Frumvarp í lagalegum skilningi er skjal sem inniheldur tillögur að breytingum á heildarlöggjöfinni og er flutt á lagalegu þingi. Frumvörp geta snúist um það að breyta einu orði í ákveðnum lögum upp í að breyta heilum lagaköflum (ef frumvarpið er svokallaður bandormur) eða að setja ný lög frá grunni og/eða að fella út áður samþykkt lög. Í íslensku orðabókinni stendur: ,,Tillaga til formlegrar breytingar á fyrri ákvæðum eða til nýrra laga, reglna eða stefnumótunar.

Frumvarp er stjórnarfrumvarp ef ráðherra sem málið heyrir undir flytur það, annars er það þingmannafrumvarp. Einstaka sinnum er frumvarp flutt af þingnefnd.

Ferli frumvarpa á Alþingi

breyta

Allir þingmenn, ráðherrar og forseti Íslands mega flytja lagafrumvarp og er þetta tryggt með 25. og 38. grein stjórnarskrárinnar.

Við umræður má flutningsmaður ekki taka til máls oftar en þrisvar sinnum en aðrir ekki oftar en tvisvar. Engar skorður eru þó á því hversu oft ráðherra sem málið fellur undir má taka til máls.

Fyrsta umræða frumvarps

breyta

Fyrst fjallar flutningsmaður stutt um málið og eftir það fer af stað almenn umræða. Ekki má hefja 1. umræðu fyrr en liðnar eru a.m.k. 2 nætur frá útbýtingu frumvarpsins nema þingið samþykki fyrst með auknum meirihluta afbrigði frá þingsköpum, sem leyfi það. Þegar 1. umræðu er lokið fer málið til þeirrar nefndar sem frumvarpið fellur undir eða til Allsherjarnefndar ef það snertir margar nefndir. Einnig kemur þó til greina að frumvarpinu sé vísað frá eftir 1. umræðu.

Nefnd sem hefur frumvarp til umræðu getur flutt það til annarrar nefndar ef hún telur að það tilheyri henni frekar og þarf þá samþykki beggja nefnda að liggja fyrir. Nefndin skilar síðan nefndaráliti og breytingartillögu ef hún telur þörf á því.

Önnur umræða frumvarps

breyta

Umræðan byrjar á því að flutningsmaður frumvarps ræðir nánar um frumvarpið. Mælendur hafa eins langan tíma og þeir þurfa til að skila sínu áliti auk þess sem að rætt er nánar um einstaka hluta þess. Ef breytingartillögur hafa verið gerðar, þá eru greidd atkvæði um þær og eru því næst greidd atkvæði um einstakar greinar frumvarpsins eins og það stendur eftir samþykktar breytingar. Nú er hægt er að vísa frumvarpinu aftur til nefndar ef þörf er á eða jafnvel að vísa því frá. Nokkuð algengt er að 2. umræðu sé sleppt og farið beint í 3. umræðu frá þeirri fyrstu.

Þriðja umræða frumvarps

breyta

Rætt er um frumvarpið á ný í heild sinni. Eftir hana eru greidd atkvæði um breytingartillögur ef þær hafa verið gerðar. Að lokum eru greidd atkvæði um frumvarpið í heild sinni eins og það stendur eftir samþykktar breytingar. Þó er hægt að fresta 3. umræðu áður en kemur til lokaatkvæðagreiðslu og vísa frumvarpinu aftur til nefndar. Þá má gera nýjar breytingatillögur og 3. umræða getur þannig í raun skipst í nokkrar umræður.

Allar atkvæðagreiðslur eru opinberar nema umræður hafi verið gerðar óopinberar. Ef frumvarp er fellt, þá má ekki flytja það óbreytt aftur á sama þingi. Ef það er samþykkt, þá er það sent sem lög til forseta Íslands til undirritunar eða synjunar. Lög taka ekki gildi fyrr en þau hafa verið birt í Stjórnartíðindum.

Atkvæðagreiðslur

breyta

Atkvæði eru oftast greidd með rafeindabúnaði. Þingforseti gefur hljóðmerki sem heyrist um allt þinghúsið og lætur þannig vita af atkvæðagreiðslunni. Atkvæðagreiðslan er ekki gild nema að minnsta kosti helmingur þingmanna sé viðstaddur hana. Eingöngu er hægt að greiða atkvæði með eða á móti eða velja um að sitja hjá en eingöngu fyrri möguleikarnir tveir eru teknir gildir við talningu atkvæða. Ef að atkvæði með og móti frumvarpinu eru jafn mörg, þá fellur frumvarpið á jöfnum atkvæðum og öðlast ekki lagalegt gildi. Atkvæðagreiðslan má líka fara þannig fram að þingmenn tjái afstöðu sína með því að rétta upp hönd og einnig geta þingmenn líka krafist þess að atkvæði séu gerð með nafnakalli og spyr þá þingforseti hvern og einn þingmann hvort hann sé með eða á móti. Þingmenn geta líka komið upp í ræðustól og gert grein fyrir atkvæði sínu. Þingforseti getur líka lagt til að mál sé samþykkt án atkvæðagreiðslu ef að enginn þingmaður mótmælir. Allar niðurstöður eru birtar í Alþingistíðindum.

Þingmál má leggja undir atkvæði án þess að fara í gegnum umræður, tveir þriðju fundarmanna verða að samþykkja þá tillögu ef hún á fram að ganga.

Frumvörp um breytingu á stjórnarskránni

breyta

Sérstakar reglur gilda um frumvörp um breytingu eða viðauka á stjórnskipunarlögum. Ferlið sem lýst er hér að ofan er framkvæmt tvisvar. Fyrra skiptið má framkvæma hvenær sem er og skal rætt um frumvarpið í 3 umræður en það fer ekki fyrir forseta ef það er samþykkt í atkvæðagreiðslu, heldur skal rjúfa þing og boða til nýrra Alþingiskosninga. Nýkjörið þing ræðir um það aftur undir nýrri stjórn (eða sömu ef úrslit eru þannig). Frumvarpið fer ekki fyrir neina fastanefnd, heldur skal skipuð sérnefnd til að fjalla um málið. Í seinna skiptið sem frumvarpsferlið hefst skal rætt um frumvarpið í aðrar 3 umræður. Ef frumvarpið er samþykkt í seinna skiptið óbreytt og með 2/3 hluta atkvæða að baki sér í bæði skiptin, þá skal það lagt fyrir forseta.

Heimildir

breyta