Kommúnismi (úr frönsku communisme og upphaflega úr latínu communis, „það sem er sameiginlegt“) er hugtak sem notað er um ýmsar náskyldar hugmyndir sem eiga það sameiginlegt að álíta að öll framleiðslutæki eigi að vera í sameign samfélagsins eða a.m.k. jafnt skipt. Orðið „kommúnismi“ hefur stundum verið íslenskað sem „sameignarstefna“, en sú nafngjöf hefur aldrei náð festu.

Hamar og sigð, merki Sovétríkjanna.

Innan lenínismans á hugtakið kommúnismi sérlega við lokastig stéttabaráttunnar, þegar stéttir og ríkisvald eru horfin úr samfélagsskipaninni, og hver og einn leggur af mörkum eftir getu og ber úr býtum eftir þörfum. Kommúnisminn er hluti af miklu víðtækari hugmyndahefð og framkvæmd sósíalisma, þrátt fyrir að merking þessara tveggja hugtaka hafi verið nokkuð á reiki í gegnum tíðina.

Forsaga

breyta

Hugmyndir um jafnan aðgang og jafna skiptingu eigna hafa verið til í alda raðir. Meðal annars hefur því oft verið haldið fram að forngríski heimspekingurinn Platon hafi í ritinu Ríkið[1] lýst eins konar fyrirmyndarríki af kommúnískum toga. Þetta má draga mjög í efa, meðal annars vegna þess að Platon álítur að kaupmenn og handverksmenn eigi eftir sem áður að stefna að verðmætasöfnun með hefðbundnum hætti. Einnig má benda á að sameignarfyrirkomulag þekktist í raun meðal ýmissa söfnuða frumkristni en það verður þó að hafa í huga að þessir söfnuðir biðu bókstaflega eftir endurkomu Jesú og töldu sig þess vegna ekki hafa mikla þörf fyrir eignasöfnun.[2]

Það er þó ekki fyrr en Thomas More gaf út bókina Útópía (1516) sem þróaðar hugmyndir um framtíðarríki, sem byggist á sameign allra, taka á sig fast form. Fjölmargir fetuðu í fótspor More og skrifuðu bækur og ritlinga um svipuð framtíðarríki. Hins vegar voru færri tilraunir gerðar til að skapa slík samfélög í reynd. Þar er jesúítaríkið í Paraguay (1610 – 1758) undantekning, en þar var skapað samfélag án einkaeigna. Það var þó ekki fyrr en við byltinguna í Frakklandi (1789 – 1799) og þegar fór að líða á 19. öldina sem hægt er að tala um raunverulegar kommúnistahreyfingar.

Á tíunda áratug 18. aldar setti François Babeuf fram kenningar um jöfnuð eigna, sem höfðu mikil áhrif á stjórnmálaumræðuna. Á fyrstu áratugum 19. aldar höfðu útópískir sósíalistar eins og Charles Fourier og Étienne Cabet mikil áhrif. Þeir fengu mikið fylgi og víða voru gerðar tilraunir til að skapa útópísk sameignarsamfélög, sérstaklega í Norður-Ameríku. Þegar árið 1825 hafði eitt helsta samfélagið, New Harmony, verið stofnað í Indiana í Bandaríkjunum.

Söguágrip

breyta
 
Karl Marx (1875)
 
Friedrich Engels (1877)

Á 19. öld var munurinn á hugtökunum „sósíalismi“ og „kommúnismi“ óljós og oft voru þau notuð sem samheiti. Það var í kring um árið 1830 sem farið var að nota hugtakið „sósíalismi“ og gerðu fylgismenn Pierres Leroux í Frakklandi og Roberts Owen á Englandi það nokkurn veginn samtímis. Á sama hátt fóru byltingarsinnaðir hópar í París að nota hugtakið „kommúnismi“ um 1839.

Sósíalistar og kommúnistar höfðu með sér fjölmörg samtök á 19. öld, sem lögðu mikinn kraft í að deila hver við annað. Eitt þeirra mikilvægustu og sem hafði mikil alþjóðleg áhrif var Bund der Gerechten (Bandalag hinna réttlátu) sem skipti um nafn árið 1847 og nefndist eftir það Bund der Kommunisten (Kommúnistabandalagið). Karl Marx og Friedrich Engels voru fengnir til að skrifa stefnuskrá samtakana og hún kom út snemma árs 1848 undir nafninu Manifest der Kommunistischen Partei (sem hefur verið nefnt Kommúnistaávarpið á íslensku) og varð þegar að grundvallarriti kommúnista og hefur verið æ síðan.

Byltingaraldan sem gekk yfir Evrópu 1848 – 1849 olli kommúnistum vonbrigðum. Marx og Engels og þeirra fylgismenn drógu af því þá ályktun að kommúnísk bylting verði einungis framkvæmd af vel skipulagðri og pólitískt meðvitaðri verkalýðsstétt. Eitt skref í þá átt var stofnun Fyrsta alþjóðasambandsins (Internationalinn) 1864. Á seinni áratugum 19. aldar var orðið „kommúnismi“ lítið notað. Í stað þess nefndu róttækir flokkar og samtök sig annaðhvort sósíalísk eða sósíaldemókratísk. Þannig var um sterkustu samtök þessa tíma, þýska sósíaldemókrataflokkinn, sem voru nátengd Marx og Engels.

Þegar í ritinu Athugasemdir við Gotha-stefnuskránna, sem kom út árið 1875, skrifar Marx um tvö stig hins kommúníska framtíðarsamfélags. Strax eftir byltingu muni koma nokkurs konar aðlögunartímabil, alræði öreiganna, þar sem þess er krafist að allir leggi sig fram eftir getu og enn sé barátta um völdin. Síðara stigið er svo samfélag þar sem ríkisvaldið er orðið óþarft og einkaeignarétturinn verði afnuminn. Á þessu síðara stigi, sagði hann, munu samskipti manna byggjast á þeirri grundvallarreglu að hver leggi af mörkum eftir getu og beri úr býtum eftir þörfum [3]. Þessi stigskipting varð grundvallaratriði í kenningum Leníns þegar hann er að móta kommúnisma seinni tíma. Kallar hann fyrra stigið „sósíalisma“ og hið síðara „kommúnisma„[4].

Það var þó ekki fyrr en eftir Októberbyltinguna árið 1917 og stofnun Sovétríkjanna sem stjórnmálasamtök fóru að kallast kommúnísk á sama hátt og gert hafði verið um miðja 19. öld. Þriðja alþjóðasambandið (Internationalinn) sem varð þekktara undir nafninu Komintern, sem stofnað var 1919, skipti þar miklu máli. Komintern var skipulagt á þann hátt að kommúnistaflokkar hinna ýmsu landa voru ekki sjálfstæðar einingar heldur flokksdeildir í þessum alþjóðlega stjórnmálaflokki. Eitt meginframlag Leníns var kenning hans um flokkinn og skipulag hans. Samkvæmt henni átti flokkurinn að vera harðsnúin „framvarðarsveit“ verkalýðsstéttarinnar á stigi sósíalismans og fara með völdin fyrir hönd öreiganna. Flokkurinn átti að vera skipulagður samkvæmt „lýðræðislegu miðstjórnarvaldi“, sem átti að fela í sér rökræðu og aðhald, en þýddi í reynd að miðstjórn flokksins stjórnaði á svipaðan hátt og herforingjar gera í stríði og að andstæðar skoðanir voru bannaðar[5]. Á meðan Komintern starfaði, fram til ársins 1943, áttu allir flokkar sem áttu aðild að sambandinu að lúta samþykktum miðstjórnar samkvæmt þessum kenningum.

Eftir að Jósef Stalín tókst að ná völdum í sovéska kommúnistaflokknum og fyrst hrekja burt og síðan láta myrða Lev Trotskíj, magnaðist einræðiskerfið og ofsóknir á hendur raunverulegum og ímynduðum andstæðingum.

Eftir sigur bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni tóku kommúnistar völdin í flestum ríkjum í Austur- og Mið-Evrópu og urðu þau í raun eins konar leppríki Sovétríkjanna. Eftir byltinguna í Kína árið 1949 tóku kommúnistar einnig þar að byggja sósíalískt samfélag, að miklu leyti að sovéskri fyrirmynd, og eins í Víetnam og Norður-Kóreu. Á sama tíma náðu margir kommúnistaflokkar utan Sovétveldisins, sérstaklega í Frakklandi og á Ítalíu, miklum framgangi í almennum kosningum. Eftir dauða Stalíns árið 1953 glímdu ráðamenn í Sovétríkjunum við að fylla í skarðið. Niðurstaðan varð að Nikita Krústsjov flutti leyniræðu sína árið 1956, en í henni rakti hann hvernig Stalín og samverkamenn hans hefðu beitt harðræði og fjöldamorðum við stjórn sína. Ræðan er gjarnan skilin sem uppgjör við Stalín, þar sem honum er eignuð ábyrgð á mörgu sem miður fór í stjórnartíð hans. Þegar ræðunni hafði (viljandi) verið lekið til vestrænna fjölmiðla, komu fljótlega alvarlegir brestir í alþjóðahreyfingu kommúnista. Sérstaklega urðu harðar deilur milli Kína og Sovétríkjanna, þar sem Maó hafði stutt Stalín, en kommúnistaflokkar á vesturlöndum, ekki síst sá ítalski, fóru einnig að skapa sér sjálfstæða pólitík. Samtíma þessu höfðu kommúnískar hugmyndir mikil áhrif á andspyrnu- og þjóðfrelsishreyfingar víða um heim og eins á vinstrisveifluna á 7. og 8. áratugnum. Fyrir þessar hreyfingar var það þó oft ekki sovétsamfélagið sem var fyrirmynd, heldur mun frekar hugmyndir um Kína undir stjórn Maós og Kúbu undir stjórn Fídels Kastró og Ches Guevara. Þeir höfðu enda stuðst mikið við skæruhernað í valdabaráttu sinni, líkt og margar andspyrnu- og þjóðfrelsishreyfingar annars staðar, fyrr og síðar.

Á 9. áratugnum varð róðurinn æ þyngri fyrir kommúnistana í Sovétríkjunum og fylgiríkjum þeirra í Austur-Evrópu. Stjórnkerfið var þunglamalegt og stóðst kapítalískum Vesturlöndum ekki snúning. Umbætur Gorbatjofs komu of seint og voru ekki nógu djúptækar til að hægt væri að bjarga þessum samfélagskerfum við. Á árunum 1989 - 1991 féllu allar kommúnistastjórnir í Evrópu. Eftir standa fáein ríki sem enn aðhyllast hugsjónir kommúnismans þó það sé oft ekki annað en í orði. Þau eru Kína, Kúba, Laos, Norður-Kórea og Víetnam.

Helstu greinar kommúnismans

breyta

Eitt af einkennum þeirra hreyfinga sem kenna sig við kommúnisma er að þær hafa lagt mikinn kraft í að aðgreina sig frá og deila við aðra sem kenna sig við kommúnisma eða sósíalisma. En nánast allar þessar hreyfingar á 20. öld hafa sagt sig byggja á kenningum marxismans (þó skilgreiningin á honum sé ekki alltaf sú sama).

Marxismi

breyta

Hugtakið „marxismi“ er annars vegar notað yfir þær heimspekilegu og félagsfræðilegu kenningar sem þýski heimspekingurinn Karl Marx (18181883) og samstarfsmaður hans Friedrich Engels (18201895) settu fram, og hins vegar túlkanir og viðbætur við þessar kenningar. Þeir félagar skrifuðu fjölda bóka og bæklinga bæði saman og hvor fyrir sig, það þekktasta, fyrir utan Kommúnistaávarpið sem áður er getið, er Auðmagnið (Das Kapital) sem var skrifað af Marx.

Söguskoðun sína kölluðu Marx og Engels sögulega efnishyggju, og er hún nátengd almennri kenningu Marx um heiminn, sem eftir hans daga hefur verið kölluð þráttarefnishyggja (eða „díalektísk“ efnishyggja), og gengur út frá því að hið efnislega sé undirstaðan (öfugt við hughyggju Hegels) og að breytingar verði við átök eða samspil andstæðna. Samkvæmt þessum meginreglum litu Marx og Engels svo á, að aðferðir fólks við framleiðslu lífsnauðsynja væru undirstaða alls annars í samfélaginu og að þær skiptu fólki í stéttir. Eftir því sem aðferðirnar þróuðust, breyttust líka valdahlutföllin milli stéttanna, uns að því kæmi að ríkjandi valdastétt væri hrundið og ný stétt tæki völdin. Þessa baráttu — stéttabaráttuna — litu þeir á sem „hreyfiafl sögunnar“ og að „öll mannkynssagan fram til þessa [væri] saga stéttabaráttu“ (Kommúnistaávarpið, formáli).

Í þjóðfélagi kapítalismans litu Marx og Engels svo á að tvær höfuðstéttir væru í þjóðfélaginu, borgarastéttin (kapítalistarnir) annars vegar og verkalýðsstéttin hins vegar (þeir notuðu reyndar hugtakið Proletariat sem hefur verið þýtt sem öreigar á íslensku). Borgarastéttin er þeir sem ráða yfir framleiðslutækjunum og hráefninu og verkalýðsstéttin er þeir sem eiga ekkert nema vinnuafl sitt. Verkalýðsstéttin lifir á að selja borgarastéttinni vinnuafl sitt, sem hin síðarnefnda nýtir til að skapa arð, sem hún eignar sér (arðrán). Þeir félagar töldu að með vísindalegum hætti mætti sjá þjóðfélagsþróun framtíðarinnar fyrir í grófum dráttum, og að næstu stóru átök stéttabaráttunnar yrðu milli þessara tveggja stétta, þar sem verkalýðsstéttin mundi óumflýjanlega fara með sigur af hólmi í byltingu. Hún mundi þá taka öll völd í þjóðfélaginu í sínar hendur, móta það í sinni mynd og afnema þannig stéttaskiptinguna.

Lenínismi

breyta

Lenínismi er sú hugmyndafræði sem byggir á túlkun Vladimír Iljitsj Lenín á marxismanum og varð grunnur bolsévismans í Rússlandi og flestra annarra kommúnistahreyfinga 20. aldar.

Ein af höfuðkenningum Leníns var sú að samtíð hans lifði á hæsta og síðasta stigi kapítalismans og það einkenndist af „tímabili heimsvaldastefnunnar“. Það væri nauðsynlegt að skapa forystusveit fyrir verklýðsstéttina, agaðan flokk sem stjórnað væri með „lýðræðislegu miðstjórnarvaldi“. Markmiðið var að afnema kapítalismann og koma á fyrsta stigi sósíalismans og „alræði öreiganna“. Marx og Engels voru sannfærðir um að byltingin kæmi í þróuðustu iðnaðarlöndunum og mundi gerast í alþjóðlegu bandalagi verkalýðsins samtímis í mörgum löndum. Lenín taldi aftur á móti að heimsvaldastefnan hefði gert verkalýð iðnvæddustu landanna afhuga byltingu með því að nota hluta af herfangi heimsvaldastefnunnar til að friðþægja hann. Sósíalísk bylting væri hins vegar möguleg í rússneska bændaþjóðfélaginu, sem væri veikasti hlekkur hins alþjóðlega auðvaldsskipulags. Verkalýðsstéttin mundi hafa forystu fyrir bændastéttinni og eftir byltinguna mundu bændurnir gerast verkamenn með því að vinna á samyrkjubúum.

Stefna Leníns mótaðist einnig í harðri baráttu gegn sósíaldemókrötum innan hreyfingar sósíalista, en þeir álitu að mögulegt væri að koma á sósíalisma með friðsamlegum umbótum og að bylting væri ekki nauðsynleg. Margir kenndu sig enn þá við marxisma, svo sem Karl Kautsky og Eduard Bernstein, en voru að mati Leníns komnir langt frá réttum skilningi á kenningum Marx. Lenín háði einnig baráttu gegn stjórnvaldsleysingjum (anarkistum) og þjóðbyltingarmönnum (narodnikum) í hinni víðari hreyfingu byltingarsinna.

Stalínismi

breyta

Stalínismi, sem kenndur er við Jósef Stalín (1878 – 1953), er tæpast eiginleg hugmyndafræðileg undirgrein kommúnisma. Þegar talað er um stalínisma er frekar átt við það einræðislega stjórnarfar sem einkenndi stjórnartíð hans 1922–53, mikil notkun áróðurs og hvatt var til persónudýrkunar á leiðtoganum. Miðstýring þjóðfélagsins var mikil, fólk hafði mjög takmarkað frelsi því allar mikilvægar ákvarðanir teknar ofan frá. Enn fremur setti Stalín á fót vinnuþrælkunarbúðir fyrir fanga, gúlagið, þar sem gífurlegur fjöldi fanga vann dag og nótt við hörmulegar aðstæður. Ofsóknir gagnvart raunverulegum og ímynduðum andstæðingum voru mikilvægur þáttur í uppbyggingu „alræðis öreiganna“. Á árunum 1936–38 hófust hreinsanir í Kommúnistaflokknum, svonefnd Moskvuréttarhöld þar sem 16 pólitískum andstæðingum Stalíns voru bornar upplognar sakir og þeir dæmdir til dauða eða refsivinnu í gúlaginu. Óhemjuleg persónudýrkun foringjans var annað framlag sem kommúnistaforingjar í öðrum löndum tóku upp. Stalín innleiddi stórfelldar fimm ára áætlanir í efnahags- og skipulagsmálum, sem voru í gildi öll þau ár sem hann var við stjórn. Fylgismenn hans töluðu aldrei um stalínisma heldur var það hugtak skapað af andstæðingum Stalíns.

Marx-lenínismi

breyta

Það hugtak sem á íslensku er oftast nefnt marx-lenínismi (en einnig marxisminn-lenínisminn) var upphaflega skapað af Stalín til að leggja áherslu á að kenningar Leníns (í túlkun Stalíns) væru ekki einungis viðbót við marxismann heldur hefðu lyft honum upp á nýtt svið. Hugtakið hefur hins vegar verið túlkað á ýmsa vegu af mismunandi kommúnistum. Nafngiftin marx-lenínismi var notað sem opinbert heiti á ráðandi hugmyndafræði í Sovétríkjunum og fylgiríkjum og eins fylgiflokkum þeirra frá valdatíma Stalíns og allt þar til sovétveldið hrundi. Eftir að í sundur skildi milli Kína og Sovétríkjanna fóru maóistar hins vegar að kalla sig hins einu sönnu marx-lenínista og hnýttu því oft við nöfn hópa sinna og flokka (samanber EIK (ml) á Íslandi).

Maóismi

breyta
 
Maó Zedong heldur ræðu 1939

Andstætt Lenín var Maó Zedong (18931976) viss um að bændastéttin gæti framkvæmt byltingu öreiganna án þess að verkalýðsstéttin væri þar framvarðarsveit. Byltingin gæti allt eins átt rætur á landsbyggðinni eins og í iðnaðarsvæðum þéttbýlis og borga. Maó var einnig viss um að stéttabaráttan héldi áfram og harðnaði eftir að byltingin hafði verið framkvæmd. Virkjun fjöldans er einnig lykilatriði í maóismanum ólíkt flokkskenningu Leníns og Stalíns, þar sem aðaláhersla er lögð á hlutverk flokksins sem framvarðarsveit og leiðtoga [6]. Maóisminn hefur haft mun meiri áhrif á kommúnistahreyfingar í bændaþjóðfélögum þriðja heimsins en í iðnarþjóðfélögum, ef burtséð er frá maóistahreyfingum 7. og 8. áratuganna á Vesturlöndum. Má þar nefna Skínandi stíg í Perú, Naxalíta í Indlandi og maóistahreyfinguna í Nepal. Maóistar kalla maóisma yfirleitt Hugsun Maó Zedong.

 
Lev Trotskíj 1915

Trotskíismi

breyta

Trotskíisminn er eindregið byltingarsinnaður og leggur mikla áherslu á alþjóðahyggju. Samkvæmt Lev Trotskíj (1879 – 1940) er alþjóðabyltingin forsenda raunverulegs sósíalisma. Þar sem borgarastéttin ekki hafði getað framkvæmt borgaralegu byltinguna með eigin krafti (eins og staðan var í Rússlandi í upphafi 20. aldar) yrði verkalýðsstéttin að framkvæma hana upp á eigin spýtur og láta hana vaxa yfir í alþjóðlega sósíalíska byltingu og er það algjör andstæða við „sósíalisma í einu landi“[7], stefnu sem Lenín setti fram (og Stalín hélt fast í) þegar sýnt var að aðrar byltingar, um svipaðar mundir og sú rússneska, voru fljótlega brotnar á bak aftur. Trotskíj kallaði sig aldrei „trotskísta“ heldur notaði hugtakið bolsévík-lenínisti. Trotskíistar hafa hvergi verið við völd en hafa víða haft talverið ítök hjá menntamönnum. Flokkar þeirra hafa einkum verið sterkir í Frakklandi og Mexíkó.

Evrókommúnismi

breyta

Á 8. og 9. áratug 20. aldar óx mjög gagnrýni innan kommúnistaflokka í Vestur-Evrópu á það sem kallað var marx-lenínismi, sem margir voru farnir að álíta kreddu og sem hafði verið stefna flokkanna fram að því. Þetta var samhliða uppgjör við hugmyndir og framkvæmd kommúnista og tilraun að aðlaga hann að vestrænu lýðræðisþjóðfélagi. Þessi gagnrýni og endurskoðun á mörgum grundvallaratriðum kenningarinnar var kallaður evrókommúnismi. Þungamiðja þessarar endurskoðunar var gagnrýni á sem og andstaða gegn þeirri pólitík sem Sovétríkin stóðu fyrir. Grundvallarhugmyndir evrókommúnismans má rekja til ítalska marxistans Antonio Gramscis (1891 – 1937). Hann gagnrýndi mjög kreddufestu vinstrimanna og vildi að hreyfingar þeirra opnuðu sig fyrir samstarfi við önnur pólitísk öfl og fjöldahreyfingar.

Það voru einkum kommúnistaflokkarnir í Frakklandi og á Ítalíu sem helst tóku upp evrókommúnismann. Þessir flokkar voru á þessum tíma mjög sterkir og fengu mikið fylgi í kosningum. Hugmyndirnar höfðu þó einnig mjög mikil áhrif innan annarra flokka eins og svo nefndra vinstri sósíalistaflokka á Norðurlöndum. Mikhaíl Gorbatsjev segir frá því í endurminningum sínum að hugmyndir evrókommúnista hafi haft mikil áhrif á sig þegar hann innleiddi glasnost og perestroika í Sovétríkjunum[8]. Eftir fall Sovétveldisins hafa flestir þeir flokkar sem aðhylltust evrókommúnisman orðið sósíaldemókratískir flokkar.

Kommúnismi á Íslandi

breyta

Eitt af sérkennum stjórnmálasögu Íslands á 20. öld er að þar höfðu kommúnistar lengi vel meiri áhrif og höfðu í samstarfi við aðra sósíalista miklu meira fylgi en í sambærilegu löndum. [heimild vantar] Sögu kommúnista á Íslandi má skipta í þrjá hluta.

Kommúnistaflokkur Íslands

breyta

Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður 1930. Þá höfðu kommúnistar starfað innan Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins (sem voru tvær greinar af sömu samtökum) frá stofnun þeirra 1916. Þeir höfðu einnig starfað í sérstökum hópum, sá mikilvægast var Jafnaðarmannafélagið Sparta, sem starfaði frá 1926 fram að stofnun flokksins. Kommúnistaflokkurinn gerðist þegar hluti af Komintern og var þar með hluti af alþjóðaflokki kommúnista og laut miðstjórnarákvörðunum hans. Helstu forsprakkar flokksins voru þeir Einar Olgeirsson og Brynjólfur Bjarnason sem var formaður. Þeir höfðu báðir kynnst marxisma við nám erlendis, Einar í Þýskalandi og Brynjólfur í Danmörku. Alþýðusambandið og Alþýðuflokkurinn klofnuðu þegar áhrif kommúnista innan þeirra jukust og þeir náðu talsverðum ítökum innan verkalýðshreyfingarinnar. Þetta var ólíkt því sem gerðist á hinum Norðurlöndunum þar sem sósíaldemókratar hafa enn náin tengsl við alþýðusamböndin og tókst lengi vel að útiloka kommúnista úr flestum áhrifastöðum innan þeirra.

Málgögn flokksins voru vikublaðið Verkalýðsblaðið og tímaritið Réttur. Frá 1936 hófst útgáfa dagblaðsins Þjóðviljans, og var þá útgáfu Verkalýðsblaðsins hætt.

Sósíalistaflokkurinn

breyta

Árið 1938 gekk Héðinn Valdimarsson til liðs við kommúnista. Alþýðuflokkurinn klofnaði við þetta og talsverður hluti hans fylgdi Héðni. Hinn sameinaði flokkur fékk nafnið Sameiningarflokkur alþýðu - Sósíalistaflokkurinn. Flokkurinn gekk ekki í Komintern og var ekki yfirlýstur kommúnistaflokkur, en í stefnuskrá flokksins var hann sagður byggja stefnu sína á „hinum vísindalega sósíalisma - marxismanum“. Hann hafi einnig alla tíð mjög náin formleg og óformleg sambönd við kommúnistaflokkana í Austur-Evrópu. Brynjólfur var formaður miðstjórnar fyrsta áratuginn og eftir að Héðinn yfirgaf flokkinn árið 1939, vegna afstöðu til innrásar Sovétríkjanna í Finnland, tók Einar Olgeirsson við formennsku og var formaður flokksins þangað til hann var lagður niður. Eftir því sem á leið varð allt erfiðara að halda flokknum á „réttri marxískri línu“; kom þar til meðal annars að talsverður fjöldi yngri flokksmanna voru sendir í nám „austantjalds“, sérlega til Austur-Þýskalands og Sovétríkjanna, og færðu misjafnar og oft ófagrar fréttir af sósíalismanum í framkvæmd. En stærsti áhrifavaldurinn var samvinnan við Hannibal Valdimarsson og fylgismenn hans í Alþýðubandalaginu, sem var stofnað sem kosningabandalag 1956. Hannibal hafði verið formaður í Alþýðuflokknum og var forseti Alþýðusambandsins og vildi vinna að sameiningu allra vinstrimanna í ein samtök. Eftir miklar deilur innan Sósíalistaflokksins var ákveðið 1968 að leggja hann niður og þess í stað stofna nýjan stjórnmálaflokk, Alþýðubandalagið. Með því þurru áhrif þeirrar kynslóðar kommúnista að mestu, sem fylgdi Sovétríkjunum að málum, enda var hinn nýi flokkur hvorki í orðum né gerðum á neinn hátt kommúnískur flokkur.

68-kynslóðin

breyta

Einn þáttur í því umróti sem kallað hefur verið 68-kynslóðin var endurvakning kommúnískra hugsjóna. Þó að þau samtök sem virkust voru í þessum málum hafi verið fámenn voru þau áberandi meðal ungs fólks, ekki síst í framhaldsskólum og háskólum. Það voru aðallega þrír hópar sem létu að sér kveða sem kölluðu sig kommúnista[9][10].

Æskulýðsfylkingin, félag ungra sósíalista, hafði verið ungliðahreyfing Sósíalistaflokksins frá 1938 og fylgt honum mjög að málum og haft sig frekar lítið í frammi. Upp úr miðjum 7. áratugnum breytast samtökin mjög og verða samastaður róttæklinga af ýmsu tagi. Árið 1970 slitu samtökin endanlega öllu sambandi við arftaka Sósíalistaflokksins, Alþýðubandalagið. Nafninu var breytt í Fylkingin - baráttusamtök sósíalista og samtökin þar með orðin pólitískur flokkur. Eftir harðar innri deilur gengu trotskíistar með sigur innan samtakana og sóttu um aðild að Fjórða alþjóðasambandinu (alþjóðasambandi trotskíista). Málgagn Fylkingarinnar og (Æskulýðsfylkingarinnar) var tímaritið Neisti.

Einingarsamtök kommúnista (marx-lenínistar), sem voru þekktari sem EIK (m-l), voru maóísk samtök sem stofnuð voru 1973 eftir að trotskíistar náðu yfirráðum yfir Fylkingunni. Þau áttu sér megin upptök hjá íslenskum námsmönnum í Noregi og voru nátengd norsku maóistasamtökunum AKP (m-l). Málgagn þeirra var Verkalýðsblaðið.

Kommúnistasamtökin marxistarnir-lenínistarnir, sem voru þekktari sem KSML, voru stofnuð 1972. Árið 1976 skiptu samtökin um nafn og voru nú nefnd Kommúnistaflokkur Íslands (marxistarnir-lenínistarnir), KFÍ (m-l). Þetta voru einnig maóísk samtök, en deildu harðlega við EIK (m-l) um rétta túlkun á fræðunum. Það voru íslenskir námsmenn í Gautaborg í Svíþjóð sem áttu frumkvæði að KSML, og voru þau nátengd sænsku maóistasamtökunum KPML(r). Málgagn þeirra var Stéttabaráttan.

Þegar róttæknialda 8. áratugarins hneig, lögðu EIK (m-l) og KSML upp laupana, ásamt nokkrum öðrum smærri hópum. Fylkingin var aldrei formlega lögð niður, mjög fámennur arftaki hennar starfaði lengi sem Kommúnistabandalagið og Ungir sósíalistar.

Tilvísanir

breyta
  1. Platon, Ríkið. Eyjólfur Kjalar Emilsson (þýð.), (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1991/1997).
  2. Hans Conzelmann: Geschichte des Urchristentums. Grundrisse zum Neuen Testament 5. (Göttingen: Vandenhoeck & Ruprecht, 1989). ISBN 3-525-51354-2
  3. Karl Marx og Friedrich Engels, Úrvalsrit Karl Marx. (Reykjavík: Heimskringla, 1968).
  4. V. I. Lenín, Ríki og bylting. (Reykjavík: Heimskringla, 1970).
  5. V. I. Lenín, Hvað ber að gera: knýjandi vandamál hreyfingar okkar. (Reykjavík: Heimskringla, 1970).
  6. Maó Tse-tung, Ritgerðir. (Reykjavík: Heimskringla, 1959 – 1971).
  7. Lev Trotskíj, Umbyltingarstefnuskráin. Dauðateygjur kapítalismans og verkefni Fjórða alþjóðasambandsins. (Reykjavík: Fylkingin, 1978).
  8. Mikhail Gorbachev, Memoirs, Doubleday. (1996). ISBN 0-385-48019-9
  9. Guðni Th. Jóhannesson, Óvinir ríkisins. (Reykjavík: Mál og menning, 2006). ISBN 9979-3-2808-8
  10. Gestur Guðmundsson og Kristín Ólafsdóttir, 68 Hugarflug úr viðjum vanans. (Tákn - bókaútgáfa, 1987).

Heimildir og ítarefni

breyta
  • Avineri, Shlomo, The Social and Political Thought of Karl Marx (Cambridge: Cambridge University Press, 1968).
  • Brown, Archie, The Gorbachev Factor (Oxford: Oxford University Press, 1997).
  • Deutscher, Isaac. Stalin: A Political Biography (New York: Oxford University Press, 1967).
  • Dirlik, Arif, Origins of Chinese Communism (Oxford: Oxford University Press, 1989).
  • Ebon, Martin, The Andropov File: The Life and Ideas of Yuri V. Andropov, General Secretary of the Communist Party of the Soviet Union (McGraw-Hill Companies, 1983).
  • Forman, James D., Communism from Marx's Manifesto to 20th century Reality (New York: Watts. 1972).
  • Furet, Francois, The Passing of an Illusion: The Idea of Communism in the Twentieth Century. Deborah Kan Furet (þýð.) (University of Chicago Press, 2000).
  • Gellately, Robert. Lenin, Stalin, and Hitler: The Age of Social Catastrophe (Knopf, 2007).
  • Gill, Graeme. Stalinism (2. útg.) (New York: Palgrave Macmillan, 1998).
  • Goldman, Marshall, What Went Wrong with Perestroika? (W.W. Norton, 1992).
  • Jonge, Alex de. Stalin and the Shaping of the Soviet Union (New York: William Morrow, 1986).
  • Mawdsley, Evan. The Stalin Years: The Soviet Union, 1929–53 (Manchester: Manchester University Press, 2003).
  • McLellan, David, Marxism After Marx (Basingstoke: Palgrave Macmillan, 2007).
  • Ree, Erik van. The Political Thought of Joseph Stalin: A Study in Twentieth-Century Revolutionary Patriotism (London: Routledge, 2002).
  • Tompson, William J., Khrushchev: A Political Life (New York: St. Martin's Press, 1995).
  • Tucker, Robert C. Stalin in Power: The Revolution from Above, 1928–1941 (New York: W.W. Norton, 1990).
  • Åslund, Anders, Gorbachev's Struggle for Economic Reform (Ithaca: Cornell University Press, 1991).

Ítarefni á íslensku

breyta
  • Arnór Hannibalsson gagnrýnir íslenska sósíalista í Kommúnismi og vinstri hreyfing á Íslandi (1964).
  • Arnór Hannibalsson vinnur úr gögnum um íslenska sósíalista í rússneskum söfnum í Moskvulínan (2000). Bókin skiptist í tvo hluta, og er annar um kommúnistaflokk Íslands og Komintern, hinn um afskipti Halldórs Kiljans Laxness af sósíalistahreyfingunni íslensku.
  • Árni Snævarr og Valur Ingimundarson segja sögu sósíalistahreyfingarinnar á Íslandi í Liðsmenn Moskvu (1992). Fyrri hlutinn er yfirlit um samskipti íslenskra sósíalista og ráðamanna Ráðstjórnarríkjanna, seinni hlutinn um samskiptin við austur-þýska kommúnista.
  • Brynjólfur Bjarnason lýsir „Jafnaðarstefnu fyrir daga Marx“ í Rétti 1929.
  • Brynjólfur Bjarnason gerir grein fyrir stefnu íslenskra marxista í Sósíalistaflokkurinn - stefna hans og starfshættir (1952).
  • Jón Ólafsson vinnur úr gögnum um íslenska sósíalista í rússneskum söfnum í Kæru félagar: íslenskir sósíalistar og Sovétríkin 1920-1960 (1999).
  • Úrvalsrit Karls Marx og Friðriks Engels hafa komið út í tveimur bindum á íslensku (1968).
  • Richard Pipes gagnrýnir sameignarstefnu í Kommúnisminn (2004).
  • Þór Whitehead segir sögu upphafs kommúnistahreyfingarinnar íslensku í Kommúnistahreyfingin á Íslandi 1921-1934 (1979).
  • Í Svartbók kommúnismans (2009) eru ýmis ódæði kommúnistastjórna á tuttugustu öld rakin.
  • Bertrand Russell skrifar Greinar um kommúnisma (2015).

Tengt efni

breyta

Tenglar

breyta
  • Klassísk rit jafnaðarsinna á Íslandi
  • „Hver var Karl Marx og hverjir höfðu mest áhrif á hugmyndir hans um samfélagið?“. Vísindavefurinn.
  • „Hver er munurinn á sósíalisma og kommúnisma?“. Vísindavefurinn.
  • Ógnaröld kommúnismans; grein í Morgunblaðinu 1998

Erlendir tenglar

breyta