Potsdam

höfuðborg Brandenborgar í Þýskalandi

Potsdam er stærsta borg sambandslandsins Brandenborgar í Þýskalandi með 180 þúsund íbúa (2019) og er jafnframt höfuðborg Brandenborgar. Borgin var áður aðsetur konunga og keisara. Kastalarnir, ásamt görðunum og ýmsum öðrum byggingum, eru á heimsminjaskrá UNESCO. Í borginni er stærsta kvikmyndaver Þýskalands.

Potsdam
Skjaldarmerki Potsdam
Staðsetning Potsdam
SambandslandBrandenborg
Flatarmál
 • Samtals188,25 km2
Hæð yfir sjávarmáli
32 m
Mannfjöldi
 • Samtals180.000 (2.019)
 • Þéttleiki858/km2
Vefsíðawww.potsdam.de

Potsdam liggur við ána Havel miðsvæðis í Brandenborg og er nágrannaborg Berlínar. Borgirnar eru nær samvaxnar við suðvesturhorn Berlínar. Þar skilur Glienicke-brúin á milli en hún var gjarnan notuð fyrir fangaskipti á tímum kalda stríðsins.

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki Potsdam sýnir rauðan örn á gulum grunni. Fyrir ofan er bogadreginn múrveggur. Örninn er tákn markgreifadæmis Brandenborgar og á upphaf sitt á 12. öld. Síðustu breytingar á merkinu voru gerðar 1957. Gulur og rauður eru litir borgarinnar.

Orðsifjar

breyta
 
Gamla ráðhúsið. Efst er Atlas og hvílir heimurinn á herðum hans.

Elsta heiti borgarinnar er Poztupimi og kemur fram á skjali Ottos III keisara frá 993. Ekki er ljóst hvaðan heitið kemur, en líklegt er að það sé slavneska og merkir Undir eikunum. Aðrir meina að heitið sé dregið af slavnesku mannanafni, sem þá væri Postapim. Úr Poztupimi verður Postamp og síðar Potsdam.

Saga Potsdam

breyta

Frá miðöldum til upplýsingar

breyta

Það var markgreifinn Albrecht der Bär (Albrecht björn) sem náði að hertaka svæðið af slövum 1150. Á núverandi borgarstæði var slavenskt virki sem Albrecht hertók. Í aðeins 700 metra fjarlægð lét Albrecht reisa þýskt virki. Það var upphafið á borginni Potsdam. Potsdam var þó lítill landamærabær næstu aldir. Hann fékk ekki borgarréttindi fyrr en 1345. Árið 1416 eignast Hohenzollern-ættin borgina og er hún í eigu þeirra (kjörfursta, konunga og keisara) til loka heimstyrjaldarinnar fyrri. 30 ára stríðið tók mikinn toll af borginni. Í stríðslok lá hún nær yfirgefin, en þar voru þá aðeins um 700 manns. Ein mesta lyftistöng borgarinnar var sú ákvörðun kjörfurstans Friðriks Vilhjálms (Der grosse Kurfürst) 1660 að gera Potsdam að öðru aðsetri sínu, á eftir Berlín. Í kjölfarið var mikill kastali reistur og borgin gerð að herstöð. Kjörfurstinn flutti inn húgenotta frá Frakklandi, sem settust að þar, sem og í Berlín. Árið 1745 reisti konungurinn Friðrik mikli sér Sancoussi-kastalann í Potsdam, sem enn í dag er merkasti rókókókastali Þýskalands. Þangað var Voltaire boðið og var hann meðhöndlaður eins og þjóðhöfðingi.

Stríðsátök

breyta
 
Potsdam 1871

1806 hertók Napoleon bæði Berlín og Potsdam. Napoleon var mjög hrifinn af höllunum í Potsdam og heimsótti grafreit Friðriks mikla i kirkju einni þar í borg. Þar átti hann að hafa sagt: „Ef hann væri enn á lífi, væri ég ekki hér.“ Frakkar yfirgáfu Potsdam ekki fyrr en 1814. Árið 1838 fékk borgin járnbrautartengingu til Berlínar, en hún var meðal fyrstu í Þýskalandi. Árið 1897 var fyrsta loftskeytið í Þýskalandi sent innanbæjar í Potsdam. Árið 1912 var stærsta loftskipahöfn Þýskalands lögð í Potsdam. Stjórnandinn var Graf von Zeppelin. Árið 1914 undirritaði Vilhjálmur II keisari í einum kastala sinna í Potsdam stríðsyfirlýsingu gegn bandamönnum og hóf þar með heimstyrjöldina fyrri. Í stríðslok sagði keisarinn af sér og fór í útlegð til Hollands. Potsdam missti þar með status sinn sem keisaraborg.

Heimstyrjöldin síðari og nútíð

breyta
 
Churchill, Truman og Stalin ræða framtíð Þýskalands í Potsdam 1945

21. mars 1933 var Potsdam-dagurinn haldinn af nasistaflokknum. Ríkisþinghúsið í Berlín brann mánuð fyrr og kosningarnar (5. mars) voru nýafstaðnar. Potsdam-dagurinn átti að verða nýtt upphaf fyrir Þýskaland en á þessum degi kom þing saman á ný. Eftir hádegi hitti Hitler Paul von Hindenburg, gamla ríkisforsetann. Við það tækifæri hneigði Hitler sig fyrir honum og þeir tókust í hendur. Seinna þennan dag samþykkti þingið að binda enda á Weimar-lýðveldið. Vegurinn fyrir Hitler var markaður. Potsdam kom lítið við sögu í heimstyrjöldinni síðari. Borgin varð fyrir miklum loftárásum bandamanna 14. apríl 1945, þar sem miðborgin stórskemmdist. Eftir það breyttu nasistar borginni í nokkurs konar virki. Sovétmenn voru að nálgast Berlín og það átti að hindra með öllum ráðum að þeir kæmust um Potsdam. Í því skyni voru til dæmis nokkrar brýr sprengdar, þar á meðal Glienicke-brúin sem tengir Potsdam og Berlín. Gerðir voru götutálmar úr ónýtum sporvögnum. En allt kom fyrir ekki, Sovétmenn hertóku borgina 27. apríl. Nokkrum mánuðum seinna hittust leiðtogar sigurveldanna í Potsdam á hinni svokölluðu Potsdam-ráðstefnu. Það voru Harry S. Truman frá Bandaríkjunum, Jósef Stalín frá Sovétríkjunum og Winston Churchill frá Bretlandi. Ráðstefnan stóð yfir frá 17. júlí til 2. ágúst 1945. Á þessum tíma fóru fram kosningar í Bretlandi og missti Churchill forsætisráðherraembætti sitt. Því tók Clement Attlee við af honum í miðri ráðstefnunni. Frakkar sóttu ráðstefnuna ekki. Leiðtogarnir ræddu um framtíð Þýskalands og nokkurra Austurevrópuríkja, til dæmis Póllands. Þeim mistókst hins vegar að finna sameiginlega lausn á hernámsáætlun fyrir Þýskaland, sem síðan varð til þess að löndin klofnuðu í tvö ríki. Þegar Berlínarmúrinn var reistur 1961, var hann reistur við borgarmörk Potsdam, sem við það var slitið frá nágrannaborg sinni Berlín. Aðeins Glienicke-brúin tengdi borgirnar saman, en hún var lokuð í kalda stríðinu. Hún var hins vegar notuð til að skiptast á föngum milli austurs og vesturs. Brúin var ekki opnuð fyrir umferð á ný fyrr en með falli múrsins 1989. Þegar Þýskaland sameinaðist 1990 var sambandslandið Brandenborg stofnað. Potsdam varð þá höfuðborg þess lands og svo er enn. Á sama ári voru stórir hlutar miðborgarinnar settir á heimsminjaskrá UNESCO.

Kvikmyndaverið Babelsberg

breyta
 
Inngönguhlið á kvikmyndaverinu Babelsberg

Kvikmyndaverið Filmstudio Babelsberg í Potsdam er elsta stóra kvikmyndaver heims og stærsta kvikmyndaver Þýskalands. Það var stofnað 1912 og er í dag 420 þúsund m² að stærð. Fyrsta myndin sem þar var gerð hét Dauðadansinn (Der Totentanz) með dönsku leikkonunni Asta Nielsen. Á tímum nasista var kvikmyndaverið gjarnan notað fyrir áróðursmyndir. Í dag er kvikmyndaverið mikið notað, bæði fyrir bíómyndir og sjónvarpmyndir/seríur. Meðal þekktra bíómynda nútímans má nefna:

Bíómynd Ár Helstu leikarar
Sagan endalausa 3 1994 Jason James Richter, Jack Black
Enemy at the Gates 2000 Jude Law, Ed Harris
The Pianist 2002 Adrien Brody
The Bourne Supremacy 2004 Matt Damon
Around the World in 80 Days 2004 Jackie Chan
V for Vendetta 2006 Hugo Weaving, Natalie Portman
Speed Racer 2008 John Goodman, Susan Sarandon
The Reader 2008 Kate Winslet, Ralph Fiennes
Inglourious Basterds 2009 Brad Pitt

Íþróttir

breyta

Kvennaliðið 1. FFC Turbine Potsdam í knattspyrnu er vafalaust eitt besta lið Þýskalands. Það er margfaldur þýskur meistari, bikarmeistari og liðið sigraði í UEFA Women´s Cup keppninni 2005. Karlaliðið SV Babelsberg 03 spilar í 4. deild.

Vinabæir

breyta

Potsdam viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Sanssouci er ein fegursta höll Þýskalands
 
Potsdam á sér sitt eigið Brandenborgarhlið
  • Sanssouci-kastalinn er lítill kastali frá 18. öld. Þrátt fyrir smæðina er hann þó einn fegursti rókókókastali Þýskalands og einkennisbygging borgarinnar.
  • Cecilienhof er kastali frá upphafi 20. aldar. Hann er þekktastur fyrir að hýsa Potsdam-ráðstefnuna. Í húsinu gaf Harry S. Truman fyrirmæli í síma um að varpa kjarnorkusprengju á Hiroshima.
  • Nikulásarkirkjan (St. Nikolai) er ein sérkennilegasta kirkjubygging Þýskalands, ferköntuð og með hvolfþak. Hún stórskemmdist í götubardögum seinna stríðsins.
  • Einstein-turninn nýtískuleg stjörnuathugunarstöð sem Albert Einstein og Erwin Freundlich hönnuðu sameiginlega.
  • Brandenborgarhliðið er í raun sigurbogi til minningar um hertöku héraðsins Slésíu í lok 7 ára stríðsins.
  • Nauener Tor er stærsta borgarhliðið sem enn stendur í borginni.
  • Alexandrowka er heiti á gömlu rússnesku hverfi í borginni. Það var reist fyrir rússneska kórmeðlimi á tímum Napoleonsstríðanna.

Heimildir

breyta