Olaf Scholz

Þýskur stjórnmálamaður

Olaf Scholz (f. 14. júní 1958) er þýskur stjórnmálamaður úr Jafnaðarmannaflokknum. Hann er núverandi fjármálaráðherra og varakanslari Þýskalands í ríkisstjórn Angelu Merkel. Áður var Scholz borgarstjóri Hamborgar frá 2011 til 2018 og atvinnumálaráðherra frá 2007 til 2009.

Olaf Scholz
Olaf Scholz 2021 (cropped).JPG
Olaf Scholz árið 2021.
Varakanslari Þýskalands
Núverandi
Tók við embætti
14. mars 2018
Fjármálaráðherra Þýskalands
Núverandi
Tók við embætti
14. mars 2018
Borgarstjóri Hamborgar
Í embætti
7. mars 2011 – 13. mars 2018
Persónulegar upplýsingar
Fæddur14. júní 1958 (1958-06-14) (63 ára)
Osnabrück, Neðra-Saxlandi, Vestur-Þýskalandi (nú Þýskalandi)
ÞjóðerniÞýskur
StjórnmálaflokkurJafnaðarmannaflokkurinn (SPD)
MakiBritta Ernst ​(g. 1998)
HáskóliHamborgarháskóli
Undirskrift

ÆviágripBreyta

Olaf Scholz er elstur þriggja bræðra sem ólust upp í hverfinu Rahlstedt í Hamborg. Foreldrar hans unnu í textíliðnaðinum. Bróðir Olafs, Jens, er læknir og stjórnarformaður háskólasjúkrahússins í Slésvík-Holtsetalandi. Yngsti bróðirinn, Ingo, er formaður upplýsingatæknifyrirtækis í Hamborg.

Scholz útskrifaðist árið 1977 með stúdentspróf úr Heegen-menntaskólanum í Rahlstedt og nam síðan lögfræði við Hamborgarháskóla. Hann tók próf þaðan árið 1985 og vann sem sérfræðingur í atvinnurétti hjá lögmannsskrifstofunni Zimmermann, Scholz und Partner í Hamborg. Frá 1990 til 1998 vann hann sem lögfræðingur fyrir miðstjórn þýsku neytendasamtakanna.

Scholz var kjörinn á þýska sambandsþingið í fyrsta sinn árið 1998. Hann gegndi á næstu árum ýmsum ábyrgðarstöðum bæði í Hamborg og í sambandsstjórn Þýskalands. Meðal annars var Scholz umskeið þingflokksformaður og varaformaður Jafnaðarmannaflokksins og vinnu- og félagsmálaráðherra Þýskalands á árunum 2007 til 2009.[1]

Olaf Scholz hefur verið fjármálaráðherra og varakanslari í samsteypustjórn Jafnaðarmanna og Kristilegra demókrata frá árinu 2018. Scholz hefur verið hrósað, meðal annars af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, fyrir efnahagsaðgerðir sem hann stóð fyrir til að bregðast við kórónaveirufaraldrinum frá árinu 2019. Meðal annars stóð Scholz, þrátt fyrir andstöðu Angelu Merkel kanslara, fyrir stofnun Björgunarsjóðs Evrópusambandsins vegna Covid-19, og vann ásamt fjármálaráðherra Frakklands að reglum um skattlagningu alþjóðlegra tæknirisa.[1]

Þingkosningar 2021Breyta

Þrátt fyrir að vera ekki formaður Jafnaðarmannaflokksins var Scholz frambjóðandi flokksins til embættis kanslara Þýskalands í þýsku þingkosningunum sem haldnar voru þann 26. september 2021.[2]

Með Scholz sem frambjóðanda sóttu Jafnaðarmenn mjög í sig veðrið á lokaköflum kosningabaráttunnar í Þýskalandi. Flokkurinn hafði lengi verið í tilvistarkreppu og hafði beðið fylgishrun sem samstarfsflokkur Kristilegra demókrata í stjórn Þýskalands.[3] Í ágúst 2021 tóku Jafnaðarmenn fram úr Kristilegum demókrötum í skoðanakönnun í fyrsta skipti í um fimmtán ár.[4]

Í kosningunum hlaut Jafnaðarmannaflokkurinn 25,7 prósent atkvæða á móti 24,1 prósentum sem Kristilegi demókrataflokkurinn fékk. Scholz hefur lýst yfir vilja til að mynda stjórn frá vinstri til miðju ásamt Græningjum og Frjálsa lýðræðisflokknum. Armin Laschet, leiðtogi Kristilegra demókrata, lýsti þó einnig yfir vilja til að reyna að mynda ríkisstjórn.[5]

Þann 24. nóvember var tilkynnt að Jafnaðarmenn hefðu komist að samkomulagi um stjórnarmyndun við Græningja og Frjálsa demókrata. Áætlað er að Scholz taki við sem kanslari í samsteypustjórn flokkanna þriggja þann 6. desember.[6]

EinkahagirBreyta

Olaf Scholz er kvæntur stjórnmálakonunni Brittu Ernst frá árinu 1998 og býr í gamla hverfinu Altona í Hamborg.

TilvísanirBreyta

  1. 1,0 1,1 Atli Ísleifsson (28. september 2021). „Hver er þessi Olaf Scholz?“. Vísir. Sótt 28. september 2021.
  2. Atli Ísleifsson (11. ágúst 2020). „Scholz verður kanslara­efni þýskra jafnaðar­manna“. Vísir. Sótt 6. september 2021.
  3. Arnar Þór Ingólfsson (21. ágúst 2021). „Sósíaldemókratar sækja í sig veðrið“. Kjarninn. Sótt 6. september 2021.
  4. Atli Ísleifsson (2. september 2021). „Þýskir Jafnaðar­menn á mikilli siglingu“. Vísir. Sótt 6. september 2021.
  5. Ásrún Brynja Ingvarsdóttir (27. september 2021). „Jafnaðarmannaflokkurinn lýsir yfir sigri“. RÚV. Sótt 27. september 2021.
  6. Þorvaldur S. Helgason (24. nóvember 2021). „Fyrst­a þriggj­a flokk­a stjórn­in í sögu Þýsk­a­lands“. Fréttablaðið. Sótt 25. nóvember 2021.