Bremen

borg og eitt af 16 sambandslöndum Þýskalands

Brimar eða Bremen (Stadtgemeinde Bremen) eru borg í Norður-Þýskalandi sem stendur við fljótið Weser. Borgin myndar eigið sambandsland ásamt Bremerhaven við Norðursjó og er það minnsta og fámennasta sambandsríki Þýskalands. Íbúafjöldi borgarinnar er 563 þúsund (2021).

Bremen
Fáni Bremen
Skjaldarmerki Bremen
Bremen er staðsett í Þýskalandi
Bremen
Bremen
Hnit: 53°04′33″N 08°48′26″A / 53.07583°N 8.80722°A / 53.07583; 8.80722
Land Þýskaland
SambandslandBremen
Stjórnarfar
 • BorgarstjóriAndreas Bovenschulte (SPD)
Flatarmál
 • Borg326,73 km2
 • Stórborgarsvæði
11.627 km2
Hæð yfir sjávarmáli
12 m
Mannfjöldi
 (2021)
 • Borg563.290
 • Þéttleiki1.700/km2
 • Stórborgarsvæði
2.400.000
TímabeltiUTC+01:00 (CET)
 • SumartímiUTC+02:00 (CEST)
Póstnúmer
28001–28779
Vefsíðabremen.de

Lega og lýsing

breyta

Brimar eru hafnarborg við ána Weser rétt sunnan við óshólmana í Norðursjó. Sökum legu við Weser er borgin ákaflega ílöng meðfram ánni, en hún er 38 km löng og 16 km breið. Næstu borgir eru Aldinborg til vesturs (40 km), Bremerhaven til norðurs (60 km), Hamborg til norðausturs (120 km) og Hannover til suðausturs (120 km).

Fáni og skjaldarmerki

breyta

Fáni Brima samanstendur af 8 láréttum röndum, hvítum og rauðum. Til vinstri eru sömu litir í teningslaga formi. Litirnir eiga uppruna sinn í Hansasambandinu, en fánar þessir blöktu á skipum þess fyrr á öldum. Opinberlega var fáninn þó ekki tekinn upp fyrr en 1891, þó að hann hafi verið miklu lengur í notkun.

Skjaldarmerkið sýnir silfurgráan lykil á rauðum grunni. Skjaldberar eru tvö gul ljón á gulum grunni. Efst er gullkóróna. Lykillinn er tákn Péturs postula, en hann er verndardýrlingur dómkirkjunnar þar í borg. Merkið kom fyrst fram 1366, en hefur breyst nokkuð í gegnum tíðina. Núverandi skjöldur var formlega tekinn upp 1891.

Orðsifjar

breyta

Brimar hétu áður Bremon, Brema og Bremo. Það er dregið af gamla germanska orðinu brem, sem merkir rönd eða jaðar (sbr. brimfullur á íslensku). Hér er verið að meina bakka árinnar Weser.

 
Bremen séð frá bökkum Weser.

Upphaf

breyta

782 koma Brimar fyrst við skjöl. Karlamagnús hafði sent kristniboðann Willehad til svæðisins við Weser til að kristna saxa. Í bréfi sem Willehad sendi Karlamagnúsi kemur fram að Brimabúar hafi hrakið hann frá bænum og drepið tvo presta að auki. Nokkrum árum síðar tókst Willehad að kristna íbúana og varð fyrsti biskup þeirra. 789 var fyrsta kirkjan þar reist og helguð Pétri postula. Því er himnalykill enn í skjaldarmerki Brima. 848/849 færði Ansgar, postuli norðursins, erkibiskupsdæmið frá Hamborg til Bremen, þar sem víkingar höfðu gert strandhögg í Hamborg. Aðeins ári síðar gerðu víkingar strandhögg í Brimum og eyðilögðu m.a. dómkirkjuna. 1032 var loks hafist handa við að víggirða bæinn með borgarmúrum. 1041 brann mikill hluti bæjarins. Eftir endurreisnina varð hann mikilvægur verslunarbær og síðar að borg. 1186 veitti Friðrik I keisari (nefndur Barbarossa) borginni ný lög. Hann svipti biskupana völdum og gerði Brimar að fríborg í ríkinu. Biskuparnir voru ekki ánægðir með þá þróun og reyndu áfram að viðhalda stjórn sinni á borginni. T.d. festi Gebhard II erkibiskup járnkeðju yfir ána Weser til að heimta tolla af skipum sem sigldu í gegn. 1233 gáfu biskuparnir loks eftir og viðurkenndu Brimar sem fríborg. Sú staða hélst þó ekki lengi.

Hansaborgin Brimar

breyta

Brimar var alls fjórum sinnum meðlimur Hansasambandsins.

  • 1260-1285
  • 1358-1427
  • 1438-1563
  • 1576-1669

Brimar var ógjarnan meðlimur Hansasambandsins. Borgin átti eigin verslunarhagsmuna að gæta og var oft neydd til þátttöku. Í þrjú fyrstu skipti var hún rekin þaðan aftur. Í fyrstu tvö skiptin vegna uppreisnar og í þriðja sinn vegna trúarbragðaerja. Það var ekki fyrr en 1576 sem Bremen varð leiðandi aðili í sambandinu, ásamt Hamborg og Lübeck.

Siðaskipti og 30 ára stríðið

breyta
 
Bremen árið 1600

Fyrstu tilraunir til að predika lúterstrú voru gerðar 1522 er munkur nokkur predikaði í Ansgarkirkjunni. Hann var brenndur á báli tveimur árum síðar. En ekki varð aftur snúið. Næstu ár fóru siðaskiptin fram, oftar en ekki með miklum óróa. Bremen gekk til liðs við mótmælendur í Schmalkalden-stríðinu gegn Karli V keisara. 1547 sat keisaraher um borgina, en fékk ekki unnið hana. 1619-1623 var fyrsta manngerða höfnin í Þýskalandi lögð af Brimarbúum rétt norðan við borgina, þar sem þeirra náttúrulega höfn víð ána Weser varð æ grynni sökum framburðs. 1623 hófu menn að víggirða borgina með virkjum og stærri múrum til að geta varið sig í 30 ára stríðinu, sem þá var byrjað. En borgin slapp við þátttöku í stríðinu. 1648 lauk stríðinu með friðarsamningunum í Vestfalíu. Svíar kröfðust hins vegar yfirráð yfir Bremen, sem náði þó að festa sig í sessi sem fríborg í ríkinu. Svíar viðurkenndu þennan status ekki fyrr en tveimur árum seinna.

Napoleonsstríðin

breyta

1811 sat Napóleon um Brimar og vann hana. Hann innlimaði hana í franska ríkið og gerði hana að höfuðborg sýslunnar (département) Bouches du Weser. Eftir fyrri ósigur Napóleons 1814 yfirgáfu Frakkar hins vegar borgina. Ári seinna var borgarstjórinn sendur sem fulltrúi Brima á Vínarfundinn og fékk hann því þar framgengt að borgin yrði áfram eigið borgríki innan þýska sambandsins.

Iðnbyltingin

breyta

1816-1817 var fyrsta gufuskipið, sem smíðað var í Þýskalandi, smíðað í Brimum. En sökum þess að áin Weser var orðin of grunn og siglingar nær ómögulegar við Brimar, keypti borgin landsvæði af Prússum um 60 km fyrir norðan borgina og hófst handa við að leggja nýja höfn, við mynni árinnar Weser. Höfn þessi fékk heitið Bremerhaven, sem merkir Brimahöfn. Þaðan var siglt á fyrstu föstu leiðinni milli Þýskalands og Vesturheims. Eftir að Ameríkuferðir hófust fóru um 7 milljónir útflytjenda um hafnir Brima og Bremerhaven. 1847 fengu Brimar járnbrautartengingu til Hannover. 1875 komst íbúafjöldi borgarinnar í 100 þúsund og hún varð stórborg. Þar sem Brimar voru ekki hluti af þýska ríkinu tók borgin ekki þátt í heimstyrjöldinni fyrri. Þó varð hún sambandslýðveldi innan Weimar-lýðveldisins 1918.

Stríð og nútími

breyta
 
Lituð ljósmynd af Bremen árið 1900

Brimar urðu fyrir gríðarmiklum loftárásum bandamanna í heimstyrjöldinni síðari, bæði vegna hafnanna og iðnaðarins. Alls mátti borgin þola 173 loftárásir í stríðinu, þar sem rúmur helmingur borgarinnar (62% að talið er) eyðilagðist. Verstu árásirnar voru gerðar 18.–19. ágúst 1944. Þá vörpuðu 500 sprengjuflugvélar alls um 120 þúsundum sprengja yfir borgina. Bretar hertóku borgina 26. apríl 1945, rúmri viku áður en Þjóðverjar gáfust upp. Bæði Brimar og Bremerhaven voru á hernámssvæði Breta. Vegna mikilvægi hafnanna fengu Brimar fljótlega sérstöðu í hernáminu. Strax 1947 voru Brimar og Bremerhaven gerð að sérsvæði Bandaríkjamanna með sérlögum. Þetta olli því að Brimar gátu haldið sérstöðu sinni þegar Sambandsríkið Þýskaland var stofnað 1949. Brimar (ásamt Bremerhaven) urðu þá að eigin sambandsríki í Þýskalandi, því minnsta og fámennasta.

Íþróttir

breyta

Aðalíþróttafélag borgarinnar er Werder Bremen, sem keppir í ýmsum íþróttagreinum. Knattspyrnudeildin hefur fjórum sinnum orðið þýskur meistari (síðast 2004), sex sinnum bikarmeistari (síðast 2009) og einu sinni Evrópumeistari bikarhafa, 1992 (sigraði þá gegn AS Mónakó).

Vinabæir

breyta

Brimar viðhalda vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægir Brimabúar

breyta

Byggingar og kennileiti

breyta

Heimildir

breyta