Úrúgvæ

land í Suður-Ameríku

Úrúgvæ er land í Suður-Ameríku með landamæriBrasilíu í norðri, Argentínu í vestri (við Río de la Plata) og strönd að Suður-Atlantshafinu í suðri og austri. Rúmlega þriðjungur íbúanna býr í höfuðborginni Montevídeó. Úrúgvæ er næstminnsta land álfunnar á eftir Súrínam.

Austræna lýðveldið Úrúgvæ
República Oriental del Uruguay
Fáni Úrúgvæ Skjaldarmerki Úrúgvæ
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Libertad o Muerte (spænska)
Frelsi eða dauði
Þjóðsöngur:
Orientales, la Patria o la Tumba
Staðsetning Úrúgvæ
Höfuðborg Montevídeó
Opinbert tungumál spænska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Luis Alberto Lacalle Pou
Varaforseti Beatriz Argimón
Sjálfstæði frá Brasilíu
 • Yfirlýst 25. ágúst, 1825 
 • Viðurkennt 28. ágúst, 1828 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
89. sæti
176.215 km²
1,5
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
132. sæti
3.518.552
19,8/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 86,562 millj. dala (92. sæti)
 • Á mann 24.516 dalir (59. sæti)
VÞL (2019) 0.817 (55. sæti)
Gjaldmiðill úrúgvæskur pesi (UYU)
Tímabelti UTC-3
Þjóðarlén .uy
Landsnúmer +598

Einu íbúar landsins sem vitað er um fyrir landnám Evrópubúa voru Charrúar. Spánverjar komu þangað fyrst árið 1516 en sökum andspyrnu íbúanna og skorts á silfur- og gullnámum settust þeir þar ekki að nema í litlum mæli fram á 17. öld. Árið 1669 hófu Portúgalar að reisa virki í Colonia del Sacramento við ströndina. Spánverjar brugðust við útþenslustefnu Portúgala með auknu landnámi og snemma á 18. öld stofnuðu þeir borgina Montevídeó. Spánverjar, Portúgalar og Bretar tókust á um yfirráð í landinu í upphafi 19. aldar. Barátta fyrir sjálfstæði landsins hófst skömmu eftir Napóleonsstyrjaldirnar. Um 1820 lögðu Portúgalir landið undir sig. Úrúgvæ varð hluti af Brasilíu sem héraðið Cisplatina. Skömmu síðar hófst sjálfstæðisstríð sem lyktaði með sjálfstæði Úrúgvæ árið 1830. Nokkrum árum síðar hófst borgarastyrjöld í landinu þar sem stríðsaðilar fengu stuðning ýmist frá Argentínu eða Brasilíska keisaradæminu. Eftir að stríðinu lauk jókst innflutningur fólks, aðallega frá Ítalíu og Spáni. Seint á 6. áratug 20. aldar gekk landið í gegnum kreppu sem leiddi til óeirða. Þá var skæruliðahreyfingin Tupamaros stofnuð. Árið 1968 var neyðarástandi lýst yfir og herinn tók svo völdin í landinu árið 1973. Lýðræði var aftur komið á árið 1984.

Efnahagslíf Úrúgvæ byggist aðallega á landbúnaði, einkum útflutningi nautgripa- og sojaafurða. Landið gekk í gegnum erfiða kreppu milli 1999 og 2002 en síðan mikinn hagvöxt frá 2004 til 2007. Landið var eina Suður-Ameríkulandið sem þurfti ekki að glíma við samdrátt á árunum 2007 til 2011.

Landið dregur nafn sitt af Úrúgvæfljóti sem fær nafnið úr gvaranímálum frumbyggja landsins. Til eru nokkrar skýringar á merkingu þess, þar á meðal „fuglaá“, úr charrúsku þar sem urú merkir villtur fugl.[1][2] Nafnið gæti líka vísað í fljótasnigil sem nefnist uruguá (Pomella megastoma) sem áður var algengur á bökkum fljótsins.[3]

Vinsæl alþýðuskýring á heiti landsins er komin frá úrúgvæska skáldinu Juan Zorrilla de San Martín sem stakk upp á að það merkti „fljót málaðra fugla“.[4] Þessi túlkun heitisins nýtur viðurkenningar í landinu þótt hún sé vafasöm.[5]

Á nýlendutímanum og nokkurn tíma eftir hann voru Úrúgvæ og nágrannahéruð kölluð Banda Oriental del Uruguay („Austurbakki Úrúgvæfljóts“), svo í nokkur ár Provincia Oriental („Austurhérað“). Frá því landið fékk sjálfstæði hefur það verið þekkt sem República Oriental del Uruguay („Austræna lýðveldið Úrúgvæ“[6]).

Landfræði

breyta
 
Gervihnattarmynd af Úrúgvæ.

Úrúgvæ er 176.214 km2 á landi og með 142.199 km2 landhelgi, auk nokkurra lítilla hólma.[7] Úrúgvæ er því annað minnsta ríki Suður-Ameríku, á eftir Súrínam, og þriðja minnsta landsvæðið (Franska Gvæjana er það minnsta).[8] Landslagið einkennist af sléttum og lágum hæðardrögum (cuchillas) með frjósama flóðsléttu og 660 km langa strandlengju.[8]

Þéttriðið net vatnsfalla rennur um allt landið og skiptist milli fjögurra vatnasviða: Río de la Plata, Úrúgvæfljóts, Lagoa Mirim og Río Negro. Helsta innlenda áin er Río Negro. Nokkur sjávarlón eru við Atlantshafsströndina.

Hæsti tindur landsins er Cerro Catedral sem nær 514 metra hæð í hæðum sem nefnast Sierra Carapé. Í suðvestri eru Río de la Plata og árósar Úrúgvæfljóts.

Montevideo er syðsta höfuðborg Ameríku og þriðja syðsta höfuðborg heims (á eftir Canberra og Wellington). Úrúgvæ er eina landið í Suður-Ameríku sem er að öllu leyti sunnan við syðri hvarfbaug.

Í Úrúgvæ eru tíu þjóðgarðar: fimm á votlendissvæðum í austri, þrír í hæðunum í miðjunni og einn við Úrúgvæfljót í vestri.

Stjórnmál

breyta

Úrúgvæ er miðstýrt ríki sem býr við fulltrúalýðræði og forsetaræði þar sem forseti og varaforseti eru kosnir í almennum kosningum til fimm ára í senn. Forsetinn skipar 13 ráðherra í ríkisstjórn.

Löggjafarvaldið er í höndum úrúgvæska þingsins sem kemur saman í tveimur deildum: fulltrúadeild með 99 þingmenn sem hver er kosinn í einu af 19 héruðum landsins til fimm ára í senn með hlutfallskosningu; og öldungadeild með 31 þingmenn þar sem 30 eru kosnir með hlutfallskosningu til fimm ára í senn og varaforseta landsins sem er þingforseti öldungadeildarinnar.

Hæstiréttur Úrúgvæ er æðsti dómstóll landsins. Hæstaréttardómarar eru kjörnir af þinginu og aðrir meðlimir dómstólsins skipaðir af honum sjálfum með samþykki öldungadeildarinnar.

Núverandi stjórnarskrá Úrúgvæ er frá 1967. Mörg af ákvæðum hennar voru numin úr gildi árið 1973 en endurreist árið 1985. Stjórnarskráin gerir ráð fyrir því að almennir borgarar geti afnumið lög og breytt stjórnarskránni að eigin frumkvæði með þjóðaratkvæðagreiðslum. Þessi leið hefur verið farin nokkrum sinnum á síðustu 15 árum: til að staðfesta lög sem komu í veg fyrir að meðlimir herforingjastjórnarinnar frá 1973 til 1985 yrðu sóttir til saka fyrir mannréttindabrot; til að stöðva einkavæðingu opinberra veitufyrirtækja; til að verja tekjur ellilífeyrisþega; og til að verja vatnsbirgðir.[9]

Af stjórnmálaflokkum í Úrúgvæ hefur Partido Colorado oftast setið í stjórn, en í þingkosningum 2004 náði Breiðfylkingin að tryggja sér hreinan meirihluta og árið 2009 var José Mujica úr Breiðfylkingunni kosinn forseti. Í mars 2020 komust íhaldsmenn aftur til valda eftir 15 ára stjórn vinstriflokka. Á sama tíma var Luis Lacalle Pou úr Þjóðarflokknum kosinn forseti.

Samkvæmt könnun Latinobarómetro árið 2010 voru íbúar Úrúgvæ mest fylgjandi lýðræði af öllum íbúum Suður-Ameríku og langánægðastir með virkni lýðræðis í eigin landi.[10] Úrúgvæ var í 27. sæti í frelsisvísitölu Freedom House árið 2012[11] og í 21. sæti yfir minnst spilltu lönd heims samkvæmt spillingarvísitölu Transparency International.

Stjórnsýslueiningar

breyta

Úrúgvæ skiptist í 19 umdæmi með lýðræðislega kjörna umdæmisstjórn. Umdæmisstjóri fer með framkvæmdavald og umdæmisráð með löggjafarvald.

Kort Umdæmi Höfuðstaður Stærð (km2) Íbúafjöldi (manntal 2011)[12]
  Artigas Artigas 11.928 73.162
Canelones Canelones 4.536 518.154
Cerro Largo Melo 13.648 84.555
Colonia Colonia del Sacramento 6.106 122.863
Durazno Durazno 11.643 57.082
Flores Trinidad 5.144 25.033
Florida Florida 10.417 67.093
Lavalleja Minas 10.016 58.843
Maldonado Maldonado 4.793 161.571
Montevideo Montevídeó 530 1.292.347
Paysandú Paysandú 13.922 113.112
Río Negro Fray Bentos 9.282 54.434
Rivera Rivera 9.370 103.447
Rocha Rocha 10.551 66.955
Salto Salto 14.163 124.683
San José San José de Mayo 4.992 108.025
Soriano Mercedes 9.008 82.108
Tacuarembó Tacuarembó 15.438 89.993
Treinta y Tres Treinta y Tres 9.529 48.066
Alls 175.016 3.251.526

Tilvísanir

breyta
 1. Revista Del Río de La Plata. 1971. bls. 285. Afrit af uppruna á 3. febrúar 2016. Sótt 23. október 2015. „The word itself, "Uruguay," is clearly derived from the Guaraní, probably by way of the tribal dialect of the Charrúas […] from uru (a generic designation of wild fowl)“
 2. Nordenskiöld, Erland (1979). Deductions suggested by the geographical distribution of some post-Columbian words used by the Indians of S. America. AMS Press. bls. 27. ISBN 978-0-404-15145-4. Afrit af uppruna á 3. febrúar 2016. Sótt 23. október 2015. „In Paraguay the Guaraní Indians call a fowl uruguaçú. The Cainguá in Misiones only say urú. […] A few Guaraní-speakiug Indians who call a hen uruguasu and a cock tacareo. Uruguaçu means "the big uru".“
 3. „Presentan tesis del nombre Uruguay“. El País (spænska). Afrit af upprunalegu geymt þann 14. mars 2012. Sótt 21. nóvember 2014.
 4. „Presentan tesis del nombre Uruguay – Diario EL PAIS – Montevideo – Uruguay“. 14. mars 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. mars 2012. Sótt 17. maí 2021.
 5. „Uruguay, el país de los pájaros pintados despierta la pasión por mirar“. Ministerio de Turismo (spænska). Sótt 17. maí 2021.
 6. „Framkvæmdaákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2016/229“ (PDF). efta.int. EFTA. 16. desember 2016. Sótt 4. ágúst 2021.
 7. „Uruguay in Numbers“ (PDF) (spænska). National Institute of Statistics. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 13. nóvember 2013.
 8. 8,0 8,1 Central Intelligence Agency (2016). „Uruguay“. The World Factbook. Langley, Virginia: Central Intelligence Agency. Sótt 1. janúar 2017.
 9. Rex A. Hudson; Sandra W. Meditz, ritstjórar (Desember 1993). Uruguay: A country study. Library of Congress Federal Research Division.
 10. „The democratic routine“. The Economist. 2. desember 2010. Afrit af uppruna á 27. janúar 2011. Sótt 23. febrúar 2011.
 11. „The Economist Intelligence Unit's Index of Democracy 2012“. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 3. janúar 2015. Sótt 20. júní 2014.
 12. „Censos 2011 – Instituto Nacional de Estadistica“. Instituto Nacional de Estadística. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. janúar 2012. Sótt 13. janúar 2012.
 
Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.