List
List er það þegar sköpunargáfan fær lausan tauminn og myndir, tónverk, styttur eða aðrir hlutir eru búnir til, í þeim megintilgangi að varpa ljósi á fegurð og mikilfengleika heimsins, að tjá tilfinningar eða skilning listamannsins, eða til að aðrir fái notið listaverksins. Orðið list getur einnig átt við um afrakstur slíkrar sköpunar.
Erfitt er að skilgreina list á altækan hátt, þótt margir hafi sterkar skoðanir á því hvað er list og hvað ekki. Ótal mælikvarðar eru til um það hvaða skilyrði hlutur eða verknaður þarf að uppfylla til að teljast list.[1] Sumir telja að list sé það sem eykur skilning okkar á umheiminum umfram einfaldan hlutlægan skilning. Oft er talað um að verknaður sé list ef afraksturinn er fagurfræðilegur.[2] Samkvæmt þessari skilgreiningu hefur list fylgt mannkyninu frá örófi alda, eins og hellamálverk sýna.
En þótt hægt sé að skilgreina list á mjög víðtækan máta eru margir sem vilja undanskilja ýmsa iðju sem þó miðar að fagurfræðilegum afrakstri, svo sem handverk og iðnhönnun. Samkvæmt þessari skilgreiningu, sem er nýrri af nálinni, er orðið list lítið meira en stytting á hugtakinu „sköpunarlist“ eða „hámenningarleg list“. Með öðrum orðum er mest áhersla lögð á nýnæmi listarinnar og að listamaðurinn ögri áhorfandanum, svo upplifun listarinnar verður virkur atburður, frekar en að listin sé í bakgrunni og geri umhverfið fallegra. Til dæmis geta handprjónuð föt sem unnin eru samkvæmt uppskrift aldrei orðið list í þessum skilningi orðsins, sama hversu vel þau eru unnin.
Til viðbótar við nýnæmið er stundum gerð krafa um að list sé unnin í göfugum tilgangi. Dæmi um það er þegar tónverk eða kvikmyndir sem framleiddar eru í þeim megintilgangi að afla tekna fyrir framleiðandann eru undanskilin frá skilgreiningunni á list, og kölluð iðnaður (sbr. kvikmyndaiðnaður og tónlistariðnaður).
Þegar list er skilgreind á þröngan máta, líkt og rætt er um hér að ofan, er sjaldgæft að menn séu sammála um hvað er list og hvað ekki. Því hafa ýmsir haldið því fram að slíkar skilgreiningar hafi meira að gera með smekk heldur en hlutlæga aðgreiningu.
Saga
breytaDeilt er um það hver elstu ummerki um listræna sköpun gætu verið. Ýmsar fornleifar hafa fundist frá fornsteinöld sem virðast vitna um tilraunir til skreytinga, án sýnilegs hagnýts tilgangs.[3][4][5] Elstu gripirnir sem augljóslega eru dæmi um listaverk eru hins vegar ekki nema um 50.000 ára gamlir. Meðal þeirra eru venusstyttur, litlar útskornar kvenmyndir með ýkt brjóst og mjaðmir, sem gætu tengst frjósemisdýrkun af einhverju tagi.[6][7][8] Þekktustu dæmin um forsögulega list eru þó hellamálverk, eins og málverk í Maros-Pangkep-hellunum á Súlavesí sem eru um 45.000 ára gömul, og hellamálverkin í Lascaux sem eru um 19.000 ára (þau elstu).[9] Sum þeirra hafa verið túlkuð sem sjónræn ummerki um sagnamennsku.[10] Elstu flautur sem fundist hafa eru beinflautur frá Geissenklösterle í Suður-Þýskalandi sem eru um 45.000 ára gamlar.[11][12][13]
Þegar kemur að upphafi nýsteinaldar fyrir um 12.000 árum fjölgar bergristum sem sýna fjölbreyttari myndir, eins og dansandi mannamyndir. Hellamálverk af manni með dýrshöfuð sem hefur verið túlkað sem mynd af galdramanni,[14] fannst í Trois-Fréres-hellinum í Frakklandi á 3. áratug 20. aldar og er talin vera um 13.000 ára gömul, líkt og myndir af dansandi fólki á hellamálverkum frá Borneó.[15] Steingrímur sem mögulega tengjast helgiathöfunum hafa fundist við uppgrefti í Ísrael og Tyrklandi.[16] Frá sama tíma eru elstu minjar um notkun jötunsteina í byggingarlist í Göbekli Tepe[17] og lágmyndir sem skreyttu veggi í borginni Çatalhöyük.[18] Forsöguleg list hefur oft verið túlkuð sem listræn tjáning trúarlegra hugmynda eða sem galdur (til að auka frjósemi eða laða að veiðidýr til dæmis) og tengd við sjamanisma. Slíkar túlkanir geta þó verið umdeildar.[19]
Listgreinar
breytaTil er mikill fjöldi listgreina sem eru flokkaðar ýmist eftir miðli, tilgangi, búnaði, staðsetningu og fleiri þáttum. Ólík flokkunarkerfi byggjast svo á ólíkum viðhorfum til listar og eru menningarbundin. Í Kína til forna var til dæmis talað um þrjár listgreinar: skrautskrift, málun og ljóðlist. Eftir 17. öld varð algengt að greina nytjalist og skreytilist frá fagurlist á vesturlöndum, og um leið alþýðulist frá hámenningarlist. Síðan þá hefur verið deilt um hvort tilteknar listgreinar eigi að teljast með sem slíkar eða ekki. Dæmi um þetta eru greinar eins og ljósmyndun, kvikmyndagerð, myndasögur, fatahönnun og tölvuleikir.
Samkvæmt vestrænni hefð er algengt að flokka listgreinar í þrjá eða fjóra yfirflokka:
- Nytjalist (hönnun, myndskreytingar, skrautskrift, leirlist, með meiru)
- Bókmenntir eða ritlistir (skáldsagnagerð, ljóðlist og leikritun, með meiru)
- Myndlist eða sjónlistir (málaralist, höggmyndalist og byggingarlist, með meiru)
- Sviðslistir (dans, tónlist og leiklist, með meiru)
Listgreinar sem hafa verið stundaðar um langt skeið byggjast á tilteknum hefðum, skólum og fjármögnunarleiðum, sem greina þær frá öðrum listgreinum. Þær geta líka haft ólíka lagalega stöðu, til dæmis gagnvart hugverkarétti. Margar tegundir listsköpunar hafa orðið til á mörkum ólíkra listgreina. Dæmi um það eru myndljóð, gjörningalist, innsetningar, kvikmyndagerð, ballett og ópera.
Aðrar tegundir flokkunar eru til dæmis greinarmunurinn á hefðbundinni list og nútímalist;[20] munurinn á óhlutbundinni list og hlutbundinni list, eða munurinn á konseptlist og efnislegri list.
Tilvísanir
breyta- ↑ „Hvernig er hægt að útskýra hvað list er?“. Vísindavefurinn.
- ↑ Evelyn Hatcher, ritstjóri (1999). Art as Culture: An Introduction to the Anthropology of Art. Praeger.
- ↑ Henshilwood, Christopher; og fleiri (2002). „Emergence of Modern Human Behavior: Middle Stone Age Engravings from South Africa“. Science. 295 (5558): 1278–1280. Bibcode:2002Sci...295.1278H. doi:10.1126/science.1067575. PMID 11786608. S2CID 31169551.
- ↑ Henshilwood, Christopher S.; d'Errico, Francesco; Watts, Ian (2009). „Engraved ochres from the Middle Stone Age levels at Blombos Cave, South Africa“. Journal of Human Evolution. 57 (1): 27–47. doi:10.1016/j.jhevol.2009.01.005. PMID 19487016.
- ↑ Texier, P. J.; Porraz, G.; Parkington, J.; Rigaud, J. P.; Poggenpoel, C.; Miller, C.; Tribolo, C.; Cartwright, C.; Coudenneau, A.; Klein, R.; Steele, T.; Verna, C. (2010). „A Howiesons Poort tradition of engraving ostrich eggshell containers dated to 60,000 years ago at Diepkloof Rock Shelter, South Africa“. Proceedings of the National Academy of Sciences. 107 (14): 6180–6185. Bibcode:2010PNAS..107.6180T. doi:10.1073/pnas.0913047107. PMC 2851956. PMID 20194764.
- ↑ „Place Stanislas, Place de la Carrière and Place d'Alliance in Nancy“. UNESCO World Heritage Centre. United Nations Educational, Scientific, and Cultural Organization. Sótt 17. október 2021.
- ↑ „World's Oldest Figurative Art is Now an Official World Treasure“.
- ↑ „Earliest music instruments found“. BBC News. 24. maí 2012.
- ↑ „Lascaux“. Encyclopedia Britannica. 28. júní 2024.
- ↑ Michael Gross (2020). „Cave art reveals human nature“. Current Biology. 30 (3): R95–R98. doi:10.1016/j.cub.2020.01.042.
- ↑ Higham, Thomas; Laura Basell; Roger Jacobic; Rachel Wood; Christopher Bronk Ramsey; Nicholas J. Conard (8. maí 2012). „Τesting models for the beginnings of the Aurignacian and the advent of figurative art and music: The radiocarbon chronology of Geißenklösterle“. Journal of Human Evolution. Elsevier. 62 (6): 664–76. doi:10.1016/j.jhevol.2012.03.003. PMID 22575323.
- ↑ „Earliest music instruments found“. BBC News. 25. maí 2012. Sótt 26. maí 2012.
- ↑ „Earliest musical instrument discovered“. International Business Times. 25. maí 2012. Sótt 26. maí 2012.
- ↑ Hutton, Ronald (2003). Witches, Druids, and King Arthur. London: Hambledon and London. bls. 33–35. ISBN 1-85285-397-2.
- ↑ Aubert, M., Setiawan, P., Oktaviana, A.A.; og fleiri (2018). „Palaeolithic cave art in Borneo“. Nature. 564: 254–257. doi:10.1038/s41586-018-0679-9.
- ↑ Dietrich, O., Notroff, J., & Dietrich, L. (2018). „Masks and masquerade in the Early Neolithic: a view from Upper Mesopotamia“. Time and Mind. 11 (1): 3–21. doi:10.1080/1751696X.2018.1433354.
- ↑ Marta Tobolczyk (2016). „The World's Oldest Temples in Göbekli Tepe and Nevali Çori, Turkey in the Light of Studies in Ontogenesis of Architecture“. Procedia Engineering. 161: 1398–1404. doi:10.1016/j.proeng.2016.08.600. ISSN 1877-7058.
- ↑ Hodder, I. (2012). „Çatalhöyük. A summary of recent work concerning architecture“. Í B. Söğüt (ritstjóri). From Straonikeia to Lagina: Festschrift in honour of Ahmet Adil Tırpan. İstanbul. bls. 303–314.
- ↑ Herva, V. P., & Ikäheimo, J. (2002). „Defusing Dualism: Mind, Materiality and Prehistoric Art“. Norwegian Archaeological Review. 35 (2): 95–108. doi:10.1080/002936502762389729.
- ↑ Matthías Johannessen (1973, 1. apríl). „Upphaf nútímalistar“. Lesbók Morgunblaðsins. 48 (13): 1–8.