Saxland

eitt af 16 sambandslöndum Þýskalands

Saxland (þýska: Freistaat Sachsen; sorbíska: Swobodny stat Sakska) er tíunda stærsta sambandsland Þýskalands, 18.420 km². Það er að sama skapi það sambandsland sem nær lengst til austurs. Í Saxlandi búa 4 milljónir manna (2021) og er þetta því sjötta fjölmennasta sambandsland Þýskalands. Höfuðborgin er Dresden. Meðal markverðra náttúrufyrirbæra í Saxlandi má nefna fljótið Saxelfi, fjallgarðinn Erzfjöll (Erzgebirge) og klettamyndirnar í Saxneska Sviss (Sächsiche Schweiz).

Fáni Saxlands Skjaldarmerki Saxlands
Fáni Saxlands
Fáni Saxlands
Skjaldarmerki Saxlands
Upplýsingar
Opinbert tungumál: háþýska, sorbíska
Höfuðstaður: Dresden
Stofnun: 3. október 1990
Flatarmál: 18.420,15 km²
Mannfjöldi: 4 milljónir (2021)
Þéttleiki byggðar: 220/km²
Vefsíða: sachsen.de
Stjórnarfar
Forsætisráðherra: Michael Kretschmer (CDU)
Lega

Lega breyta

Saxland liggur austast í Þýskalandi og á löng landamæri að Tékklandi, en einnig að Póllandi. Fyrir norðan er sambandslandið Brandenborg, fyrir norðvestan er Sachsen-Anhalt og fyrir vestan eru Þýringaland (Thüringen) og Bæjaraland.

Fáni og skjaldarmerki breyta

Fáni Saxlands er með tveimur láréttum bekkjum, hvítum að ofan og grænum að neðan. Skjaldarmerkið er þverröndótt, svart og og gult, með grænum borða á ská yfir. Gulu og svörtu rendurnar eru upprunnar frá Askaníer-ættinni á 12. öld. Græna skáborðanum var bætt við 1260. Þegar Askaníer-ættin dó út tók markgreifinn frá Meissen sér þetta tákn og hefur það haldist síðan.

Orðsifjar breyta

Orðið Sachsen rekur rót sína til germanska ættbálksins Saxa. Orðið saxi er dregið af gamla germanska orðinu sahs, sem merkir sverð eða langur hnífur (sbr. sax á íslensku). [1]

Söguágrip breyta

Saxland náði áður fyrr yfir víðáttumikið svæði í norðurhluta núverandi Þýskalands. Karlamagnús hertók mestan hluta þess svæðis síðla á 8. öld og í upphafi þeirrar níundu. Svæðið sem myndar núverandi Saxland var þó ekki að fullu numið af germönum fyrr en með landnáminu mikla á 12. öld. Enn í dag býr slavneskur minnihluti í héraðinu. Flest bæja- og borgaheiti þar eru slavnesk að uppruna. Helsta valdaættin í héraðinu var Askaníer-ættin. Furstinn í Saxlandi var kjörfursti í þýska ríkinu. Árið 1485 klofnuðu héruðin Saxland og Þýringaland í tvö héruð. Í 30 ára stríðinu á 17. öld var nær allt héraðið eyðilagt, en var byggt upp aftur furðu fljótt sökum mikilla auðlinda. Saxland var það hérað í Þýskalandi þar sem námugröftur var einna mestur, aðallega í Erzfjöllum (Erz merkir málmgrýti á þýsku). Árið 1806 barðist Saxland við hlið Prússlands gegn Napóleon, en þýsku herirnir biðu mikinn ósigur við Jena og Auerstedt í fólkorrustunni miklu (Völkerschlacht). Árið 1813 átti stórorrustan við Leipzig sér stað en þar lögðu sameinaðir herir andstæðinga Napóleons aftur til atlögu við hann. Að þessu sinni sigruðu þýsku herirnir og hröktu Frakka í framhaldi af því burt úr þýskum löndum. Saxar höfðu hins vegar stutt Napóleon síðustu tvö árin og á Vínarfundinum 1815 kom til tals að leysa Saxland algerlega upp sökum stuðnings Saxa við Napóleon. Að lokum var fallist á að Prússland fengi 3/5 af landsvæði Saxlands, sem við það fékk núverandi flatarmál. Sachsen var þá konungsríki. Sachsen var einnig vagga þýskrar iðnbyltingar á 19. öld. Árið 1866 gekk Saxland til liðs við Austurríki í stríði gegn Prússlandi, en beið ósigur. Saxland varð við það hluti af Norðurþýska sambandinu undir forystu Prússlands. Þegar Þýskaland beið ósigur í heimstyrjöldinni fyrri ákvað Friðrik Ágúst III., konungur Saxlands, að segja af sér. Konungsríkið var leyst upp og þess í stað stofnað lýðveldi með eigin stjórn (Freistaat Sachsen). Við lok heimstyrjaldarinnar síðari hernámu Sovétmenn Saxland og 1949 varð það því hluti af Austur-Þýskalandi. Árið 1952 leysti stjórnin í Austur-Berlín Saxland upp og skipti í þrjú héruð. Við sameiningu Þýskalands árið 1990 varð Saxland svo aftur að sambandslandi.

Borgir breyta

Stærstu borgir Saxlands:

Röð Borg Íbúar Ath.
1 Leipzig 515 þús
2 Dresden 512 þús Höfuðborg sambandslandsins
3 Chemnitz 243 þús
4 Zwickau 94 þús
5 Plauen 66 þús
6 Görlitz 56 þús Austasta borg Þýskalands

Tilvísanir breyta

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 231.

Heimildir breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Sachsen“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2010.