Hannover

höfuðborg Neðra-Saxlands í Þýskalandi

Hannover er höfuðborg og stærsta borg þýska sambandslandsins Neðra-Saxlands með um 540.000 íbúa. Hannover var áður höfuðborg konungsríkisins Hannover sem var stofnað 1814 og stóð til 1866. Hannover er iðnaðarborg, en er einnig þekkt sýningar- og ráðstefnuborg.

Hannover
Skjaldarmerki Hannover
Staðsetning Hannover
LandÞýskaland
SambandslandNeðra-Saxland
Stjórnarfar
 • BæjarstjóriBelit Onay
Flatarmál
 • Samtals204,01 km2
Hæð yfir sjávarmáli
55 m
Mannfjöldi
 (2021)
 • Samtals535.932
 • Þéttleiki2.600/km2
TímabeltiUTC +1 / UTC +2 (sumar)
Vefsíðahannover.de

Hannover liggur við ána Leine sunnarlega í Neðra-Saxlandi. Næstu borgir eru Brúnsvík til austurs (55 km), Bielefeld til vesturs (90 km), Bremen til norðvesturs (100 km) og Hamborg til norðurs 135 km).

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki borgarinnar sýnir hvítt borgarvirki á rauðum grunni. Gullið ljón stendur milli turnanna. Undir hliðinu er grænt Maríublóm. Borgarvirkið táknar Hannover. Maríublómið var upphaflega notuð á mynt, eftir 1534. Ljónið er ættarmerki Welfen-ættarinnar sem átti sitt fyrsta óðal í Brúnsvík. Þekktastur meðlimur ættarinnar var Hinrik ljón (Heinrich der Löwe). Skjaldarmerki þetta birtist fyrst 1266, en var formlega tekið upp aftur 1929.

Orðsifjar

breyta

Borgin hét upphaflega Vicus Hanovere, sem ef til vill merkir þorpið við háu bakkana. Seinna kom fram sú kenning að heitið merki sefbakki, enda stendur borgin ekki við neina háa bakka. [1]

Iðnaður

breyta

Bílaiðnaðurinn og fjármálastarfsemi eru mikilvæg. Mikilvægustu vinnuveitendur í Hanover eru: Volkswagen, Continental, Talanx, VHV og Hannover Re.

Saga Hannover

breyta

Miðaldir

breyta

Hannover myndaðist við bakka árinnar Leine, einmitt við vað þar sem hægt var að komast yfir ána. Bærinn myndaðist snemma á 12. öld og kom fyrst við skjöl 1150. Um þetta leyti veitti Lóþar III Hinrik ljón Hannover að léni, en Hinrik var af Welfen-ættinni. En Hinrik lenti í ónáð hjá keisaranum Friðrik Barbarossa keisara. Keisaraherinn sat um Hinrik í Brúnsvík, en fékk ekki unnið hana. Þess í stað fór herinn til Hannover og gjöreyddi henni með eldi. Bærinn var byggður upp aftur og hlaut borgarréttindi 1241. Um miðja 14. öld voru miklir borgarmúrar reistir. Á þessum tíma gekk borgin í Hansasambandið og upphófst þá fyrsta blómaskeiðið. Íbúar voru þá 4 þús.

Siðaskipti og 30 ára stríðið

breyta
 
Hannover 1745

Lútherstrú barst til Hannover í kringum 1530. En ráðsmenn borgarinnar höfnuðu henni og héldu fast við kaþólsku. Hins vegar meðtók almenningur nýju trúna. 1533 voru kom til átaka milli þessara hópa og sá borgarráð sig tilknúið til að flýja til borgarinnar Hildesheim, sem enn var kaþólsk. Furstinn í Saxlandi lét þá gera umsátur um borgina, en íbúarnir stóðu við sitt. Þeir kusu sér nýtt borgarráð, greiddu furstanum lausnargjald og viðhéldu þar með lúterstrú. Það var ekki fyrr en eftir 1540 að nýja trúin breiddist út í furstadæminu öllu. Í 30 ára stríðinu sameinuðust herir frá Saxlandi og Danmörku. En Tilly herforingi keisarahersins sigraði þá 1626 og settist um allar stærri borgir landsins, nema Hannover. Hún slapp við eyðileggingu stríðsins, en þurfti að greiða af hendi lausnargjald. Nærsveitir lágu hins vegar í rústum. Meðan stríðið geysaði enn gerði hertoginn Georg von Calenberg Hannover að aðsetri sínu, enda með sterka borgarmúra. Eftir andlát Georgs stjórnaði sonur hans, Ernst Ágúst, greifadæminu og gekk í lið með keisara. Fyrir dyggilega þjónustu hlaut hann embætti kjörfursta árið 1705. Hannover varð þar með að mikilvægri borg í þýska ríkinu.

Sameining við England

breyta
 
Soffía hefði orðið drottning Englands ef henni hefði enst aldur til

Um aldamótin 1700 varð Soffía ríkjandi höfðingi í greifadæminu þar sem eiginmaður hennar, kjörfurstinn Ernst Ágúst lést. Soffía var af ætt Stuart og sem slík var hún einnig krónprinsessa Bretlands. Hún lést hins vegar aðeins nokkrum mánuðum á undan Önnu Englandsdrottningu árið 1714. Sonur Soffíu tók því við sem kjörfursti í Hannover og varð einnig konungur Englands sem Georg I. Þannig sameinuðust Hannover og England. En Georg og ætt hans flutti til Lundúna og stjórnaði hann greifadæmi sínu þaðan. Sökum tenglsa við England réðust Frakkar á greifadæmið og Hannover í 7 ára stríðinu 1757. Þeir náðu að hertaka borgina, en urðu að yfirgefa hana snemma á næsta ári þegar prússar nálguðust. Áður en stríðinu lauk réðust Frakkar nokkrum sinnum á Hannover á ný, en fengu ekki unnið hana. Aftur réðust Frakkar á Hannover í Napoleonstríðunum, enda voru Frakkland og England svarnir fjendur. Að þessu sinni hertóku þeir Hannover fyrirhafnarlítið 1803. 1805 náðu prússar að frelsa borgina, en strax á næsta ári hertóku Frakkar hana á nýjan leik eftir sigra Napoleons við Jena og Auerstedt. Napoleon stofnaði konungsríkið Vestfalíu og gerði bróður sinn, Jerome, að konungi þar. Hannover er innlimað í þetta ríki, en höfuðborg þess var Kassel. 1813 tapaði Napoleon orrustunni við Leipzig og drógu Frakkar sig þá í hlé. Ernst Ágúst, sonur Georgs III Englandskonungs, sneri þá heim á ný og tók Hannover og furstadæmið aftur fyrir hönd föður síns.

Konungsríkið Hannover

breyta

Á Vínarfundinum 1815 var furstadæmið Hannover gert að konungsríki með sameiginlegum konungi Englands. Örskömmu síðar var Napleon aftur kominn á kreik eftir útlegð sína til Elbu. Í orrustunni við Waterloo barðist her frá Hannover með Englendingum undir stjórn Wellington lávarðs, þar sem Napoleon var endanlega sigraður. 1837 lést Vilhjálmur IV konungur Englands og Hannover. Hann var barnlaus og næsti í línunni á enska konungsstólinn var frænka hans Viktoría. Vandamálið var hins vegar að í konungsríkinu Hannover bönnuðu lögin konum að verða þjóðhöfðingjar. Því var ákveðið að slíta konungssambandi við England. Nýr konungur í Hannover varð Ernst Ágúst. Hann var í meira lagi íhaldssamur og tók úr gildi stjórnarskrána og önnur réttindi þegna sinna. Fyrir vikið varð konungsættin með eindæmum óvinsæl og þurfti að berjast við uppþot og uppreisnir það sem eftir lifði konungsríkisins.

Prússatíminn

breyta

Georg V var konungur Hannover í upphafi 19. aldar. Hann var ekki einungis harður á þegna sína, heldur einnig á tengsl sín við prússa. Hannover barðist með Austurríki gegn Prússlandi í orrustunni við Langensalza í Þýringalandi 1866, en beið ósigur. Prússar gengu á lagið og hertóku Hannover. Vilhjálmur I prússakonungur lagði þá konungsríkið Hannover niður og innlimaði ríkið í Prússland. Þetta markaði endalok Hannover sem höfuðborg í hartnær eina öld. Sem prússnesk borg varð Hannover brátt að blómstrandi iðnaðarborg, þar sem íbúarnir voru loks lausir undan oki gamla konungsríkisins. Íbúafjöldinn fór yfir 100 þús 1873. Í Hannover var bílaverksmiðjan Hanomag stofnuð og starfrækt. En í heimstyrjöldinni fyrri leið borgin mikið sökum tapaðra verslunarsambanda og hungurs. 1918 lauk stríðinu með ósigri Þjóðverja. Keisaraveldið Prússland leið undir lok.

20. öldin

breyta

Eftir stríð óx borgin á ný er iðnaðurinn blómstraði á ný. En það stóð stutt yfir, því í heimskreppunni miklu 1929 nær gjörhrundi iðnaðurinn. Hanomag verksmiðjurnar sögðu fólki upp í stórum stíl og á tímabili var þriðji hver íbúi atvinnulaus. Aðstæður bötnuðu ekki fyrr en nasistar komust til valda. Hanomag var umbreytt í vopnaverksmiðjur og mýmörg önnur verkefni sköffuðu fólki atvinnu. Í Hannover var einn stærsti hópur gyðinga í Þýskalandi, eða um 4.800 alls. Þar stóð einnig eitt stærsta bænahús þeirra í Þýskalandi. 1938 voru gyðingar fyrir alvöru ofsóttir og bænahús þeirra brennt niður. Færri en 100 lifðu ofsóknirnar og stríðið af. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir gríðarlegum loftárásum, enda mikilvæg iðnaðarborg. Alls voru 125 loftárásir gerðar á Hannover, þær síðustu 28. mars 1945. Kaldhæðnin var að nær öll borgin lá í rústum, en iðnaðarmannvirkin voru nær óskemmd og héldu áfram starfsemi sinni. 10. apríl var borgin hertekin af Bandaríkjamönnum nær bardagalaust. Þeir eftirlétu Bretum borgina, enda var hún á hernámssvæði þeirra. 1946 stofnuðu Bretar og þýskir stjórnmálamenn núverandi sambandsland Neðra-Saxland. Hannover varð höfuðborg á ný eftir tæplega 100 ára hlé. Í dag er Hannover aftur orðin að mikilli iðnaðar- og sýningarborg. Árið 2000 fór heimssýningin Expo 2000 fram í borginni.

Viðburðir

breyta
 
Mikil litadýrð er á flugeldakeppninni í Hannover

Schützenfest Hannover er heiti á skyttuhátíð í borginni. Hún á uppruna sinn á 16. öld er skyttur með boga og lásboga voru þjálfaðar fyrir varnir borgarinnar. Hér er um stærstu skyttuhátíð í heimi að ræða. Þátttakendur eru 10 þúsund, bæði innlendir og erlendir, og eru allir í búningum. Skrúðvagnarnir eru 60, en skrúðgangan er 12 km löng. Vitanlega er einnig haldin skotkeppni og eru sigurvegarar verðlaunaðir. Samfara öllu þessu er leiktækjagarður í gangi fyrir almenning. Allt í allt er hátíðin ein sú mesta í Þýskalandi.

Karneval er haldið að vori. Það er meðal stærri hátíða í Þýskalandi, en skrúðgangan er tveggja km löng.

Í apríl er haldin vorhátíð, en hér er um leiktækjagarð að ræða, með tilheyrandi veitingarekstri og bjórdrykkju. Að hausti er sama hátíð haldin og kallast þá Oktoberfest.

Á sumrin til er haldin flugeldakeppni að kvöldi til. Flugeldasmiðir hvaðanæva úr heiminum hittast í borginni og sýna það besta sem þeir hafa upp á að bjóða. Í fyrstu eru skylduverkefni í gangi, en síðan mega smiðirnir sýna eigin framleiðslu.

Íþróttir

breyta

Íshokkí. Hannover er ein af miðstöðum íshokkí-íþróttarinnar. Liðin í borginni eru tvö: Hannover Scorpions og Hannover Indians.

Knattspyrna. Aðalknattspyrnuliðið heitir Hannover 96 og leikur í Bundeligunni. Félagið varð þýskur meistari 1938 og 1954, og bikarmeistari 1992.

Rugby. Í Hannover var stofnuð fyrsta grasíþróttin (það sem í dag kallast rugby) í Þýskalandi 1878. Síðan þá er borgin miðstöð rugby-íþróttarinnar. Heil átta lið frá borginni keppa eða hafa keppt í efstu deild. Frá 1909 til dagsins í dag varð 62 sinnum (af 83) félag frá Hannover þýskur meistari. Félag frá borginni var á öllum þessum árum í úrslitaleiknum, nema 1913.

Skylmingar. Í Hannover var einnig stofnað fyrsta skylmingarfélag Þýskalands 1862 og er það enn við lýði í dag.

Maraþon. Árlega fer fram Maraþonhlaup í borginni, kallað Spielbanken Marathon. Um 11 þús hlauparar taka þátt.

Vinabæir

breyta
 
Stjörnufræðingurinn Herschel uppgötvaði reikistjörnuna Úranus

Hannover viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandir borgir:

Frægustu börn borgarinnar

breyta

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Gamla ráðhúsið er verslunarhús í dag
  • Gamla ráðhúsið var upphaflega byggt 1410, þ.e. elstu hlutar þess. Eftir það hefur það verið stækkað nokkrum sinnum. Við lok 19. aldar átti að rífa húsið, enda borgarskrifstofur þá fluttar annað. En íbúar komu í veg fyrir niðurrif og á endanum var húsið uppgert í upprunalegan stíl. Í dag eru verslanir í húsinu, en einnig giftingarskrifstofan.
  • Kirkja heilags Georgs og heilags Jakobs er elsta kirkja miðborgarinnar. Kirkjan var reist eftir 1150 úr rauðum tígulsteinum og kemur fyrst við skjöl 1238. Kirkjan hefur staðið nær óbreytt allan þennan tíma. Turninn er 97 metra hár. Vegna þess hve sérstæður hann er, telst kirkjan meðal einkennisbygginga borgarinnar. 1943 brann allt innviðið í kirkjunni í loftárásum, en skelin sjálf stóð brunann af sér. Viðgerðir stóðu yfir 1946-52.
  • Egidíusarkirkjan var reist eftir 1347, þótt kirkja eða kapella hafi staðið áður á staðnum. Hún er helguð heilögum Egidíusi. Kirkjan var endurbætt nokkru sinnum, síðast 1886. Utan á múrunum er ýmsir merkisteinar eða grafarsteinar. 1943 eyðilagðist kirkjan í loftárásum stríðsins. Skipið og turninn brunnu til kaldra kola. Ákveðið var að endurreisa ekki kirkjuna, heldur leyfa rústunum að standa sem minnisvarði um fórnarlömb stríðsins. 1958 var þó byggður lítill turnstubbur með klukknaspili. 1985 gaf Hiroshima í Japan, vinabær Hannover, kirkjunni friðarklukku sem fær að hljóma 6. ágúst ár hvert til minningar um fórnarlömb kjarnorkusprengjunnar í Hiroshima.
  • Nýja ráðhúsið var vígt 1913 eftir 12 ára byggingartíma og stendur í garði sem heitir Maschpark. Byggingin er í wilhelmínsku kastalaformi og var það Vilhjálmur II prússakeisari sem vígði húsið. Byggingin skemmdist nokkuð í loftárásum í stríðinu. Í ráðhússalnum (sem er 38 metra hár) var lýst yfir stofnun sambandslandsins Neðra-Saxlands. Hvolfþakið sjálft nær í 100 metra hæð. Lyfta fer þangað upp, en vegna hvolfþaksins fer lyftan á ská, sem er einstakt í Evrópu.
  • Leibnizhúsið er framhlið á horfnu húsi í Hannover, sem reist var 1499. Það var notað sem iðnaðarhús lengi og endurgert 1648-52 sem íbúðarhús fyrir Carol von Lüde. Frægasti íbúi hússins var heimspekingurinn Gottfried Wilhelm Leibniz, en hann bjó í því 1676 til dauðadags 1716. Leibniz var forstöðumaður hertogabókasafnsins og var það flutt inn í húsið meðan hann bjó þar. 1759 fæddist í húsinu annar frægur maður, leikarinn og skáldið August Wilhelm Iffland. 1844 keypti Ernst August konungur húsið, en þegar Prússland innlimaði Hannover varð húsið rikiseign. Á þeim tíma var farið að kalla húsið Leibnizhús. 1893 var það gert að listasafni. Húsið skemmdist mikið í loftárásum. Eftir stríð var húsið rifið, allt nema framhliðin. Þá var bílastæðahús reist á lóðinni og er framhlið Leibnizhússins þar fyrir framan. Húsið er því á lista yfir þekktar horfnar byggingar í borginni.

Tilvísanir

breyta
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 125.

Heimildir

breyta

Fyrirmynd greinarinnar var „Hannover“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt mars 2010.