaft Werden. Sachregister. Hrsg. von Rudolf Kötzschke, Bonn 1958
  2. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 81.

Heimildir breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Dortmund“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.