Argentínska karlalandsliðið í knattspyrnu
Argentínska karlalandsliðið í knattspyrnu er landslið Argentínu í knattspyrnu. Því er stjórnað af Argentínska knattspyrnusambandinu sem var stofnað árið 1893 og varð formlega meðlimur í FIFA árið 1912. Argentína hefur tekið þátt í 17 lokakeppnum heimsmeistarakeppninnar frá 1930 til 2022. Það hefur orðið heimsmeistari þrisvar, HM 1978, HM 1986 og HM 2022.
Gælunafn | La Albiceleste (Þeir Hvítu og Ljósbláu) | ||
---|---|---|---|
Íþróttasamband | Asociación del Fútbol Argentino (Knattspyrnusamband Argentínu) | ||
Álfusamband | CONMEBOL | ||
Þjálfari | Lionel Scaloni | ||
Fyrirliði | Lionel Messi | ||
Leikvangur | Estadio Monumental Antonio Vespucio Liberti, Búenos Aíres | ||
FIFA sæti Hæst Lægst | 1 (26. október 2023) 1 (Mars 2007; okt.2007-júní 2008; júlí-okt. 2015; apríl 2016- apríl 2017; apríl 2023-) 24 (Ágúst 1996) | ||
| |||
Fyrsti landsleikur | |||
3-2 gegn Úrúgvæ 16. maí 1902 | |||
Stærsti sigur | |||
12–0 gegn Ekvador 22. janúar 1942 | |||
Mesta tap | |||
6–1 gegn Spáni 27. mars 2018 | |||
Keppnir | (fyrst árið 1930) | ||
Besti árangur | Heimsmeistarar 1978, 1986, 2022 | ||
Copa America | |||
Keppnir | 42 (fyrst árið 1916) | ||
Besti árangur | Meistarar 1921, 1925, 1927, 1929, 1937, 1941, 1945, 1946, 1947, 1955, 1957, 1959, 1991, 1993, 2021, 2024 |
Argentína tók þátt í fyrstu heimsmeistarakeppninni, í Úrúgvæ, árið 1930. Liðið komst í úrslit þar sem það tapaði. Síðan hélt það til Ítalíu í næsta heimsmeistarakeppni, þar sem það var slegið út af Svíþjóð. Argentínu mistókst svo að komast á nokkrar heimsmeistarakeppnir í röð áður en liðið mætti á ný á heimsmeistarakeppnina árið 1958. Argentína tók eftir það þátt í öllum heimsmeistarakeppnunum að undanskildri heimsmeistarakeppninni 1970, einu heimsmeistarakeppninni sem það komst ekki í. Á heimsmeistarakeppninni á heimavelli árið 1978 varð Argentína heimsmeistari og endurtók leikin árið 1986. Argentína hefur 6 sinnum komist í úrslitaleikinn. Argentína hefur tekið þátt í Copa America frá 1916 og unnið meistaratitilinn alls 15 sinnum, síðast 2021. Tveir af þekktari knattspyrnuköppum sögunnar koma frá Argentínu: Lionel Messi og Diego Maradona.
Saga
breytaÁrið 1901 mættust argentínskt og úrúgvæskt úrvalslið í kappleik sem skipulagður var og fór fram á heimavelli Albion F.C. í Úrúgvæ. Leiknum lauk með 3:2 sigri argentínska liðsins, en viðureignin er þó ekki talin formlegur landsleikur enda var hún ekki á vegum knattspyrnusambanda landanna tveggja. Árið eftir var ákveðið að liðin mættust að nýju á sama velli og telst það fyrstu landsleikur beggja þjóða og raunar fyrsti landsleikur sem fram fór í Suður-Ameríku og meðal þeirra fyrstu í heiminum utan Stóra-Bretlands. Að þessu sinni unnu Argentínumenn stórsigur, 6:0.
Frá 1902 til 1909 mættustu Argentína og Úrúgvæ þrettán sinnum á knattspyrnuvellinum, áður en önnur landslið höfðu verið stofnuð í álfunni. Þetta lagði grunninn að rótgrónum ríg milli liðanna tveggja. Engar tvær knattspyrnuþjóðir hafa mæst jafnoft í landsleik, ekki einu sinni Englendingar og Skotar sem þó hafa att kappi frá 1872. Á þessum árum voru stofnsettar ýmsar keppnir og búnir til verðlaunagripir sem bitist var um í viðureignum þessum, má þar nefna Copa Lipton frá 1905 og Copa Newton frá 1906.
Árið 1910 var efnt til fyrsta þriggja landsliða mótsins í Suður-Ameríku, Copa Centenario Revolución de Mayo, sem haldið var til að minnast 100 ára afmælis maíbyltingarinnar sem var miklilsverður viðburður í sjálfstæðissögu ríkja Rómönsku Ameríku. Auk heimamanna í Argentínu tóku Úrúgvæ og Síle þátt í mótinu sem lauk með sigri Argentínska liðsins. Mót þetta hefur stundum verið kallað „fyrsta Suður-Ameríkukeppnin“ en CONMEBOL, knattspyrnusamband álfunnar lítur svo á að það hafi verið keppnin árið 1916, sem fram fór á stofnári sambandsins.
Álfukeppni og stækkandi sjóndeildarhringur
breytaFyrsta formlega Suður-Ameríkukeppnin var haldin í Argentínu árið 1916 og lauk með sigri Úrúgvæ sem voru langsterkasta liðið á þessu fyrsta tímabili keppninnar. Af fyrstu tíu mótunum, frá 1916-25, fór Úrúgvæ sex sinnum með sigur af hólmi en Brasilía og Argentína tvisvar hvor þjóð. Báðir titlar Argentínu komu á heimavelli, árin 1921 og 1925.
Úrúgvæska liðið mætti sem fulltrúi Suður-Ameríku á Ólympíuleikana í París 1924 og kom aftur með gullverðlaunin, sem talin voru ígildi heimsmeistaratitils. Þetta jók enn á ríginn milli Úrúgvæ og Argentínu á fótboltavellinum og var sigri Argentínumanna á nýkrýndu meisturunum árið 1924 því fagnað innilega, ekki hvað síst þar sem Cesáreo Onzari skoraði mark í leiknum, beint úr hornspyrnu, en knattspyrnureglunum hafði nýlega verið breytt á þann veg að slík mörk fengu að standa.
Úrúgvæ og Argentína sendu bæði lið til leiks á Ólympíuleikana í Amsterdam 1928. Argentínska liðið var talið síst lakara um þær mundir og varð t.a.m. Suður-Ameríkumeistari bæði árin 1927 og 1929. Á leiðinni til Amsterdam gerði Argentína markalaust jafntefli við Portúgal í fyrsta landsleik sínum gegn liði utan Suður-Ameríku.
Líkt og raunin hafði verið í París fjórum árum fyrr, reyndust Suður-Ameríkumennirnir öðrum mótherjum sínum yfirsterkari á Ólympóuleikunum. Argentínumenn unnu stóra sigra á Bandaríkjamönnum, Belgum og Egyptum uns röðin kom að Úrúgvæ í úrslitum. Þar skildu liðin jöfn 1:1 en Úrúgvæ hafði betur í endurteknum leik, 2:1 og argentínska liðið mátti sætta sig við silfurverðlaunin. Evrópskir knattspyrnuáhugamenn heilluðust af færni suður-amerísku leikmannanna og átti það stóran þátt í að ákveðið var að halda fyrsta heimsmeistaramótið í Úrúgvæ árið 1930.
Fyrstu heimsmeistaramótin
breytaÞegar á hólminn var komið sátu flestar Evrópuþjóðir heima á HM 1930 með þeim afleiðingum að Úrúgvæ og Argentína voru yfirburðalið á mótinu. Argentína mátti þó hafa talsvert fyrir því að vinna 1:0 sigur á Frökkum í riðlakeppninni. Eins og búist var við mættust erkifjendurnir í úrslitaleiknum og var spennan í Montevídeó gríðarleg. Stór hópur argentínskra stuðningsmanna hugðust mæta á leikinn en komust ekki á leiðarenda vegna þoku. Sögur gengu af því að leikmönnum og fjölskyldum argentínska liðsins hefði verið hótað lífláti fyrir leikinn en að lokum fór svo að heimamenn í Úrúgvæ unnu 4:2. Það varð argentínska liðinu lítil huggun að framherji þeirra Guillermo Stábile yrði fyrsti markakóngur HM með átta mörk.
Kergjan eftir úrslitaleikinn gerði það að verkum að Úrúgvæ og Argentína, sem höfðu fram að þessu yfirleitt mæst ekki sjaldnar en tvisvar á ári, hittust ekki nema tvisvar næstu fimm árin. Af sömu ástæðu var gert hlé á Suður-Ameríkukeppninni til ársins 1935. Ósætti Úrúgvæmanna við þátttökuleysi Evrópubúa á HM 1930 gerði það að verkum að þeir neituðu að mæta til leiks á HM á Ítalíu 1934. Argentínumenn mættu hins vegar kokhraustir til leiks þrátt fyrir að hafa varla leikið neina landsleiki á undanliðnum fjórum árum og eftir að hafa misst lykilmenn til Ítalíu þar sem þeir kepptu nú undir merkjum heimamanna. Keppt var með útsláttarfyrirkomulagi og þurfti argentínska liðið að sætta sig við að snúa heim eftir 3:2 tap gegn Svíum í fyrsta leik. Fjórum árum síðar töldu Argentínumenn sig sjálfskipaða gestgjafa á HM. Þegar það náði ekki fram að ganga ákváðu þeir að sitja heima á HM 1938.
Sigrar og hjásetur
breytaÁrin í kringum síðari heimsstyrjöldina voru einhver þau sigursælustu í sögu argentínska landsliðsins á heimaslóðum. Landið varð fimm sinnum Suður-Ameríkumeistari í sjö mótum á árunum 1937-47. Í annað hinna tveggja skiptanna mætti Argentína ekki til leiks. Sömu sögu má segja um heimmeistaramótin árin 1950 og 1954, þar sem árgentínska knattspyrnusambandið ákvað að mæta ekki til leiks. Grunur vaknaði um að Argentínumenn yrðu sér úti um átyllu til að sitja heima þegar stjórnendur landsliðsins voru óvissir um góðan árangur, einkum í forsetatíð Juan Perón, sem lagði mikið upp úr því að tengja stjórn sína við velgengni á knattspyrnuvellinum.
Þótt Argentína keppti hvorki á HM 1950 né 1954 markaði sjötti áratugurinn upphafið að reglubundnum vináttuleikjum gegn evrópskum andstæðingum. 3:1 sigri á Englendingum í Buenos Aires sumarið 1953 var t.a.m. fagnað sem heimsmeistaratitli og var lengi talið einhver bestu úrslit argentínska landsliðsins.
Argentínumenn unnu sinn tíunda, ellefta og tólfta Suður-Ameríkutitil árin 1955, 1957 og 1959. Af þeim þótti miðjutitillinn, í Perú 1957 glæsilegastur. Liðið, sem var undir stjórn Guillermo Stábile var kallað Carasucias og talið líklegt til stórafreka á HM í Svíþjóð 1958 þar sem Argentína mætti aftur eftir nærri aldarfjórðungs hlé. Í millitíðinni fluttu þrír lykilmenn sig hins vegar til Ítalíu og sneru því baki við landsliðinu sem olli sárum vonbrigðum, hafnaði á botni riðils síns og tapaði m.a. 6:1 fyrir liði Tékkóslóvakíu. Afhroðið á heimsmeistaramótinu var kallað sænski harmleikurinn og talið er að um 10 þúsund manns hafi mætt á flugstöðina í Buenos Aires til að tjá vanþóknun sína á liðinu við heimkomuna.
Hörkutól
breytaHin sigursælu lið Argentínu á sjötta áratugnum þóttu oft hörð í horn að taka en voru þó einnig marksækin og skoruðu mikið. Á sjöunda og áttunda áratugnum fékk argentínska liðið hins vegar orð á sig fyrir að vera varnarsinnaðra og hika ekki við að leika grófan leik. Afhroðið í Svíþjóð kann að hafa átt sinn þátt í þessari viðhorfsbreytingu. Keppnisferð um Evrópu sumarið 1961 leiddi einnig í ljós hversu langt liðið stóð að baki sterkari evrópsku liðunum, en Argentína vann aðeins einn leik af fimm á ferðalaginu. Þjálfaraskipti voru tíð á þessum árum, eftir langt stöðugleikatímabil þar á undan.
Argentínumenn höfðu talið sig sjálfkjörna til að hýsa HM 1962 sem flestum að óvörum var ákveðið að halda í staðinn í Síle. Þar unnu Argentínumenn bragðdaufan sigur á Búlgörum í upphafsleik en töpuðu svo fyrir Englandi og gerðu markalaust jafntefli gegn Ungverjum og féllu úr keppni.
Þátttaka Argentínu á HM í Englandi 1966 reyndist söguleg. Liðið mætti til leiks fullt bjartsýni eftir að gott gengi á Taça das Nações, fjögurra liða móti sem haldið var í Brasilíu og var kallað litla heimsmeistarakeppnin. Auk heimamanna og Argentínu kepptu Englendingar og Portúgalir á mótinu sem argentínska liðið vann á fullu húsi stiga. Keppnin í Englandi byrjaði einnig prýðilega. Argentínumenn unnu bæði Spánverja og Svisslendinga í riðlakeppninni en gerðu jafntefli við Vestur-Þjóðverja sem nældu sér í toppsætið á betri markatölu.
Í fjórðungsúrslitum mættust Argentína og England í leik sem átti eftir að draga dilk á eftir sér. Leikurinn þóttu grófur af hálfu beggja liða en allt sauð upp úr þegar fyrirliðinn Antonio Rattín var rekinn af velli. Heimamenn unnu að lokum 1:0 sigur, en eftir leikinn gerðu enskir fjölmiðlar mikið úr „villimannlegri hegðun“ Argentínumanna sem sjálfir töldu að þýskur dómari leiksins hefði dregið taum enska liðsins að kröfu FIFA. Argentínumönnum var því fagnað sem hetjum við heimkomuna en viðureignin varð til þess að ýta undir mikla gagnkvæma andúð liðanna tveggja.
Hinn harði leikstíll argentínska liðsins skilaði þeim ekki miklum árangri á heimaslóðum, þar sem Argentína varð ekki Suður-Ameríkumeistari frá 1959 til 1991. Argentínumönnum mistókst einnig að komast á HM 1970 og var það í fyrsta og eina sinn í sögunni sem liðið hefur fallið út í undankeppni HM.
Draugaliðið og HM 1974
breytaÁfallið þegar Argentínu mistókst að komast á HM 1970 var mikið. Á FIFA-þinginu 1966 hafði verið ákveðið að Argentína yrði í gestgjafahlutverkinu á HM 1978 og metnaður argentínsku þjóðarinnar var mikill að byggja upp öflugt landslið í tíma. Knattspyrnusamband Argentínu var hins vegar í hreinni upplausn og landsliðshópurinn gekk nánast sjálfala. Mario Kempes lýsti því síðar að leikmenn hafi sjálfir þurft að skipuleggja vináttulandsleiki og safna peningum til að fjármagna æfingarbúðir. Skipulagsleysið gerði það að verkum að fjölmiðlum reyndist afar erfitt að fá upplýsingar um stöðuna á landsliðinu og fékk það fljótlega viðurnefnið draugaliðið.
Argentínumenn komu sér á HM í Vestur-Þýskalandi 1974. Þar beið þeirra strembinn forriðill með Pólverjum, Haítímönnum og Ítölum. Eftir naumt tap gegn pólska liðinu og 1:1 jafntefli gegn Ítölum komst liðið áfram í milliriðla með öruggum sigri á Haítí. HM-draumurinn mátti heita úr sögunni strax í fyrsta leik með 4:0 skelli gegn spútnikliði Hollendinga. Þvínæst kom 2:1 tap í hörkuleik gegn Brasilíu og að lokum tilþrifalítið jafntefli gegn Austur-Þjóðverjum.
Fátt við frammistöðuna í Vestur-Þýskalandi gaf tilefni til bjartsýni fyrir HM á heimavelli fjórum árum síðar og því ljóst að grípa þyrfti til róttækra aðgerða. Strax í kjölfar mótsins var gengið frá ráðningu César Luis Menotti sem landsliðsþjálfara. Hann setti ýmis skilyrði fyrir ráðningu sinni, þar á meðal að knattspyrnusambandið setti reglur sem bönnuðu sölu á leikmönnum undir 25 ára aldri til evrópskra félagsliða.
Herforingjar og heimsmeistaratitill
breytaArgentínska landsliðið sýndi miklar framfarir undir stjórn Menotti, sem var yfirlýstur vinstrimaður. Á árinu 1977 þreytti 16 ára táningur, Diego Maradona frumraun sína fyrir Argentínu. Stuðningsmenn sáu ekki sólina fyrir þessum unga leikmanni og bakaði landsliðsþjálfarinn sér talsverðar óvinsældir þegar hann ákvað að sleppa honum úr leikmannahópi sínum fyrir HM.
Heimsmeistarakeppnin í Argentínu fór fram í skugga valdaráns illræmdrar herforingjastjórnar sem velt hafði Perónistahreyfingunni frá stjórnartaumunum. Stjórn herforingjanna var blóði drifin og ákváðu þeir að nýta sér HM óspart í áróðursskyni, sem hefur mjög mótað þau eftirmæli sem keppnin hefur hlotið.
Ekki er hægt að segja að heimamenn hafi byrjað mótið með neinum sérstökum glæsibrag. Fyrsti leikur vannst þó gegn Ungverjum með sigurmarki síðla leiks, 2:1. Þá tók við taugatrekkjandi sigur á Frökkum, sömuleiðis 2:1 og sæti í milliriðli var í höfn. Í lokaleiknum tapaði argentínska liðið svo fyrir Ítölum, 1:0 og endaði því í B-riðli og mátti sætta sig við að spila leiki sína í Rosario í stað höfuðborgarinnar Buenos Aires. Argentínska liðið hafði einungis skorað fjögur mörk í leikjunum remur og markahrókurinn Kempes var enn ekki kominn á blað.
Ef til vill létti það pressu af liði heimamanna að færa sig til Rosario. Í það minnsta hrökk Kempes í gang í fyrsta leik milliriðlanna og skoraði tvívegis í 2:0 sigri á bronsliði Pólverja frá fyrra heimsmeistaramóti. Næsta viðureign var gegn Brasilíumönnum, sem líkt og argentínska liðið höfðu mátt sætta sig við annað sætið í sínum riðli. Litið var svo á að um eiginlegan úrslitaleik riðilsins væri að ræða, en útkoman varð markalaust jafntefli eftir harðan leik. Í lokaumferðinni fór leikur Brasilíumanna fram á undan viðureign Argentínumanna, sem þar með myndu vita hvers til væri ætlast af þeim. Fyrir leik sinn gegn Perú vissu leikmenn Menotti að þeir þyrftu að vinna með fjórum mörkum hið minnsta til að komast í úrslitaleikinn. Niðurstaðan varð 6:0 sigur, sem síðar átti eftir að verða kveikjan að ýmsum samsæriskenningum um að maðkur hefði verið í mysunni.
Sigurinn gegn Perú þýddi að Argentínumenn tóku á móti Hollendingum í úrslitaleik keppninnar þann 25. júní. Mikil taugaspenna var í aðdraganda leiksins og freistuðu heimamenn þess með ýmsum hætti að slá mótherjana út af laginu. Mario Kempes kom Argentínu yfir en Hollendingar jöfnuðu síðla leiks og voru nærri því að skora sigurmark í blálokin. Grípa þurfti til framlengingar þar sem Kempes skoraði öðru sinni og Daniel Bertoni gulltryggði sigurinn í lokin. Argentínumenn voru heimsmeistarar í fyrsta sinn í sögunni og fögnuður landsmanna jafnt sem herforingjanna var einlægur. Síðar áttu þó sumir leikmanna liðsins eftir að lýsa því hversu sárt þeim hefði þótt að styrkja stöðu einræðisstjórnarinnar með afreki sínu.
Misheppnuð titilvörn
breytaEkki gagnaðist heimsmeistaratitillinn Argentínumönnum í næstu Suður-Ameríkukeppni frekar en endranær á þessum árum. Enduðu þeir í neðsta sæti síns riðils á eftir Brasilíu og Bólivíu. Litlu betur gekk á afmælismóti heimsmeistarakeppninnar sem fram fór í Úrúgvæ árið 1980.
Heimsmeistararnir ríkjandi mættu til leiks á HM á Spáni 1982 í skugga Falklandseyjarstríðsins sem brotist hafði út þá um vorið. Diego Maradona var að þessu sinni í leikmannahópnum og hafði skömmu fyrir mótið verið keyptur til liðs við Barcelona fyrir metfé. Opnunarleikurinn, sem fram fór á Camp Nou heimavelli Börsunga, olli vonbrigðum þar sem Belgar unnu óvæntan 1:0 sigur. Sigrar gegn Ungverjum og El Salvador dugðu Argentínumönnum upp úr riðlinum, en þó aðeins sem næstefsta lið sem þýddi að þeir lentu í ógnarsterkum milliriðli.
Upphafsleikur milliriðilsins var gegn heimsmeistaraefnum Ítala, sem höfðu gert þrjú jafntefli í jafnmörgum leikjum í mótinu. Ítalska liðið vaknaði hins vegar til lífsins gegn Argentínumönnum og vann 2:1 sigur. Þar með var staðan orðin nálega vonlaus og argentínska liðið lauk keppni með 3:1 tapi á móti Brasilíu, þar sem Maradona uppskar rauða spjaldið í lokin eftir að hafa verið sparkaður sundur og saman af varnarmönnum brasilíska liðsins. Ósigur þessi leiddi til afsagnar Menotti og tók Carlos Bilardo við keflinu af honum.
Mótið hans Maradona
breytaBillardo og Menotti voru eins og svart og hvítt þegar kom að nálgun þeirra varðandi knattspyrnu. Vinstrimaðurinn og heimspekingurinn Menotti hafði lagt áherslu á léttleikandi bolta, stutt samspil og einstaklingsframtak á meðan Billardo, sem talinn var fremur hægrisinnaður, lagði áherslu á liðsheild og þéttan varnarleik. Úrslit Argentínumanna í aðdraganda HM í Mexíkó 1986 gáfu heldur ekki tilefni til bjartsýni. Í síðustu æfingarleikjunum fyrir mótið töpuðu Argentínumenn til að mynda fyrir bæði Frökkum og Norðmönnum. Vonir argentínska liðsins voru hins vegar bundnar við snilli Diego Maradona.
Argentínska liðið fékk þægilegan forriðil og hafnaði í efsta sæti eftir sigra gegn Suður-Kóreumönnum og Búlgörum en jafntefli gegn heimsmeisturum Ítala. Í 16-liða úrslitum lögðu Argentínumenn granna sína í Úrúgvæ að velli 1:0. Því næst tók við dramatísk viðureign gegn Englendingum þar sem Maradona var í aðalhlutverki, skoraði annars vegar minnisstætt mark þar sem hann sundurspilaði alla ensku vörnina en hins vegar mark þar sem hann sló knöttinn í markið án þess að dómaratríóið veitti því eftirtekt.
Í undanúrslitum skoraði Maradona bæði mörkin í 2:0 sigri á Belgum. Vestur-Þjóðverjar settu allt kapp á að halda Maradona niðri í úrslitaleiknum, en við það losnaði um aðra leikmenn og Maradona tókst engu að síður að leggja upp eitt mark í 3:2 sigri. Argentína var heimsmeistari öðru sinni.
Deilur og dópneysla
breytaVeturinn eftir sigurinn á HM leiddi Maradona SSC Napoli til síns fyrsta ítalska meistaratitils og komst nánast í guðatölu í borginni. Þessar vinsældir hans áttu eftir að setja mark sitt á HM 1990 sem fram fór á Ítalíu. Skipuleggjendur mótsins komu því svo fyrir að fjöldi leikja argentínska liðsins færu fram í Napólí, til að lokka fleiri áhorfendur á völlinn. Tvær grímur fóru þó að renna á ítölsk fótboltayfirvöld þegar Maradona hvatti íbúa Napólí til að styðja Argentínu í keppninni frekar en landslið heimamanna og kynti óhikað undir rótgróinni togstreitu sem ríkti milli íbúa suður- og norður-Ítalíu. Afleiðingin varð sú að margir Napólíbúar tóku kalli fyrirliða síns, en aðrir Ítalir snerust harkalega gegn Maradona og argentínska landsliðinu.
Líkt og átta árum fyrr byrjaði titilvörnin illa. Argentína tapaði afar óvænt í opunarleiknum gegn Kamerún sem þó luku leik tveimur mönnum færri. 2:0 sigur á Sovétmönnum í næsta leik, sem fram fór í Napólí, bætti nokkuð úr skák. Lokaleikurinn var einnig í Napólí og þar gerðu Argentínumenn og Rúmenar jafntefli, sem þýddi að heimsmeistararnir skriðu áfram í 16-liða úrslit sem 3ja sætis lið og máttu búa sig undir erfiðari andstæðinga en ella.
Brasilía og Argentína mættust í 16-liða úrslitum í leik sem einkenndist af stífum varnarleik. Claudio Caniggia náði að stinga sér í gegnum brasilísku vörnina seint í leiknum og skoraði eina markið. Í fjórðungsúrslitum þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni eftir markalaust jafntefli gegn Júgóslavíu og Argentínumenn voru komnir í undanúrslit gegn Ítölum í Napólí. Toto Schillaci kom heimamönnum yfir áður en Caniggia jafnaði metin og Argentína knúði aftur fram sigur í vítaspyrnukeppni. Í úrslitaleiknum gegn Vestur-Þjóðverjum freistuðu Argentínumenn þess að komast í þriðju vítakeppnina í röð en misstu tvo menn af velli með rauð spjöld og Andreas Brehme skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu þegar fimm mínútur voru til leiksloka.
Veturinn 1990-91 féll Maradona á lyfjaprófi sem rekja mátti til kókaínfíknar hans, þótt sjálfur segði hann að um væri að ræða hefndaraðgerðir ítalska knattspyrnusambandsins í sinn garð vegna HM 1990. Fyrir vikið missti hann af Copa America 1991, þar sem Argentínumenn hrepptu sinn þrettánda titil og þann fyrsta frá 1959. Hetja argentínska liðsins í keppninni var markahrókurinn Gabriel Batistuta. Liðið varði titil sinn í Ekvador tveimur árum síðar og reyndist það síðasti Suður-Ameríkutitillinn í tæpa þrjá áratugi.
Mörgum að óvörum sneri Maradona aftur í landsliðshópinn fyrir HM í Bandaríkjunum 1994. Argentínska liðið þurfti að fara fjallabaksleiðina á mótið og mætti Áströlum í umspili. Þegar til Bandaríkjanna var komið reyndist Maradona í fantaformi og það sama gilti um Caniggia félaga hans, sem einnig hafði afplánað keppnisbann vegna kókaínneyslu. Þeir Maradona og Batistuta pökkuðu saman Grikkjum í fyrsta leik, 4:0 og Caniggia skoraði bæði mörkin í 2:1 sigri á Nígeríumönnum sem höfðu heillað í sínum upphafsleik. Snögglega virtust Argentínumenn líkleg heimsmeistaraefni.
En Adam var ekki lengi í Paradís. Eftir Nígeríuleikinn var upplýst að Maradona hefði fallið á lyfjaprófi. Vængbrotnir Argentínumenn töpuðu lokaleik riðilsins á móti Búlgörum og féllu svo úr leik í 16-liða úrslitum gegn grönnum þeirra frá Rúmeníu. Leikferli Diego Maradona með landsliðinu var lokið.
Vonbrigði í Evrópu og Asíu
breytaArgentínumenn unnu Suður-Ameríkuforkeppnina fyrir HM í Frakklandi 1998 og voru fjórða efsta þátttökuþjóðin á heimslista FIFA. Þjálfari liðsins var gamli fyrirliðinn Daniel Passarella og fékk Argentína fullt hús stiga í riðlakeppninni, eitt liða auk heimamanna Frakka og fékk ekki á sig eitt einasta mark að auki. Gömlu fjendurnir, Englendingar, voru andstæðingarnir í 16-liða úrslitum. Eftir 2:2 jafntefli þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni sem argentínska liðið reyndist sterkari aðilinn í. Aðrir gamlir andstæðingar, Hollendingar, biðu í fjórðungsúrslitum. Allt stefndi í framlengingu en á lokamínútu venjulegs leiktíma skoraði Dennis Bergkamp sigurmarkið, 2:1.
HM 2002 fór fram í Japan og Suður-Kóreu. Marcelo Bielsa stýrði liði Argentínu sem talið var í hópi sigurstranglegri þjóða, þrátt fyrir að dragast í svokallaðan dauðariðil. Argentína fór vel af stað og sigraði Nígeríu í fyrsta leik. Tap fyrir Englendingum og jafntefli gegn Svíum þýddi hins vegar að Argentína bættist í hóp öflugra knattspyrnuþjóða sem þurftu að snúa heim eftir riðlakeppnina.
Þjóðverjar voru gestgjafar á HM 2006. Líkt og í Frakklandi átta árum fyrr byrjuðu Argentínumenn með látum. Unnu fyrst sterkt lið Fílabeinsstrandarinnar, kjöldrógu því næst Serbíu & Svartfjallaland 6:0, þar sem kornungur leikmaður Lionel Messi skoraði lokamarkið. Að síðustu gerðu Hollendingar og Argentínumenn markalaust jafntefli sem þýddi að toppsætið kom í hlut þeirra síðarnefndu.
Framlengingu þurfti til að knýja fram sigur á Mexíkó í 16-liða úrslitum, 2:1. Í fjórðun gsúrslitum voru mótherjarnir heimamenn Þjóðverja. Argentína náði forystunni en Miroslav Klose jafnaði metin og þýska liðið vann að lokum í vítakeppni.
Maradona í þjálfarasætinu
breytaAlfio Basile lét af störfum sem landsliðsþjálfari á árinu 2008. Goðsögnin Diego Maradona sóttist eftir starfinu og fékk það, þrátt fyrir takmarkaða þjálfunarreynslu. Forkeppni HM 2010 sem fram fór í Suður-Afríku byrjaði brösulega og Argentínumenn máttu m.a. sætta sig við 6:1 tap gegn Bólivíu sem er enn í dag meðal stærstu ósigra landsliðsins. Argentínumenn tryggðu sér farseðilinn til Suður-Afríku með sigri í lokaleiknum þar sem þjálfarinn var í slíkri geðshræringu að hann jós út úr sér fúkyrðum á blaðamannafundi og uppskar að launum tveggja mánaða bann frá FIFA.
Í úrslitakeppninni virtist allt ætla að smella. Argentínumenn fengu fullt hús stiga í forriðlunum, einir liða ásamt Hollendingum. Í 16-liða úrslitum sigruðu þeir Mexíkóa 3:1 í leik þar sem Carlos Tévez komst upp með að skora augljóst rangstöðumark. Í kjölfarið baðst forseti FIFA afsökunar á atvikinu sem átti sinn þátt í að sambandið ákvað að hefja þróun á myndbandsdómgæslu. Í fjórðungsúrslitum rakst argentínska liðið hins vegar á vegg og steinlá fyrir Þjóðverjum, 4:0. Maradona lét af störfum í kjölfarið.
Messi og eyðimerkurgangan
breytaÁrið eftir HM í Suður-Afríku voru Argentínumenn í gestgjafahlutverki í Copa America. Liðið féll úr leik í fjórðungsúrslitum gegn meistaraefnum Úrúgvæ, en á tveimur fyrri mótum hafði argentínska liðið mátt sætta sig við tap í úrslitaleik. Messi var almennt álitinn einn besti knattspyrnumaður allra tíma, en sífellt fleiri tóku þó að benda á algjöra titlaþurrð hans í alþjóðakeppni ef frá er talinn Ólympíumeistaratitill í Beijing 2008.
Argentína mætti til leiks með nokkuð sterkt lið á HM 2014 sem fram fór í nágrannalandinu Brasilíu. Liðið var í hópi þeirra sem fór í gegnum riðlakeppnina á fullu húsi stiga, eftir þrjá eins marks sigra á mótherjum sínum þar sem Messi skoraði fjögur af sex mörkum sinna manna. Í 16-liða úrslitum vannst sigur á Sviss með marki í blálok framlengingar og í fjórðungsúrslitum dugði sömuleiðis eitt mark gegn Belgum.
Ekkert mark var skorað í undanúrslitaleiknum gegn Hollendingum en evrópska liðið misnotaði tvær vítaspyrnur og Argentína var komið í úrslitaleik í fyrsta sinn í tæpan aldarfjórðung og líkt og í tvö síðustu skiptin voru mótherjarnir Þjóðverjar. Mario Götze skoraði eina mark leiksins í seinni hálfleik framlengingar. Þjóðverjar urðu heimsmeistarar en mynd af Messi horfa vonsvikinn á verðlaunagripinn að leik loknum var valin íþróttaljósmynd ársins 2014.
Vonbrigði Messi á alþjóðavettvangi héldu áfram árin 2015 og 2016. Copa America fór fram bæði árin, síðarnefnda keppnin var haldin í Bandaríkjunum til að minnast 100 ára afmæli mótsins. Í bæði skiptin komu Argentínumenn sigurstranglegir til leiks en máttu sætta sig við að tapa í tvígang í úrslitum fyrir Síle eftir vítaspyrnukeppni. Tapið í Bandaríkjunum 2016 fékk svo mjög á Messi að hann tilkynnti brotthvarf sitt úr landsliðinu, en lét þó fljótlega til leiðast og dró landsliðsskóna fram að nýju.
Hrakfarir í Rússlandi
breytaArgentínumennn tryggðu sér ekki sæti í úrslitakeppni HM 2018 fyrr en í lokaumferð forkeppninnar með útisigri gegn Ekvador. Mótherjarnir í fyrsta leik í Rússlandi voru Íslendingar sem komu mjög á óvert með því að ná 1:1 jafntefli þar sem Hannes Þór Halldórsson varði víti frá Messi. Ekki tók betra við í næsta leik þar sem Argentína fékk ljótan 3:0 skell gegn Króatíu. Sigur á móti Nígeríu, sem enn eina ferðina lenti í riðli með Argentínu dugði liðinu áfram í næstu umferð, en þar urðu mótherjarnir Frakkar sem unnu 4:3 í hörkuleik.
Í Suður-Ameríkukeppninni árið eftir, sem fram fór í Brasilíu, tapaði Aregntína fyrir heimamönnum í undanúrslitum en hlaut að lokum bronsið eftir sigur á Síle undir stjórn þjálfarans Lionel Scaloni sem tók við liðinu í kjölfar mótsins í Rússlandi.
Loksins álfumeistarar
breytaSuður-Ameríkukeppni hafði verið fyrirhuguð í Kólumbíu og Argentínu á árinu 2020 en vegna Covid-19 faraldursins þurfti að fresta henni og fór mótið að lokum fram í Brasilíu sumarið 2021, án áhorfenda. Keppt var í tveimur fimm liða riðlum sem skiluðu átta liðum í fjórðungsúrslit. Argentína gerði jafntefli í fyrsta leik gegn Síle en vann næstu þrjá leiki. Við tók útsláttarkeppnin þar sem argentínska liðið sló út bæði Ekvador og Kólumbíu.
Í úrslitaleiknum mættust Brasilía og Argentína. Tæplega átta þúsund áhorfendum var heimilað að fylgjast með viðureigninni á tómlegum Maracanã-leikvangnum. Stuðningsmenn beggja landsliða um heim allan fylgdust þó vel með í gegnum sjónvarp og í Bangladess greip lögreglan til útgöngubanns til að koma í veg fyrir erjur á milli stuðningshópa. Mark frá Ángel Di María skildi liðin tvö að. Argentínumenn voru Suður-Ameríkumeistarar í fyrsta sinn frá 1993 og Messi hafði hreppt sinn fyrsta stóra titil.
Þriðji heimsmeistaratitillinn
breytaHM 2022 í Katar fór fram við óvenjulegar aðstæður, í nóvember og desember af veðurfarslegum ástæðum. Mótið byrjaði með ósköpum þar sem argentínska liðið tapaði gríðarlega óvænt, 2:1, fyrir Sádi-Arabíu en tveir sigrar á Mexíkó og Póllandi skiluðu liðinu þó toppsætinu í riðlinum. Í 16-liða úrslitum tóku Ástralir við og máttu Suður-Ameríkumeistararnir hafa sig alla við að innbyrða 2:1 sigur gegn þeim.
Viðureignin gegn Hollendingum í fjórðungsúrslitum reyndist dramatísk. Argentínumenn náðu 2:0 forystu og virtust ætla að landa þægilegum sigri. Hollendingar jöfnuðu í blálokin í elleftu mínútu uppbótartíma. Grípa þurfti til vítaspyrnukeppni þar sem argentínska liðið fór með sigur af hólmi. Argentína hefndi fyrir ófarirnar gegn Króatíu fjórum árum fyrr með 3:0 sigri í undanúrslitum og tryggði sér þar með úrslitaleik gegn heimsmeisturum Frakka.
Úrslitaviðureignin varð einhver sú dramatískasta í sögu HM. Kylian Mbappé skoraði þrjú mörk á móti tveimur mörkum Messi og einu frá Di Maria. Í vítaspyrnukeppninni varð markvörðurinn Emiliano Martínez hetja Argentínumanna en hann beitti ýmis konar sálfræðihernaði til að fipa leikmenn franska liðsins, líkt og hann hafði gert á móti Hollendingum fyrr í keppninni. Argentínumenn nýttu hins vegar allar sínar spyrnur og urðu heimsmeistarar í þriðja sinn í sögunni.
Leikmenn
breytaFyrir HM 2022
Markverðir
breyta- Franco Armani (River Plate)
- Gerónimo Rulli (Villarreal)
- Emiliano Martínez (Aston Villa)
Varnarmenn
breyta- Juan Foyth (Villarreal)
- Nicolás Tagliafico (Lyon)
- Gonzalo Montiel (Sevilla)
- Germán Pezzella (Real Betis)
- Marcos Acuña (Sevilla)
- Cristian Romero (Tottenham Hotspur)
- Nicolás Otamendi (Benfica)
- Lisandro Martínez (Manchester United)
- Nahuel Molina (Atlético Madrid)
Miðjumenn
breyta- Leandro Paredes (Juventus)
- Rodrigo De Paul (Atlético Madrid)
- Exequiel Palacios (Bayer Leverkusen)
- Thiago Almada (Atlanta United)
- Alejandro Gómez (Sevilla)
- Guido Rodríguez (Real Betis)
- Alexis Mac Allister (Brighton & Hove Albion)
- Enzo Fernández (Benfica)
Framherjar
breyta- Julián Álvarez (Manchester City)
- Lionel Messi (fyrirliði) (Paris Saint-Germain)
- Ángel Di María (Juventus)
- Ángel Correa (Atlético Madrid)
- Paulo Dybala (Roma)
- Lautaro Martínez (Inter Milan)
Árangur í einstökum keppnum
breytaÁr | Gestgjafar | Árangur |
---|---|---|
1916 | Argentína | Silfur |
1917 | Uruguay | Silfur |
1919 | Brasilía | Brons |
1920 | Belgía | Silfur |
1921 | Argentína | Gull |
1922 | Argentína | 4. sæti |
1923 | Uruguay | Silfur |
1924 | Uruguay | Silfur |
1925 | Argentína | Gull |
1926 | Síle | Silfur |
1927 | Peru | Gull |
1929 | Argentína | Gull |
1935 | Peru | Silfur |
1937 | Argentína | Gull |
1941 | Síle | Gull |
1942 | Uruguay | Silfur |
1945 | Síle | Gull |
1946 | Argentína | Gull |
1947 | Ecuador | Gull |
1955 | Uruguay | Gull |
1956 | Uruguay | Brons |
1957 | Peru | Gull |
1959 (A) | Argentína | Gull |
1959 (E) | Ecuador | Silfur |
1963 | Bólivía | Brons |
1967 | Uruguay | Silfur |
1975 | Ýmis lönd | Riðlakeppni |
1979 | Ýmis lönd | Riðlakeppni |
1983 | Ýmis lönd | Riðlakeppni |
1987 | Síle | 4. sæti |
1989 | Brasilía | Brons |
1991 | Síle | Gull |
1993 | Ekvador | Gull |
1995 | Úrúgvæ | 8. liða úrslit |
1997 | Bólivía | 8. liða úrslit |
1999 | Paragvæ | 8. liða úrslit |
2001 | Kólumbía | Tóku ekki þátt |
2004 | Perú | Silfur |
2007 | Venesúela | Silfur |
2011 | Argentína | 8. liða úrslit |
2015 | Síle | Silfur |
2016 | Bandaríkin | Silfur |
2019 | Brasilía | Brons |
2021 | Brasilía | Gull |
2024 |
Bandaríkin||Gull |
Ár | Gestgjafar | Árangur |
---|---|---|
1930 | Uruguay | Silfur |
1934 | Ítalía | 1. umferð |
1938 | Frakkland | Tóku ekki þátt |
1950 | Brasilía | Tóku ekki þátt |
1954 | Sviss | Tóku ekki þátt |
1958 | Svíþjóð | Riðlakeppni |
1962 | Síle | Riðlakeppni |
1966 | England | 8. liða úrslit |
1970 | Mexíkó | Tóku ekki þátt |
1974 | Þýskaland | 2. umferð |
1978 | Argentína | Gull |
1982 | Spánn | 2. umferð |
1986 | Mexíkó | Gull |
1990 | Ítalía | Silfur |
1994 | Bandaríkin | 16. liða úrslit |
1998 | Frakkland | 8. liða úrslit |
2002 | Suður-Kórea & Japan | Riðlakeppni |
2006 | Þýskaland | 8. liða úrslit |
2010 | Suður-Afríka | 8 liða úrslit |
2014 | Brasilía | Silfur |
2018 | Rússland | 16 liða úrslit |
2022 | Katar | Gull |