Slavnesk tungumál
Slavnesk tungumál eru hópur skyldra indóevrópskra mála sem töluð eru af Slövum, mest í Austur-Evrópu, á Balkanskaganum, í Mið-Evrópu og Norður-Asíu. Þeir sem tala slavnesk tungumál eru um 315 milljónir samtals.
Slavnesk tungumál | ||
---|---|---|
Ætt | Indóevrópskt Baltóslavneskt | |
Frummál | Frumslavneska | |
Undirflokkar | Austurslavnesk tungumál Suðurslavnesk tungumál Vesturslavnesk tungumál | |
ISO 639-5 | sla | |
Lönd þar sem austurslavneskt mál er talað Lönd þar sem vesturslavneskt mál er talað Lönd þar sem suðurslavneskt mál er talað
|
Greinar
breytaOftast er slavneskum tungumálum skipt í þrjár greinar á landfræðilegum og ættfræðilegum grunni:
- Austurslavnesk tungumál
- Fornausturslavneska (útdauð)
- Fornnovgorodíska (útdauð)
- Rúþeníska (útdauð)
- Hvítrússneska
- Rússneska
- Úkraínska
- Rúsínska
- Fornausturslavneska (útdauð)
- Vesturslavnesk tungumál
- Tékkneskt-slóvakískt
- Lekítískt
- Fornpólska (útdauð)
- Pómeranískt
- Kassúbíska
- Slóvínsíska (útdauð)
- Pólabíska (útdauð)
- Sorbneskt
- Kaníska (útdauð)
- Suðurslavnesk tungumál
- Austurflokkur
- Vesturflokkur
Saga
breytaSlavnesk tungumál eiga rætur sínar að rekja til frumslavnesku, sem á sinn uppruna í frumindóevrópsku, formóður allra indóevrópskra tungumála. Stigið milli frumindóevrópsku og frumslavnesku var frumbaltóslavneska, en á tímanum þegar hún var töluð þróuðust margir sameiginlegir eiginleikar hvað varðar hljóðfræði, beygingarfræði, orðaforða og orðaröð. Því eru baltnesk og slavnesk tungumál skyldust allra indóevrópskra tungumálagreina. Talið er að frumslavneska hafi greinst frá frumbaltóslavnesku á tímabilinu 1500–1000 f.Kr.
Víða voru rétttrúaðir Slavar neyddir til að tala fornkirkjuslavnesku í stað móðurmáls síns. Orð úr fornkirkjuslavnesku, helst þau sem lýsa óhlutbundnum hugtökum, voru því tekin upp í mörgum slavneskum tungumálum. Í kaþólskum löndum var ástandið nokkuð öðruvísi en þar voru mörg orð tekin úr latínu. Pólska endurreisnarskáldið Jan Kochanowski skrifaði á móðurmáli sínu, ásamt króatískum barokkhöfundum sem voru virkir á 16. öld. Fyrir þennan tíma hafði pólskan fengið mörg orð úr latínu á svipaðan hátt og rússneskan átti eftir að gera nokkru seinna.
Þó að fornkirkjuslavneska hindraði notkun á móðurmálum kom hún líka í veg fyrir áhrif að utan og studdi við slavneskar bókmenntir. Einungis króatískar bókmenntir ná eins langt aftur og þær kirkjuslavnesku. Eitt elsta handrit á króatísku er Vinodol-lögbókin, en þróun bókmennta á tungumálinu hélt áfram í gegnum endurreisnina þangað til króatíska var stöðluð árið 1830. Samt var mikið af textum sem skrifaðir voru frá 1300 til 1500 á blöndu móðurmála og fornkirkjuslavnesku eins og tíðkaðist í Rússlandi og annars staðar á þeim tíma.
Mikilvægasti forngripur króatískra bókmennta er Baška-taflan frá 11. öld. Hún er stór steintafla sem fannst í litilli kirkju á eyjunni Krk við Króatíu. Textinn á töflunni er að mestu leyti skrifaður á tjakavísku, mállýsku sem var rituð með glagólitíska stafrófinu.
Nýlegri áhrif á slavnesk mál eru svipuð þeim sem urðu í öðrum tungumálum og má rekja til pólitískra tengsla Slava. Á 17. öld voru mörg þýsk orð tekin inn í rússnesku vegna beinna samskipta Rússa og þýskra innflytjenda í Rússlandi. Á tíma Péturs mikla voru tengsl við Frakkland sterk og því kom mikið af frönskum orðum og lánsþýðingum inn í málið. Verulegur fjöldi þessara orða er notaður enn í dag og leysti gömul slavnesk tökuorð af hólmi. Á 19. öld var það hins vegar rússneskan sem hafði áhrif á hin slavnesku málin á einn eða annan hátt.
Einkenni
breytaSlavnesk tungumál eru furðulega einsleit miðað við aðrar indóevrópskar málaættir (t.d. germönsk, rómönsk og indóírönsk tungumál). Þangað til á 10. öld var slavneska eitt tungumál með nokkrar mállýskur. Í samanburði við flest önnur evrópsk tungumál eru slavnesk mál frekar íhaldssöm, sérstaklega hvað varðar beygingarendingar. Flest slavnesk tungumál hafa ríkt beygingarkerfi sem varðveitir mikið af frumindóevrópskum beygingarmyndum.
Samstofna orð
breytapólska | tékkneska | rússneska | úkraínska | slóvenska | króatíska | búlgarska | fornkirkjuslavneska | millislavneska | íslenska |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
księga, książka | kniha | книга (kníga) | книжка (knýžka) | knjiga | knjiga | книга (kníga) | кън҄ига (kŭnʹiga) | kniga / книга | bók |
dzień | den | день (d’en’) | день (den’) | dan | dan | ден (den) | дьнь (dĭnĭ) | denj / дењ | dagur |
jabłko | jablko | яблоко (jábloko) | яблуко (jabluko) | jabolko | jabuka | ябълка (jabǎlka) | аблъко (ablŭko) | jabloko / јаблоко | epli |
noc | noc | ночь (noč’) | ніч (nič) | noč | noć | нощ (nošt) | нощь (noštĭ) | noč / ноч | nótt |
śnieg | sníh | снег (sneg) | сніг (sníh) | sneg | snijeg | сняг (snjag) | снѣгъ (sněgŭ) | sněg / снєг | snjór |
woda | voda | вода (vodá) | вода (vodá) | voda | voda | вода (vodá) | вода (voda) | voda / вода | vatn |