Brasilía

Land í Suður-Ameríku

Brasilía (portúgalska: Brasil), opinberlega Sambandslýðveldið Brasilía (portúgalska: República Federativa do Brasil) er stærsta og fjölmennasta land Suður-Ameríku og hið fimmta stærsta í heiminum bæði að flatarmáli og fólksfjölda. Landið er 8.514.877 km² að flatamáli og teygir sig frá ströndum Atlantshafsins að rótum Andesfjalla og innan landamæra þess er megnið af Amasónregnskóginum, stærsta regnskógi heims, en einnig víðáttumikil landbúnaðarsvæði. Strandlína Brasilíu er 7367 km löng.

Sambandslýðveldið Brasilía
República Federativa do Brasil
Fáni Brasilíu Skjaldarmerki Brasilíu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Ordem e Progresso (portúgalska)
Regla og framfarir
Þjóðsöngur:
Hino Nacional Brasileiro
Staðsetning Brasilíu
Höfuðborg Brasilía
Opinbert tungumál Portúgalska
Stjórnarfar Sambandslýðveldi, forsetaræði

Forseti Luiz Inácio Lula da Silva
Varaforseti Geraldo Alckmin
Stofnun
 • Sjálfstæði 7. september 1822 
 • Viðurkennt 29. ágúst 1825 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
5. sæti
8.514.215 km²
0,65
Mannfjöldi
 • Samtals (Júlí 2014)
 • Þéttleiki byggðar
5. sæti
206 milljónir.
24/km²
VLF (KMJ) áætl. 2011
 • Samtals 2.294 millj. dala (7. sæti)
 • Á mann 11.769 dalir (75. sæti)
VÞL (2011) 0,946 (17. sæti)
Gjaldmiðill ríal
Tímabelti UTC -2 til -5
Þjóðarlén .br
Landsnúmer +55

Söguágrip breyta

Frumbyggjar hafa búið á svæðinu sem nú er Brasilía í meira en 11.000 ár. Árið 1500 gerði Pedro Alvares Cabral tilkall til landsins þegar hann kom þangað með flota sínum. Fyrsta fasta búseta Portúgala var um 1532 og nýlendustefna hófst þegar Dom Joao konungur Portúgals skipti landinu í 15 sjálfstæð nýlendusvæði. Þessi skipting skapaði óskipulag og deilur og því lét konungurinn svæðin lúta miðstýrðu valdi. Fyrstu tvær aldir á nýlendutímanum einkenndust af átökum og stríðum milli frumbyggja og Portúgala. Um miðja 16. öld var sykur orðinn mikilvægasta útflutningsvara Brasilíu og þrælar frá Vestur-Afríku mikilvæg innflutningsvara en þeir unnu á sykurplantekrum.

Árið 1808 flutti João VI konungur Portúgals til Brasilíu tímabundið vegna Napóleonsstyrjaldanna. Í byrjun 19. aldar varð spenna á milli brasilískra Portúgala og stjórnvalda í Portúgal sem varð til þess að árið 1822 lýsti Brasilía yfir sjálfstæði og síðar var stofnað keisaradæmi með Dom Pedro sem keisara. Portúgal viðurkenndi sjálfstæði Brasilíu árið 1825.

Árið 1888 var þrælahald afnumið í landinu. Ári síðar var Dom Pedro II komið frá völdum og lýðveldi stofnað. Í lok 19. aldar átti Brasilía í stríðum við nágrannaríki sín, Argentínu, Úrúgvæ og Paragvæ um áhrif og landsvæði. Stríðið við Paragvæ (1864-1870) er það mannskæðasta í sögu Suður-Ameríku.

Í fyrri heimstyrjöld var Brasilía hlutlaust ríki þar til þýskir kafbátar sökktu skipum þeirra á Atlantshafi árið 1917 en þá lýsti Brasilía yfir stríði við Miðveldin. Hlutverk Brasilíu var aðallega eftirlitshlutverk á Atlantshafi.

Árið 1930 náði Getúlio Vargas völdum með aðstoð hersins. Stöðug átök og tilraunir til að taka aftur völdin frá Vargas leiddu til þess að Vargas varð einræðisherra og Estado novo tímabilið hófst þar sem stjórnvöld voru annáluð fyrir ofbeldi og kúgun.

Í seinni heimstyrjöld var Brasilía fyrst um sinn hlutlaust ríki til ársins 1942 þegar landið gekk til liðs við bandamenn eftir að hafa slitið diplómatísk tengsl við Öxulveldin. Eftir heimstyrjöldina vék Vargas vegna þrýstings og lýðræði var komið á. Vargas var kosinn síðar, árið 1951 en eftir stjórnarkreppu framdi hann sjálfsmorð. Lýðræði var viðkvæmt næstu áratugi og árið 1964 frömdu brasilískir herforingjar valdarán gegn stjórn João Goulart forseta undir því yfirskyni að koma í veg fyrir að Brasilía yrði kommúnismanum að bráð. Í Brasilíu ríkti herforingjastjórn til ársins 1985 en á 9. áratugnum var lýðræði smám saman komið aftur á.

Luiz Inácio Lula da Silva var forseti frá 2002 til 2010 þegar fyrsta konan, Dilma Rousseff, varð forseti. Rannsókn á peningaþvætti og spillingu í kringum ríkisrekna olíufyrirtækið Petrobras hefur tekið sinn toll í Brasilísku ríkisstjórninni. Lula da Silva var yfirheyrður vegna málsins og síðar ákærður og fangelsaður. Tugir stjórnmálamanna voru bendlaðir við málið.[1]

Árið 2016 var Dilmu Rousseff vikið úr embætti af öldungadeild þingsins. Samþykkt var að hún sæti ákæru til embættismissis fyrir spillingu. Var hún sökuð um að hafa fegrað efnahagstölur landsins fyrir kosningar. Michel Temer varaforseti tók við embætti forseta.[2]

Árið 2014 var haldin Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu í Brasilíu og árið 2016 voru Ólympíuleikarnir í Río de Janeiro.

Barátta vinstri og hægri afla kristallaðist í árás á brasilíska þingið árið 2023 þegar fylgismenn íhaldsforsetans fráfarandi Jair Bolsonaro réðust þar inn. Árásin minnti á árásina á bandaríkjaþing 2020. Bolsonaro tapaði kosningum fyrir fyrrum forsetanum Lula og flutti til Bandaríkjanna.

Landafræði breyta

 
Þjóðþingið

Brasilía skiptist í 27 fylki sem hér segir:

Nr. Nafn Lykill Höfuðborg
1. Acre AC Rio Branco
2. Alagoas AL Maceió
3. Amapá AP Macapá
4. Amazonas AM Manaus
5. Bahia BA Salvador
6. Ceará CE Fortaleza
7. Espírito Santo ES Vitória
8. Goiás GO Goiânia
9. Maranhão MA São Luís
10. Mato Grosso MT Cuiabá
11. Mato Grosso do Sul MS Campo Grande
12. Minas Gerais MG Belo Horizonte
13. Pará PA Belém
14. Paraíba PB João Pessoa
15. Paraná PR Curitiba
16. Pernambuco PE Recife
17. Piauí PI Teresina
18. Rio de Janeiro RJ Rio de Janeiro
19. Rio Grande do Norte RN Natal
20. Rio Grande do Sul RS Porto Alegre
21. Rondônia RO Porto Velho
22. Roraima RR Boa Vista
23. Santa Catarina SC Florianópolis
24. São Paulo SP São Paulo
25. Sergipe SE Aracaju
26. Tocantins TO Palmas
27. Distrito Federal DF Brasilía

Samfélag breyta

Brasilía fimmta fjölmennasta ríki heims og hefur rúmlega 206 milljónir (2016). Tæplega helmingur íbúa Brasilíu eru hvítir, 43% eru af blönduðum uppruna hvítra og svartra, rúm 7% eru blökkumenn en 1-2% eru frumbyggjar eða fólk af asískum uppruna.

Um 85% Brasilíumanna búa í þéttbýli. Stærsta borg landsins er São Paulo og næst kemur Ríó de Janeiró.[3]

Náttúrufar breyta

Lífríki Brasilíu er gríðarlega fjölbreytt og það er það ríki sem hefur flestar tegundir lífvera (bæði úr dýra- og plönturíkinu) innan sinna landamæra. Vísindamenn telja að um 9,5% allra tegunda á jörðinni finnist í landinu (T.d. 9,3% þekktra spendýra og 16% þekktra fugla). Af stórum spendýrum má nefna jagúar og fjallaljón, tapíra, mauraætur, letidýr, pekkaríusvín, beltisdýr, fjölmargar tegundir hjartardýra og margar tegundir prímata. Tegundaauðgi froskdýra er einstæð og líklega er Brasilía líka það land heims þar sem flestar tegundir skordýra og áttfætlna lifa. Erfitt er að áætla þann fjölda skordýrategunda sem þar er að finna, en sumir fræðimenn telja að þær séu yfir 70 þúsund. [4]

Ein af hverjum fjórum tegundum plantna sem fundist hafa á jörðinni í Brasilíu. Þessari fjölbreytni má þakka regnskógum Amason, miklum ám og votlendissvæðum. Einnig eru strandskógar við ströndina og grassléttur í austurhluta landsins.[5]

Amasonfljótið í Suður-Ameríku er annað lengsta vatnsfall í heimi á eftir ánni Níl. Það er vatnsmesta fljót í heimi og vatnasvið þess er það stærsta í heimi, í kringum 7 milljónir km2. Um 20% alls ferskvatns sem berst í heimshöfin með vatnsföllum kemur með Amasonfljótinu.[6]

Hæsti punktur landsins er Pico da Neblina sem er 2994 metra yfir sjávarmáli.

Menning breyta

 
Heitor Villa-Lobos var einn áhrifamesti tónlistarmaður Brasilíu á 20. öldinni.

Kjarni brasilískrar menningar er kominn úr portúgalskri menningu vegna sterkra tengsla Brasilíu við móðurríkið á nýlendutímanum. Portúgalar breiddu út tungu sína, portúgölsku, byggingarlist sína og kaþólska trú. En menning Brasilíu varð einnig fyrir sterkum áhrifum frá aðfluttu fólki frá öðrum Evrópuríkjum og Afríku auk þess sem eftir leifir af menningu innfæddra frumbyggja. Meðal annarra má nefna nýbúa frá Ítalíu, Þýskalandi, Japan og arabalöndum, sem fluttust í stórum stíl til Suður- og Suðuaustur-Brasilíu. Áhrifa frá brasilískum frumbyggjum gætir á bæði tungu og matarhefðir Brasilíu. Þar gætir einnig áhrifa frá afrískum innflytjendum, sem einnig höfðu áhrif á brasilíska tónlist, dans og trúarbrögð.[7]

Listasaga breyta

Brasilísk list hefur frá því á 16. öld þróast í ólíkar áttir, meðal annars Barokk, sem var ríkjandi stíll í landinu fram á 19. öldina, rómantík, nútímalist, expressjónisma, kúbisma, súrrealisma og abstrakt list.

Brasilísk kvikmyndasaga á rætur að rekja til upphafs kvikmyndalistar seint á 19. öldinni.

Tónlist breyta

Innan brasilískrar tónlistar eru ýmis afbrigði og mörg þeirra eru einkennandi fyrir tiltekna landshluta. Áhrifa gætir frá afrískri og evrópskri tónlist en einnig frá frumbyggjum Brasilíu. Meðal tónlistargreina má nefna samba, MPB, choro, Sertanejo, brega, forró, frevo, maracatu, bossa nova og Axé-tónlist.

 
Machado de Assis, skáld og rithöfundur er oft talinn merkasti rithöfundur Brasilíu.

Meðal þekktra tónlistarmanna má nefna Francisco Manuel da Silva, Antônio Carlos Gomes, Elias Álvares Lobo, Brasílio Itiberê da Cunha, Luciano Gallet, Alexandre Levy, Alberto Nepomuceno, Oscar Lorenzo Fernández, Henrique Oswald, Francisco Mignone, Heitor Villa-Lobos, Camargo Guarnieri, Pixinguinha, Hermeto Pascoal, Antônio Carlos Jobim, Edson Zampronha, João Gilberto, Nara Leão, Elis Regina, Caetano Veloso, Maria Bethânia, Chico Buarque, Jorge Ben Jor, Pato Fu, Marisa Monte, Pitty og Amon Tobin.

Bókmenntir breyta

Saga brasilískra bókmennta nær aftur til 16. aldar, til skrifa fyrstu portúgölsku landkönnuðanna. Þeirra á meðal var Pêro Vaz de Caminha. Skrif þeirra voru uppfull af lýsingum á dýraríki og gróðurfari landsins og á háttum innfæddra frumbyggja, sem vöktu mikla furðu meðal evrópskra lesenda og innflytjenda. Í Brasilíu urðu til mikilvægar bókmenntir innan rómantíkurinnar og skáldsagnahöfundar á borð við Joaquim Manuel de Macedo og José de Alencar skrifuðu bækur um ástir og sorgir. Alencar gerði einnig á löngum ferli sínum frumbyggja Brasilíu að söguhetjum í skáldsögunum O Guarany, Iracema, Ubirajara.[8]

Matarmenning breyta

 
Feijoada, réttur úr svínakjöti, svörtum baunum og hrísgrjónum

Brasilískur matur er afar fjölbreytilegur og mikill munur eftir landshlutum. Feijoada er talinn þjóðarréttur en einnig má minnast á vatapá, moqueca, polenta og acarajé, sem eru allt hefðbundnir brasilískir réttir.

Hversdagslega borða Brasilíumenn mikið af hrísgrjónum og baunum, gjarnan með nautakjöti og salati og er oft blandað með kassava-hveiti. Oft eru hafðar steiktar kartöflur, steikt kassava eða steiktir bananar í hádegismatur, jafnvel kjötréttir eða steiktur ostur.

Þjóðardrykkir Brasilíu er kaffi og cachaça, sem er áfengur drykkur gerður úr sykurreyr og er megin uppistaðan í þjóðarkokteilnum, caipirinha.

Margvíslegt sælgæti er til í Brasilíu, svo sem brigadeiro, sem eru súkkulaðifrauðkúlur; cocada og beijinho sem er hvort tveggja kókoshnetusælgæti; og sælgæti, sem kallast „romeu e julieta“ (Rómeó og Júlía) og er gert úr osti með guavasultu, sem kallast goiabada. Úr hnetum er gert paçoca, rapadura og pé-de-moleque. Meðal ávaxta, sem vaxa í Brasilíu, má nefna açaí, cupuaçu, mangó, papaja, kókóbaunir, kasjúhnetur, guava, appelsínur, ástaraldin og ananas. Úr ávöxtum eru gerðir ýmsir blandaðir ávaxtasafar.

Borgir breyta

Heimild breyta

Söguágrip var unnið úr ensku Wikipedia: Fyrirmynd greinarinnar var „Brazil“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 12. maí 2016.

Tilvísanir breyta

  1. Tugir sakaðir um spillingu í Brasilíu Rúv, skoðað 12. maí, 2016.
  2. Forseta Brasilíu vikið úr embætti Rúv. Skoðað 12. maí, 2016
  3. Hvað er Brasilía stór og hvað búa margir þar? Vísindavefurinn. Skoðað 1. október, 2016.
  4. Hvaða dýr búa í Brasilíu og hver þeirra eru í útrýmingarhættu? Vísindavefurinn. Skoðað 13. maí, 2016.
  5. Í hvaða landi lifa flestar dýrategundir? Vísindavefur. Skoðað 13. maí, 2016.
  6. Hvað veist þú um Amasonfljótið? Vísindavefurinn. Skoðað 13. maí, 2016.
  7. Freyre, Gilberto (1986). „The Afro-Brazilian experiment: African influence on Brazilian culture“. UNESCO. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. maí 2012. Sótt 8. júní 2008.
  8. „Brazilian Literature: An Introduction“; afrit af upphaflegu eintaki. Skoðað 2. nóvember 2009.

Ítarefni breyta

  • Bellos, Alex (2003). Futebol: The Brazilian Way of Life. London: Bloomsbury Publishing plc.
  • Bethell, Leslie (1991). Colonial Brazil. Cambridge: Cambridge University Press.
  • Fausto, Boris (1999). A Concise History of Brazil. Cambridge: Cambridge University Press.
  • Skidmore, Thomas E. (1974). Black Into White: Race and Nationality in Brazilian Thought. Oxford: Oxford University Press.
  • Wagley, Charles (1963). An Introduction to Brazil. New York, New York: Columbia University Press.

Tenglar breyta

   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.