Fullveldi (e. sovereignity) felur í sér fullt vald ríkis til að stjórna sjálfu sér (og eftir atvikum öðru landsvæði). Fullvalda ríki fer með æðstu stjórn, dómsvald, löggjafarvald og framkvæmdavald, yfir landsvæði og þjóð. Í hverju ríki er fullveldishafinn þ.e. sá sem fer með fullveldið, sá einstaklingur, samkoma eða stofnun sem fer með löggjafarvaldið t.d. þjóðhöfðingi eða þjóðþing, allt eftir stjórnarfari. Fullveldis-hafinn getur framselt vald sitt tímabundið, t.d. til erlendra ríkja eða yfirþjóðlegra stofnana, en getur tekið það til baka að vild.

Fullvalda ríki er jafnframt sjálfstætt ríki. Ekkert ríki getur talist fullvalda án sjálfstæðis. Ísland hlaut fullveldi 1. desember 1918 undan Danmörku og hlaut um leið sjálfstæði sem Konungsveldið Ísland. Við þetta fékk ríkisstjórn Íslands fullt ríkisvald þótt þjóðhöfðinginn væri áfram Danakonungur. Ísland opnaði sendiráð í Kaupmannahöfn 1920 og var viðurkennt sem sjálfstætt ríki af Danmörku, en eingöngu sjálfstæð ríki geta verið með sendiráð. Ísland fól Danmörku að framkvæma tímabundið visst ríkisvald í umboði sínu, t.d. var Hæstiréttur Íslands stofnaður 1920 og framkvæmdi Danmörk viss utanríkis- og varnarmál allt til 1940. Það ár opnaði Ísland sendiráð í Bretlandi og Svíþjóð. Dönsk sendiráð flögguðu bæði danska og íslenska fánanum og báru tvö skjaldarmerki 1918-44. En Danmörk gerði enga milliríkjasamninga sem bundu Ísland og framkvæmdu engin utanríkismál nema með umboði frá Íslandi. Frá 1918 fékk Ísland sjálfstæða aðild að alþjóðastofnunum eins og Alþjóðahafrannsóknarráðinu ICES 1938. Staða Íslands þá var hliðstæð stöðu bresku samveldislandanna í dag. Bretadrottning er t.d. þjóðhöfðingi Kanada og annarra samveldislanda. Þegar Íslandi var breytt úr konungsveldi í lýðveldi 17. júní 1944 breyttist stjórnarfarið en ekki fullveldið. Framsal Íslands á vissu ríkisvaldi á konungstímabilinu 1918-1940 er hliðstætt framsali þess í dag á ríkisvaldi til alþjóðastofnana eins og Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólsins.[1]

Hugtakið fullveldi skilgreindi ríki í alþjóðastjórnmálum frá lokum þrjátíu ára stríðsins með undirritun Vestfalíufriðarins og ætíð síðan. Eftir því sem líða tók á 20. öldina tók milliríkjasamstarf á sig nýjar myndir eins og í tilfelli Evrópusambandsins og í krafti hnattvæðingarinnar urðu stórfyrirtæki valdameiri en áður þekktist. Boutros Boutros-Ghali, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, sagði í ræðu árið 1992 að tími hins algilda og útilokandi fullveldis væri liðinn og það sem meira væri hefði hugtakið aldrei staðið undir nafni.[2]

Tengt efni

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Utanríkismál og saga utanríkisþjónustunnar, Pétur J. Thorsteinsson, Reykjavík 1992.
  2. „An Agenda for Peace - Preventive diplomacy, peacemaking and peace-keeping“. 1992.
   Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.