Lionel Messi

argentískur knattspyrnumaður

Lionel Andrés Messi Cuccittini eða Leo Messi (fæddur 24. júní 1987) er argentínskur knattspyrnumaður sem spilar fyrir bandaríska liðið Inter Miami CF og argentínska landsliðið. Hann spilaði lengst af fyrir FC Barcelona.

Lionel Messi
Upplýsingar
Fullt nafn Lionel Andrés Messi Cuccittini
Fæðingardagur 24. júní 1987 (1987-06-24) (36 ára)
Fæðingarstaður    Rosario, Argentína, Argentína
Hæð 1,70 m
Leikstaða framherji
Núverandi lið
Núverandi lið Inter Miami CF
Númer 30
Yngriflokkaferill
1994–2000
2001–2004
Newell's Old Boys
FC Barcelona
Meistaraflokksferill1
Ár Lið Leikir (mörk)
2003-2004 FC Barcelona C 10 (5)
2004–2005 FC Barcelona B 22 (6)
2004-2021 FC Barcelona 520 (474)
2021-2023 Paris Saint-Germain 57 (22)
2023- Inter Miami CF 14 (11)
Landsliðsferill2
2004–2005
2008
2005-
Argentína U-20
Argentína U-23
Argentína
18 (14)
5 (2)
180 (106)

1 Leikir með meistaraflokkum og mörk
talið í aðaldeild liðsins.
2 Landsliðsleikir og mörk uppfærð
9-5-2024.

Lionel Messi, 2010

Messi getur annaðhvort spilað í hlutverki framliggjandi kantmanns eða framherja. Hann er talinn af álitsgjöfum einn besti knattspyrnumaður heims og hefur hlotið gullknöttinn 8 sinnum og evrópska gullskóinn 6 sinnum.

Messi hefur unnið til 35 bikara með Barcelona, þar á meðal 10 í spænsku deildinni La Liga, fjóra meistaradeildartitla og sjö Copa del Rey-bikartitla. Hann er markahæsti leikmaður allra tíma í La Liga með 474 mörk, á þar einnig flestar stoðsendingar og hefur gert flestar þrennur, ásamt því að vera markahæstur á tímabili 8 sinnum (Pichichi-bikarinn). Messi hefur skorað flest mörk á einu tímabili þar eða 50 mörk. Með landsliði Argentínu er hann fyrirliði og er leikja- og markahæsti maður í sögu þess ásamt því að vera markahæsti Suður-Ameríkubúinn. Hann hefur unnið Copa America og Heimsmeistaramótið með landsliðinu.

Í öllum keppnum hefur Messi skorað um 850 mörk og er meðal markahæstu leikmenn allra tíma. Hann er leikjahæsti leikmaður Barcelona frá upphafi.

Messi hefur oft verið borinn saman við Cristiano Ronaldo en tölfræði þeirra er sambærileg.[1] Báðir hafa þeir skorað a.m.k. 25 mörk á 12 tímabilum í röð og um 500 mörk í efstu deildum Evrópu.

Knattspyrnuferill

Messi hóf fótboltaferil sinn árið 1995 hjá fótboltaliðinu Newell's Old Boys í heimaborg sinni Rosario.

Barcelona

Upphaf

Messi var þrettán ára, þegar hann fluttist til Barcelona og eftir þriggja ára dvöl hjá félaginu hafði hann farið í gegnum C og B-lið félagsins og komst í leikmannahóp aðalliðs félagsins, sextán ára að aldri. Fyrsti leikur hans var vináttuleikur við Porto í nóvember 2003 (sem José Mourinho þjálfaði) en hann varð ekki reglulegur leikmaður félagsins fyrr en að fjöldi leikmanna félagsins meiddist og yngri leikmenn voru kallaðir inn.[2] Um ári síðar hóf hann fyrsta leik sinn í La Liga, í október 2004, sem skiptimaður á 82. mínútu. Fyrsta mark sitt í deildinni skoraði hann í maí 2005, gegn Albacete, með stoðsendingu frá Ronaldinho. Á 18. afmælisdaginn skrifaði Messi undir samning til 2010.

Sigursælt Barcelona og gullknötturinn

Tímabilið 2006–07 skoraði Messi 17 mörk í 36 leikjum í öllum keppnum og þar á meðal fyrstu þrennuna í El Clásico gegn Real Madrid og mark í Copa del Rey sem minnti á mark Diego Maradona á HM 1986 þar sem hann fór upp meira en hálfan völlinn og gegnum 5 varnarmenn. Hann var þó plagaður af beinbroti í rist og var frá í 3 mánuði. Milli 2006 og 2008 var hann frá í 8 mánuði einnig vegna nárameiðsla.

2008–09 átti Messi þátt í 100 mörkum og stoðaði oft sóknarmennina Samuel Eto'o og Thierry Henry. Barcelona vann þrefalt það tímabil. Messi skoraði með skalla í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Manchester United sem vannst 2:0.

Árangur Messi hélt áfram og frá 2009-2012 vann hann 4 Ballon d'Or í röð. Í mars 2012 skoraði hann þrennu í 5:3 sigri gegn Granada og varð þá markahæsti leikmaður Barcelona frá upphafi, aðeins 24 ára gamall. Tveimur árum síðar varð hann markahæstur í La Liga. Árið 2012 skoraði hann einnig 91 mark í öllum keppnum.

Tímabilið 2014-2015 var komið skætt sóknartríó í Barcelona, Messi, Luis Suárez og Neymar, kallað MSN en það skoraði 122 mörk í öllum keppnum, sem var met.

Síðustu ár

Árið 2018 náði Messi 100. marki sínu í Meistaradeild Evrópu þegar Barcelona sló Chelsea FC út.

Árið 2020 var framtíð Messi í óvissu þegar hann hafði ítrekað verið ósáttur við stjórnarformann Barcelona. Eftir 8-2 tap félagsins í meistaradeildinni gegn Bayern München og þjálfaraskipti þar sem Ronald Koeman tók við óskaði Messi eftir að fara frá félaginu. Fjölmiðlar veltu því fyrir sér hvort Manchester City yrði hugsanlegur áfangastaður en þar var Pep Guardiola sem þjálfaði hann hjá Barca og Sergio Agüero landi hans og vinur. Hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við Barcelona en mál hans hefði getað farið fyrir dómstóla. [3] Messi ákvað að halda til hjá félaginu í eitt tímabil þar sem hann vildi ekki fara í málaferli við það. Í lok árs 2020 sló hann met yfir flest mörk skoruð fyrir eitt félagslið þegar hann náði 644. marki sínu fyrir Barcelona og sló þar með met Pelé.

Messi stefndi á að gera 5 ára samning við Barcelona í júlí (til 2026) og samþykkti að taka á sig 50% launalækkun vegna fjárhagsvandræða félagsins. [4] En svo fór að samningar náðust ekki vegna fjárhags félagsins og reglna La Liga. Messi yfirgaf því félagið eftir 21 ár hjá því.[5]

Paris Saint-Germain

Messi gerði 2 ára samning við PSG í ágúst 2021 með möguleika á þriðja ári. Hann fékk númerið 30 sem var það sama og þegar hann hóf að spila með Barcelona sem unglingur. Þar hitti hann fyrir m.a. félaga sinn Neymar og samlandana Ángel di María, Leandro Paredes og Mauro Icardi. Einnig gamlan andstæðing en Sergio Ramos sem mætti honum oft með Real Madrid var kominn til PSG.

Messi kom inn á sem varamaður á útivelli í Ligue 1 í fyrsta leik sínum með félaginu. Hann byrjaði hins vegar sinn fyrsta leik með félaginu í Meistaradeildinni gegn Club Brugge og skoraði svo fyrsta mark sitt fyrir félagið gegn Manchester City.

PSG vann deildina 2021-2022 og bætti Messi einum bikar í sarpinn. Hann var ekki sami markahrókurinn og með Barcelona og skoraði 6 mörk. Hins vegar átti hann 14 stoðsendingar.

Tímabilið eftir varð hann fyrsti leikmaður í topp 5 deildum Evrópu til að eiga 20 mörk og 20 stoðsendingar í öllum keppnum. Messi vann deildina með PSG öðru sinni.

Sumarið 2023 yfirgaf Messi PSG. Hann spilaði 74 leiki fyrir félagið; með 32 mörk og 35 stoðsendingar.

Inter Miami

Í byrjun júní 2023 bárust fréttir að Messi hyggðist halda til Inter Miami CF í bandarísku MLS-deildinni. [6] Í júlí var staðfest að hann gerði samning við liðið til lok árs 2025. [7] Messi skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið úr aukaspyrnu á síðustu mínútu í fyrsta leik sínum í CONCACAF-bikarnum. Hann sló met í MLS í maí 2024 þegar hann kom að 6 mörkum í leik; átti 5 stoðsendingar og eitt mark

Landslið

Messi vann titil með Argentínu árið 2005 í U-20 heimsmeistaramótinu og endaði sem hæsti markaskorarinn, 17 ára gamall. Hann hóf að spila með A-landsliði Argentínu síðar það ár í vináttulandsleik þegar hann kom inn á gegn Ungverjalandi. Það vildi ekki betur til en að hann fékk rautt spjald fyrir að slá til varnarmanns. Hann skoraði sitt fyrsta mark árið 2006 í vináttulandsleik gegn Króatíu. Landsliðinu gekk illa að hreppa titla en endaði í 2. sæti á HM 2014 þar sem Messi var valinn besti leikmaðurinn. Einnig hafði liðið ekki unnið Copa America síðan 1993 og lent í 2. sæti fjórum sinnum síðan þá. Þetta fékk á Messi og hann lýsti því yfir sumarið 2016 að hann væri hættur með landsliðinu. Sú ákvörðun var ekki langlíf og hann sneri aftur eftir nokkrar vikur.

Sumarið 2021 varð Messi leikjahæsti landsliðsmaður Argentínu þegar hann fór framúr Javier Mascherano. Þá vann hann Copa America með liðinu og var valinn leikmaður mótsins. Hann var markahæstur (ásamt Luis Díaz frá Kólumbíu) og stoðsendingahæstur á mótinu. Loks vann hann stóran bikar með landsliðinu en liðið hafði tapað í úrslitum HM gegn Þýskalandi og tvívegis fyrir Síle í vítakeppni í úrslitum Copa America þegar Messi var með liðinu.

Messi vann heimsmeistaratitilinn á HM 2022. Hann skoraði 2 mörk í venjulegum leiktíma og í vítakeppni þegar Argentína vann 4:2. Hann skoraði 7 mörk í keppninni, einu minna en Kylian Mbappé. Messi hlaut gullboltann sem besti leikmaður keppninnar. Hann lýsti því yfir að lokaleikurinn yrði hans síðasti HM-leikur en hann tók fram úr Lothar Matthäus sem leikjahæsti leikmaður mótsins í lokaleiknum. Messi tók það fram að hann vildi spila áfram í einhvern tíma með landsliðinu þó.

Í mars 2023 skoraði Messi sitt 100. mark með Argentínu.

Einkalíf og fleira

Messi var greindur með vaxtarhormónaskort á barnsaldri. Þegar hann flutti til Barcelona ákvað félagið að greiða lyfjakostnað því tengt. Messi hefur bæði argentínskan og spænskan ríkisborgararétt. Messi er í sambandi með Antonella Roccuzzo sem er frá heimaborg hans Rosario. Hann hefur þekkt hana frá 5 ára aldri en þau hófu samband árið 2008 og giftust 2017. Eiga þau þrjá syni: Thiago (f. 2012), Mateo (f. 2015) og Ciro (f. 2018).

Messi á í nánum samskiptum við fjölskyldu sína; móðurina Celia og föðurinn Jorge. Faðir hans er umboðsmaður hans og bræður hann Rodrigo og Matías eru einnig viðriðnir málefni hans. Árið 2016 voru Messi og faðir hans dæmdir fyrir skattsvik og notkunar á skattaskjólum. Messi greiddi háa sekt en hann sagðist aðeins hafa skrifað undir samninga og treyst fólki til að meðhöndla peninga rétt.

Messi hefur verið góðgerðarsendiherra UNICEF síðan 2010 og hefur unnið fyrir samtökin síðan 2004.

Titlar/Verðlaun

Félagslið

Barcelona

 • La Liga: 2004–05, 2005–06, 2008–09, 2009–10, 2010–11, 2012–13, 2014–15, 2015–16, 2017–18, 2018–19
 • Copa del Rey: 2008–09, 2011–12, 2014–15, 2015–16, 2016–17, 2017–18, 2020–21
 • Supercopa de España: 2005, 2006, 2009, 2010, 2011, 2013, 2016, 2018
 • Meistaradeild Evrópu: 2005–06, 2008–09, 2010–11, 2014–15
 • UEFA Super Cup: 2009, 2011, 2015
 • FIFA Club World Cup: 2009, 2011, 2015

Paris Saint-Germain

Inter Miami

 • Leagues Cup: 2023

Landslið

 • FIFA U-20 Heimsmeistaramót: 2005, gull
 • Ólympíulið Argentínu: 2008, gull
 • Copa America: 2021, gull
 • HM 2014: Silfur
 • HM 2022: Gull.

Helstu einstaklingsverðlaun

 • Ballon d'Or/Gullknötturinn: 2009, 2010, 2011, 2012, 2015, 2019, 2021, 2023
 • HM Gullknötturinn: 2014, 2022
 • Evrópski gullskórinn: 2009–10, 2011–12, 2012–13, 2016–17, 2017–18, 2018–19
 • Copa América gullknötturinn: 2015, 2021
 • Copa America besti leikmaðurinn: 2021
 • La Liga: Besti leikmaðurinn : 2008–09, 2009–10, 2010–11, 2011–12, 2012–13, 2014–15
 • Pichichi-bikarinn (markahæsti í La Liga): 2009–10, 2011–12, 2012–13, 2016–17, 2017–18, 2018–19, 2019–20, 2020-2021
 • FIFA: Besti leikmaðurinn: 2019, 2022, 2023

Tenglar

Tilvísanir

 1. Cristiano Ronaldo and Lionel Messi: Two rivals with more in common than you might thinkBBC, skoðað 7. des. 2020
 2. FC Barcelona. „Lionel Andrés Messi“ (enska). Sótt 17. nóvember 2010.
 3. Manchester City gæti sett á svokallaðan Messi-skatt Vísir, skoðað 27. ágúst 2020
 4. BBC News - Lionel Messi: Barcelona star agrees to stay on reduced wagesBBC, sótt 15/7 2021
 5. Lionel Messi: Barcelona say Argentina forward will not stay at club BBC skoðað 5. 8. 2021
 6. Lionel Messi to join Inter Miami after leaving Paris St-Germain BBC, 7/6 2023
 7. BBC News - Lionel Messi: Inter Miami sign Argentina forward until end of 2025 BBC, sótt 16/7 2023


   Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.