Suður-Ameríkukeppni karla í knattspyrnu

Suður-Ameríkukeppni karla í knattspyrnu eða Copa América er keppni milli landsliða Suður-Ameríku og elsta milliríkjakeppni í knattspyrnu í heiminum. Fyrsta mótið var haldið árið 1916 og fór það fram nær árlega framan af. Skipulagið hefur tekið sífelldum breytingum alla tíð, þar sem keppnir hafa fallið niður eða þær verið haldnar með óreglulegu millibili. Oftast hefur mótið verið bundið við eitt gestgjafaland en á öðrum tímum hafa þátttökulið keppt heima og heiman. Frá og með keppninni 2020 er áformað að keppt verði á fjögurra ára fresti. Í seinni tíð hefur gestaliðum frá öðrum heimsálfum verið boðið til þátttöku til að ná tólf keppnisþjóðum.

Argentína er ríkjandi meistari og hefur unnið oftast allra liða, 16 sinnum en Úrúgvæ kemur skammt á eftir með 15 titla.

Upphafsskeiðið, 1916-1929

breyta
 
Sigurlið Úrúgvæ í fyrstu keppninni.

Saga Suður-Ameríkukeppni karla í knattspyrnu er flókin og er um margt túlkunum háð. Sumar keppnirnar voru ekki taldar opinberar Suður-Ameríkukeppnir á sínum tíma en voru síðar skilgreindar sem fullgild mót. Argentínumenn efndu til knattspyrnumóts árið 1910 til að fagna afmæli stórviðburða í sjálfstæðissögu sinni. Úrúgvæ og Síle mættu til leiks. Ekki er hefð fyrir að telja þetta mót til sögu Suður-Ameríkukeppninnar, en með því var fræjum hugmyndarinnar sáð.

 
Fyrsti meistaratitill Brasilíu, á heimavelli 1919.

Aftur voru það Argentínumenn sem buðu til knattspyrnukeppni árið 1916, að þessu sinni til að fagna hundrað ára sjálfstæðisafmæli sínu. Utanríkisráðuneyti Argentínu gaf verðlaunagrip til keppninnar, Ameríkubikarinn eða Copa América. Hefur verið keppt um þann grip til þessa dags og árið 1975 var nafni keppninnar breytt úr Campeonato Sudamericano de Fútbol í Copa América. Fjögur lið mættu til leiks í Buenos Aires. Sömu þrjú og keppt höfðu sex árum fyrr og Brasilía að auki. Úrúgvæ tryggði sér sigurinn með markalausu jafntefli gegn heimamönnum í lokaleik.

Sömu fjögur liðin mættu til leiks næstu þrjú skiptin sem keppnin var haldin. Perú, Bólivía og Paragvæ bættust öll í hóp þátttökulanda fram til ársins 1929, en þar sem alltaf drógu einhver lið sig úr keppni voru þátttökulöndin á þessu tímabili alltaf á bilinu þrjú til fimm. Úrúgvæ var langsigursælast á þessum árum og hampaði bikarnum í sex skipti af tólf. Argentína vann fjórum sinnum og Brasilá tvisvar. Heimavöllurinn var afar drjúgur á þessu upphafsskeiði, en átta sinnum urðu gestgjafarnir meistarar.

Argentínska tímabilið, 1935-1949

breyta
 
Argentínumaðurinn Rinaldo Martino borinn á gullstól eftir að hafa skorað sigurmarkið 1945.

Fyrsta heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu var haldin í Úrúgvæ árið 1930 og skapaði úlfúð milli knattspyrnusambanda Argentínu og Úrúgvæ. Afleiðingin varð sú að ekki varð sátt um að halda Suður-Ameríkukeppnina næstu árin. Árið 1935 var þó efnt til keppni í Perú sem þjóna skyldi sem forkeppni fyrir Ólympíuleikana í Berlín árið eftir. Úrúgvæ fór með sigur af hólmi. Ekki var keppt um Copa América-verðlaunagripinn, en mótið varð síðar skilgreint sem fullgild Suður-Ameríkukeppni.

Næstu árin var mótið haldið óreglulega með eins, tveggja eða þriggja ára millibili. Sem fyrr reyndist heimavöllurinn drjúgur, en í fimm af níu keppnum á tímabilinu fóru heimamenn með sigur af hólmi. Engin þjóð vann oftar en Argentína á þessu tímabili, fimm sinnum, þar af þrjú ár í röð 1945-1947. Brasilíumenn unnu sinn fyrsta sigur í aldarfjórðung í keppninni 1949 á heimavelli og unnu þar Paragvæ 7:0 í úrslitaleiknum, sem enn í dag er stærsti sigur í úrslitaleik í sögu keppninnar. Það auðveldaði Brasilíumönnum leikinn að Argentína, sigursælasta lið þessara ára, tók ekki þátt. Opinbera skýringin var ágreiningur milli knattspyrnusambanda Argentínu og Brasilíu en ýmsir telja að ótti Perón-stjórnarinnar í Argentínu við að bíða ósigur í milliríkjakeppnum hafi ráðið för. Argentínska landsliðið tók til að mynda ekki þátt í HM í knattspyrnu frá 1934-1958.

Ringulreið, 1953-1967

breyta
 
„Carasucias“ eða „óhreinu andlitin“ var viðurnefni argentínska meistaraliðsins í keppninni 1957.

Fjögur ár liðu frá keppninni í Brasilíu árið 1949 þar til þráðurinn var tekinn upp að nýju árið 1953. Þá var keppt í Perú og tókst nýrri þjóð, Paragvæ, að fá nafn sitt á verðlaunagripinn. Paragvæ náði að bæta fyrir hrakfarirnar fjórum árum fyrr með því að sigra Brasilíu í úrslitaleiknum. Á þessum árum var að jafnaði keppt í einum riðli með einfaldri umferð, en gripið var til úrslitaleiks þegar tvö lið urðu jöfn efst að stigum. Raunar hafði Paragvæ endað eitt á toppnum en jafnteflisleikur liðsins gegn Perú var dæmdur þeim tapaður eftir að í ljós kom að Paragvæ hafði gert einni skiptingu of mikið.

Bólivía varð sjötta sigurlandið á heimavelli árið 1963. Ákvörðunin um að halda keppnina í þunna loftinu í La Paz olli því að Úrúgvæ kaus að sniðganga keppnina. Slíkar sniðgöngur voru sem fyrr daglegt brauð og mjög misjafnt var hversu alvarlega einstök lönd tóku mótið. Dæmi um það var árið 1959 þegar ákveðið var að halda tvær keppnir, aðra í Argentínu í mars en hina í Ekvador í desember. Sumar þjóðir ákváðu að taka bara þátt í annarri keppninni og Brasilía sendi héraðslið til keppni í Ekvador. Auk Paragvæ og Bólivíu skiptu Argentína og Úrúgvæ með sér öllum meistaratitlum tímabilsins, þremur hvort um sig. Almennt séð galt Suður-Ameríkukeppni þessara ára fyrir vinsældir félagsliðakeppninnar Copa Libertadores sem hóf göngu sína 1959.

Á faraldsfæti, 1975-1983

breyta

Efti átta ára hlé, það lengsta í sögu mótsins, var Suður-Ameríkukeppnin endurvakin árið 1975 undir nýju nafni: Copa América. Nýtt keppnisfyrirkomulag var tekið upp, þar sem horfið var frá því að halda mótið í einu landi. Þess í stað var riðlakeppni þar sem liðin kepptu heima og heiman. Þá tóku við undanúrslit með tveimur viðureignum og það sama gilti í úrslitunum. Ef hvort liðið ynni sinn leikinn yrði oddaleikur á hlutlausum velli. Grípa þurfti til oddaleiks árin 1975 og 1979, þar sem Perú og Paragvæ hrepptu bæði sinn annan titil. Úrúgvæ varð loks meistari árið 1983 í tólfta sinn eftir tvo leiki gegn Brasilíu. Reynslan af þessum þremur keppnum þótti ekki góð og var því ákveðið að breyta fyrirkomulaginu á ný frá og með árinu 1987, með einum gestgjafa og keppni á tveggja ára fresti.

Fyrsta hringekjan, 1987-2007

breyta
 
Venesúela hélt Copa América í fyrsta sinn árið 2007. Landið hefur minnstu fótboltahefðina í álfunni og aldrei komist á verðlaunapall.

Knattpspyrnusamband Suður-Ameríku tók þá ákvörðun árið 1984 að eftirleiðis skyldi Copa América fara fram í einu landi og færast á milli aðildarlandanna tíu í stafrófsröð. Það kom því í hlut nýkrýndra heimsmeistara Argentínumanna að halda keppnina árið 1987. Argentínumönnum mistókst að vinna á heimavelli og máttu sjá eftir sigrinum til granna sinna frá Úrúgvæ. Tveimur árum síðar urðu Brasilíumenn hins vegar ekki á nein mistök á heimavelli og unnu sinn fyrsta sigur í fjörutíu ár. Það ár var ekki um eiginlegan úrslitaleik að ræða heldur kepptu fjögur lið saman í úrslitariðli. Sama fyrirkomulag var viðhaft í Síle árið 1991, þar sem Argentína fór með sigur af hólmi eftir langa bið.

Aftur urðu Argentínumenn meistarar í Ekvador sumarið 1993. Þá var keppnisfyrirkomulaginu breytt enn á ný og liðum fjölgað. Bandaríkjunum og Mexíkó var boðin þátttaka sem gestaliðum og tóku fjórðungsúrslit við að riðlakeppni með þremur fjögurra liða riðlum. Úrúgvæjar urðu meistarar á heimavelli árið 1995 eftir sigur á Brasilíu í vítakeppni. Var það í fyrsta sinn sem grípa þurfti til þess ráðs í úrslitaleik í sögu keppninnar.

Brasilíumenn unnu sinn fimmta og sjötta titil árin 1997 og 1999. Í seinna skiptið var Japan á meðal þátttökulanda, fyrst liða utan Norður- og Suður-Ameríku. Yfirburðir Brasilíumanna voru miklir á þessum árum, en liðið vann aftur tvisvar í röð árin 2004 og 2007. Í millitíðinni fögnuðu Kólumbíumenn sínum fyrsta og eina meistaratitli á heimavelli árið 2001. Brasilía vann því alls fimm sinnum í þessari fyrstu tíu landa hringekju Copa América.

Nútíminn, 2009-

breyta

Reglan um hvernig skipta skyldi gestgjafahlutverkinu reyndist ekki lifa langt inn í næsta hring. Argentínumenn héldu að sönnu keppnina 2011, þar sem Úrúgvæ stóð uppi sem sigurvegari. Fjögur ár voru liðin frá síðustu keppni og var ákveðið að miða eftirleiðis við það árabil. Brasilíumenn hefðu að öllu eðlilegu átt að halda keppnina 2015, en vegna Ólympíuleikanna 2016 varð úr að Brasilíumenn skiptu við Síle sem átti að hýsa mótið árið 2019. Síle varð í fyrsta sinn Suður-Ameríkumeistari á heimavelli eftir að hafa lagt Argentínumenn í vítaspyrnukeppni. Ekvador og Venesúela eru því einu föstu þátttökulöndin sem aldrei hafa orðið meistarar.

Hugmyndin um að halda sérstakt hátíðarmót í tengslum við 100 ára afmæli Suður-Ameríkukeppninnar var kynnt árið 2012. Snemma varð ljóst að hugur forsvarsmanna knattspyrnusambandsins stóð til þess að halda mótið í Bandaríkjunum, í von um miklar tekjur af sjónvarps- og auglýsingasamningum. Þessi ráðstöfun vakti hörð viðbrögð margra. Áhersla var lögð á að ekki væri um eiginlega Copa América-keppni að ræða, en þegar á hólminn var komið litu flestir svo á að mótið hefði fullgilda stöðu. Sílemenn vörðu titilinn, aftur eftir sigur á Argentínu í vítakeppni í úrslitum. Sú niðurstaða varð þungbær fyrir argentínska fyrirliðann Lionel Messi sem lýsti því yfir eftir tapið að hann væri hættur með landsliðinu. Þær yfirlýsingar voru síðar dregnar til baka. 2019 fór mótið loks fram í Brasilíu. Heimamenn höfðu talsverða yfirburði og fengu aðeins á sig eitt mark í allri keppninni, í 3:1 sigri á Perú í úrslitum.

Flestir bestu leikmenn Suður-Ameríku leika með evrópskum félagsliðum og hefur talsvert borið á andstöðu þeirra liða við að sjá á eftir leikmönnum sínum til keppni á Copa América. Til að draga úr þeirri togstreitu var sú ákvörðun tekin veturinn 2017-18 að færa keppnina til þannig að frá og með árinu 2020 væri hún haldin sömu sumur og EM í knattspyrnu. Til stóð að þessi keppnin yrði haldin sameiginlega í Argentínu og Kólumbíu. Vegna Covid-19 faraldursins og ótryggs pólitísks ástands var mótið 2021 flutt til Brasilíu á síðustu stundu. Brasilía mætti Argentínu í úrslitum og vann Argentína sinn fyrsta titil í langan tíma.

Á ársbyrjun 2023 var tilkynnt að næsta keppni yrði haldin í Bandaríkjunum sumarið 2024 með sextán keppnisliðum, tíu frá Suður-Ameríku og sex frá Norður- og Mið-Ameríku.

Keppnir

breyta
Ár Keppnisstaður Sigurvegari Úrslit 2. sæti 3. sæti 4. sæti Fjöldi
liða
1916 Argentína   Úrúgvæ Riðlakeppni   Argentína   Brasilía   Síle 4
1917 Úrúgvæ   Úrúgvæ Riðlakeppni   Argentína   Brasilía   Síle 4
1919 Brasilía   Brasilía 1:0 (e.framl.)   Úrúgvæ   Argentína   Síle 4
1920 Síle   Úrúgvæ Riðlakeppni   Argentína   Brasilía   Síle 4
1921 Argentína   Argentína Riðlakeppni   Brasilía   Úrúgvæ   Paragvæ 4
1922 Brasilía   Brasilía 3:0   Paragvæ   Úrúgvæ   Argentína 5
1923 Úrúgvæ   Úrúgvæ Riðlakeppni   Argentína   Paragvæ   Brasilía 4
1924 Úrúgvæ   Úrúgvæ Riðlakeppni   Argentína   Paragvæ   Síle 4
1925 Argentína   Argentína Riðlakeppni   Brasilía   Paragvæ 3
1926 Síle   Úrúgvæ Riðlakeppni   Argentína   Síle   Paragvæ 5
1927 Perú   Argentína Riðlakeppni   Úrúgvæ   Perú   Bólivía 4
1929 Argentína   Argentína Riðlakeppni   Paragvæ   Úrúgvæ   Perú 4
1935 Perú   Úrúgvæ Riðlakeppni   Argentína   Perú   Síle 4
1937 Argentína   Argentína 2:0 (e.framl.)   Brasilía   Úrúgvæ   Paragvæ 6
1939 Perú   Perú Riðlakeppni   Úrúgvæ   Paragvæ   Síle 5
1941 Síle   Argentína Riðlakeppni   Úrúgvæ   Síla   Perú 5
1942 Úrúgvæ   Úrúgvæ Riðlakeppni   Argentína   Brasilía   Paragvæ 7
1945 Síle   Argentína Riðlakeppni   Brasilía   Síla   Úrúgvæ 7
1946 Argentína   Argentína Riðlakeppni   Brasilía   Paraguay   Úrúgvæ 6
1947 Ekvador   Argentína Riðlakeppni   Paragvæ   Úrúgvæ   Síle 8
1949 Brasilía   Brasilía 7:0   Paragvæ   Perú   Bólivía 8
1953 Perú   Paragvæ 3:2   Brasilía   Úrúgvæ   Síle 7
1955 Síle   Argentína Riðlakeppni   Síle   Perú   Úrúgvæ 6
1956 Úrúgvæ   Úrúgvæ Riðlakeppni   Síle   Argentína   Brasilía 6
1957 Perú   Argentína Riðlakeppni   Brasilía   Úrúgvæ   Perú 7
1959 Argentína   Argentína Riðlakeppni   Brasilía   Paragvæ   Perú 7
1959 Ekvador   Úrúgvæ Riðlakeppni   Argentína   Brasilía   Ekvador 5
1963 Bólivía   Bólivía Riðlakeppni   Paragvæ   Argentína   Brasilía 7
1967 Úrúgvæ   Úrúgvæ Riðlakeppni   Argentína   Síle   Paragvæ 6
1975 Um alla álfuna   Perú 0:1/2:0 (1:0 í oddaleik)   Kólumbía   Brasilía   Úrúgvæ 10
1979 Um alla álfuna   Paragvæ 3:0/0:1 (0:0 í oddaleik)   Síle   Brasilía   Perú 10
1983 Um alla álfuna   Úrúgvæ 2:0/1:1   Brasilía   Paragvæ   Perú 10
1987 Argentína   Úrúgvæ 1:0   Síle   Kólumbía   Argentína 10
1989 Brasilía   Brasilía Riðlakeppni   Úrúgvæ   Argentína   Paragvæ 10
1991 Síle   Argentína Riðlakeppni   Brasilía   Síle   Kólumbía 10
1993 Ekvador   Argentína 2:1   Mexíkó   Kólumbía   Ekvador 12
1995 Úrúgvæ   Úrúgvæ 1:1 (5:3 e.vítake.)   Brasilía   Kólumbía   Bandaríkin 12
1997 Bólivía   Brasilía 3:1   Bólivía   Mexíkó   Perú 12
1999 Paragvæ   Brasilía 3:0   Úrúgvæ   Mexíkó   Síle 12
2001 Kólumbía   Kólumbía 1:0   Mexíkó   Hondúras   Úrúgvæ 12
2004 Perú   Brasilía 2:2 (6:4 e.vítasp.)   Argentína   Úrúgvæ   Kólumbía 12
2007 Venesúela   Brasilía 3:0   Argentína   Mexíkó   Úrúgvæ 12
2011 Argentína   Úrúgvæ 3:0   Paragvæ   Perú   Venesúela 12
2015 Síle   Síle 0:0 (4:1 e.vítake.)   Argentína   Perú   Paragvæ 12
2016 Bandaríkin   Síle 0:0 (4:2 e.vítake.)   Argentína   Kólumbía   Bandaríkin 16
2019 Brasilía   Brasilía 3:1   Perú   Argentína   Síle 12
2021 Brasilía   Argentína 1:0   Brasilía   Kólumbía   Perú 10
2024 Bandaríkin   Argentína 1:0   Kólumbía   Úrúgvæ   Kanada 16

Gestalið

breyta

Frá árinu 1993 hafa lið utan Suður-Ameríku tekið þátt í Copa America til að stækka mótið, fyrst í 12 liða keppni en síðar 16.

Landslið Keppnisár Besti árangur
  Mexíkó (11) 1993, 1995, 1997, 1999, 2001, 2004, 2007, 2011, 2015, 2016, 2024 Annað sæti (2001)
  Kosta Ríka (6) 1997, 2001, 2004, 2011, 2016, 2024 Fjórðungsúrslit (2001, 2004)
  Bandaríkin (5) 1993, 1995, 2007, 2016, 2024 Fjórða sæti (1995, 2016)
  Jamaíka (3) 2015, 2016, 2024 Riðlakeppni (2015, 2016, 2024)
  Japan (2) 1999, 2019 Riðlakeppni (1999, 2019)
  Panama (2) 2016, 2024 Riðlakeppni (2016, 2024)
  Hondúras (1) 2001 Þriðja sæti (2001)
  Kanada (1) 2024 Fjórða sæti (2024)
  Haítí (1) 2016 Riðlakeppni (2016)
  Katar (1) 2019 Riðlakeppni (2019)

Heimildir

breyta