20. öldin

öld
(Endurbeint frá 20. öld)

20. öldin er öld sem hófst 1. janúar 1901 og lauk 31. desember árið 2000. Þetta var tíunda og síðasta öld 2. árþúsundsins. 20. öldin er stundum flokkuð sem hluti síðnýaldar. Stundum er sagt að nútímasaga endi og samtímasaga hefjist um miðja þessa öld, eða þá að eftirnútími hefjist nokkuð eftir miðja 20. öld.

Árþúsund: 2. árþúsundið
Aldir: 19. öldin · 20. öldin · 21. öldin
Áratugir:

1901–1910 · 1911–1920 · 1921–1930 · 1931–1940 · 1941–1950
1951–1960 · 1961–1970 · 1971–1980 · 1981–1990 · 1991–2000

Flokkar: Fædd · Dáin · Stofnað · Lagt niður
Hér sést hópur Boxara. Í upphafi 20. aldarinnar verður uppreisn kennd við Boxarana í Kína og seinna Búastríðið er hafið árið áður í Afríku.

Á 20. öld áttu sér stað nokkrir heimssögulegir viðburðir. Meðal þeirra eru Fyrri heimsstyrjöldin, Seinni heimsstyrjöldin, Spænska veikin, beislun kjarnorku, upphaf geimkönnunar, uppgangur þjóðernisstefnu og afnýlenduvæðing, Kalda stríðið, uppgangur alþjóðastofnana og hnattvæðing með nýrri flutninga- og samskiptatækni, aukning mannfjölda á heimsvísu ásamt aukinni meðvitund um hnignun lífríkisins og útdauða tegunda. Á síðari hluta aldarinnar átti sér stað stafræn bylting sem var undirstaða tækniframfara á mörgum sviðum, meðal annars menningar, samskipta, læknavísinda og erfðavísinda.

Á 20. öld áttu sér stað miklar breytingar á heimsskipaninni með falli nýlenduveldanna og uppgangi risavelda. Á sama tíma fjölgaði mannkyni ört sem leiddi til ofnýtingar náttúruauðlinda, aukinnar skógeyðingar, vatnsskorts, vistkerfishruns, fjöldaútdauða, hnattrænnar hlýnunar og hækkandi sjávarborðs. Meðalhiti á jörðinni hefur hækkað um 0,8°C frá 1880 og tveir þriðju hlutar þeirrar hækkunar áttu sér stað eftir 1975.

Tvær heimsstyrjaldir, Kalda stríðið og hnattvæðingin sköpuðu heim þar sem mannkyn er í meiri innbyrðis tengslum en nokkru sinni fyrr í mannkynssögunni. Alþjóðalög, alþjóðastofnanir eins og Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðlegt hjálparstarf eru afleiðing þessa nýja veruleika. Samkeppni Bandaríkjanna og Sovétríkjanna á síðari hluta aldarinnar skapaði spennu um allan heim og ótta við kjarnorkustyrjöld. Sovétríkin leystust upp undir lok aldarinnar. Í kjölfarið jók Alþýðulýðveldið Kína vægi sitt verulega á alþjóðavettvangi og Evrópusambandið fékk aukið hlutverk í Evrópu.

Árið 1804 er talið að mannfjöldi á jörðinni hafi náð 1 milljarði. Árið 1927 náði hann 2 milljörðum. Árið 1999 hafði mannfjöldinn náð 6 milljörðum. Á sama tíma bötnuðu lífskjör verulega. Læsi á heimsvísu náði 80%. Heimsátök í útrýmingu sjúkdóma sem ollu dauða fleiri manna en allar styrjaldir og náttúruhamfarir samanlagt skiluðu undraverðum árangri. Bólusótt var til að mynda útrýmt um 1980. Alþjóðleg verslun með matvæli og bætt tækni í landbúnaði umbyltu næringarástandi á stórum svæðum. Fram á 19. öld voru lífslíkur víðast hvar um 30 ár; Á 20. öld náðu lífslíkur fólks á heimsvísu yfir 40 ár og yfir 70 ár hjá helmingi mannkyns.

Ár og áratugir breyta