Wiesbaden

höfuðborg þýska sambandslandsins Hessen

Wiesbaden er höfuðborg þýska sambandslandsins Hessen og jafnframt næststærsta borg héraðsins með 278 þúsund íbúa (2019). Wiesbaden er gömul rómversk borg, þekkt fyrir böð.

Wiesbaden
Skjaldarmerki Wiesbaden
Staðsetning Wiesbaden
SambandslandHessen
Flatarmál
 • Samtals203,9 km2
Hæð yfir sjávarmáli
117 m
Mannfjöldi
 • Samtals278.000 (2.019)
 • Þéttleiki1.343/km2
Vefsíðawww.wiesbaden.de
 
Gamla baðhúsið í Wiesbaden

Wiesbaden liggur við Rínarfljót nær suðvestast í Hessen, einmitt þar sem áin Main rennur í Rín. Gegnt Wiesbaden, við suðurbakka Rínar, liggur borgin Mainz í sambandslandinu Rínarland-Pfalz. Aðrar nálægar borgir eru Frankfurt am Main til austurs (20 km) og Koblenz til norðvesturs (50 km).

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki Wiesbaden sýnir þrjár gylltar liljur á bláum fleti. Það er franskt að uppruna og er frá 16. öld. Núverandi merki var tekin upp 1906.

Orðsifjar

breyta

Rómverjar nefndu borgina Aquae Mattiacorum eða Civitas Mattiacorum, eftir germanska þjóðflokknum mattiaker. En á tímum Karlamagnúsar kölluðu menn borgina Wisibada, sem merkir baðið á enginu (Wiese = engi). [1]

Saga Wiesbaden

breyta

Upphaf

breyta

Það voru Rómverjar sem fyrst settust að á núverandi borgarstæði, en þeir reistu virki þar snemma á 1. öld (um 6-15 e.Kr.). Pliníus eldri minnist fyrstur manna á heitu böðin árið 77 e.Kr. Í kjölfarið reisa Rómverjar þar baðhýsi. Aðalhverinn er 66° heitur (Celsius) og gefur enn í dag af sér 346 lítra á mínútu. En strax árið 260 eyddu alemannar rómverska virkinu og hurfu Rómverjar því á brott. Þeir reistu þar þó varnargarð (landamæragarð) sem alemannar létu í friði. Á 6. öld hertóku frankar svæðið og reistu þar borg. Heitið Wiesbaden kemur fyrst við skjöl milli 820-830. Á 12. öld fengu greifarnir í Nassau borgina að léni, en 1232 verður Wiesbaden að ríkisborg. Þetta fór fyrir brjóstið á erkibiskupnum í Mainz, sem jafnframt var einn kjörfurstanna. 1242 safnaði hann liði, réðist á Wiesbaden og brenndi hana til kaldra kola. Wiesbaden og Mainz liggja gegnt hvor annarri og skilur aðeins Rínarfljót á milli. 1283 er Wiesbaden aftur brennd til kaldra kola í deilum greifanna af Nassau.

Erjur og trúarórói

breyta
 
Wiesbaden 1655. Mynd eftir Matthäus Merian.

Meðan siðaskiptin fóru fram í öðrum borgum snemma á 16. öld, hélt kaþólska kirkjan borgarbúum í föstum höndum. 1525 var blásið til bændauppreisarinnar miklu. Hópuðust þá margir borgarbúar saman og gengu til liðs við bændur. En uppreisnin var barin niður af mikilli hörku. Borgarbúar misstu fyrir vikið öll réttindi sem þeir höfðu áskilið sér í gegnum aldirnar. Siðaskiptin fóru ekki fram í Wiesbaden fyrr en 1543. Sama ár var latínuskóli stofnaður. En aðeins þremur árum seinna verður stórbruni í borginni og eyðilögðust við það margar byggingar. Annar stórbruni varð 1561.

Höfuðborg og baðbær

breyta

1744 setjast greifarnir í Nassau að í Wiesbaden og reisa sér þar kastala. En 1806 er þýska ríkið lagt niður og Rínarsambandið stofnað. Nassau verður að hertogadæmi og verður Wiesbaden þá höfuðborg, í fyrsta sinn í sögu borgarinnar. 1810 er spilavíti stofnað í borginni, enda laðaði borgin ýmsa vel stæða gesti til sín í sambandi við böðin. Meðal gesta spilavítisins má nefna rússneska rithöfundinn Fedor Dostojeskíj og tónskáldið Richard Wagner. 1848 urðu uppreisnir í mörgum þýskum borgum. Í Wiesbaden söfnuðust 30 þús manns saman við kastala greifans og heimtuðu stjórnarskrá. Greifi lét undan og urðu því íbúar greifadæmisins Nassau meðal þeirra fyrstu í þýska ríkinu til að hljóta stjórnarskrá. Í þýsk-austurríska stríðinu 1866 gekk Nassau til liðs við Austurríki og barðist gegn Prússum. En Prússar sigruðu í því stríði og innlimaði Bismarck þá Nassau í Prússland. Wiesbaden missti þar með stöðu sína sem höfuðborg sem hún hafði aðeins haft í 60 ár. Á hinn bóginn dafnaði borgin mjög sem heilsubær og ráðstefnuborg. Um aldamótin 1900 er borgin orðin að heimsbaðborg og kölluð Nice norðursins (Nizza des Nordens), en Nice er franskur baðbær við Miðjarðarhaf. Vilhjálmur II, Prússakeisari, var reglulegur baðgestur í Wiesbaden. Íbúatalan fór á þessum tíma yfir 100 þús.

Nýrri tímar

breyta
 
Bretar þramma um götur Wiesbaden 1929

Eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri hertóku Frakkar borgina. Hún varð hluti Rínarsvæðisins sem Frakkar áskildu sér sem stríðsskaðabætur. 1921 fór fram mikil ráðstefna í borginni um stríðsskaðabætur Þjóðverja og voru samningar þess eðlis undirritaðir þar. 1925 settust Bretar að í borginni og varð hún aðalaðsetur breska hersins á Rínarsvæðinu allt til 1930, en árinu áður var borginni skilað aftur til Þýskalands. Þjóðverjar reistu þar herflugvöll og það var frá þessum flugvelli sem þýska herdeildin hóf sig til flugs sem gerði loftárásir á spænsku borgina Gernika meðan spænska borgarastríðið geysaði. Í heimstyrjöldinni síðari varð Wiesbaden fyrir minni loftárásum en margar aðrar þýskar borgir. Loftárásirnar urðu alls 66 talsins og eyðilagðist um fjórðungur af borginni. 28. mars 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina. Hún var á bandaríska hernámssvæðinu. Hessen varð fyrsta sambandsríki Þýskalands 1. desember 1946 og varð Wiesbaden þá höfuðborg þess. Ástæða þess að Wiesbaden var valin sem höfuðborg var sú að hún var tiltölulega lítið skemmd eftir stríðið og Frankfurt (og reyndar Kassel einnig) biðu í voninni um að verða höfuðborg nýs Þýskalands. Herflugvöllurinn í Wiesbaden var notaður sem stökkpallur til Berlínar meðan loftbrúin var í gangi þar eftir stríð. Daglega í 11 mánuði fóru vélar þaðan með matvæli og vistir til Vestur-Berlínar sem Sovétmenn höfðu einangrað. Þegar Sambandslýðveldi Þýskalands var stofnað 1949 festist Wiesbaden í sessi sem höfuðborg Hessen, þrátt fyrir að Frankfurt náði ekki að verða höfuðborg Þýskalands, heldur Bonn.

Viðburðir

breyta
  • Karneval er haldið að vori, en þá er mikil skrúðganga í gegnum miðborgina.
  • goEast er heiti á kvikmyndahátíð helguð austurevrópskum kvikmyndum. Hátíðin hefur verið haldin síðan 2001 og eru veitt verðlaun fyrir bestu myndir.
  • Theatrium er heiti á nokkurs konar þjóðhátíð borgarinnar, sem haldin er að mestu leyti í Wilhelmstrasse. Hér er um stærstu götuhátíð Þýskalands að ræða með um 400 þús gesti. Mikið er um tónlistaratriði á 6 sviðum.
  • Rheingauer Weinwoche er vínhátíð í borginni. Borgarbúar tala gjarnan um lengsta útivínbarinn í heimi, en á 100 stöðum er boðið upp á vín að smakka.
  • Taunusstrassenfest er tveggja daga hátíð á sögulegum nótum í september. Þá er götum breytt í sögusvið og boðið upp á sögulega gjörninga og sýningar.

Vinabæir

breyta

Wiesbaden viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

breyta

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Markaðskirkjan
 
Nýja ráðhúsið er einkar glæsilegt
  • Biebrich-kastalinn var reistur 1700-1750 sem aðalaðsetur hertoganna í Nassau. Kastalinn var stækkaður nokkrum sinnum síðan. Þegar Prússland innlimaði Nassau 1866, eftirlét Vilhjálmur I Prússakonungur erfingjum Nassau-ættarinnar kastalann. Í loftárásum 1945 stórskemmdist kastalinn og var lengi vel látinn standa sem rústir. Hann var ekki gerður upp fyrr en 1961-1965. Hann er eign sambandslandsins Hessen í dag og er notaður m.a. fyrir móttökur háttsettra gesta.
  • Kastalinn í Wiesbaden var reistur 1837-1481 sem aðsetur hertoganna í Nassau, en á þeim tíma var Wiesbaden höfuðborg hertogadæmisins. Greifarnir bjuggu í kastalanum, stundum þó aðeins á sumrin. Þegar Wiesbaden varð prússnesk, dvöldu prússnesku konungarnir gjarnan í kastalanum og nutu baðanna. Í dag er kastalinn alþingishúsið fyrir sambandslandið Hessen.
  • Baðhúsið í borginni er ekki bara baðhús, heldur mikil menningarmiðstöð. Byggingin þykir vera fegursta baðhús Þýskalands. Það var reist í upphafi 19. aldar í nýklassískum stíl. 1949 var spilavítið fært inn í baðhúsið. Í húsinu fara gjarnan fram tónleikar, veislur og ráðstefnur. Fyrir framan bygginguna er fallegur almenningsgarður.
  • Gamla ráðhúsið var reist 1608-1610 í endurrreisnarstíl og elsta nústandandi hús borgarinnar. Í dag er húsið notað fyrir giftingar.
  • Nýja ráðhúsið var reist 1884-87 þegar gamla ráðhúsið var orðið of lítið. Það stendur beint á móti kastalanum, en er þó miklu íburðarmeira. Í loftárásum seinna stríðsins skemmdist hin fagra framhlið, sem var endurreist í einfaldari stíl. Húsið er eitt fárra húsa í Wiesbaden sem hitað er með hveravatni á veturna.
  • Markaðskirkjan (Marktkirche) er elsta og stærsta nústandandi lúterska kirkja borgarinnar. Hún var reist 1853-62 og var þá stærsta tígulsteinabygging hertogadæmisins Nassau. Turnarnir eru 73 metra háir. Hið þekkta tónskáld Max Reger var organisti kirkjunnar 1890-96. 1937 predikaði andspyrnupresturinn Martin Niemöller í hinsta sinn í kirkunni áður en nasistar handtóku hann.
  • Bonifatíusarkirkjan (St. Bonifatius) er kaþólska aðalkirkjan í borginni. Hún var reist 1844-49 í nýgotneskum stíl og var þá stærsta kirkja borgarinnar. En sökum fjárskorts kláraðist hún ekki fyrr en 1856. Turnarnir voru ekki reistir fyrr en 1866 og eru 68 metra háir. Kirkjan skemmdist töluvert í loftárásum 1945. Viðgerðum lauk ekki fyrr en 1965.
  • Hringkirkjan (Ringkirche) er lútersk kirkja í borginni. Hún var reist 1892-94 og skartar tveimur óvenjulegum tvíburaturnum, þ.e. þeir eru sambyggðir nær alla leið upp. Aðeins spíruþökin skilur þá að. Þeir eru 65 metra háir.
  • Rússneska kirkjan er rússnesk rétttrúnaðarkirkja sem stendur á hæðinni Neroberg í borginni. Hún var reist 1847-55 af hertoganum Adolf frá Nassau fyrir eiginkonu sína Jelisaweta Michailowna frá Rússlandi (Romanovættin|Romanovætt), en hún lést fyrir aldur fram, aðeins 19 ára gömul, af barnsburði. Fyrirmynd kirkjunnar er rétttrúnaðarkirkjan í Moskvu. Eftir 1920 stækkaði söfnuðurinn mikið þegar flóttamenn frá Rússlandi settust að í Wiesbaden, en þeir flúðu byltinguna þar.
  • Heiðnamúrinn (Heidenmauer), einnig kallað Römertor (Rómverjahliðið), er gamall borgarveggur síðan á tímum Rómverja. Hann var reistur á 4. öld e.Kr. á keisaratíma Valentíníanusar I. Í fyrstu héldu menn að hér væri um mannvirki germana að ræða og kölluðu vegginn því heiðnamúrinn. 1902 var ákveðið að gera skarð í gamla múrinn til að leggja þar götu. Yfir götuna var svo reist hlið (Römertor) sem líktist gömlu rómversku hliði.

Tilvísanir

breyta
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls 276.

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Wiesbaden“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.